Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 272  —  3. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Frumvarpinu var vísað aftur til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um málið að nýju. Erindi bárust frá Lífeyrissjóði Tannlæknafélags Íslands, Ólafi K. Ólafssyni og Seðlabanka Íslands.

Eftirlitsgjald lífeyrissjóða.
    Í erindi Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands kemur fram að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar við 11. gr. frumvarpsins hreyfi ekki við föstu gjaldi á sjóðum með hreina eign til greiðslu lífeyris undir 15 milljörðum kr. Með breytingunni hækki eftirlitsgjald sem lagt er á lífeyrissjóðinn úr 4.135.018 kr. í 4.178.335 kr.
    Í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu kemur fram að meiri hlutinn telji ekki forsendur fyrir því að þáttur fastagjalds í heildarálagningu lífeyrissjóða verði hækkaður með þeim hætti sem lagt var til í frumvarpinu, því sé lagt til að hlutfall fastagjaldsins af heildarálagningu verði áfram 60%. Nefndin óskaði eftir afstöðu ráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um það hvort forsendur væru til þess að lækka hlut fastagjaldsins á sjóði með hreina eign til greiðslu lífeyris undir 15 milljörðum kr. Meiri hlutinn telur ekki forsendur til að lækka fastagjald á lífeyrissjóði með eignir undir 15 milljörðum kr. enda sé það mat Seðlabankans að kostnaður við beint eftirlit með lífeyrissjóði nemi að lágmarki 4.000.000 kr. á ári.

Ívilnanir vegna tengiltvinnbifreiða.
    Nefndin hefur fjallað að nýju um breytingar á ívilnunum vegna innflutnings tengiltvinnbifreiða samkvæmt lögum um virðisaukaskatt sem að óbreyttu falla niður eftir að samtals 15.000 tengiltvinnbifreiðar, sem notið hafa ívilnana, hafa verið skráðar á ökutækjaskrá. Líkt og fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar við 2. umræðu telur meiri hlutinn ekki forsendur til breytinga á fyrirkomulagi ívilnana vegna tengiltvinnbifreiða að svo stöddu, enda kalli breytingar á því á víðtækari endurskoðun, m.a. með hliðsjón af ríkisstyrkjareglum og skuldbindingu íslenskra stjórnvalda til þess að tilkynna breytingar á fyrirkomulaginu til Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Meiri hlutinn beinir því til fjármála- og efnahagsráðherra að taka til skoðunar hvort tilefni sé til þess að framlengja framangreindar ívilnanir með einhverjum hætti, eða gera breytingar á fyrirkomulagi þeirra, áður en 15.000 tengiltvinnbifreiða markinu verði náð.

    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 28. desember 2021.


Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.