Ferill 349. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 738  —  349. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn sandkola og hryggleysingja).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnar Braga Bragason og Guðmund Jóhannesson frá matvælaráðuneyti, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Halldór G. Ólafsson og Unni Valborgu Hilmarsdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Jóhönnu Ösp Einarsdóttur, Sigríði Kristjánsdóttur og Aðalstein Óskarsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Elliða Vignisson frá Sveitarfélaginu Ölfusi, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, Heiðmar Guðmundsson og Kristján Þórarinsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Þorstein Sigurðsson og Guðmund Þórðarson frá Hafrannsóknastofnun, Pál Aðalsteinsson og Valentínus Guðnason frá Bátafélaginu Ægi í Stykkishólmi, Stefán Guðmundsson frá grásleppuútgerðum og vinnslum á Húsavík, Ólaf Örn Ásmundsson frá Þórishólma ehf., Jakob Björgvin Jakobsson frá Stykkishólmsbæ og Axel Helgason, Einar E. Sigurðsson og Kára Borg.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bátafélaginu Ægi í Stykkishólmi, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, grásleppuútgerðum og vinnslum á Húsavík, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Stykkishólmsbæ, Sveitarfélaginu Ölfusi og Þórishólma ehf. auk umsagna frá einstaklingum.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ráðherra verði heimilað að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert veiðisvæði í stað einnar hlutdeildar fyrir allt landið. Þá er lagt til að tekin verði upp aflamarksstjórn á sæbjúgum og að aflahlutdeild í sandkola verði afmörkuð nánar. Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.
    Almennt var lýst stuðningi við efni frumvarpsins í þeim umsögnum sem nefndinni bárust og við meðferð málsins fyrir henni.
    Í umsögn Landssambands smábátasjómanna um málið segir að verði þær tegundir sem hér er fjallað um hlutdeildartengdar skuli gilda um þær sömu reglur þegar kemur að greiðslu veiðigjalda og um aðrar tegundir sem bundnar eru kvóta. Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að um óverulegar fjárhæðir er að ræða, sbr. 6. kafla um mat á áhrifum. Þar komi fram að afkoma sé lítil og því líklegt að ekki verði skilyrði til að leggja gjald á veiðar á hryggleysingjum. Í því samhengi vísar meiri hlutinn til þess að í 3. mgr. 3. gr. laga um veiðigjald segir að nytjastofnar sem hafa minna aflaverðmæti en 100 millj. kr. á ári samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára mynda ekki stofn veiðigjalds.
    Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er lýst stuðningi við að ráðherra sé veitt heimild til hlutdeildarsetningar staðbundinna stofna niður á svæði í stað þess að ein heimild taki til landsins alls. Mikilvægi þess að skýr og málefnaleg greining á hugtökum liggi fyrir við ákvörðun hlutdeildarsvæðis fyrir hvern stofn fyrir sig er jafnframt ítrekað. Þess hafi ekki verið nægilega gætt þegar kemur að veiði sæbjúgna en samtökin styðja þá leið sem lögð er til í frumvarpinu um veiðistjórn þeirra með fyrirvara um réttan skilning á þeirri útfærslu. Jafnframt hvetja samtökin nefndina til að kanna hjá Hafrannsóknastofnun hvort rétt væri að sameina ákveðin veiðisvæði með tilliti til veiðislóða skipa. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að hugað verði að breytingum og telur mikilvægt að skoðað verði hvort ekki sé rétt að fella niður hólfaskiptingu en hafa svæðin að öðru leyti óbreytt. Þegar komin er reynsla á breytta stjórn veiðanna sé mikilvægt að skoða hvort þörf sé á frekari lagabreytingum.
    Í umsögnum til nefndarinnar er hvatt til þess að rannsóknir séu efldar með vísan til umræðu um sjálfbæra nýtingu bæði smárra nytjastofna og sjávargróðurs og mótuð stefna þar um. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið.
    Meiri hlutinn telur að hlutdeildarsetning staðbundinna tegunda eins og hryggleysingja, hér ígulkera og sæbjúgna, hafi í för með sér aukinn stöðugleika fyrir þau fyrirtæki sem byggja afkomu sínu á veiðum þeirra og vinnslu. Hlutdeildarsetningin treysti byggð og tryggi heilsársstörf sem hafa tapast sökum skorts á fyrirsjáanleika veiðanna undanfarin ár. Þá fagnar meiri hlutinn sérstaklega þeim umhverfissjónarmiðum sem fylgja frekari veiðistjórn á hryggleysingjum.
    Í umsögnum til nefndarinnar kom fram að sambærilegar forsendur gætu legið til grundvallar hlutdeildarsetningu ígulkera og hjá sæbjúgum og tekur meiri hlutinn undir það sjónarmið. Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á því að með samþykkt frumvarps þessa sé búið að lögfesta heimild til hlutdeildarsetningar staðbundinna stofna hryggleysingja. Þar með verði hægt að hefja undirbúning að hlutdeildarsetningu ígulkera fyrir næsta fiskveiðiár.

Hlutdeildarsetning grásleppu.
    Málið var áður til meðferðar í nefndinni á 151. löggjafarþingi og varð ekki útrætt en úr frumvarpinu hafa verið felld ákvæði sem vörðuðu veiðistjórn grásleppu. Nefndinni barst fjöldi umsagna þar sem kallað var eftir hlutdeildarsetningu á grásleppu og telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að stefnt sé að markvissari veiðistýringu hrognkelsa. Jafnframt beinir meiri hlutinn því til ráðherra að leggja áherslu á að víðtæk sátt náist um fyrirkomulag veiðanna. Horfa þurfi til svæða og aðgerða til þess að sporna við samþjöppun. Jafnframt telur meiri hlutinn að vel þurfi að huga að því að ekki verði stundaðar kappveiðar þar til nýtt fyrirkomulag tekur gildi.

    Breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Í stað orðanna „Heimilt er“ í 1. gr. komi: Ráðherra er heimilt.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna „2018/2018“ í b-lið b-liðar, sem verði b-liður a-liðar, komi: 2018/2019.
                  b.      Í stað orðanna „220/2021“ í b-lið c-liðar, sem verði b-liður b-liðar, komi: 2020/2021.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (veiðistjórn sandkola og hryggleysingja).

Alþingi, 24. mars 2022.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, frsm. Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Hildur Sverrisdóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.