Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 631  —  439. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2021.


1. Inngangur.
    Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2021 bar hæst áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á lýðræði, mannréttindi og réttarríkið auk þess sem ítrekað var fjallað um þróun stjórnmála í Hvíta-Rússlandi og mál Alexeis Navalnís.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir fjórum sinnum á ári í viku í senn í Strassborg. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru voru fyrstu tveir þingfundir ársins haldnir með fjarfundarbúnaði og næstu tveir með blönduðu fyrirkomulagi þannig að hluti þingmanna var á staðnum en aðrir gátu tengst fundunum með fjarfundarbúnaði. Utan þingfunda funduðu málefnanefndir þingsins að mestu með fjarfundarbúnaði. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður þriggja skýrslna og ályktana á árinu. Á stjórnarnefndarfundi í mars kynnti hún skýrslu um nauðsyn þess að styrkja fjármálaeftirlitsstofnanir, á þingfundi í júní lagði hún fram skýrslu um stöðu Krímtatara og á fundi stjórnarnefndar í nóvember kynnti hún skýrslu um endurskoðun siðareglna þingsins í þeim tilgangi að leggja blátt bann við kynferðislegri áreitni og ofbeldi.
    Ný ákvæði starfsreglna, sem samþykkt voru í lok árs 2020, gerðu Evrópuráðsþinginu kleift að kjósa í embætti og velja dómara við Mannréttindadómstól Evrópu með rafrænu kosningakerfi í þeim tilvikum þegar þingfundur væri haldinn með fjarfundarbúnaði. Evrópuráðsþingið gat því sinnt þessu mikilvæga hlutverki sínu í starfi Evrópuráðsins á ný og á árinu 2021 voru kosnir sjö dómarar auk framkvæmdastjóra þingsins og varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
    Evrópuráðsþingið fjallaði ítarlega um mannréttindi í tengslum við bólusetningar gegn COVID-19 og útgáfu bólusetningarvottorða. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, ávarpaði þingið í umræðum um bólusetningar og sagði eigingirni ríkustu landa heims bitna á þeim fátækustu og viðkvæmustu. Áhrif heimsfaraldursins á réttindi barna, menntun og menningu voru rædd og þingið ályktaði einnig um áhrif baráttunnar við faraldurinn á lýðræðið og um félagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins.
    Istanbúl-samningurinn, um forvarnir og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, varð tíu ára á árinu 2021. Af því tilefni var haldin málstofa á þingfundi í júní þar sem sérstaklega var fjallað um áhrif heimsfaraldursins á kynbundið ofbeldi. Fyrr á árinu höfðu tyrknesk stjórnvöld dregið sig út úr samningnum. Samningurinn hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og gagnrýnendur hans segja hann grafa undan hefðbundnum gildum og fjölskylduböndum auk þess sem hann ýti undir orðræðu til stuðnings hinsegin málefnum. Á fundi stjórnarnefndar í nóvember var kynnt ný vitundarvakning þingsins um samninginn meðal almennings. Sérstaklega var lögð áhersla á hlutverk karla og drengja í að stuðla að jafnrétti.
    Mál Alexeis Navalnís var fyrirferðarmikið á vettvangi þingsins á árinu. Á janúarfundi þingsins var haldin sérstök umræða vegna handtöku Navalnís þegar hann sneri aftur til Rússlands eftir að hafa notið læknisaðstoðar í Þýskalandi í kjölfar eitrunar í Rússlandi. Gerðar voru athugasemdir við kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar við upphaf fyrsta þingfundar ársins og við samþykkt kjörbréfanna kallaði þingið eftir því að Navalní yrði látinn laus og einnig mótmælendur sem fangelsaðir hefðu verið í tengslum við mótmæli gegn handtöku hans. Í apríl ályktaði þingið um handtöku Navalnís og hvatti ráðherranefnd Evrópuráðsins til að tryggja framfylgd dóms Mannréttindadómstólsins í máli Navalnís.
    Málefni Hvíta-Rússlands voru einnig ofarlega á baugi. Á fundi sínum í apríl kallaði þingið eftir endurskoðun kosningalaga landsins og hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að nýta sér allsherjarlögsögu til að rétta yfir einstaklingum sem gerst hafi sekir um mannréttindabrot og pyntingar í kjölfar forsetakosninganna sumarið 2020. Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu í maí um þvingaða lendingu farþegaflugvélar í Hvíta-Rússlandi og handtöku blaðamannsins Rómans Prótasevitsj. Á þingfundi í júní hélt þingið einnig sérstaka umræðu um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Þá var rætt um skipulagðan flutning flóttafólks frá Mið-Austurlöndum um Hvíta-Rússland til Póllands, Lettlands og Litháens á þingfundi í september og á fundi stjórnarnefndar í nóvember.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 af tíu Vestur-Evrópuríkjum. Aðildarríkin eru nú 47 talsins með samtals um 800 milljónir íbúa og mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með það að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Mannréttindasáttmálinn er þeirra þekktastur og á honum grundvallast Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn tekur til meðferðar kærur frá aðildarríkjum, einstaklingum og hópum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmálans og eru dómar hans bindandi að þjóðarétti fyrir viðkomandi ríki.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007.
    Framkvæmdarvald Evrópuráðsins er í höndum ráðherranefndarinnar, en í henni sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna eða fastafulltrúar þeirra í Strassborg. Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga aðildarríkjanna en einnig hafa sveitar- og héraðsstjórnir aðildarríkjanna samráð á ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Á Evrópuráðsþinginu eiga 324 fulltrúar sæti og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar og formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Hlutverk þingsins felst einkum í því að:
     *      eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
     *      hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
     *      vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúl-samningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins. Istanbúl-samningurinn tók gildi árið 2014 og Ísland fullgilti hann í apríl 2018. Þingmenn á Evrópuráðsþinginu gegna einnig því mikilvæga hlutverki að velja dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og kjósa í embætti Evrópuráðsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir, sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram, geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi árs tilnefndi þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs Ólaf Þór Gunnarsson í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins í stað Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur. Fram að alþingiskosningum 25. september áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins: Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Pírata, og Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Miðflokksins. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
     *      Stjórnarnefnd: Ólafur Þór Gunnarsson.
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Ólafur Þór Gunnarsson.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Ólafur Þór Gunnarsson.
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Bergþór Ólason.
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Ólafur Þór Gunnarsson.
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Bergþór Ólason.
     *      Jafnréttisnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    Flokkahópar Evrópuráðsþingsins skipuðu Íslandsdeildarmeðlimi í eftirfarandi nefndir:
     *      Reglunefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
     *      Eftirlitsnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Birgir Þórarinsson.
    Birgir Þórarinsson var annar tveggja framsögumanna um framfylgd skuldbindinga Úkraínu gagnvart Evrópuráðinu og fór í vettvangsferð til landsins í júlí í tengslum við störf sín. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gegndi varaformennsku í undirnefnd laga- og mannréttindanefndar um gervigreind og mannréttindi og sat einnig í undirnefnd um framfylgd dóma Mannréttindadómstólsins. Á árinu var hún skipuð framsögumaður skýrslu um mismunun á grundvelli bólusetninga.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Bjarni Jónsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Jódís Skúladóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata, og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2021.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru að jafnaði haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins. Vegna alþingiskosninga í lok september sótti enginn meðlimur Íslandsdeildar 4. þingfund ársins 27.–30. september.

Fundur Evrópuráðsþingsins 25.–28. janúar.
    Þingfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, Bergþór Ólason og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. fyrirkomulag bólusetninga gegn COVID-19, handtaka Alexeis Navalnís og mótmæli í Rússlandi í kjölfarið og framfylgd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá valdi þingið varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og framkvæmdastjóra þingsins. (Sjá fylgiskjal 1.)

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 19. mars.
    Fundur stjórnarnefndar fór fram með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. styrking fjármálaeftirlits í aðildarríkjum Evrópuráðsins og áhrif farandvinnu á börn farandverkamanna sem skilin eru eftir í heimalandi sínu. (Sjá fylgiskjal 2.)

Fundur Evrópuráðsþingsins 19.–22. apríl.
    Þingfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, Bergþór Ólason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varamaður, Birgir Þórarinsson, varamaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. staða lýðræðis og mannréttinda í Hvíta-Rússlandi og í Tyrklandi, handtaka Alexeis Navalnís og framtíðarstefna Evrópuráðsins. (Sjá fylgiskjal 3.)

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 28. maí.
    Fundur stjórnarnefndar fór fram með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru m.a. fjármál og forgangsröðun innan Evrópuráðsins næstu árin, þátttaka ungmenna við lausn átaka, átök milli Ísraela og Palestínumanna og þvinguð lending farþegaflugvélar í Hvíta-Rússlandi. (Sjá fylgiskjal 4.)

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 21.–24. júní.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður. Á dagskrá var m.a. tíu ára afmæli Istanbúl-samningsins, tjáningarfrelsi stjórnmálamanna, réttindi almennings til upplýsinga og mannréttindabrot gagnvart Krímtöturum. (Sjá fylgiskjal 5.)

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Róm 25.–26. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, starfandi formaður Íslandsdeildar, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Ólafur Þór Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, tók einnig þátt í fundinum í boði flokkahóps vinstri manna. Á dagskrá voru m.a. barátta gegn spillingu og pólitísk ábyrgð, endurskoðun siðareglna Evrópuráðsþingsins í þeim tilgangi að leggja blátt bann við kynferðislegri áreitni og ofbeldi, umræður um stöðu mála á landamærum Hvíta-Rússlands og 70 ára afmæli flóttamannasamþykktar Sameinuðu þjóðanna. (Sjá fylgiskjal 6.)

5. Nefndafundir utan þinga.
    Flestir fundir málefnanefnda þingsins fóru fram með fjarfundarbúnaði. Ólafur Þór Gunnarsson tók þátt í þremur fjarfundum stjórnmálanefndar og fjórum fjarfundum flóttamannanefndar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók þátt í fjarfundi flóttamannanefndar í janúar. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók þátt í sex fjarfundum laga- og mannréttindanefndar, sex fjarfundum jafnréttisnefndar, fjórum fjarfundum eftirlitsnefndar, tveimur fjarfundum reglunefndar þingsins og einum fjarfundi nefndar um val á dómurum við Mannréttindadómstól Evrópu. Þá sótti hún einn fund reglunefndar í París í nóvember. Birgir Þórarinsson tók þátt í tveimur fjarfundum eftirlitsnefndar og fór í vettvangsferð til Úkraínu í júlí sem annar tveggja framsögumanna um framfylgd Úkraínu á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu.

Alþingi, 11. mars 2022.

Bjarni Jónsson,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
varaform.
Birgir Þórarinsson.


Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN

af fjarfundi Evrópuráðsþingsins 25.–28. janúar 2021.


    Þingfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, Bergþór Ólason og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. fyrirkomulag bólusetninga gegn COVID-19, handtaka Alexeis Navalnís og mótmæli í Rússlandi í kjölfarið og framfylgd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá valdi þingið varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og framkvæmdastjóra þingsins.
    Á fyrsta degi þingsins var Rik Daems, þingmaður frá Belgíu og formaður flokkahóps frjálslyndra, endurkjörinn forseti þingsins. Í ávarpi sínu lagði Daems áherslu á að Evrópuráðsþinginu hefði tekist að halda uppi virkri starfsemi á árinu 2020 þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. Faraldurinn hefði þó haft gríðarlega mikil áhrif á starfið þar sem eftirlitsmenn og framsögumenn þingsins hefðu ekki getað ferðast í tengslum við störf sín. Hann hvatti þingmenn til að vinna ötullega að framgangi gilda Evrópuráðsins.
    Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, flutti skýrslu ráðherranefndarinnar. Hann sagði Evrópuráðið vera grundvöll sameinaðrar heimsálfu. Ekki mætti hins vegar ganga að friði og umburðarlyndi sem vísu. Ofbeldi hefði brotist út í álfunni, síðast í Nagorno-Karabakh og í Austur-Úkraínu. Hann vék orðum að handtöku stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís í vikunni fyrir þingfund, þegar hann sneri aftur til Rússlands eftir að hafa notið læknisaðstoðar í Þýskalandi í kjölfar eitrunar í Rússlandi. Maas sagði að fréttamyndir af ofbeldi lögreglu gegn friðsamlegum mótmælendum í Rússlandi um liðna helgi væru í hrópandi mótsögn við skuldbindingar aðildarríkja Evrópuráðsins. Evrópuráðið krefðist þess að mótmælendur yrðu tafarlaust látnir lausir og einnig Navalní. Hann hvatti þingmenn til að leysa ágreining sín á milli með málamiðlunum og gagnkvæmum skilningi. Aðeins með því að skiptast á skoðunum og gagnrýni þvert á hugmyndafræði og landamæri væri hægt að tryggja að Evrópa væri heimsálfa friðar, samstarfs og mannréttinda.
    Við upphaf þingfundar voru gerðar athugasemdir við kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar á efnislegum grundvelli. Flutningsmenn vísuðu til víðtækra mannréttindabrota í Rússlandi og innlimunar Krímskaga. Eftir umfjöllun þingsins voru kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar staðfest en í ályktun var ítrekað að með samþykkt kjörbréfanna væri þingið á engan hátt að viðurkenna innlimun Krímskaga. Þá fordæmdi þingið neikvæða þróun lýðræðis- og mannréttindamála í Rússlandi og kallaði eftir því að rússnesk stjórnvöld framfylgdu fyrri ályktunum þingsins. Þingið gagnrýndi lagasetningu sem gerði stjórnlagadómstól Rússlands kleift að lýsa dóma Mannréttindadómstóls Evrópu óframkvæmanlega auk þess sem kallað var eftir því að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní yrði látinn laus og einnig mótmælendur sem fangelsaðir hefðu verið í tengslum við mótmæli gegn handtöku hans.
    Þingið hélt einnig sérstaka umræðu um handtöku Alexeis Navalnís og benti frummælandi á að í vinnslu væri skýrsla á vegum þingsins um eitrunartilræðið gegn Navalní. Navalní hefði verið dæmdur fyrir fjársvik í Rússlandi árið 2014 en Mannréttindadómstóll Evrópu hefði síðar komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Eftir að Navalní var byrlað taugaeitrið Novichok í Rússlandi sumarið 2020 hefði hann notið meðhöndlunar lækna í Þýskalandi. Hann hefði þannig gerst brotlegur við skilmála skilorðs í desember og verið handtekinn á grundvelli þess þegar hann sneri aftur til Rússlands. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði handtöku Navalnís vera mikilvægt augnablik í rússnesku stjórnmálalífi. Sjálf ynni hún að skýrslu og ályktun um pólitíska fanga í Rússlandi fyrir laga- og mannréttindanefnd þingsins. Mikilvægt væri að halda máli Navalnís á lofti en hins vegar væri mál hans ekki einsdæmi í Rússlandi því að um 350 pólitískir fangar væru þar í haldi.
    Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, ávarpaði þingið í umræðum um siðferðilegar, lagalegar og praktískar áskoranir í tengslum við bóluefni gegn COVID-19. Hann sagði jafnræði gagnvart bólusetningum ekki einungis vera siðferðilega brýnt heldur nauðsynlegt til að ná tökum á útbreiðslu veirunnar. Hann benti á að 75% þeirra skammta sem þegar hefðu verið afhentir hefðu farið til tíu landa. Eigingirni landa heims bitnaði harðast á þeim fátækustu og viðkvæmustu. Þessi nálgun myndi ekki skila tilætluðum árangri í baráttunni við faraldurinn. Í ályktun sinni hvatti þingið aðildarríki Evrópuráðsins til að stuðla að því að bóluefni gegn COVID-19 væri nýtt á heimsvísu til almannaheilla. Bólusetning þyrfti að vera í boði fyrir alla, alls staðar. Sérstaklega þyrfti að tryggja að öll lönd gætu klárað að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk og viðkvæma hópa áður en bólusetning hæfist meðal almennings. Þingið hvatti til þess að í forgangi yrðu einstaklingar eldri en 65 ára og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, heilbrigðisstarfsfólk og þeir sem starfa við mikilvæga innviði og opinbera þjónustu. Þá ítrekaði þingið mikilvægi þess að tryggja upplýsingagjöf til almennings um bóluefni gegn COVID-19, öryggi þeirra og aukaverkanir.
    Í ályktun um mismunun á grundvelli þjóðernis voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að vinna gegn mismunun og hvetja löggæslu til að bregðast af hörku við kynþáttafordómum innan sinna raða. Í ályktun þingsins um framfylgd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu lýsti þingið yfir áhyggjum af tregðu sumra aðildarríkja við að framfylgja dómum. Einnig samþykkti þingið ályktun um mikilvægi sjálfstæðis dómara í Póllandi og Moldóvu þar sem ógnandi tilburðir stjórnvalda gegn ákveðnum dómurum og dómskerfinu í heild voru fordæmdir. Þingið samþykkti einnig ályktun og tilmæli um hömlur á starfsemi frjálsra félagasamtaka og ályktun um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga aðildarríkja.
    Samþykkt var að breyta starfsreglum þingsins til að setja á fót sameiginlegan vettvang Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins til að takast á við tilvik þar sem aðildarríki uppfylla ekki skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Með því framfylgdi þingið ályktun sinni frá því í janúar 2020. Þá hélt þingið sérstaka umræðu um ógnun við tjáningarfrelsið af völdum tæknirisa. Didier Reynders, framkvæmdastjóri dómsmála hjá Evrópusambandinu, ávarpaði þingið og Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti skýrslu sína.
    Á þinginu fór fram kjör nýs varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins en í framboði voru Bjørn Berge, framkvæmdastjóri ráðherranefndarinnar, og Leyla Kayacik, aðstoðarframkvæmdastjóri ráðherranefndarinnar. Berge var kjörinn varaframkvæmdastjóri ráðsins með 185 atkvæðum gegn 112 atkvæðum sem greidd voru Kayacik. Despina Chatzivassiliou-Tsovilis, ritari stjórnmálanefndar þingsins, var kjörin framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins með 240 atkvæðum gegn 60 atkvæðum sem greidd voru Wojciech Sawicki, starfandi framkvæmdastjóra, sem sóttist eftir þriðja skipunartímabilinu. Kjörtímabil beggja hefjast í mars og standa í fimm ár. Andreas Zünd var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Sviss og Ioannis Ktistakis fyrir Grikkland.


Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af fjarfundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 19. mars 2021.


    Fundur stjórnarnefndar fór fram með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. styrking fjármálaeftirlits í aðildarríkjum Evrópuráðsins og áhrif farandvinnu á börn farandverkamanna sem skilin eru eftir í heimalandi sínu.
    Michael Roth, aðstoðarráðherra Evrópumála í Þýskalandi, kynnti áherslur þýskra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði. Meðal forgangsmála Þjóðverja eru aukin réttindi minnihlutahópa, sérstaklega þeirra 12–15 milljóna manna af Róma- og Sinti-uppruna sem búa í Evrópu. Þá beindi ráðherranefndin sjónum sínum að framtíðarúrlausnarefnum lýðræðisríkja á borð við mannréttindi og siðfræði í tengslum við gervigreind og hatursorðræðu á netinu. Roth fjallaði einnig um Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Hann sagði Evrópuráðið verða vart við vaxandi andstöðu gegn samningnum og orðræðu um að hann stangaðist á við menningu, hefðir eða trúarsiði í aðildarríkjunum. Af því tilefni vildi hann ítreka að Istanbúl-samningurinn snerist um baráttu gegn ofbeldi og að engin menning eða trúarbrögð ættu að líða ofbeldi. Vísanir í menningarmun gætu aldrei réttlætt ofbeldi gagnvart konum og börnum og honum gremdist þegar reynt væri að setja slíka menningarlega fyrirvara við samninginn.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu um nauðsyn þess að styrkja fjármálaeftirlitsstofnanir til að auðvelda upptöku illa fenginna eigna. Þórhildur Sunna sagði afar brýnt að halda áfram ötulli baráttu gegn spillingu og peningaþvætti. Hún benti á að skattundanskot næmu billjónum dollara árlega og meðal þeirra sem högnuðust væru glæpasamtök, hryðjuverkasamtök og spilltir stjórnmálamenn. Skattundanskot ógnaði þannig bæði þjóðaröryggi og lýðræðinu. Með því að berjast gegn skattundanskoti skapaðist auk þess tækifæri til að afla ríkissjóði tekna til að takast á við félagsleg vandamál, ójöfnuð, hryðjuverkaógn og spillingu. Þórhildur Sunna benti á að gagnalekinn árið 2016 sem kenndur var við Panama hefði hvorki leitt til stórfelldra breytinga né réttlætis. Stjórnarnefnd samþykkti samhljóða ályktun og tilmæli til ráðherranefndarinnar sem byggðust á skýrslunni. Í ályktuninni eru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að gera upptækar ólöglegar eignir. Þannig geti ríkin gert einstaklingum og fyrirtækjum skylt að sanna að eignir þeirra hafi komið til með löglegum hætti, frekar en að stjórnvöld þurfi að sanna að þær séu illa fengnar. Aðildarríkin voru hvött til að styrkja fjármálaeftirlitsstofnanir sínar og tryggja þeim bæði fjármögnun og sjálfstæði.
    Stjórnarnefnd samþykkti ályktun og tilmæli til ráðherranefndarinnar um áhrif farandvinnu á börn sem skilin eru eftir í heimalandi farandverkamanna. Í ályktuninni kom fram að milljónir barna væru svipt umönnun foreldra sinna vegna farandvinnu. Ekki aðeins væri þannig brotið gegn mannréttindum barnanna heldur væri stöðugleika og velmegun aðildarríkjanna ógnað. Nauðsynlegt væri að þróa hagkvæma stefnu gagnvart farandvinnu sem miðaði að velferð barna, vernd mannréttinda og kynjajafnrétti. Gera þyrfti farandverkamönnum kleift að taka börn sín með sér.
    Þá samþykkti stjórnarnefnd ályktun og tilmæli um vernd flóttamanna og fólks á flótta innan eigin landamæra. Aðildarríki voru hvött til að taka upp í þjóðarétt ákvæði um allsherjarlögsögu (e. universal jurisdiction) þegar kemur að stríðsglæpum. Þingið kallaði einnig eftir því að aðildarríkin veittu flóttamönnum vernd og heilbrigðisþjónustu.
    Stjórnarnefnd hélt tvær sérstakar umræður, annars vegar um áhrif baráttunnar við COVID-19 á lýðræði og hins vegar um nýjustu fréttir frá Tyrklandi um þróun þingræðis í landinu. Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti ávarp undir yfirskriftinni COVID-19 og hlutverk Evrópuráðsins.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af fjarfundi Evrópuráðsþingsins 19.–22. apríl 2021.


    Þingfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, Bergþór Ólason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varamaður, Birgir Þórarinsson, varamaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var m.a. staða lýðræðis og mannréttinda í Hvíta-Rússlandi og í Tyrklandi, handtaka Alexeis Navalnís og framtíðarstefna Evrópuráðsins.
    Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ávarpaði Evrópuráðsþingið með fjarfundarbúnaði og svaraði spurningum þingmanna. Hún sagði ánægjulegt að Þýskaland sinnti formennsku í Evrópuráðinu á 70 ára afmæli aðildar landsins að stofnuninni, sem hefði verið fyrst alþjóðastofnana til að bjóða Þýskaland aftur velkomið í samfélag þjóða í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Samþykkt mannréttindasáttmála Evrópu hefði gert þegnum aðildarríkjanna kleift að leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum í heimalandi þeirra sem hefði verið byltingarkennt á sínum tíma. Merkel ítrekaði að þjóðaréttur gæti aldrei verið ofar þeim réttindum sem mannréttindasáttmálinn kvæði á um. Hún lýsti vonbrigðum sínum með þá ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda að draga sig út úr Istanbúl-samningnum, um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Réttindi kvenna væru mannréttindi og kynbundið ofbeldi mætti ekki líðast.
    Merkel sagði samskipti við Rússa vera erfið vegna átaka en að nauðsynlegt væri að halda áfram viðræðum. Nýleg liðssöfnun Rússa við landamæri Úkraínu yki enn á spennu á svæðinu en þó væri jákvætt að Evrópulönd stæðu saman í afstöðu sinni til hernáms Rússa á Krímskaga og í austurhluta Úkraínu. Hún sagðist þó uggandi um þróun alþjóðastjórnmála í ljósi þess að Rússar færðust nær Kínverjum í ýmsum málum. Um þessar mundir væri þörf fyrir alþjóðastofnanir sem héldu á lofti lærdómi fortíðar. Tiltrú á alþjóðlega samvinnu færi minnkandi og ögranir og harkaleg orðræða gætu leitt af sér vopnuð átök. Evrópuráðið væri enn mikilvægara en fyrir 70 árum sem vettvangur skoðanaskipta í ágreiningsmálum. Nauðsynlegt væri að standa vörð um og rækta alþjóðastofnanir og sameiginleg viðmið og gildi. Ekki væri hægt að gera málamiðlanir um grundvallarmannréttindi.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir beindi spurningu til kanslarans um viðbrögð þýskra stjórnvalda við spillingarmálum sem orðið hefðu meðal þýskra þingmanna. Málin hefðu tengst Aserbaísjan, líkt og spillingarmál sem varð í Evrópuráðsþinginu, og m.a. snúist um samflokksmann Merkel. Þórhildur Sunna ítrekaði að barátta gegn spillingu væri grundvallarforsenda réttarríkisins og nauðsynleg til að auka traust almennings á stjórnmálum. Merkel sagði málin hafa verið mjög óþægileg og kallað á rannsóknir og endurskoðun siðareglna þýska þingsins. Hún sagðist vonast til þess að með því að bregðast við málunum á gagnsæjan máta með rannsókn væri hægt að koma í veg fyrir að mál af þessu tagi endurtækju sig.
    Í ályktun um stefnumótun og forgangsröðun á vegum Evrópuráðsins kallaði þingið eftir því að Evrópuráðið héldi áfram að vera verndari lýðræðis, öryggis, mannréttinda og réttarríkisins auk þess sem það yrði áfram vettvangur alþjóðlegrar samvinnu í Evrópu. Þingið ítrekaði nauðsyn þess að aðildarríki virtu yfirvald Mannréttindadómstóls Evrópu og framfylgdu dómum hans. Möguleg aðild Evrópusambandsins að mannréttindasáttmálanum myndi auka trúverðugleika ESB og undirstrika mikilvægi sáttmálans fyrir aðildarríkin. Evrópuráðið var hvatt til þess að halda á lofti nútímalegri og heildstæðri sýn á mannréttindi og vinna að nýjum sáttmálum til að tryggja öryggi, heilbrigði og sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir.
    Óvenjumargar beiðnir bárust þinginu um sérstakar umræður og voru fjórar slíkar teknar á dagskrá. Haldnar voru tvær umræður með knýjandi málsmeðferð (e. debate under urgent procedure) þar sem nefndir þingsins útbjuggu skýrslur og ályktanir um málin. Annars vegar ályktaði þingið um handtöku Alexeis Navalnís og hins vegar um virkni lýðræðislegra stofnana í Tyrklandi. Í tilmælum þingsins til ráðherranefndar Evrópuráðsins var nefndin hvött til að leita allra leiða til að tryggja framfylgd dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Navalnís og að berjast fyrir því að hann yrði tafarlaust látinn laus. Í ályktun kallaði þingið eftir því að tyrknesk stjórnvöld gerðu umbætur á lögum og stjórnarskrá til að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins, tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Þá voru tyrknesk stjórnvöld hvött til að túlka lög gegn hryðjuverkastarfsemi á þrengri hátt og til að framfylgja dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Einnig lýsti þingið vonbrigðum sínum með þá ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda að draga sig út úr Istanbúl-samningnum. Að auki voru haldnar sérstakar umræður (e. current affairs debate) um armenska stríðsfanga og um vottorð um mótefni eða bólusetningu gegn COVID-19 með hliðsjón af mannréttindavernd og lagalegum áskorunum.
    Þingið samþykkti ályktun og tilmæli til ráðherranefndarinnar um endurskoðun kosningalaga í Hvíta-Rússlandi. Í ályktuninni kom fram að gallað kosningakerfi landsins hefði stuðlað að yfirstandandi stjórnmálakreppu. Þingið ítrekaði að virðing fyrir mannréttindum væri forsenda lýðræðislegra kosninga og fordæmdi ofbeldi og umfangsmiklar lögregluaðgerðir gegn mótmælendum í kjölfar forsetakosninga í landinu sumarið 2020. Í ályktun um mannréttindabrot í Hvíta-Rússlandi eru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að nýta sér allsherjarlögsögu (e. universal jurisdiction) til að rétta yfir einstaklingum sem gerst hafi sekir um alvarleg mannréttindabrot og pyntingar í kjölfar forsetakosninganna. Fram kom að þingið áliti að fólk sem handtekið hefði verið fyrir friðsamleg mótmæli eða skipulagningu þeirra væri pólitískir fangar samkvæmt skilgreiningu Evrópuráðsins. Þá lýsti þingið yfir stuðningi sínum við aðgerðasinna í Hvíta-Rússlandi sem safni sönnunargögnum um pyntingar.
    Þingið samþykkti ályktun um mismunun gagnvart einstaklingum með langvinna sjúkdóma. Í ályktuninni kom fram að langvinnir sjúkdómar væru meginorsök dauðsfalla og hefðu áhrif á líf þriðjungs Evrópubúa. Þingið hvatti aðildarríkin til að efla forvarnir gegn langvinnum sjúkdómum og taka upp heildstæða nálgun í málaflokknum. Þá voru aðildarríki hvött til að fara eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þróa lausnir við umönnun sem virtu réttindi fatlaðra og einstaklinga með langvinna sjúkdóma til reisnar, velferðar og sjálfsstjórnar. Ólafur Þór Gunnarsson talaði fyrir hönd flokkahóps vinstri manna og ítrekaði að jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu teldist til grundvallarmannréttinda. Berjast þyrfti gegn hvers konar mismunun sem bitnaði á veikburða einstaklingum í samfélaginu þegar þeir væru veikastir fyrir. Tryggja þyrfti stuðning við fólk með langvinna sjúkdóma og gera því kleift að njóta lífeyris í ellinni þrátt fyrir stutta þátttöku á vinnumarkaði.
    Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), ávarpaði þingið í umræðum um ályktun um sanngjarna skattlagningu og vinnu stofnunarinnar í tengslum við skattlagningu stafræna hagkerfisins. Hann sagði að stjórnvöld þyrftu að tryggja opinberan stuðning í fjárlögum til að örva hagkerfið og stuðla að sjálfbærum hagvexti. Hann fagnaði samstarfi Efnahags- og framfarastofnunarinnar og Evrópuráðsins um gagnsæi skattlagningar. Í ályktun sinni ítrekaði þingið mikilvægi þess að stuðla að sanngjarnri skattlagningu og koma í veg fyrir skattundanskot til að tryggja opinbera þjónustu. Þingið samþykkti einnig ályktun og tilmæli um vernd þjóðernisminnihluta í Evrópu og ályktun um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga Svartfjallalands gagnvart Evrópuráðinu.
    Maia Sandu, forseti Moldóvu, og David Sassoli, forseti Evrópuþingsins, ávörpuðu þingið auk þess sem Michael Roth, aðstoðarráðherra Evrópumála í Þýskalandi og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, upplýsti um störf ráðherranefndarinnar. Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sat fyrir svörum og Dunja Mijatovic, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, flutti þinginu árlega skýrslu sína. Frédéric Krenc var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Belgíu og mannréttindaverðlaun Evrópuráðsins, kennd við Václav Havel, voru veitt Loujain al-Hathloul, baráttukonu fyrir kvenréttindum í Sádi-Arabíu.


Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN
af fjarfundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins 28. maí 2021.


    Fundur stjórnarnefndar fór fram með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins tóku þátt í fundinum Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá voru m.a. fjármál og forgangsröðun innan Evrópuráðsins næstu árin, þátttaka ungmenna við lausn átaka, átök milli Ísraela og Palestínumanna og þvinguð lending farþegaflugvélar í Hvíta-Rússlandi.
    Levente Magyar, aðstoðarutanríkisráðherra Ungverjalands, kynnti áherslur ungverskra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði. Hann ítrekaði mikilvægi Evrópuráðsins við að stuðla að samtali milli austurs og vesturs í Evrópu og sagði ungversk stjórnvöld styðja áherslur stofnunarinnar á mannréttindi og réttarríkið. Ungverjaland hefði gengið í Evrópuráðið árið 1990 í kjölfar lýðræðisumbóta í landinu og aðildin hefði hjálpað stjórnvöldum að festa lýðræði í sessi í landinu. Í formennskutíð sinni munu ungversk stjórnvöld leggja áherslu á réttindi minnihlutahópa í Evrópu, samtal milli trúfélaga, réttindi ungmenna, tækniþróun og umhverfisvernd. Aðspurður um afstöðu ungverskra stjórnvalda gagnvart Istanbúl-samningnum um forvarnir og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi sagði Magyar að því miður hefði ákveðin stjórnmálaþróun haft áhrif á túlkun aðildarríkja á innihaldi samningsins. Ungversk stjórnvöld sæju sér því ekki fært að fullgilda samninginn þrátt fyrir að hafa undirritað hann.
    Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu um nauðsyn þess að koma á markvissum friðarviðræðum milli átakaaðila í Mið-Austurlöndum. Í umræðum tóku til máls fulltrúar frá þjóðþingi Ísraels og frá löggjafarþingi palestínsku heimastjórnarinnar, sem hefur verið óvirkt frá árinu 2007. Yoaz Hendel, þingmaður frá Ísrael, sagði hernaðaraðgerðir Ísraela í maí hafa verið nauðsynlegar til að vernda saklausa borgara, ekki aðeins í Ísrael heldur einnig á Gaza-svæðinu, þar sem Hamas noti almenna borgara sem mannlega skildi. Hernaði væri aðeins beitt í lengstu lög og væru viðbragð við árásum Hamas á almenna borgara í Ísrael frá Gaza. Hendel benti á að Ísraelar hefðu horfið frá Gaza-svæðinu í einhliða aðgerð árið 2005 en Hamas hefði tekið stjórnina og öryggi Ísraels verið stefnt í hættu. Hann sagði Ísraela ekki líta á almenning á Gaza sem óvini heldur ættu þau sameiginlegan óvin í Hamas. Bernard Sabella, þingmaður frá Palestínu, benti á að rót vandans væri hernám Ísraela á palestínsku landi. Hernámið kæmi í veg fyrir að hægt væri að finna pólitíska lausn á deilunni og gerði það að verkum að átök héldu áfram. Ísraelsk stjórnvöld hefðu lengi stutt landnemabyggðir á Vesturbakkanum og nú væri svo komið að jafnvel ísraelskir ríkisborgarar af palestínskum uppruna væru gerðir brottrækir af heimilum sínum í Austur-Jerúsalem þrátt fyrir að geta sýnt fram á afsal fyrir landi sínu. Ísraelskir dómstólar hefðu brugðist Palestínuaröbum og fólk væri svartsýnt á að pólitísk lausn næðist. Sabella sagði Evrópulönd bera ábyrgð á ástandinu þar sem þau hefðu með aðgerðaleysi sínu brugðist Palestínumönnum.
    Stjórnarnefnd samþykkti umsögn um fjármálaáætlun Evrópuráðsins og forgangsröðun verkefna fyrir árin 2022–2025. Í umsögninni fagnaði þingið áætluninni og áformum um umbætur til að auka áhrif Evrópuráðsins. Þingið hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að auka framlög sín til stofnunarinnar. Þingið fagnaði því að tekist hefði að halda starfsemi Evrópuráðsins gangandi með fjarfundum en ítrekaði að framvegis ættu slíkir fundir að vera til viðbótar við hefðbundna fundi þar sem fólk hittist í eigin persónu og ætti gagnlegar og árangursríkar samræður. Í ályktun þingsins um útgjöld þingsins árin 2022–2023 var hvatt til þess að framlög Evrópuráðsins til þingsins yrðu aukin til að styðja við samráð milli þingmanna í Evrópu.
    Í ályktun um aukna þátttöku ungmenna í átakalausnum og forvörnum gegn átökum voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2250, um ungmenni, frið og öryggi. Þingið ítrekaði mikilvægi þess að gera ungmennum kleift að taka aukinn þátt í pólitískri ákvarðanatöku um málefni á borð við COVID-19, loftslagsmál og mannréttindi.
    Stjórnarnefnd samþykkti einnig ályktun um hlutverk þjóðþinga við framfylgd hnattræns samkomulags Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn og fólk á faraldsfæti. Þá samþykkti stjórnarnefnd ályktun um mannúðaraðstoð fyrir flóttamenn og fólk á faraldsfæti í löndum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda. Einnig var haldin sérstök umræða um þvingaða lendingu farþegaflugvélar í Hvíta-Rússlandi 23. maí og handtöku blaðamannsins Rómans Prótasevitsj.


Fylgiskjal V.


FRÁSÖGN
af fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg 21.–24. júní 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Ólafur Þór Gunnarsson, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður. Á dagskrá var m.a. tíu ára afmæli Istanbúl-samningsins, tjáningarfrelsi stjórnmálamanna, réttindi almennings til upplýsinga og mannréttindabrot gagnvart Krímtöturum.
    Forseti bauð sérfræðingum og aðgerðasinnum til málstofu á þingfundatíma í tilefni þess að tíu ár væru liðin frá því að Istanbúl-samningurinn, um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins. Ræðumenn voru Nadia Murad, baráttukona gegn kynbundnu ofbeldi í stríði, sem sæmd var mannréttindaverðlaunum Evrópuráðsins sem kennd eru við Václav Havel árið 2016 og friðarverðlaunum Nóbels árið 2018, Anca Dana Dragu, forseti öldungadeildar rúmenska þingsins, Élisabeth Moreno, undirráðherra jafnréttismála í Frakklandi, Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, Dubravka Simonovic, sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna um kynbundið ofbeldi, og Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Murad sagði heimsfaraldur kórónuveiru hafa aukið hættuna á kynbundnu ofbeldi enda hefðu mörg lönd orðið vör við gríðarlega fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi. Öryggi og heilsu kvenna væri stefnt í hættu þar sem erfiðara væri að leita skjóls í athvörfum og nálgast heilbrigðisþjónustu. Hún sagðist áhyggjufull yfir dvínandi stuðningi við Istanbúl-samninginn á þessum tímum. Hún hefði sjálf upplifað ofbeldi þegar heimsbyggðin stóð hjá á meðan þjóð hennar mátti þola kerfisbundna útrýmingu og nauðganir. Í Istanbúl-samningnum væru skilgreindar aðgerðir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi en ekki aðeins bregðast við því. Nauðsynlegt væri að tryggja efnahagslega valdeflingu kvenna og jafnrétti kynjanna til að konur yrðu ekki arðrændar og misnotaðar. Þá væri gagnaöflun forsenda þess að hægt væri að skilja kynbundið ofbeldi og greina þörf fyrir aðstoð. Ekki væri lengur hægt að loka augunum fyrir þessum alvarlegustu og umfangsmestu mannréttindabrotum í heimi. Með því að berjast gegn kynbundnu ofbeldi á friðartímum væri einnig komið í veg fyrir kynbundið ofbeldi í stríði.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu og ályktunar um stöðu Krímtatara. Í ályktun sinni ítrekaði þingið þá afstöðu sína að viðurkenna ekki innlimun rússneskra yfirvalda á Krímskaga árið 2014. Þingið fordæmdi alvarleg mannréttindabrot gagnvart Krímtöturum og kallaði eftir því að fram færi rannsókn á ásökunum um morð, mannshvörf, pyntingar eða niðurlægjandi meðferð á þeim. Tjáningarfrelsi yrði að vera tryggt og aflétta þyrfti lögbanni á fjölmiðla Krímtatara. Þingið gagnrýndi beitingu rússneskra laga á Krímskaga, sérstaklega laga gegn hryðjuverkum og öfgahópum. Kallað var eftir því að öllum pólitískum föngum yrði sleppt, svo og þeim sem væru í haldi á grundvelli rússneskra laga. Þórhildur Sunna ítrekaði að Krímskagi væri hluti Úkraínu þrátt fyrir hernám og innlimun Rússa. Hins vegar bæru Rússar, sem hernámsþjóð, ábyrgð á mannréttindabrotum sem framin væru á svæðinu. Hún benti á að meiri hluti Krímtatara hefði verið andvígur hernámi Rússa og innlimun skagans og hefðu margir þeirra mótmælt kröftuglega. Í kjölfar innlimunar Krímskaga hefði staða Krímtatara versnað til muna og þessi þjóðernishópur þolað mannréttindabrot á borð við aftökur án dóms og laga, pyntingar og ómannúðlega meðferð. Dæmi væru þess að Krímtatarar sættu ógnunum og tilhæfulausri handtöku og húsleit. Þá hefði fólk verið ákært fyrir þátttöku í hryðjuverka- eða öfgasamtökum fyrir aðild sína að samtökum sem ekki væru bönnuð í Úkraínu.
    Þingið samþykkti að halda tvær sérstakar umræður, annars vegar um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi og hins vegar um nauðsyn samstöðu milli Evrópulanda í innflytjendamálum til að aðstoða þau lönd sem helst taka við flóttamönnum á leið til Evrópu. Ólafur Þór Gunnarsson talaði fyrir hönd flokkahóps vinstri manna í umræðu um Hvíta-Rússland og fjallaði um þvingaða lendingu farþegaflugvélar í Minsk í lok maí og handtöku Rómans Prótasevitsj og Sófíu Sapjega í kjölfarið. Hann sagði atvikið hafa verið skýrt brot á alþjóðalögum auk þess sem lífi annarra farþega hefði verið stefnt í hættu. Nauðsynlegt væri að þrýsta á hvítrússnesk stjórnvöld að sleppa parinu úr haldi umsvifalaust og gefa skýr skilaboð um að þessar aðgerðir yrðu ekki liðnar. Á sama tíma þyrfti að forðast það að viðbrögð alþjóðasamfélagsins bitnuðu á almenningi í Hvíta-Rússlandi sem berðist fyrir sjálfsögðum mannréttindum á borð við frjálsar og lýðræðislegar kosningar og tjáningarfrelsi.
    Ályktun þingsins um fjölmiðlafrelsi og rétt almennings til upplýsinga kallaði eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins skilgreindu rétt almennings til upplýsinga sem byggður væri á gagnsæi og fjölbreytni í fjölmiðlun. Það væri nauðsynlegt til að hvetja til lýðræðislegrar þátttöku og berjast gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Í ræðu sinni sagðist Þórhildur Sunna Ævarsdóttir vilja nota tækifærið og benda þingheimi á ógn við tjáningarfrelsi á Íslandi sem fælist í eignarhaldi valdamikilla aðila á fjölmiðlum. Samherji, leiðandi fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi, hefði áreitt og ofsótt fjölmiðlamann og fjölmiðla í kjölfar uppljóstrana um spillingarmál fyrirtækisins í Namibíu. Fyrirtækið hefði grafið undan fjölmiðlafrelsi á Íslandi og einnig framleitt eigin áróður. Hún benti á að sjávarútvegur væri mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Nokkur hundruð manns hefðu auðgast gríðarlega á auðlindinni og fjárfest í fjölmiðlum til að hafa áhrif á almenningsálit á Íslandi, sérstaklega skoðanir fólks á nýtingu auðlinda sjávar. Eignarhald fjölmiðla á Íslandi væri ekki skýrt og það ógnaði sjálfstæði fjölmiðla og tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks.
    Í ályktun um gagnsæi og reglur um erlenda fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningabaráttu fordæmdi þingið tilraunir aðildarríkja til að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar í öðrum löndum með fjármögnun. Þingið hvatti aðildarríki til að koma í veg fyrir erlenda fjármögnun stjórnmálaflokka með lagasetningu sem næði yfir bein framlög til einstakra frambjóðenda, framlög í rafmyntum, lán og fjármögnun um milliliði eða frjáls félagasamtök. Ólafur Þór Gunnarsson talaði fyrir hönd flokkahóps vinstri manna og sagði íslensk stjórnvöld hafa gert umbætur á lögum um fjármögnun stjórnmálaflokka auk þess sem stjórnmálaflokkar hefðu komið sér saman um skýrar leikreglur. Öll erlend fjármögnun væri bönnuð og ekki væri leyfilegt að birta auglýsingar án þess að geta þess hvaðan fjármögnun kæmi. Hann benti á að þrátt fyrir þessar reglur væri nauðsynlegt að gefa stjórnmálaflokkum svigrúm til að eiga í samstarfi við systurflokka erlendis. Erlend fjármögnun frjálsra félagasamtaka væri á gráu svæði þar sem þessi samtök féllu ekki undir skilgreiningar á stjórnmálasamtökum en þau gætu haft áhrif á lýðræðislegar kosningar.
    Þingið samþykkti einnig ályktun um það hvort ákæra skyldi stjórnmálafólk fyrir ummæli sem það léti falla í störfum sínum. Þingið ályktaði að stjórnmálafólk þyrfti sérstaklega að njóta tjáningarfrelsis en að það væri þó takmörkunum háð. Gæta þyrfti að meginreglum réttarríkisins þegar brugðist væri við hatursorðræðu eða andlýðræðislegum málflutningi stjórnmálafólks. Sérstaklega var bent á ákærur tyrkneskra yfirvalda um hryðjuverkastarfsemi þegar stjórnarandstæðingar ræða um Kúrda og landsvæði þeirra. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem talaði fyrir hönd flokkahóps sósíalista og græningja, fagnaði því að til stæði að náða níu stjórnmálamenn frá Katalóníu á Spáni sem dæmdir voru fyrir tilraun til uppreisnar. Hún hvatti tyrknesk stjórnvöld til að fylgja fordæmi Spánverja og láta alla stjórnmálamenn lausa úr haldi. Málfrelsi kjörinna fulltrúa væri grundvallarþáttur lýðræðisins.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um mannréttindi og lagaleg vafaatriði í tengslum við bólusetningarvottorð, um félagsleg og efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins, um áhrif heimsfaraldursins á réttindi barna, um aukna þátttöku kvenna úr minnihlutahópum í stjórnmálum og opinberri stefnumótun, um evrópska stefnu um samfélög brottfluttra og um baráttu gegn fordómum gagnvart svörtu fólki í Evrópu.
    Péter Szijjártó, forsætisráðherra Ungverjalands, kynnti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins. Davor Derencinovic var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Króatíu. Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands í Strassborg.


Fylgiskjal VI.


FRÁSÖGN
af fundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Róm 25.–26. nóvember 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, starfandi formaður Íslandsdeildar, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Ólafur Þór Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, tók einnig þátt í fundinum í boði flokkahóps vinstri manna. Á dagskrá voru m.a. barátta gegn spillingu, pólitísk ábyrgð, endurskoðun siðareglna Evrópuráðsþingsins, umræður um stöðu mála á landamærum Hvíta-Rússlands og 70 ára afmæli flóttamannasamþykktar Sameinuðu þjóðanna.
    Roberto Fico, forseti ítalska þingsins, og Maria Elisabetta Alberti Casellati, forseti öldungadeildar þingsins, opnuðu fundinn. Luigi Di Maio, utanríkisráðherra Ítalíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynnti áherslur ítalskra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stendur. Hann sagði ítölsk stjórnvöld leggja mikla áherslu á að styrkja alþjóðlegt samstarf í kjölfar heimsfaraldursins. Komið hefði í ljós að ekkert land réði við faraldurinn eitt og sér heldur væri þörf á að setja skilvirkar sameiginlegar reglur. Í formennskutíð Ítalíu yrði lögð áhersla á að styrkja grundvallargildi Evrópuráðsins og skoða sérstaklega áhrif heimsfaraldursins á kerfi aðildarríkja, réttindi sjúklinga og siðferðileg álitaefni. Einnig legðu Ítalir áherslu á valdeflingu kvenna, réttindi barna og stefnumótun til framtíðar í þágu almennings. Þá líti Ítalir á það sem algjört forgangsmál að Evrópusambandið gerist aðili að mannréttindasáttmála Evrópu.
    Í tilefni af árlegum degi baráttu gegn kynbundnu ofbeldi var haldin umræða um stöðu sáttmála Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúl-samningurinn, með sérstakri áherslu á hlutverk karla í að stöðva ofbeldið. Rik Daems, forseti Evrópuráðsþingsins, kynnti nýtt kynningarmyndband fyrir almenning á vegum þingsins þar sem fjallað er um kynbundið ofbeldi og hvernig fullorðnir karlmenn og drengir geti stuðlað að jafnrétti og barist gegn skaðlegum staðalmyndum kynjanna. Sérstaklega væri fjallað um orðræðu í garð kvenna, verkaskiptingu og samskipti í fjölskyldum og nánum samböndum. Michele Nicoletti, prófessor og fyrrverandi forseti Evrópuráðsþingsins, sagði Istanbúl-samninginn mikilvæga lagalega umgjörð til að berjast gegn mannréttindabrotum. Heimilisofbeldi væri ekki persónulegt málefni og ekki væri hægt að vísa til menningarlegra eða félagslegra þátta til að réttlæta eða afsaka tilvist þess. Hann sagði að kynbundið ofbeldi hvíldi á aldagamalli orðræðu, stjórnmálalegum og efnahagslegum valdatengslum. Það að breyta þessum kerfum krefðist gríðarlegs átaks þar sem fólk þyrfti að endurhugsa og læra upp á nýtt stöðu sína í samfélaginu og gagnvart öðrum. Nicoletti sagði menningarbyltingu hafa átt sér stað þar sem samfélög væru að færast frá stofnunum feðraveldisins. Evrópuráðið gæti tekið þátt í þessari félagslegu byltingu með því að aðlaga löggjöf sína og ráðleggingar til aðildarríkja. Simona Lanzoni, varaforseti sérfræðingahóps Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi (GREVIO), sagði meginmarkmið GREVIO vera að stuðla að jafnrétti karla og kvenna og uppræta kynbundið ofbeldi. Forvarnir væru besta leiðin til að berjast gegn ofbeldinu og í Istanbúl-samningnum væru m.a. ákvæði um fræðslu um málefnið í skólum.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði mikilvægt að hafa í huga hversu mikil áhrif frelsisskerðing stjórnvalda í tengslum við baráttuna gegn heimsfaraldri kórónuveiru hefði haft á konur. Almenningur hefði verið hvattur eða jafnvel skyldaður til að leita skjóls á heimilum sínum en fyrir margar konur hefði heimilið verið mun hættulegra en faraldurinn. Þórhildur Sunna benti á að þessi áhrif hefðu verið fyrirsjáanleg og nauðsynlegt hefði verið að taka tillit til þeirra við stefnumótun í tengslum við faraldurinn. Þar sem faraldurinn geisaði enn gæfist nú tækifæri til að gera betur í þessum efnum.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður ályktunartillögu um endurskoðun siðareglna þingsins í þeim tilgangi að leggja blátt bann við kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Hún þakkaði fyrrverandi forseta Evrópuráðsþingsins fyrir að hafa vakið athygli á niðurstöðum rannsóknar sem benti til þess að kvenkyns þingmenn og starfsmenn þinga í Evrópu yrðu fyrir kynferðislegri áreitni í miklum mæli. Með ályktuninni var siðareglum Evrópuráðsþingsins breytt þannig að þingmönnum er bannað að sýna af sér hvers kyns kynjamismunun, kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Þórhildur Sunna ítrekaði tilmæli Evrópuráðsþingsins til þjóðþinga aðildarríkja að þau endurskoðuðu siðareglur sínar og legðu bann við kynferðislegri áreitni og hatursfullri orðræðu í garð kvenna. Þá þyrftu viðurlög við brotum gegn siðareglum að vera skýr.
    Marta Cartabia, dómsmálaráðherra Ítalíu, ávarpaði fundinn í umræðum um ályktunartillögu um baráttu gegn spillingu og pólitíska ábyrgð. Hún sagði alvarlegt ef stjórnmálamenn væru grunaðir um ógagnsæi eða ólögmætar aðgerðir. Það leiddi til vantrausts borgaranna gagnvart lýðræðislegum stofnunum og hefði slæm áhrif á samheldni samfélagsins. Í ályktun sinni hvatti Evrópuráðsþingið til þess að þjóðþing settu sér skýrar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna og viðbrögð við því þegar stjórnmálamenn væru grunaðir um að eiga þátt í spillingu, skattundanskoti eða peningaþvætti. Þá voru evrópskir stjórnmálaflokkar hvattir til að þrýsta á stjórnmálamenn að segja af sér í þeim tilvikum þar sem alvarlegur og rökstuddur grunur væri um misferli. Í umræðum ítrekaði framsögumaður að umfjöllunarefni skýrslunnar væri pólitísk ábyrgð stjórnmálamanna, ekki málsmeðferð dómskerfisins. Nauðsynlegt væri að stjórnmálamenn öxluðu pólitíska ábyrgð og segðu af sér til að standa vörð um traust almennings á stjórnmálunum. Í skýrslunni var sérstaklega fjallað um áhrif uppljóstrana í Panama-skjölunum á íslensk stjórnmál árið 2016. Við undirbúning skýrslunnar átti framsögumaður fjarfundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Birgi Ármannssyni, formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata, auk þess sem hann fundaði með skattrannsóknarstjóra, meðlimum háskólasamfélagsins og fjölmiðlamönnum.
    Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu um stöðu fólks á faraldsfæti á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. Framsögumaður sagði augljóst að um væri að ræða skipulagðan flutning fólks að landamærunum að undirlagi forseta Hvíta-Rússlands til að valda óróa í Evrópu. Aðgerðirnar mætti flokka sem blandað stríð (e. hybrid war). Þrátt fyrir að stór hluti fólksins félli ekki undir lagalega skilgreiningu á flóttafólki eða hælisleitendum þyrftu pólsk stjórnvöld að fara málefnalega yfir hverja umsókn um hæli. Fólkið sæti fast á landamærunum við ómannúðlegar aðstæður og nauðsynlegt væri að veita því mannúðaraðstoð. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á að allt frá seinni heimsstyrjöld hefðu pólsk stjórnvöld og almenningur í landinu átt erfitt með að treysta því að Evrópuríki kæmu þeim til aðstoðar þegar á þyrfti að halda. Upplifun þeirra af ástandinu nú væri að landið sætti árás. Nauðsynlegt væri að Evrópuríki kæmu Póllandi til aðstoðar og að tekið yrði á þessu máli á mannúðlegan hátt.
    Þá samþykkti stjórnarnefnd ályktun um kynjuð áhrif kláms og tengsl við mannréttindi. Með ályktun sinni hvatti Evrópuráðsþingið aðildarríkin til að styrkja kynfræðslu í skólum til að berjast á móti neikvæðum áhrifum kláms á samskipti kynjanna. Einnig var mælt með því að dreifingaraðilar kláms á netinu gengju úr skugga um aldur notenda og upplýst samþykki þeirra sem birtust á síðunum. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á þá annmarka sem væru á því að setja upp einhvers konar skráningu þeirra sem nota klám, sérstaklega með tilliti til persónuverndarsjónarmiða. Hún gerði einnig athugasemdir við orðræðu um samúð með stöðu kvenna á grundvelli þess að þær væru systur, dætur eða mæður. Hún benti á að konur ættu skilið virðingu sem manneskjur burtséð frá því hvernig þær tengdust karlmönnum.
    Stjórnarnefnd samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um 70 ára afmæli Genfarsáttmálans og flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um sjálfviljugan flutning flóttafólks og farandfólks sem þarfnast mannúðarverndar, um hagsmuni barna og stefnumótun í átt að jafnvægi milli vinnu og einkalífs, um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á menntun og menningu og um mismunun gagnvart Rómafólki.


Fylgiskjal VII.


Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2021.


    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2021:

Fyrsti hluti þingfundar 25.–28. janúar:
     *      Ályktun 2357 um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga aðildarríkja á árinu 2020.
     *      Ályktun 2358 um innleiðingu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 2193 um sama efni.
     *      Ályktun 2359 um mikilvægi sjálfstæðis dómara í Póllandi og Moldóvu.
     *      Ályktun 2360 um að breyta starfsreglum þingsins til að setja á fót sameiginlegan vettvang Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins til að takast á við tilvik þar sem aðildarríki uppfylla ekki skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu.
     *      Ályktun 2361 um siðferðilegar, lagalegar og praktískar áskoranir í tengslum við bóluefni gegn COVID-19.
     *      Ályktun 2362 um hömlur á starfsemi frjálsra félagasamtaka í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 2194 um sama efni.
     *      Ályktun 2363 um athugasemdir við kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar á efnislegum grundvelli.
     *      Ályktun 2364 um mismunun á grundvelli þjóðernis.

Stjórnarnefndarfundur 19. mars:
     *      Ályktun 2365 um nauðsyn þess að styrkja fjármálaeftirlitsstofnanir til að auðvelda upptöku illa fenginna eigna.
     *      Tilmæli 2195 um sama efni.
     *      Ályktun 2366 um áhrif farandvinnu á börn sem skilin eru eftir í heimalandi farandverkamanna.
     *      Tilmæli 2196 um sama efni.
     *      Ályktun 2367 um vernd flóttamanna og fólks á flótta innan eigin landamæra.
     *      Tilmæli 2197 um sama efni.

Annar hluti þingfundar 19.–22. apríl:
     *      Ályktun 2368 um vernd þjóðernisminnihluta í Evrópu.
     *      Tilmæli 2198 um sama efni.
     *      Ályktun 2369 um stefnumótun og forgangsröðun á vegum Evrópuráðsins.
     *      Tilmæli 2199 um sama efni.
     *      Ályktun 2370 um baráttu fyrir sanngjarnri skattlagningu og vinnu OECD við skattlagningu stafræna hagkerfisins.
     *      Ályktun 2371 um nauðsyn þess að endurskoða kosningalög í Hvíta-Rússlandi.
     *      Tilmæli 2200 um sama efni.
     *      Ályktun 2372 um alþjóðlega rannsókn á mannréttindabrotum í Hvíta-Rússlandi.
     *      Tilmæli 2201 um sama efni.
     *      Ályktun 2373 um mismunun gagnvart einstaklingum með langvinna sjúkdóma.
     *      Ályktun 2374 um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga Svartfjallalands gagnvart Evrópuráðinu.
     *      Ályktun 2375 um handtöku Alexeis Navalnís í janúar 2021.
     *      Tilmæli 2202 um sama efni.
     *      Ályktun 2376 um virkni lýðræðislegra stofnana í Tyrklandi.

Stjórnarnefndarfundur 28. maí:
     *      Álit 298 um fjármálaáætlun Evrópuráðsins og forgangsröðun verkefna fyrir árin 2022– 2025.
     *      Ályktun 2377 um útgjöld þingsins árin 2022–2023.
     *      Ályktun 2378 um aukna þátttöku ungmenna í átakalausnum og forvörnum gegn átökum.
     *      Ályktun 2379 um hlutverk þjóðþinga við framfylgd hnattræns samkomulags Sameinuðu þjóðanna um málefni flóttafólks og fólks á faraldsfæti.
     *      Ályktun 2380 um mannúðaraðstoð fyrir flóttafólk og fólk á faraldsfæti í löndum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda.
     *      Tilmæli 2203 um sama efni.

Þriðji hluti þingfundar 21.–24. júní:
     *      Ályktun 2381 um hvort stjórnmálafólk skuli sæta lagalegri ábyrgð á ummælum sem það lætur falla í störfum sínum.
     *      Ályktun 2382 um fjölmiðlafrelsi og rétt almennings til upplýsinga.
     *      Tilmæli 2204 um sama efni.
     *      Ályktun 2383 um mannréttindi og lagaleg vafaatriði í tengslum við bólusetningarvottorð.
     *      Ályktun 2384 um félagsleg og efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins.
     *      Tilmæli 2205 um sama efni.
     *      Ályktun 2385 um áhrif heimsfaraldursins á réttindi barna.
     *      Tilmæli 2206 um sama efni.
     *      Ályktun 2386 um aukna þátttöku kvenna úr minnihlutahópum í stjórnmálum og opinberri stefnumótun.
     *      Ályktun 2387 um mannréttindabrot gagnvart Krímtöturum.
     *      Ályktun 2388 um evrópska stefnu um samfélög brottfluttra.
     *      Tilmæli 2207 um sama efni.
     *      Ályktun 2389 um baráttu gegn fordómum gagnvart svörtu fólki í Evrópu.
     *      Ályktun 2390 um gagnsæi og reglur um erlenda fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningabaráttu.
     *      Tilmæli 2208 um sama efni.

Fjórði hluti þingfundar 27.–30. september:
     *      Álit 299 um drög að annarri viðbótarbókun við samning um netglæpi um aukið samstarf og birtingu rafrænna sönnunargagna.
     *      Ályktun 2391 um áhrif átaka milli Armeníu og Aserbaísjan á mannúðarástand.
     *      Tilmæli 2209 um sama efni.
     *      Ályktun 2392 um umfang þinghelgi meðlima Evrópuráðsþingsins.
     *      Ályktun 2393 um félagslegan ójöfnuð í Evrópu og mikilvægi þess að endurheimta traust með því að styrkja félagsleg réttindi.
     *      Tilmæli 2210 um sama efni.
     *      Ályktun 2394 um kynjahlutföll á Evrópuráðsþinginu.
     *      Ályktun 2395 um baráttuna gegn svokölluðum heiðursglæpum.
     *      Ályktun 2396 um að festa í sessi réttinn til heilnæms umhverfis.
     *      Tilmæli 2211 um sama efni.
     *      Ályktun 2397 um aukið þátttökulýðræði til að takast á við loftslagsbreytingar.
     *      Tilmæli 2212 um sama efni.
     *      Ályktun 2398 um refsi- og einkaábyrgð í tengslum við loftslagsbreytingar.
     *      Tilmæli 2213 um sama efni.
     *      Ályktun 2399 um loftslagsvána og réttarríkið.
     *      Tilmæli 2214 um sama efni.
     *      Ályktun 2400 um baráttu gegn misrétti þegar kemur að réttinum til öruggs, heilnæms og hreins umhverfis.
     *      Ályktun 2401 um loftslag og fólksflutninga.
     *      Ályktun 2402 um stefnumótun í rannsóknum og umhverfisvernd.
     *      Tilmæli 2215 um sama efni.
     *      Ályktun 2403 um stöðuna í Afganistan og afleiðingarnar fyrir nágrannaríki og Evrópu.
     *      Ályktun 2404 um stýrðan þrýsting fólksflutninga á landamærum Lettlands.

Stjórnarnefndarfundur 25.–26. nóvember:
     *      Ályktun 2405 um endurskoðun siðareglna þingsins.
     *      Ályktun 2406 um baráttu gegn spillingu og pólitíska ábyrgð.
     *      Ályktun 2407 um 70 ára afmæli Genfarsáttmálans.
     *      Ályktun 2408 um 70 ára afmæli flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
     *      Ályktun 2409 um sjálfviljugan flutning flóttafólks og farandfólks sem þarfnast mannúðarverndar.
     *      Ályktun 2410 um hagsmuni barna og stefnumótun í átt að jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
     *      Tilmæli 2216 um sama efni.
     *      Ályktun 2411 um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á menntun og menningu.
     *      Tilmæli 2217 um sama efni.
     *      Ályktun 2412 um kynjuð áhrif kláms og tengsl við mannréttindi.
     *      Ályktun 2413 um mismunun gagnvart Rómafólki.