Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 548  —  291. mál.
Undirskrift.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020 (framhald viðspyrnustyrkja).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Elísabetu Júlíusdóttur og Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Soffíu Eydísi Björgvinsdóttur og Ævar Hrafn Ingólfsson frá KPMG Law og Laufeyju Guðmundsdóttur og Jónu Fanneyju Svavarsdóttur frá Samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi atvinnurekenda, Félagi íslenskra hljómlistarmanna, KPMG Law, Samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að tímabil viðspyrnustyrkja verði framlengt um fjóra mánuði frá desember 2021 til og með mars 2022. Viðspyrnustyrkjum er ætlað að mæta tekjutapi sem rekstraraðilar, með starfsemi sem útheimtir vinnuframlag launamanna, verða fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og takmarkana stjórnvalda. Auk framlengingar úrræðisins eru lagðar til breytingar á lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020, sem leiðir af þeim tíma sem liðið hefur frá gildistöku laganna og vísast um efni þeirra til 3. kafla í greinargerð frumvarpsins.

Umfjöllun nefndarinnar.
Gildistími viðspyrnustyrkja.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar kemur fram það sjónarmið að apríl hafi verið lægsti tekjumánuður ferðaþjónustufyrirtækja undanfarin ár, því geti verið málefnalegt að framlengja úrræðið út apríl til þess að brúa bilið þar til horfur í greininni batna. Meiri hlutinn bendir í því sambandi á að verulega hefur dregið úr áhrifum faraldursins og að gert er ráð fyrir að takmörkunum vegna hans verði aflétt mun fyrr en áætlað var og útlit fyrir að efnahagsbatinn geti orðið hraðari en útlit var fyrir í upphafi árs. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn að óbreyttu ekki forsendur til þess að framlengja viðspyrnustyrki umfram það sem lagt er til í frumvarpinu.

Breytingartillaga meiri hlutans.
Framlenging umsagnarfrests vegna liðinna tímabila.
    Umsóknarfrestur um viðspyrnustyrki frá gildistöku laga nr. 160/2020 til október 2021 rann út 31. desember 2021. Í umsögn KPMG Law kemur fram að í ársbyrjun 2022 hafi ýmsum fyrirtækjum sem áttu rétt á viðspyrnustyrk samkvæmt gildandi lögum orðið ljóst að umsagnarfrestur væri liðinn og þeim láðst að sækja um styrk. Í því sambandi var bent á að umsóknarferli og sú gagnaöflun sem því fylgdi kynni að vera þung fyrir minni rekstraraðila sem alla jafna skila bókhaldsgögnum árlega og njóta til þess utanaðkomandi aðstoðar. Þá kynni að vera að rekstraraðilar hefðu í einhverjum tilvikum ruglað saman skilyrðum um lokunarstyrki og viðspyrnustyrki og þannig ekki talið sig uppfylla skilyrði viðspyrnustyrkja.
    Með lögum nr. 2/2022 var umsóknarfrestur um viðspyrnustyrki vegna nóvember framlengdur til 1. mars 2022. Upphaflegur umsóknarfrestur um viðspyrnustyrki, þ.e. 31. desember 2021, tók mið af gildistíma ramma framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020, sem var í gildi við gildistöku laganna. Með orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 18. nóvember 2021 var gildistími rammans framlengdur til 30. júní 2022. Þau sjónarmið sem bjuggu að baki framlengingu umsóknarfrests voru um margt þau sömu og rakin hafa verið að framan.
    Meiri hlutinn bendir á að markmið þeirra styrkjaúrræða sem ráðist hefur verið í vegna heimsfaraldurs kórónuveiru er m.a. að styðja við þau fyrirtæki sem hafa verið í raunverulegum rekstrarvanda. Úrræðið var ítarlega kynnt og umsóknarleiðbeiningar birtar á vef Skattsins. Hins vegar telur meiri hlutinn að umsóknarfrestur vegna síðustu mánaða ársins 2021 hafi verið of skammur, m.a. í ljósi þess að rekstraraðilar þurftu á þeim tíma að grípa til víðtækra ráðstafana vegna ákvarðana heilbrigðisyfirvalda. Leggur meiri hlutinn því til að umsóknarfrestur vegna ágúst 2021 til nóvember 2021 miðist við 30. júní 2022, til samræmis við umsóknarfrest vegna mánaðanna frá desember 2021 til mars 2022. Breytingin mun hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs af aðgerðinni til hækkunar, en þar sem um er að ræða umsóknir sem ekki hafa skilað sér til Skattsins liggja ekki fyrir upplýsingar um viðbótaráhrifin.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    4. gr. orðist svo:
    2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Umsókn um viðspyrnustyrk vegna tímabilsins ágúst 2021 til mars 2022 skal skilað eigi síðar en 30. júní 2022.

    Ágúst Bjarni Garðarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir nefndarálitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 22. febrúar 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Eva Dögg Davíðsdóttir.