Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 370  —  263. mál.




Fyrirspurn


til innviðaráðherra um fyrirhuguð Álftafjarðargöng.

Frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.


     1.      Hyggst ráðherra flýta endurskoðun núverandi samgönguáætlunar með það að markmiði að setja Álftafjarðargöng sem fyrst á framkvæmdaáætlun í ljósi öryggissjónarmiða?
     2.      Hvað hefur, að mati ráðherra, breyst varðandi Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð er snertir umferðaröryggi og greiðar samgöngur um fjórðunginn frá fyrri samgönguáætlun fram að þeirri sem nú gildir sem réttlætir frestun Álftafjarðarganga?
     3.      Hefur alfarið verið snúið frá því að skoða af alvöru, og þá með tilheyrandi fjármagni í samgönguáætlun, að bora göng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar og leggja þannig af veginn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð?
     4.      Hvaða sjónarmið ráða þegar ákveðið er að loka veginum um Súðavíkurhlíð vegna óvissuástands og yfirvofandi snjóflóðahættu og hafa ferðaáætlanir þungaflutninga eitthvað með það að gera?
     5.      Hver væru samlegðaráhrif hvað heildarkostnað varðar með lagningu nýs rafstrengs og ljósleiðara um Álftafjarðargöng og sparnaðar vegna notkunar varaafls vegna bilana á byggðalínu til Súðavíkur í samanburði við kostnað við endurbyggingu þessara innviða við núverandi aðstæður?
     6.      Hvaða úrbóta á veginum um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð er að vænta á næstu 10 árum sem styddu við eitt atvinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum sem og þá atvinnuuppbyggingu sem er í fiskeldi, ferðaþjónustu, kalkþörungaverksmiðju ásamt öðrum iðnaði tengdum sjávarútvegi og matvælaframleiðslu á svæðinu?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    16. janúar sl. lokuðu snjóflóð veginum um Súðavíkurhlíð. Samkvæmt skráningu Vegagerðarinnar féllu á bilinu 17–20 flóð sem náðu yfir eða inn á veg eða fylltu vegrásina. Til samanburðar féll 61 flóð á Súðavíkurhlíð veturinn 2018 og eru þá aðeins talin þau flóð sem teppa umferð. Í ljósi síendurtekinna snjóflóða og skriðuhættu í Súðavíkurhlíð er mikið ákall íbúa á svæðinu um bættar samgöngur og ljóst að með Álftafjarðargöngum mætti stórbæta öryggi, treysta byggð og styrkja norðanverða Vestfirði sem eitt atvinnusóknarsvæði.