Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 612  —  429. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2021.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2021 bar hæst umræðu um það hvernig takast ætti á við áframhaldandi landfræðilegar og hugmyndafræðilegar áskoranir frá Rússlandi. Þingmenn lýstu yfir áhyggjum af hernaðaruppbyggingu Rússa og veru tugþúsunda rússneskra hermanna við landamæri Úkraínu þrátt fyrir fullyrðingar frá Moskvu um að herliðið yrði kallað heim. Enn fremur jók fangelsun Alexei Navalní, leiðtoga stjórnarandstöðu Rússlands, og brottvísun Rússa á vestrænum stjórnarerindrekum frá Rússlandi á spennuna í alþjóðasamskiptum. Þingmenn lýstu yfir áhyggjum af vaxandi kúgun stjórnvalda og kölluðu eftir áframhaldandi refsiaðgerðum nema stjórnvöld í Moskvu endurskoðuðu stefnu sína og létu af mannréttindabrotum og sniðgöngu á alþjóðaskuldbindingum.
    Öryggisáskoranir á norðurslóðum fengu aukna athygli á árinu og afgreiddi varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins skýrslu um málið. Þar kemur fram að NATO leggi aukna áherslu á norðurslóðir og hafi aukið sýnileika sinn og fjölgað heræfingum á svæðinu. Íslandsdeild tók þátt í umræðum um málið og lagði áherslu á aukið mikilvægi norðurslóða, m.a. í ljósi bráðnunar jökla, mikils áhuga Kína og aukinnar hernaðarviðveru Rússa. Þá hafi aukið aðgengi að norðurslóðum ýtt undir áhuga ríkja utan norðurslóða á svæðinu. Í umræðum var áhersla lögð á mikilvægi hlutverks NATO og þörf fyrir stefnu bandalagsins á norðurslóðum í ljósi þróunar alþjóðastjórnmála og sameiginlegs markmiðs aðildarríkjanna um að viðhalda norðurslóðum sem lágspennusvæði.
    Jafnframt varð mönnum tíðrætt um hvernig styrkja mætti pólitískt samstarf innan Atlantshafsbandalagsins undir merkjum NATO 2030. Samþykkti þingið í tengslum við það verkefni ályktun um stuðning við skuldbindingar NATO um öflugar varnir til ársins 2030. Enn fremur hvatti þingið NATO til þess að uppfæra grunnstefnu sína í ljósi breyttra aðstæðna, þar sem rík áhersla væri lögð á grunngildi lýðræðisins og stofnana þess. Með uppfærðri stefnu væri hægt að bregðast betur við nýjum áskorunum, þar á meðal vaxandi áhrifum Kína og umsvifum Rússlands, auk þess sem í stefnunni fælist tækifæri til að styrkja tengsl bandalagsins og Evrópusambandsins.
    Einnig samþykkti NATO-þingið á árinu ályktun þar sem NATO er hvatt til þess að koma á fót miðstöð um lýðræðislegt viðnámsþol innan sambandsins, sem geti styrkt NATO og lýðræðislegar undirstöður bandalagsins. Mikilvægi miðstöðvarinnar á tímum vaxandi fjölþættra öryggisógna í heiminum væri ótvírætt en markmið hennar væri að leggja aukna áherslu á og vernda sameiginleg lýðræðisleg gildi bandalagsins.
    Heimsfaraldur kórónuveiru setti mark sitt á starf NATO-þingsins á árinu og fóru flestir fundir og ráðstefnur fram á fjarfundum. Enn fremur var NATO-þingið vettvangur til skoðanaskipta um heimsfaraldurinn og þau áhrif sem hann hafði á málefnasvið þingsins. Rætt var um efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldurs sem eins af mikilvægustu óvissuþáttum komandi ára. Þá þótti ljóst að opinber fjármál yrðu ein helsta áskorun aðildarríkjanna og mikilvægt væri að standa vörð um framlög til öryggis- og varnarmála. Jafnframt fór fram umræða um tækniframfarir og efnavopnahryðjuverk í kjölfar heimsfaraldurs en hann hefur sýnt fram á veikleika á heimsvísu að því er varðar líffræðilegar ógnir og árásir.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2021 má nefna brotthvarf herliðs NATO frá Afganistan, efnahagslegar og pólitískar áskoranir í Hvíta-Rússlandi og umræður um kjarnorkuáætlun Írans og samskipti landsins við nágrannaríki. Einnig var rætt um hernaðaruppbyggingu Kína og áhrif hennar á aðildarríki NATO, alþjóðlegt vopnaeftirlit og hlutverk NATO varðandi öryggismál í geimnum. Enn fremur gaf NATO-þingið út fimmtán málefnaskýrslur á árinu sem nálgast má á vefsvæði NATO-þingsins, www.nato-pa.int/.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja eiga nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth-áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum jókst fylgi við þá skoðun að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við NATO og til stuðnings bandalaginu. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE ( Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 269 þingmenn frá aðildarríkjunum 30. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 91 þingmaður frá 11 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkeri en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Fram að alþingiskosningum 25. september áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokksins, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.
    Skipan málefnanefnda í nefndir árið 2021 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Birgir Ármannsson
Stjórnmálanefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Birgir Ármannsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Þorgerður K. Gunnarsdóttir
    Til vara: Jón Steindór Valdimarsson
Nefnd um borgaralegt öryggi: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Efnahagsnefnd: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Vísinda- og tækninefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Birgir Ármannsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Þorgerður K. Gunnarsdóttir

    Njáll Trausti Friðbertsson, lét af störfum sem varaformaður vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins eftir þrjú ár í embætti og var kjörinn skýrsluhöfundur nefndarinnar til næstu tveggja ára.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Andrés Ingi Jónsson, varaformaður, þingflokki Pírata, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn eru Diljá Mist Einarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokksins, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokki Pírata.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi fram að kosningum þar sem þátttaka í fundum þingsins var undirbúin og starfið rætt. Ný Íslandsdeild hélt einn fund á árinu 2021.

4. Fundir NATO-þingsins.
    Á venjubundnu ári kemur NATO-þingið saman til fundar tvisvar sinnum á ári. Vorfundur er haldinn í maí og ársfundur í október eða nóvember. Á svokölluðum febrúarfundi heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þurfti að færa fjölda funda NATO-þingsins í fjarfundarform árið 2021. Á árinu fóru nefndastörf að mestu fram á fjarfundum vegna ferðatakmarkana af völdum faraldursins. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í fjarfundum vísinda- og tækninefndar og stjórnmálanefndar NATO-þingsins. Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók þátt í fjarfundum varnar- og öryggismálanefndar og vinnuhóps um Miðjarðarhafssvæðið og Willum Þór Þórsson tók þátt í fjarfundum efnahagsnefndar NATO-þingsins. Að auki sóttu fulltrúar Íslandsdeildar ýmsa fjarfundi sem skipulagðir voru á árinu um málefni NATO-þingsins.
    Árið 2021 tók Íslandsdeild þátt í vorfundi í maí. Einnig tók formaður þátt í febrúarfundi og fundi stjórnarnefndar í mars og ársfundi í október.

Febrúarfundur NATO-þingsins 1.–2. mars.
    Febrúarfundur NATO-þingsins fór fram á fjarfundum. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Á dagskrá var ástandið í Úkraínu, kólnandi samskipti NATO og Rússlands, endurskoðun grunnstefnu NATO 2030 og hvernig styrkja mætti samstöðu bandalagsríkjanna. (Sjá fylgiskjal I.)

Stjórnarnefndarfundur NATO-þingsins 31. mars.
    Stjórnarnefndarfundur NATO-þingsins fór fram á fjarfundi. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Á dagskrá var endurskoðun grunnstefnu bandalagsins undir yfirskriftinni NATO 2030, styrking bandalagsins, stofnun miðstöðvar um lýðræðislegt viðnámsþol innan NATO og starfið fram undan. (Sjá fylgiskjal II.)

Vorfundur NATO-þingsins 14.–17. maí.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins fór fram á fjarfundi. Af hálfu Íslandsdeildar tók þátt Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, og Willum Þór Þórsson, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Á dagskrá var ný grunnstefna bandalagsins, NATO 2030, hvernig styrkja mætti NATO og lýðræðislegar undirstöður bandalagsins, spenna milli NATO og Rússlands, málefni Kína og brotthvarf herliðs NATO frá Afganistan. (Sjá fylgiskjal III.)

Ársfundur NATO-þingsins 7.–11. október.
    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn með blönduðu fyrirkomulagi þar sem landsdeildum var boðið að sækja fundinn í Lissabon eða tengjast á fjarfundi. Af hálfu Íslandsdeildar tók þátt á fjarfundi Njáll Trausti Friðbertsson auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru stefnumótun NATO, hernaðaruppbygging Rússa og áhrif Kína á valdajafnvægi í heiminum, auk þess sem fram fór rafræn kosning í embætti NATO-þingsins, þar á meðal embætti forseta. (Sjá fylgiskjal IV.)

Alþingi, 4. mars 2022.

Njáll Trausti Friðbertsson,
form.
Andrés Ingi Jónsson,
varaform.
Stefán Vagn Stefánsson.




Fylgiskjal I.


MINNISPUNKTAR af febrúarfundi NATO-þingsins 1.–2. mars 2021.


    Dagana 1.–2. mars var efnt til svonefnds febrúarfundar NATO-þingsins og fór hann fram sem fjarfundur sökum ferðatakmarkana vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Febrúarfundur er sameiginlegur fundur stjórnmála-, efnahags- og öryggis- og varnarmálanefnda. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu.
    Helstu mál á dagskrá fundarins voru ástandið í Úkraínu, kólnandi samskipti NATO og Rússlands og efling viðnámsþols (e. resilience) aðildarríkjanna sem tryggir að hjól samfélagsins snúist þótt áföll dynji yfir. Enn fremur fór fram umræða um endurskoðun grunnstefnu NATO og hvernig styrkja mætti samstöðu bandalagsríkjanna. Fundirnir eru haldnir samkvæmt Chatham House-reglunni, sem þýðir að þátttakendum er frjálst að nota upplýsingar af fundinum en ekki má gefa upp hverjir mæltu. Markmið reglunnar er að auka hreinskilni í umræðum. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sat Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, fundina, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram 1. mars. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum hjá þingmönnum en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Stoltenberg ræddi m.a. um næsta leiðtogafund NATO sem fram skyldi fara í Brussel í júlí 2021, um ógnir sem stöfuðu af Rússum og Kínverjum með aukinni hernaðaruppbyggingu og um umsvif í innviðauppbyggingu víða um heim og hvernig styrkja mætti pólitískt hlutverk og skipulag NATO til að bandalagið yrði betur í stakk búið til að takast á við framtíðarógnir og áskoranir.
    Enn fremur greindi Stoltenberg frá helstu atriðum fundar varnarmálaráðherra NATO sem fór fram 17.–18. febrúar 2021. Hann sagði mikilvægt að bandalagið endurheimti traust og styrkti einingu sína. Samstarf Evrópu og Norður-Ameríku væri mikilvægara en nokkru sinni fyrr í ljósi fjölþættra áskorana og nefndi hann sérstaklega uppgang Kína, netárásir, loftslagsbreytingar og hryðjuverkaógnina. Þá lagði hann áherslu á aukið samstarf ríkja til að eiga möguleika á að sigrast á sameiginlegum ógnum. Nauðsynlegt væri að sýna samstöðu yfir Atlantshaf, ekki eingöngu í orði heldur á borði.
    Stoltenberg ræddi jafnframt drög að tillögum um nýja áætlun bandalagsins til framtíðar, NATO 2030. Þar er m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að skipta byrðum milli ríkja bandalagsins með jafnari hætti, þannig að kostnaður vegna verkefna verði í auknum mæli fjármagnaður úr sameiginlegum sjóðum bandalagsins í stað þess að hvert ríki standi straum af eigin aðgerðum. Þá væri fyrirhugað að uppfærð grunnstefna bandalagsins frá 2010 yrði samþykkt á leiðtogafundi NATO árið 2022. Stoltenberg sagði jafnframt nýja grunnstefnu veita bandalaginu tækifæri til að árétta meginstefnu og áherslur þess. Þannig yrði brugðist við nýjum áskorunum, þar á meðal vegna Rússlands og vaxandi áhrifa Kína. Þá myndi grunnstefnan reynast tækifæri til að styrkja tengsl bandalagsins og ESB.
    Á fundunum fóru jafnframt fram umræður um alþjóðlega samstarfsaðila og keppinauta og varnarútgjöld og nýsköpun í kjölfar heimsfaraldurs. Rætt var um mikilvægi nýsköpunar í varnarmálum þar sem stuðlað væri að auknum rannsóknum og þróun í samstarfi við einkageirann, fræðasamfélagið og vísindasamfélagið. Þá var lögð áhersla á aukið pólitískt samráð og hagnýta samvinnu við líkt þenkjandi ríki til að takast á við alþjóðapólitískar áskoranir.

Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN af fjarfundi stjórnarnefndar NATO-þingsins 29. mars 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins tók þátt í fjarfundinum Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn í Prag en sökum ferðatakmarkana af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru var fundurinn haldinn rafrænt. Á dagskrá var m.a. mótun framtíðarstefnu NATO, styrking bandalagsins og viðnámsþol, stofnun miðstöðvar um lýðræðislegt viðnámsþol innan NATO og starfið fram undan.
    Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, greindi frá því að framkvæmdastjórn þingsins hefði stutt einróma tillögu Joëlle Garriaud-Maylam, varaforseta NATO-þingsins, um að þingið veitti árlega viðurkenningu sem bæri yfirskriftina Konur í þágu friðar og öryggis. Þannig gæti NATO-þingið m.a. sýnt fram á skuldbindingu sína við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (UNSCR) nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Lagði hann til að viðurkenningin yrði veitt árlega, á ársfundi NATO-þingsins, einstaklingi sem hefði unnið framúrskarandi starf í þágu kvenna, friðar og öryggis. Tillagan var samþykkt samhljóða.
    Þá áréttaði Connolly áherslur sínar í forsetaembætti NATO-þingsins; annars vegar að það kæmi að mótun framtíðarstefnu bandalagsins og hins vegar að aukin áhersla yrði lögð á lýðræðislegan grunn NATO, m.a. með stofnun miðstöðvar um lýðræðislegt viðnámsþol innan NATO. Hann sagði mikilvægt að þingið gerði sig gildandi þegar kæmi að málefnum lýðræðisins. Hann hefði sjálfur verið í þinghúsi Bandaríkjanna 6. janúar 2021 þegar ráðist var inn í bygginguna og atburðurinn hefði verið áminning um styrk lýðræðisins en á sama tíma hversu brothætt það gæti verið. Kominn væri tími til að bandalagið horfði til grunngilda sinna með sama hætti og til skuldbindinga varðandi sameiginlegar varnir aðildarríkjanna.
    Jafnframt benti Connolly á þrjár framkvæmdir sem styddu við áherslur hans; í fyrsta lagi að koma á framfæri tillögu um stofnun miðstöðvar um lýðræðislegt viðnámsþol sem hluta af NATO 2030, í öðru lagi að koma á fót vinnuhópi um tillögu að stofnun miðstöðvarinnar og í þriðja lagi að endurnefna málefnanefnd NATO-þingsins um borgaralega vídd öryggis til að endurspegla nýjar áherslur þingsins á lýðræðið. Nýtt heiti nefndarinnar yrði nefnd um lýðræði og öryggi, og yrði það lagt fram til samþykktar á vorfundi NATO-þingsins í maí 2021. Nefndin leggur áherslu á umfjöllun um lýðræði, góða stjórnarhætti, mannréttindi og réttarríkið. Þá ræddi Connolly um samskiptin yfir Atlantshaf og benti á að í ljósi umróts undanfarinna fjögurra ára væri mikilvægt að bandaríska sendinefndin og bandarísk stjórnvöld gerðu það sem í þeirra valdi stæði til að bæta sambandið við aðildarríkin og samstarfsaðila.
     Framkvæmdastjóri NATO-þingsins, Ruxandra Popa, greindi nefndarmönnum frá fyrirhuguðu starfi þingsins árið 2021. Hún sagði að áhersla yrði lögð á verkefni sérfræðihóps um NATO 2030, uppfærða grunnstefnu bandalagsins og næsta leiðtogafund þess. Þá væri í fyrsta hópi skýrslna málefnanefnda fjallað um þær áskoranir sem aðildarríkin stæðu frammi fyrir, þar á meðal áskoranir frá Kína og Rússlandi. Jafnframt væri sjónum beint að áskorunum úr suðri og austri auk vaxandi samkeppni á norðurslóðum. Einnig væri rætt um vopnaeftirlit, þar á meðal á sviði geim- og sýklavopna. Í öðrum hópi skýrslna væri lögð áhersla á forgangsverkefni aðlögunar NATO eins og á styrkingu bandalagsins og viðnámsþol (e. resilience) en einnig væri fjallað um jafnari skiptingu byrða milli aðildarríkjanna, fjárfestingar í varnarmálum í kjölfar heimsfaraldurs og samvinnu við samstarfsaðila í Asíu. Þá lagði framkvæmdastjórinn áherslu á umfjöllun um Afganistan og loftslagsbreytingar á vettvangi NATO-þingsins.
    Að því er snerti samskipti Georgíu og Úkraínu greindi framkvæmdastjórinn frá því að fundir ráðs Georgíu og NATO-þingsins (GNIC) væru áætlaðir í byrjun apríl eftir langt hlé sökum stjórnarkreppu í landinu. Þá hefði sendinefnd frá úkraínska þinginu lagt til að stofnaður yrði óformlegur stuðningshópur fyrir Krímskaga innan NATO-þingsins. Lagt væri til að hópurinn samanstæði af þremur fulltrúum frá NATO-þinginu og þremur fulltrúum frá úkraínska þinginu. Einnig ræddi Popa tillögu að samsetningu vinnuhóps um stofnun miðstöðvar um lýðræðislegt viðnámsþol.
    Enn fremur sagði Popa að aflýsa hefði þurft öllum staðfundum undanfarið ár sökum kórónuveirunnar. Í staðinn hefði þingið fært ráðstefnur og nefndarfundi á rafrænt form og hefði það gengið vonum framar. Á meðan ferðatakmarkanir vegna kórónuveirunnar væru enn í gildi yrðu nefndarfundir haldnir rafrænt. Vonir stæðu þó til að hægt yrði að halda staðfundi að nýju um mitt ár 2021 þótt ljóst væri að fyrirhugaður vorfundur NATO-þingsins yrði haldinn rafrænt 14.–17. maí 2021. Í framhaldinu samþykkti nefndin starfsáætlun þingsins fyrir seinni hluta árs 2021.
    Þá tók til máls Wolfgang Hellmich, gjaldkeri NATO-þingsins, og greindi frá fjárhagsstöðu þess. Nefndarmenn samþykktu í framhaldinu endurskoðað fjárhagsyfirlit NATO-þingsins fyrir árið 2021 og tillögu gjaldkera um ráðstöfun afgangs. Jafnframt fór fram umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 og hvernig ráðstafa ætti þeim afgangi sem yrði á fjárhagsárinu 2021 af völdum heimsfaraldurs. Hellmich kynnti tillögu sína og framkvæmdastjórnar NATO-þingsins þar sem m.a. var lagt til að halda árgjaldi óbreyttu 2022 og geyma þær fjárhæðir sem hafa sparast í faraldrinum í sjóðum NATO-þingsins. Var tillagan samþykkt samhljóða.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN af vorfundi NATO-þingsins 14.–17. maí 2021.


    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í fyrsta sinn sem fjarfundur dagana 14.–17. maí. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn í Stokkhólmi en sökum ferðatakmarkana vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var fundurinn haldinn rafrænt. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, og Willum Þór Þórsson, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara.
    Á vorfundi NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og með sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru öryggismál á tímum kórónuveirunnar, hvernig styrkja mætti NATO og lýðræðislegar undirstöður bandalagsins, aukin spenna milli NATO og Rússlands, spenna í samskiptum við Kína og brotthvarf herliðs NATO frá Afganistan. Rædd voru drög að 15 skýrslum á fundum fastanefndar NATO-þingsins um öryggismál, allt frá áframhaldandi áskorunum í samskiptum við Rússa og uppfærslu herafla Kína til svæðisbundins öryggis frá Afríku til norðurslóða. Um 269 þingmenn frá 30 aðildarríkjum NATO sóttu vorfundinn.
    Í opnunarræðu sinni hvatti forseti NATO-þingsins, Gerald E. Connolly, aðildarríkin til að vernda sameiginleg lýðræðisleg gildi sem nú væri ógnað á alþjóðavettvangi af einræðisherrum í Moskvu, Peking og Teheran. Sérstök umræða fór fram um heimsfaraldurinn og tillögur að viðbrögðum NATO-þingsins við honum. Rætt var um efnahagslegar afleiðingar hans sem einn af stærstu óvissuþáttum komandi ára og ljóst þótti að opinber fjármál yrðu ein helsta áskorun aðildarríkjanna. Mikilvægt væri að standa vörð um framlög til öryggis- og varnarmála og að aðildarríkin stæðu við skuldbindingar sínar um að verja a.m.k. 2% af vergri þjóðarframleiðslu til málaflokksins. Að auki fjölluðu allar málefnanefndir NATO-þingsins um skýrslur tengdar heimsfaraldrinum á fundum sínum.
    Stjórnarnefnd NATO-þingsins hélt tvo fundi í tengslum við vorfundinn. Á fundunum voru m.a. teknar ákvarðanir um starfsemi, fjármál og helstu viðfangsefni NATO-þingsins síðari hluta árs 2021. Áhersla yrði m.a. lögð á leiðir bandalagsins til að takast á við fjölþættar nýjar áskoranir sem blöstu við og til að tryggja getu sína og nauðsynlegan styrk til þess að standa við skuldbindingar sínar. Þá yrðu málefni Rússlands áfram í brennidepli sem og vöxtur Kína í alþjóðamálum.
    Stjórnmálanefnd ræddi um fjórar skýrslur á fundum sínum og fjallaði ein þeirra um hvernig bæri að mæta áframhaldandi landfræðilegum og hugmyndafræðilegum áskorunum frá Rússlandi. Í umræðum um skýrsluna lýstu þingmenn yfir áhyggjum af veru tugþúsunda rússneskra hermanna við austurlandamæri Úkraínu þrátt fyrir fullyrðingar frá Moskvu um að herliðið yrði kallað heim. Þá yki fangelsun Alexei Navalní, leiðtoga stjórnarandstöðu Rússlands, og brottvísun Rússa á vestrænum stjórnarerindrekum frá Rússlandi enn frekar á spennuna í alþjóðasamskiptum. Jafnframt ræddu nefndarmenn leiðir til að takast á við áskoranir og aðgerðir Rússa, m.a. við Svartahaf, Eystrasaltsríkin og Noreg. Í annarri skýrslu nefndarinnar var rætt um áform NATO varðandi öryggismál við Miðjarðarhaf og í þeirri þriðju var sjónum beint að tengingunni yfir Atlantshaf og sameiginlegri ábyrgð í breyttu umhverfi. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í störfum nefndarinnar.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um þrjár skýrslur á fundum sínum. Sú fyrsta fjallaði um alþjóðlegt vopnaeftirlit og áskoranir og önnur um varnarafstöðu Kína og áhrif hennar á aðildarríki NATO. Þá fjallaði sú þriðja um öryggisáskoranir á norðurslóðum og tók Þorgerður K. Gunnarsdóttir þátt í umræðum um skýrsluna og fagnaði auknum áhuga NATO-þingsins á norðurslóðamálum. Hún lagði í máli sínu áherslu á aukið mikilvægi norðurslóða, m.a. í ljósi bráðnunar jökla, aukinnar hernaðarviðveru Rússa og mikils áhuga Kínverja. Þá hefði aukið aðgengi að norðurslóðum enn fremur ýtt undir áhuga ríkja utan norðurslóða á svæðinu. Því væri ljóst að svæðið væri sífellt að verða mikilvægara í öryggis- og efnahagslegu tilliti. Hún benti á að Rússar hefðu lagt aukna áherslu á hervæðingu svæðisins og Kína hefði á undanförnum árum aukið vísindarannsóknir á norðurslóðum sem hefðu greinilega bæði borgaralegt og hernaðarlegt gildi. Þannig mætti halda því fram að kínverski herinn, sem nefndur er Frelsisher alþýðunnar, nýtti sér í auknum mæli vísindarannsóknir sem leið inn á norðurslóðir og slík starfsemi þjónaði í raun tvíþættum tilgangi. Þá lagði Þorgerður áherslu á mikilvægi hlutverks NATO og þörf fyrir skýra stefnu á norðurslóðum í ljósi framangreindrar landfræðiþróunar og sameiginlegs markmiðs aðildarríkjanna um að norðurslóðir yrðu áfram lágspennusvæði.
    Vísinda- og tækninefnd fjallaði á fundum sínum annars vegar um drög að skýrslu um hvernig efla mætti vísinda- og tæknisamstarf NATO við samstarfsaðila í Asíu og hins vegar um sýklavopn (e. biological weapons), tækniframfarir og áhyggjur af sýklahryðjuverkum (e. bioterrorism) í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Einnig fjallaði nefndin um drög að skýrslu um öryggi í geimnum og hlutverk NATO. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í störfum nefndarinnar en hann er einn fjögurra varaformanna hennar. Hann vakti m.a. athygli á mikilvægi fjarskiptakapla og hversu öflugir þeir væru fyrir flutning á gagnamagni, t.d. milli Evrópu og Norður-Ameríku. Þá ræddi hann um mikilvægi drægis gervihnatta, annars vegar fyrir gervihnattaleiðsögu fyrir flugumferð og skip og hins vegar í tengslum við vísindi og rannsóknir á loftslagsbreytingum. Einnig lagði hann áherslu á mikilvægi gervihnatta í tengslum við leit og björgun og nefndi í því sambandi víðáttu norðurslóða.
    Á fundum efnahagsnefndar NATO-þingsins var m.a. rætt um drög að þremur skýrslum, í fyrsta lagi skýrslu um alþjóðlegu efnahagskreppuna og afleiðingar hennar, í öðru lagi skýrslu um varnarútgjöld bandamanna með áherslu á varanlegar ógnir og nýjar takmarkanir og í þriðju skýrslunni var fjallað um málefni Hvíta-Rússlands og sjónum beint að pólitískum, efnahagslegum og diplómatískum áskorunum. Willum Þór Þórsson tók þátt í störfum nefndarinnar. Þá gaf forseti NATO-þingsins, Gerald E. Connolly, út yfirlýsingu um ástandið í Ísrael og á Gaza-svæðinu en mikil átök hafa geisað þar undanfarið. Hann sagði aukið ofbeldi milli Ísraela og Palestínumanna skelfilegt og hefði það þegar kostað fjölda saklausra borgara lífið. Í yfirlýsingunni var kallað eftir tafarlausu vopnahléi svo að forðast mætti frekari blóðsúthellingar og hörmungar.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 17. maí þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, og Mircea Geoan?, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Geoan? lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO á tímum heimsfaraldurs. Hann sagði NATO eina vettvanginn þar sem ríki Evrópu og Norður-Ameríku hittust daglega og mikilvægt að nýta hann enn betur til hreinskilinnar umræðu um öryggismál og fjölþættar ógnir. Fyrirhugað var að ársfundur NATO-þingsins færi fram í Lissabon 8.–11. október 2021.

Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN af ársfundi NATO-þingsins 7.–11. október 2021.


    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn dagana 7.–11. október í Lissabon en fór einnig fram með rafrænum hætti sökum ferðatakmarkana vegna heimsfaraldurs. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fjarfund Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, og Willum Þór Þórsson, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Um 250 þingmenn frá 30 aðildarríkjum NATO og fulltrúar 13 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna, sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hafði borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru öryggismál á tímum kórónuveiru, stefnumótun NATO, hernaðaruppbygging Rússa og áhrif Kína á valdajafnvægi í heiminum.
    Stjórnarnefnd NATO-þingsins hélt fund í tengslum við ársfundinn. Á fundinum voru m.a. teknar ákvarðanir um starfsemi, fjármál og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrri hluta árs 2022. Áhersla var m.a. lögð á málefni Rússlands, vöxt Kína í alþjóðamálum og fjölþættar nýjar áskoranir. Þá var rætt um drög að uppfærðri stefnu NATO þar sem rík áhersla var lögð á grunngildi bandalagsins; lýðræði og frelsi. Rætt var um heimsfaraldur kórónuveiru og viðbrögð NATO-þingsins við honum. Rætt var um efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins sem einn af mikilvægustu óvissuþáttum komandi ára og ljóst þótti að opinber fjármál yrðu ein helsta áskorun aðildarríkjanna. Þá væri mikilvægt að standa vörð um framlög til öryggis- og varnarmála og að aðildarríkin stæðu við skuldbindingar sínar um að verja a.m.k. 2% af vergri þjóðarframleiðslu til málaflokksins.
    Stjórnmálanefnd samþykkti á fundi sínum skýrslu um áframhaldandi áskoranir varðandi hugmyndafræði og landfræðipólitík Rússa. Í skýrslunni var sjónum beint að vaxandi kúgun stjórnvalda og kallað eftir áframhaldandi refsiaðgerðum nema stjórnvöld í Moskvu endurskoðuðu stefnu sína og létu af mannréttindabrotum. Í niðurstöðum skýrslunnar eru aðildarríkin hvött til að gæta raunsæis í núverandi ástandi og halda samskiptaleiðum við Rússa opnum, m.a. til að koma í veg fyrir að samskiptin versnuðu enn frekar. Að auki samþykkti nefndin annars vegar ályktun um áframhaldandi áherslu á málefni Rússlands og samheldni yfir Atlantshaf og hins vegar ályktun um innleiðingu ákvarðana leiðtogafundar NATO í Brussel 2021.
    Einnig fóru fram pallborðsumræður um kjarnorkuáætlun Írans og samskipti landsins við nágrannaríki. Jürgen Brötz, staðgengill aðstoðarframkvæmdastjóra leyniþjónustu NATO, fór yfir stöðu mála í landinu og svaraði spurningum nefndarmanna. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í umræðunum og spurði Brötz hvaða áhrif hann teldi alvarlegt ástand í Afganistan geta haft á samskipti Írans og Afganistans. Brötz svaraði því til að líklegt væri að áherslur Írans varðandi Afganistan sneru að því að tryggja öryggi og efnahagsleg tengsl ríkjanna og leitast við að koma í veg fyrir flóðbylgju flóttamanna frá Afganistan yfir landamærin. Þá ætti það eftir að koma í ljós hvort Íran myndi tengjast Afganistan sterkari böndum en það ylti líklega á því hvort talibönum tækist að koma í veg fyrir að hryðjuverkahópar í landinu ógnuðu öryggi Írans.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði á fundum sínum um alþjóðlegt vopnaeftirlit og áskoranir fram undan. Þá afgreiddi nefndin skýrslu um öryggismál á norðurslóðum þar sem m.a. var rætt um mikilvægi þess að Norður-Atlantshafið væri varið og sjógeta bandalagsins viðunandi. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í umræðum nefndarinnar og ræddi um aukið vægi norðurslóða, m.a. vegna bráðnunar jökla á svæðinu, aukinnar hernaðarviðveru Rússa og mikils áhuga Kína. Í skýrslunni var hvatt til þess að NATO legði aukna áherslu á norðurslóðir en bandalagið hefur aukið sýnileika sinn, fjölgað heræfingum á svæðinu og bætt varnir gegn kafbátum.
    Á fundum efnahagsnefndar NATO-þingsins var m.a. rætt um efnahagslegar og pólitískar áskoranir í Hvíta-Rússlandi og um skýrslu um afleiðingar hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu og núverandi horfur. Í skýrslunni var sjónum beint að þeim alvarlega efnahagslega samdrætti sem heimsfaraldurinn hefði hrundið af stað og áhrifum hans á útgjöld aðildarríkjanna til varnarmála. Líflegar umræður fóru fram um skýrsluna og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar sem bar yfirskriftina Varnarútgjöld og geta NATO.
    Vísinda- og tækninefnd ræddi þrjár skýrslur á fundum sínum og fjallaði sú fyrsta um það hvernig NATO gæti eflt samstarf á sviði vísinda- og öryggismála við samstarfsaðila í Asíu. Í annarri skýrslunni var sjónum beint að tækniframförum og efnavopnahryðjuverkum í kjölfar heimsfaraldursins, en hann hefur sýnt fram á veikleika á heimsvísu að því er varðar líffræðilegar ógnir og árásir. Jafnframt fór fram umræða um hlutverk NATO varðandi öryggismál í geimnum þar sem bent var á að núverandi innviðir NATO-ríkja í geimnum væru viðkvæmir fyrir árásum auk þess sem aðgengi að geimnum gæti hæglega raskast. Því væri mikilvægt að aðildarríkin hefðu sameiginlegan skilning á öryggistengdum áskorunum og tækifærum í geimnum og notuðu NATO sem vettvang til að ræða öryggis- og varnarmál geimsins. Þá samþykkti nefndin ályktun um það hvernig endurvekja mætti vopnaeftirlit í stefnumótandi umhverfi. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í störfum nefndarinnar og var jafnframt kjörinn einn af skýrsluhöfundum hennar.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 11. október þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru António Costa, forsætisráðherra Portúgals, Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Karen Donfried, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Evrópu og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
    Stoltenberg lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO á tímum heimsfaraldurs og fjölmargra öryggisáskorana. Hann sagði NATO eina vettvanginn þar sem ríki Evrópu og Norður-Ameríku hittust daglega og mikilvægt að nýta hann enn betur til hreinskilinnar umræðu um öryggismál. Þá hrósaði hann aðildarríkjunum fyrir að beina kastljósinu að sameiginlegum gildum þeirra með lýðræðið að leiðarljósi. Einnig ræddi hann um mikilvægi nýrrar stefnu NATO þar sem núverandi stefna væri úrelt. Í henni væri t.d. varla minnst á loftslagsbreytingar og ekki einu orði á Kína auk þess sem Rússland væri þar skilgreint sem samstarfsríki en sú væri ekki raunin lengur. Þá sagði hann mikilvægt að lögð yrði áhersla á grunngildi lýðræðisins og stofnana þess. Atburðirnir sem áttu sér stað í bandaríska þinghúsinu í Washington 6. janúar 2021 hefðu sýnt fram á mikilvægi þessara stofnana. Karen Donfried, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Evrópu, tók undir orð Stoltenbergs og sagði nauðsynlegt að áhersla yrði lögð á varðveislu lýðræðisins í nýrri stefnu NATO.
    Við lok þingfundar var samþykkt samhljóða ályktun þar sem NATO var hvatt til þess að koma á fót miðstöð fyrir lýðræðislegt viðnám innan sambandsins sem gæti stuðlað að styrkingu lýðræðiskerfa og stofnana aðildarríkjanna. Nancy Pelosi sagði slíka miðstöð mikilvæga og að hún myndi skerpa enn frekar á tilgangi NATO, ekki síst í ljósi þeirra árása sem lýðræðið hefði víða orðið fyrir að undanförnu. Forseti NATO-þingsins, Gerald E. Connolly, tók undir orð Pelosi og sagði mikilvægi miðstöðvarinnar ótvírætt á tímum vaxandi fjölþættra öryggisógna í heiminum en markmið hennar væri að leggja aukna áherslu á og vernda sameiginleg lýðræðisleg gildi bandalagsins. Connolly var endurkjörinn forseti NATO-þingsins.
    Á þinginu tók Nancy Pelosi við viðurkenningu NATO-þingsins sem veitt er árlega og ber yfirskriftina Konur í þágu friðar og öryggis. Hún þakkaði heiðurinn og sagði í ræðu sinni að þegar hún væri spurð að því hvað hún myndi gera ef hún réði heiminum væri svar hennar skýrt: Setja menntun kvenna og stúlkna í forgang. Það myndi skipta mestu máli, ekki aðeins fyrir líf þeirra sjálfra, fjölskyldna og samfélaga heldur fyrir heiminn allan. Fyrirhugað var að vorfundur NATO-þingsins færi fram 27.–30. maí 2022 í Kænugarði.


Fylgiskjal V.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2021.


Ársfundur 11.–14. október:
          Ályktun 466 um hvernig þróa megi samfélög með viðnámsþol bandalagsríkjanna að markmiði.
          Ályktun 467 um stuðning við skuldbindingar NATO um öflugar varnir til 2030.
          Ályktun 468 um þann lærdóm sem NATO getur dregið af aðgerðum sínum í Afganistan.
          Ályktun 469 um varnarútgjöld aðildarríkjanna og þróun viðbúnaðar.
          Ályktun 470 um áframhaldandi áherslu á áskoranir sem varða Rússland.
          Ályktun 471 um að staðfesta samheldni yfir Atlantshaf og innleiða ákvarðanir leiðtogafundar NATO í Brussel 2021.
          Ályktun 472 um að endurvekja vopnaeftirlit í stefnumótandi umhverfi.