Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 647  —  354. mál.
Framsögumaður.

Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samninga Íslands við Noreg annars vegar og Danmörku fyrir hönd Færeyja hins vegar um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen (Síldarsmugan).

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur og Birgi Hrafn Búason frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur samningum Íslands, við Noreg annars vegar og við Danmörku fyrir hönd Færeyja hins vegar, um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen (Síldarsmugunnar). Samningarnir voru undirritaðir í Stokkhólmi 30. október 2019.
    Ísland skilaði inn greinargerð til landsgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í apríl 2009 um ytri mörk íslenska landgrunnsins utan 200 sjómílna. Landsgrunnsnefndin féllst að fullu á kröfur varðandi Ægisdjúp, í suðurhluta Síldarsmugunnar, í samræmi við greinargerð Íslands og er því meðferð nefndarinnar hvað þetta svæði varðar formlega lokið. Afmörkun landgrunnsins á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar er enn þá til meðferðar fyrir landgrunnsnefndinni og var endurskoðaðri greinargerð um þann hluta landgrunnsins skilað til nefndarinnar í mars 2021.
    Áður en greinargerðinni var skilað inn árið 2009 var gengið til samninga við Noreg og Danmörku, fyrir hönd Færeyja, um skiptingu landgrunnsins á svæðinu. Landgrunnsnefndin getur ekki tekið afstöðu til umdeildra svæða og var því talið rétt að ljúka fyrst samningagerðinni. Haustið 2006 náðist samkomulag milli ríkjanna þriggja. Þegar tillögur landgrunnsnefndarinnar lágu fyrir var gengið frá formlegum samningum í samræmi við fyrrnefnt samkomulag með undirritun þeirra 30. október 2019.
    Vert er að taka fram að vegna samsetningar hafsbotnsins á svæðinu er ólíklegt að þar sé að finna vetniskolefnislög eða aðrar jarðefnaauðlindir. Einnig er rétt að árétta að samningar þessir fjalla einungis um skiptingu landgrunnsins, þ.e. hafsbotnsins, og taka ekki að neinu leyti til fiskveiða á svæðinu.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Jónsson, Birgir Þórarinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 9. mars 2022.

Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir. Ingibjörg Isaksen.
Jakob Frímann Magnússon. Logi Einarsson. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.