Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 651  —  452. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2021.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) bar á árinu 2021 hæst fjórtándu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Ráðstefnan var haldin sem fjarfundur 13.–14. apríl, en vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafði henni verið frestað frá árinu 2020 þegar fyrirhugað var að halda hana í Tromsø í Noregi. Á ráðstefnunni voru þrjú meginþemu valin til sérstakrar umræðu. Í fyrsta lagi var sjónum beint að baráttunni gegn loftslagsbreytingum, í öðru lagi að sjálfbærri efnahagsþróun og í þriðja lagi að mannlífi á norðurslóðum.     Í yfirlýsingu ráðstefnunnar var tilmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar var m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa á svæðinu. Þá var lögð áhersla á endurnýjaðar og auknar skuldbindingar við Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 2015 og gerð metnaðarfullrar aðgerðaáætlunar fyrir norðurslóðir. Einnig var lagt til að samstarf vísindamanna yrði aukið og nýtt heimskautaár sett á dagskrá. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu m.a. áherslu á mikilvægi þess að auka aðgengi að stafrænni tækni á norðurslóðum, jafnréttismál og að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru.
    Heimsfaraldur kórónuveiru setti mark sitt á starf nefndarinnar á árinu og fóru fundir og ráðstefna fram á rafrænu formi. Nefndarmenn deildu upplýsingum um áhrif heimsfaraldursins og þær áskoranir sem fámenn svæði norðurslóða glíma við í baráttunni gegn honum. Þá fór fram sérstök umræða um COVID-19 og efnahagslegar og félagslegar afleiðingar faraldursins. Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski hélt erindi um málið og sagði neikvæð áhrif heimsfaraldursins á framþróun víðtæka á svæðinu, samfélög hefðu víða einangrast og ljóst væri að styrkja þyrfti innviði sérstaklega. Einnig voru nefndarmenn sammála um að baráttan við heimsfaraldur hefði varpað ljósi á mikilvægi samstöðu og alþjóðlegs samstarfs á norðurslóðum.
    Formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu var ofarlega á dagskrá á árinu en Ísland tók við formennskunni til tveggja ára af Finnum í maí 2019. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, greindi frá framgangi formennsku Íslands á þingmannaráðstefnu nefndarinnar og sagði að þrátt fyrir heimsfaraldur COVID-19 hefði formennskan gengið vel og að fá verkefni ráðsins hefðu frestast vegna faraldursins. Sjálfbær þróun hefði verið meginþema formennskuáætlunar, en starf ráðsins hefði frá upphafi snúist um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Í áætluninni væri lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir og styrkingu samfélaga á norðurslóðum. Þá hefði Ísland m.a. leitt verkefni undir formennskunni um kynjajafnrétti á norðurslóðum og tækifæri bláa lífhagkerfisins. Norðurskautsráðið fagnaði 25 ára afmæli á árinu og tóku Rússar við formennsku af Íslandi á fundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 20. maí 2021.
    Íslandsdeild var að venju virk í starfi þingmannanefndarinnar og lagði m.a. til að nefndin hittist oftar á rafrænum fundum og að ráðstefna CPAR yrði haldin árlega í stað annars hvers árs. Einnig lagði Íslandsdeild áherslu á hvernig styrkja mætti enn frekar aðkomu frumbyggja að störfum nefndarinnar. Þá var samhljómur meðal þingmanna um mikilvægi aukinnar umræðu um öryggismál á svæðinu, með áherslu á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi hjá þingmannanefndinni má nefna áherslur nýrrar ríkisstjórnar Bandaríkjanna í loftslags- og norðurslóðamálum eftir að Joe Biden tók við sem nýr forseti í janúar 2021. Nefndarmenn voru sammála um að skipan John F. Kerry sem sérlegs erindreka Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum og það að Bandaríkin væru aftur orðin aðili að Parísarsáttmálanum væru skýr merki um aukna áherslu á málaflokkinn. Einnig fóru fram umræður um aukið samstarf í heilbrigðismálum og mikilvægi þess að ungt fólk væri virkjað til ákvarðanatöku. Þá var grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen kosin nýr formaður nefndarinnar og bandaríska öldungardeildarþingkonan Lisa Murkowsky kosin varaformaður nefndarinnar til næstu tveggja ára.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR).
    Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál (Conference of Parliamentarians of the Arctic Region, CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál ( Standing Committee of Parliamentarians of the Arctic Region, SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti.
    Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök þingmanna, frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Einnig hefur sérstök áhersla verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð íbúa norðursins. Enn fremur er rík áhersla lögð á að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði í alþjóðasamskiptum. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar.
    Áhersla hefur verið lögð á verkefni sem snúa að ýmsum málum sem snerta forgangsverkefni Norðurskautsráðsins, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið unnar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Þrír lagalega bindandi samningar hafa verið gerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins. Sá fyrsti var undirritaður af aðildarríkjunum á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011, um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Segja má að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við fyrirsjáanlega aukinni umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, sem og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Annar samningurinn var undirritaður á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013, um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi, og sá þriðji árið 2017, um aukið alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum.
    Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 20. maí 2021 undirrituðu utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna metnaðarfulla ráðherrayfirlýsingu þar sem send eru skýr skilaboð um mikilvægi umhverfisverndar og rík áhersla lögð á að sporna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við afleiðingum þeirra, en jafnframt er sjálfbærri samfélagslegs- og efnahagsþróun gerð góð skil. Eining um öfluga yfirlýsingu var sérstaklega mikilvæg að þessu sinni þar sem ekki tókst að ná samstöðu um ráðherrayfirlýsingu á ráðherrafundinum í Rovaniemi 2019. Þá náðu ráðherrarnir samkomulagi um framtíðarstefnu fyrir Norðurskautsráðið til næstu tíu ára. Þetta var í fyrsta skipti sem slík framtíðarstefna er samþykkt en að því hefur verið stefnt síðan ráðherrarnir kölluðu eftir því á fundi sínum í Fairbanks árið 2017. Framtíðarstefnan skilgreinir sjö markmið og tilgreinir nokkrar aðgerðir undir hverju þeirra sem miða að því að vinna að framgangi hvers markmiðs. Þess er vænst að framtíðarstefnan auki stefnufestu í störfum ráðsins umfram þá leiðsögn til tveggja ára sem hver formennskuáætlun hefur veitt hingað til.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Fram að Alþingiskosningum 25. september áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Ari Trausti Guðmundsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata. Varamenn voru Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Smári McCarthy, þingflokki Pírata. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, þingflokki Flokks fólksins, og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingflokki Flokks fólksins, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Óli Björn Kárason, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi fram að kosningum þar sem þátttaka í fundum og ráðstefnu var undirbúin og starf nefndarinnar rætt. Ný Íslandsdeild hélt einn fund á árinu 2021.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2021.
    Á venjubundnu ári kemur þingmannanefndin saman til funda þrisvar sinnum á ári. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru fóru fundirnir fram sem fjarfundir og voru aðeins tveir. Formaður Íslandsdeildar tók þátt í fundinum og öll Íslandsdeild tók þátt í ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem fór einnig fram sem fjarfundur.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál 25. febrúar 2021.
    Fjarfundur þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) var haldinn 25. febrúar. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning næstu ráðstefnu nefndarinnar sem fyrirhugað var að halda rafrænt 13.–14. apríl 2021 og vinna við yfirlýsingu ráðstefnunnar. Þá var rætt um starfið fram undan og stöðu ríkjanna á tímum heimsfaraldurs. (Sjá fylgiskjal I.)

Ráðstefna (CPAR) þingmannanefndar um norðurskautsmál og fundir þingmannanefndar 13.–14. apríl 2021.
    Fjórtánda þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin sem fjarfundur 13.–14. apríl 2021 en vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafði henni verið frestað frá árinu 2020 þegar fyrirhugað var að halda hana í Tromsø í Noregi. Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, og Björn Leví Gunnarsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru loftslagsbreytingar, sjálfbær efnahagsþróun og umfjöllun um mannlíf á norðurslóðum.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni. Á fyrri fundi nefndarinnar, 13. apríl, var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Á síðari fundi nefndarinnar, 14. apríl, lét Eirik Sivertsen, fulltrúi norska þingsins, af embætti formanns nefndarinnar en hann hafði gegnt því frá árinu 2015. Grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen var kosin nýr formaður nefndarinnar og bandaríska öldungardeildarþingkonan Lisa Murkowsky var kosin varaformaður nefndarinnar til næstu tveggja ára. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. (Sjá fylgiskjal II.)

Alþingi, 11. mars 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Eyjólfur Ármannsson,
varaform.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.




Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN af fjarfundi þingmannanefndar um norðurslóðamál 25. febrúar 2021.


    Fjarfundur þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) var haldinn 25. febrúar. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning næstu ráðstefnu nefndarinnar sem fyrirhugað er að halda rafrænt 13.–14. apríl nk. og vinna við yfirlýsingu ráðstefnunnar. Þá var rætt um starfið fram undan og stöðu ríkjanna á tímum heimsfaraldurs. Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndarinnar, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ara Trausta á því hvernig Íslandsdeild þingmannanefndarinnar hefði unnið með ráðstefnuyfirlýsingu CPAR frá árinu 2018. Hann greindi frá því að Íslandsdeild hefði sent yfirlýsingu ráðstefnunnar til utanríkisráðuneytis Íslands og óskað eftir upplýsingum um stöðu framkvæmdar einstakra liða yfirlýsingarinnar. Ráðuneytið hefði brugðist vel við beiðninni og sent Íslandsdeild upplýsingar um stöðu 37 liða af 43 og í framhaldinu hefði Íslandsdeild skipt svörunum niður í fjóra flokka miðað við stöðu framkvæmdar hjá annars vegar utanríkisráðuneytinu og hins vegar Norðurskautsráðinu. Ari Trausti greindi frá niðurstöðum flokkunarinnar og sagðist vonast til að greiningin yrði til þess að betri yfirsýn skapaðist yfir starf nefndarinnar og hvaða vinna skilaði sér til Norðurskautsráðsins. Þá vonaðist hann til að framtakið nýttist í starfi nefndarinnar, m.a. við gerð ráðstefnuyfirlýsinga og til að sjá hverjar af tillögum nefndarinnar væru sýnilegar í yfirlýsingu Norðurskautsráðsins. Koma mætti í veg fyrir endurtekningar með yfirsýn sem þessari og gagnlegt væri að skoða hvernig hin aðildarríkin fylgdu eftir ráðstefnuyfirlýsingum nefndarinnar.
    Annað mál á dagskrá var umræða um skipulagningu næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar, sem hefði átt að halda í september 2020 í Tromsø en var frestað vegna COVID-19 og er nú fyrirhugað að haldin verði rafrænt 13.–14. apríl 2021. Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndarinnar, kynnti drög að dagskrá ráðstefnunnar fyrir nefndarmönnum og fór yfir skipulagningu hennar og boðslista. Þá sagði hann dagsetningu ráðstefnunnar miðast við að hún færi fram áður en næsti ársfundur Norðurskautsráðsins yrði haldinn í Reykjavík í maí 2021. Ráðstefnan skiptist í þrjá hluta og mundi fyrsti hluti hennar fjalla um loftslagsbreytingar á norðurslóðum, annar hluti um sjálfbæra efnahagsþróun og þriðji um mannlíf á norðurslóðum. Þá greindi hann jafnframt frá því að ráðstefnunni yrði streymt á YouTube.
    Næst var rætt um drög að ráðstefnuyfirlýsingu og tillögur aðildarríkjanna. Formaður nefndarinnar áréttaði mikilvægi þess að fókus yrði á þrjú þemu ráðstefnunnar í yfirlýsingunni. Nefndarmenn ræddu tillögur formanns og hvernig mögulegt væri að halda yfirlýsingunni eins hnitmiðaðri og stuttri og mögulegt væri auk þess hvernig best færi á að fylgja henni eftir í aðildarríkjunum. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að styrkja aðkomu frumbyggja að yfirlýsingunni og gera hana sýnilegri almenningi og Norðurskautsráðinu. Ari Trausti greindi frá því að eftir yfirferð Íslandsdeildar á drögum að yfirlýsingunni legði hún til að orðalagi yrði breytt þannig að mikilvægi þess að viðhalda friði á svæðinu yrði skýrara og fengi aukið vægi. Þá áréttaði formaður að ekki væri hefð fyrir því að þingmannanefndin ræddi um öryggismál nema þau tengdust leit og björgun á svæðinu. Sú umræða færi fram á öðrum vettvangi og ekki stæði til að breyta því að svo stöddu. Að lokum lagði hann til að nefndarmenn sendu breytingartillögur, ef einhverjar væru, til framkvæmdastjóra sem sendir nefndarmönnum uppfærð drög að ráðstefnuyfirlýsingu á næstu vikum. Ákjósanlegast væri að vinnu við ráðstefnuyfirlýsinguna yrði að mestu lokið af hálfu nefndarmanna áður en ráðstefnan fer fram rafrænt 13.–14. apríl nk.
    Þá kynntu formaður og framkvæmdastjóri samstarf þingmannanefndarinnar og Háskóla norðurslóða við gerð nýs vefsvæðis fyrir nefndina. Vefsvæði nefndarinnar hefur ekki verið uppfært í langan tíma og hefur því ekki nýst nefndinni sem skyldi. Framkvæmdastjóri hefur átt fundi með fulltrúum Háskóla norðurslóða vegna hönnunar, smíði og hýsingar á nýju vefsvæði og sendi nefndarmönnum drög að tilboði frá þeim fyrir fundinn. Í tilboðinu er gert ráð fyrir að vefurinn sé hýstur hjá Háskóla norðurslóða en að vefsvæðið sé aðskilið vefjum háskólans að öðru leyti. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að SCPAR hefði vefsvæði sem væri uppfært, gæfi raunhæfa mynd af því starfi sem nefndin ynni og hægt væri að nálgast fundargögn og annað efni þar á aðgengilega hátt. Nefndin hefði ekkert fjármagn þar sem aðildarríki greiddu ekki árgjöld og því legði formaður til að það aðildarríki sem væri í gestgjafahlutverki fyrir ráðstefnuna hverju sinni greiddi fyrir kostnað við hýsingu og uppfærslu en samkvæmt tilboði Háskóla norðurslóða er hann árlega um 2.000 evrur. Það kæmi því í hlut norska þingsins að greiða kostnað fyrir árið 2021, danska þingsins fyrir 2022 og 2023 og svo koll af kolli.
    Ari Trausti óskaði eftir að fá frekari útlistun á því hvað væri innifalið í árlegri upphæð sem greidd væri til Háskóla norðurslóða og tóku fleiri þingmenn undir orð hans. Framkvæmdastjóri greindi í framhaldinu frá því að innifalið í tilboðinu væri hönnun, hýsing og þróun á vefsvæðinu. Einnig hefðu nefndarmenn aðgang að innri vef fyrir fundargögn og skýrslur auk þess sem tæknimaður Háskóla norðurslóða mundi aðstoða framkvæmdastjóra við minni háttar breytingar og tæknileg atriði sem sneru að umsýslu vefsins. Nefndarmenn samþykktu tilboð Háskóla norðurslóða og hefst vinna við nýtt vefsvæði á næstu vikum.
    Að lokum ræddu nefndarmenn stöðu mála í aðildarríkjunum með áherslu á heimsfaraldur COVID-19 og áherslur nýrrar ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Öldungardeildarþingkonan Lisa Murkowsky greindi frá því að bólusetningar gengju vel í Bandaríkjunum en dauðsföll af völdum veirunnar væru nú orðin 500.000 sem væri sláandi tala og bæri vitni um alvarlegt ástand síðastliðið ár í landinu. Hún sagði neikvæð efnahagsáhrif faraldursins mikil og sérstaklega í dreifbýli. Þá sagði hún nýja ríkisstjórn Joes Bidens horfa til þeirra áherslna sem voru í ríkisstjórn Obama þar sem mikil áhersla hefði verið lögð á loftslagsbreytingar. Það að John F. Kerry hefði verið skipaður sérlegur erindreki Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum og að Bandaríkin væru aftur orðin aðili að Parísarsáttmálanum væru skýr merki um aukna áherslu á málaflokkinn. Þá greindi hún nefndarmönnum frá því að hún gæfi kost á sér sem næsti varaformaður nefndarinnar, en kosning formanns og varaformanns fer fram á næsta fundi SCPAR í apríl nk.
    Grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen greindi frá ástandinu af völdum COVID-19 og sagði það mun betra á Grænlandi og í Færeyjum en í Danmörku þar sem ástandið hefði verið mjög slæmt og miklar lokanir verið síðan í desember. Hún sagði stjórnmálaástandið á Grænlandi í mikilli upplausn um þær mundir en boðað hefði verið til kosninga 6. apríl 2021. Þá áréttaði hún framboð sitt til formanns þingmannanefndarinnar og óskaði eftir stuðningi við það en núverandi formaður gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Ari Trausti, formaður Íslandsdeildar, sagði frá ástandinu á Íslandi og helstu aðgerðum stjórnvalda. Hann sagði vel hafa tekist til við að stöðva útbreiðslu faraldursins undanfarið en efnahagsáhrifin væru alvarleg og aukið atvinnuleysi í landinu.
    Næsti fundur nefndarinnar fer fram rafrænt 13. apríl nk. og verður haldinn í tengslum við fyrirhugaða ráðstefnu nefndarinnar 13.–14. apríl 2021.

Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN af þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og fundum þingmannanefndar 13.–14. apríl 2021 (fjarfundir).


    Fjórtánda þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin sem fjarfundur 13.–14. apríl 2021, en af völdum heimsfaraldurs COVID-19 hafði henni verið frestað frá árinu 2020 þegar fyrirhugað var að halda hana í Tromsø í Noregi. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefnd um norðurskautsmál ráðstefnu um málefni norðurslóða. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu sem og að fylgjast með störfum Norðurskautsráðsins. Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, og Björn Leví Gunnarsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Ráðstefnan hófst með því að gestir voru ávarpaðir og boðnir velkomnir af Tone Wilhelmsen Trøen, þingforseta Stórþingsins í Noregi. Hún lagði í máli sínu m.a. áherslu á mikilvægi þess að virkja ungt fólk til þátttöku í samstarfi á norðurslóðum. Þá flutti Aili Keskitalo, formaður þings Sama í Noregi, ræðu þar sem hún gerði að umtalsefni alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á líf frumbyggja á norðurslóðum en mörg svæði hafa einangrast enn frekar en ella í faraldrinum. Þá tók til máls Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, og sagði frá formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019–2021, en Rússar áttu að taka við formennskunni til næstu tveggja ára í maí 2021. Hann sagði að þrátt fyrir heimsfaraldur COVID-19 hefði formennskan gengið vel og fá verkefni ráðsins hefðu frestast vegna faraldursins. Sjálfbær þróun hefði verið meginþema formennskuáætlunar Íslands og áhersla verið lögð á að styrkja og efla samstarf Norðurskautsráðsins innan allra þriggja stoða sjálfbærnihugtaksins, þ.e. umhverfismála, efnahagsmála og félagsmála. Þá hefði áhersla verið lögð á málefni hafsins, loftslagsmál og grænar lausnir í orkuframleiðslu og styrkingu samfélaga. Guðlaugur ræddi jafnframt um heimsfaraldurinn og þær áskoranir sem fámenn svæði norðurslóða glímdu við í baráttunni gegn honum.
    Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR), ávarpaði ráðstefnuna og ræddi m.a. um mikilvægi samstarfs norðurskautsríkjanna þar sem sjónum væri beint að loftslagsbreytingum og mannlífsþróun á svæðinu. Einnig ræddi hann um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og góðan árangur Norðurskautsráðsins. Hann sagði að það væru sameiginleg markmið allra ríkja norðurslóða að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu og að Norðurskautsráðið gegndi þar mikilvægu hlutverki. Þá lýsti hann yfir vonbrigðum með niðurstöður síðasta fundar Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Rovaniemi í maí 2019, og sagðist vonast til að betri niðurstöður næðust á næsta fundi ráðsins sem fyrirhugaður væri í maí 2021 í Reykjavík.
    Ráðstefnan skiptist í þrjá hluta og var fyrsti hluti hennar tileinkaður umfjöllun um loftslagsbreytingar á norðurslóðum, annar sjálfbærri efnahagsþróun og þriðji umfjöllun um mannlíf á norðurslóðum. Eirik Sivertsen hélt erindi um loftslagsbreytingar á norðurslóðum og sagði m.a. að íbúar norðurslóða væru fjórar milljónir og hefðu aðeins valdið broti af þeim loftslagsbreytingum sem ættu sér stað á svæðinu. Vandamálið kæmi annars staðar frá og því væri það heimsbyggðarinnar allrar að finna lausn á því. Nauðsynlegt væri að ríki heims sameinuðust í baráttunni og afar brýnt væri að næsti fundur loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem halda ætti í Glasgow í nóvember 2021, yrði gagnlegur og bindandi ákvarðanir teknar.
    Líneik Anna Sævarsdóttir tók þátt í umræðum um mannlíf á norðurslóðum og ítrekaði mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru. Þannig skapaðist tækifæri til að stuðla að raunverulegum breytingum þar sem ábyrgð fyrirtækja gagnvart íbúum norðurslóða væri skýr. Björn Leví Gunnarsson benti á mikilvægi stafrænnar tækni og lagði til að þingmannanefndin hittist oftar á rafrænum fundum og að ráðstefna CPAR yrði haldin árlega í stað annars hvers árs. Þá fór fram sérstök umræða um COVID-19 og hélt bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski erindi um efnahagslegar og félagslegar afleiðingar faraldursins. Hún sagði neikvæð áhrif heimsfaraldursins á framþróun víðtæk á svæðinu, samfélög hefðu víða einangrast og ljóst væri að innviði þyrfti að styrkja sérstaklega.
    Við undirbúning ráðstefnuyfirlýsingarinnar var skipuð sérstök nefnd sem hittist á þremur fjarfundum og fór yfir fram komnar athugasemdir og tillögur. Ari Trausti Guðmundsson var fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni og lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að auka aðgengi að stafrænni tækni á norðurslóðum og huga að málefnum hafsins auk jafnréttismála. Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt samhljóða ráðstefnuyfirlýsing sem að hluta til var beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar var m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa á svæðinu. Lögð var áhersla á endurnýjaðar og auknar skuldbindingar við Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 2015 og gerð metnaðarfullrar aðgerðaáætlunar fyrir norðurslóðir. Þá var lagt til að samstarf vísindamanna yrði aukið og frumkvæði haft að nýju heimskautaári.
    Enn fremur var lögð áhersla á sjálfbæra efnahagsþróun og aukið samstarf við efnahagsráð norðurslóða ( Arctic Economic Council). Varðandi mannlíf á norðurslóðum var lögð áhersla á aukið samstarf í heilbrigðismálum og mikilvægi þess að ungt fólk væri virkjað til ákvarðanatöku. Þá var sjónum beint að aukinni umræðu um öryggismál á svæðinu og lögð áhersla á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika. Að lokum var þátttakendum boðið til næstu ráðstefnu þingmannanefndar um norðurskautsmál sem fyrirhugað er að halda árið 2023 í Grænlandi.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni. Á fyrri fundi nefndarinnar, 13. apríl, var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drögin og þeim komið á framfæri við nefnd sem vann að gerð yfirlýsingar ráðstefnunnar. Á síðari fundi nefndarinnar, 14. apríl, lét Eirik Sivertsen, fulltrúi norska þingsins, af embætti formanns nefndarinnar en hann hafði gegnt því frá árinu 2015. Grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen var kosin nýr formaður nefndarinnar og bandaríska öldungardeildarþingkonan Lisa Murkowsky var kosin varaformaður nefndarinnar til næstu tveggja ára. Peder Pedersen, starfsmaður danska þingsins, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra þingmannanefndarinnar sl. ár gaf jafnframt kost á sér til áframhaldandi starfa.
    Á fundinum lagði rússneska landsdeildin jafnframt fram tillögu þess efnis að formennska í nefndinni skiptist á milli aðildarríkja annað hvert ár og fylgdi því landi sem væri í gestgjafahlutverki fyrir ráðstefnu nefndarinnar hverju sinni. Áfram yrði varaformaður nefndarinnar kosinn til tveggja ára. Máli sínu til stuðnings bentu Rússarnir á að sambærilegt fyrirkomulag væri í mörgum alþjóðanefndum og reyndist vel. Eirik Sivertsen lagði til að tillagan yrði rædd nánar á næsta fundi þingmannanefndarinnar eftir frekari umhugsun. Aaja Chemnitz Larsen sagði tillöguna áhugaverða en hafði áhyggjur af því að tvö ár væru of stuttur tími til að gegna formennsku þar sem langan tíma tæki að koma sér inn í starfið og því gagnlegra að geta gegnt því í lengri tíma. Þá tók Ari Trausti Guðmundsson til máls og greindi frá því að hann mundi ekki sækjast eftir endurkjöri í þingkosningum til Alþingis sem fram færu 25. september 2021. Hann þakkaði gott og gefandi samstarf og greindi frá því að Íslandsdeild þingmannanefndar um norðurslóðamál hefði rætt það að halda mætti ráðstefnu CPAR árlega í stað annars hvers árs.
    Það var samhljóma álit nefndarmanna að ráðstefnan hefði heppnast vel og að mikilvægt væri að samþykktri yfirlýsingu ráðstefnunnar yrði komið á framfæri við Norðurskautsráðið, stjórnvöld og hlutaðeigandi aðila í aðildarríkjum nefndarinnar.
    Fyrirhugað er að halda næsta fund þingmannanefndarinnar í Bandaríkjunum seinni hluta árs 2021. Þá mun nýr formaður nefndarinnar taka ákvörðun um hvort haldinn verði rafrænn fundur fyrir fundinn í Bandaríkjunum í ljósi þróunar COVID-19.