Ferill 602. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 845  —  602. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2021.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.
    Heimsfaraldur kórónuveiru setti mark sitt á starf þingmannanefnda EFTA og EES annað árið í röð eins og allt annað alþjóðastarf Alþingis. Nefndirnar löguðu sig að breyttum aðstæðum með því að færa starf sitt í fjarfundarform árið 2020 og héldu því áfram stóran hluta ársins 2021. Í stað hefðbundinna fundarhalda í aðildarríkjum EFTA og í starfsstöðvum Evrópuþingsins voru skipulagðir fleiri og styttri fjarfundir. Heimsfaraldurinn sjálfur og áhrif hans á EES-samstarfið voru í brennidepli í starfi þingmannanefndanna á árinu. Farið var reglulega yfir stöðu faraldursins í einstökum aðildarríkjum EFTA, efnahagsleg áhrif hans og viðbrögð stjórnvalda. Þá var fjallað um ýmislegt samstarf EFTA og ESB honum tengt. Þátttaka EFTA-ríkjanna í sameiginlegum pöntunum og innkaupum ESB á bóluefni var einkar mikilvæg svo og samvinna sóttvarnayfirvalda og lyfjastofnana EFTA-ríkjanna við sambærilegar stofnanir innan ESB. Þá var samvinna EFTA-ríkjanna við ESB um samræmd bólusetningarvottorð veigamikill þáttur í því þegar komið var á frjálsri för yfir landamæri innan EES að nýju.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. Fríverslunarsamningar fela í sér lækkun tolla og aukinn fyrirsjáanleika í alþjóðaviðskiptum, t.d. með ákvæðum um upprunareglur og takmörkunum á beitingu tæknilegra viðskiptahindrana. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Samanlagt eru þessi fríverslunarsamstarfsríki næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við Indland, Malasíu, Moldóvu og Víetnam. Fríverslunarviðræður eru á lokastigi við Mercosur, sem er tollabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs, og vonast er til að sá samningur verði undirritaður fljótlega. Það hægðist á viðræðum EFTA við samstarfsríki í heimsfaraldri kórónuveiru þótt þeim hefði að hluta verið haldið gangandi með fjarfundarbúnaði. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna slíka samninga og afla stuðnings við gerð þeirra. Vegna heimsfaraldursins fór engin slík heimsókn fram á árinu. Þingmannanefndin áformar för til Taílands en vonast er til að fríverslunarviðræður hefjist að nýju við Taílendinga á næstunni eftir hlé. Á fundum þingmannanefndar EFTA og ráðherra EFTA á árinu var einnig rætt um eftirfylgni með því að ákvæði fríverslunarsamninga EFTA um sjálfbæra þróun og vinnuvernd yrðu virt og um gagnsæi og upplýsingagjöf við fríverslunarviðræður.
    Ítrekað var fjallað um málefni uppbyggingarsjóðs EES og Noregs á starfsárinu. Uppbyggingarsjóðurinn er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Markmið hans er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA-ríkjanna í EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Fjallað var um áskoranir í samstarfi uppbyggingarsjóðsins við Pólland og Ungverjaland. Staða Póllands og styrkveitingar úr sjóðnum hafa verið í brennidepli undanfarna mánuði og m.a. komið til umfjöllunar í þingmannanefnd EES í þrígang auk þess sem sendinefnd EFTA-þingmanna heimsótti Varsjá vegna málefna sjóðsins.
    Yfirlýsingar nokkurra pólskra héraðsstjórna og sveitarfélaga um að vera svæði sem eru laus við hugmyndafræði hinsegin fólks vöktu hörð viðbrögð og undirstrikuðu þingmenn í ályktunum að slík sveitarfélög gætu ekki komið til greina við styrkveitingu úr uppbyggingarsjóði EES. Einungis þeir sem virði réttindi hinsegin fólks komi til greina sem styrkþegar uppbyggingarsjóðsins. Hvað Ungverjaland varðar náðist ekki samkomulag við þarlend stjórnvöld um hvernig staðið skyldi að úthlutun styrkjanna á yfirstandandi styrkjatímabili og því gengu engir styrkir til landsins.
    Af öðrum málum sem voru á dagskrá þingmannanefnda EFTA og EES má að lokum nefna viðskiptastefnu ESB, hinn græna sáttmála ESB og löggjöf á sviði loftslagsmála, sambandið við Bretland, málefni norðurslóða, samband Sviss við ESB og þátttöku EFTA-ríkja í áætlunum ESB.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Ísland á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og þrisvar fundar hún með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er nefndin hluti af stofnanakerfi samningsins. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem eiga aðild að EES (EFTA-hluta sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom saman tvisvar á ári framan af, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Fram að alþingiskosningum 25. september áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES: Smári McCarthy, formaður, þingflokki Pírata, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, Páll Magnússon, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Ingibjörg Isaksen, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingflokki Pírata, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Diljá Mist Einarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Gísli Rafn Ólafsson, þingflokki Pírata, Jódís Skúladóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sigmar Guðmundsson, þingflokki Viðreisnar, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2021 var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA, þingmannanefndar EES og sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB á árinu 2021.
    Starfsemi nefndanna markaðist af heimsfaraldri kórónuveiru á starfsárinu. Í stað hefðbundinna fundarhalda í aðildarríkjunum og í starfsstöðvum Evrópuþingsins voru skipulagðir fleiri og styttri fjarfundir. Hér að aftan verður gerð stuttlega grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð. Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB fundaði ekki á árinu.

Fundur þingmannanefndar EFTA 4.–5. febrúar.
    Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES tóku þátt Smári McCarthy, formaður, og Vilhjálmur Árnason, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á dagskránni, sem helguð var viðskiptamálum, var m.a. þróun viðskiptastefnu EFTA annars vegar og ESB hins vegar, fríverslunarsamningur ESB og Bretlands og fjárfestingarsamningur ESB við Kína.

Fundur þingmannanefndar EFTA 30.–31. mars.
    Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES tóku þátt Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á dagskrá var m.a. hinn græni sáttmáli ESB og löggjöf á sviði loftslagsmála, framfylgd og eftirlit með fríverslunarsamningum ESB og þjóðaratkvæðagreiðsla í Sviss um fríverslunarsamning EFTA við Indónesíu sem fram fór 7. mars.

Fundur þingmannanefndar EES 28. apríl.
    Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES tóku þátt Smári McCarthy, formaður, Hanna Katrín Friðriksson og Ólafur Þór Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á dagskrá var m.a. framkvæmd og þróun EES-samningsins, samstarf í viðbrögðum við heimsfaraldri kórónuveiru, samskipti ESB og Sviss og samskipti við Bretland eftir Brexit.

Fundur þingmanna og ráðherra EFTA 31. maí.
    Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES tóku þátt Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á dagskrá var m.a. þróun fríverslunarsamninga EFTA við svokölluð þriðju ríki utan ESB, eftirlit með því að ákvæði fríverslunarsamninga EFTA um sjálfbæra þróun og vinnuvernd væru virt, gagnsæi og upplýsingagjöf við fríverslunarviðræður og sambandið við Bretland eftir Brexit.

Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA 15. júní.
    Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES tóku þátt Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á dagskrá var einkum undirbúningur fyrir fund þingmannanefndar EES í Reykjavík í ágúst auk þess sem niðurstöður nýlegs fundar þingmanna og ráðherra EFTA voru ræddar.

Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES 17. júní.
    Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES tóku þátt Smári McCarthy, formaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á dagskrá var einkum undirbúningur fyrir fund þingmannanefndar EES í Reykjavík í ágúst.

Fundur þingmannanefndar EES í Reykjavík 25. ágúst.
    Fundurinn fór fram í Hörpu og var fyrsti staðfundur í þingmannasamstarfi á vettvangi EFTA og EES í tæpa 19 mánuði. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á dagskrá var m.a. staða EES-samstarfsins, þátttaka EFTA-ríkjanna innan EES í áætlunum ESB, uppbyggingarstyrkir EES og Noregs auk málefna norðurslóða. (Sjá fylgiskjal I.)

Fundur þingmanna og ráðherra EFTA í Brussel 23.–24. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Í Brussel átti þingmannanefnd EFTA fund með formanni ráðherraráðs EFTA um fríverslunarmál og fund með formanni utanríkisráðherra EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið. Að auki hélt þingmannanefndin eigin fund þar sem helstu dagskrármál voru loftslagsmál, samskipti ESB og Bretlands, innri markaðurinn og COVID-19 og regluverk á sviði gervigreindar. (Sjá fylgiskjal II.)

Heimsókn framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA til Varsjár 25.–26. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sótti fundina Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður, auk Stígs Stefánssonar ritara. Tilgangur heimsóknarinnar til Varsjár var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og frjáls félagasamtök um verkefni sem fjármögnuð eru með uppbyggingarstyrkjum EES og Noregs í Póllandi. (Sjá fylgiskjal III.)

5. Ályktanir árið 20201.
Ályktun þingmannanefndar EES:
     .      Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2020, samþykkt á fjarfundi 28. apríl 2021.

Alþingi, 4. apríl 2022.

Ingibjörg Isaksen,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
varaform.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Diljá Mist Einarsdóttir.


Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af 56. fundi þingmannanefndar EES í Reykjavík 25. ágúst 2021.


    Fundur þingmannanefndar EES var haldinn í Hörpu. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Smári McCarthy, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á meðal dagskrármála fundarins var staða EES-samstarfsins, þátttaka EFTA-ríkjanna innan EES í áætlunum ESB, uppbyggingarstyrkir EES og Noregs auk málefna norðurslóða.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögu í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Frummælendur voru Ales Zabukovec fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Lucie Samcová-Hall Allen fyrir hönd formennsku ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, Rolf Einar Fife fyrir hönd formennsku EFTA í sameiginlegu EES-nefndinni og EES-ráðinu, og Frank Büchel úr stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í umfjöllun þeirra og umræðunni sem á eftir fylgdi var fjallað um stöðu EES-samstarfsins á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru og hve vel hefði tekist til við sameiginleg innkaup á bóluefni, um samræmingu og útgáfu bólusetningarvottorða og um samræmdar aðgerðir ESA og framkvæmdastjórnar ESB vegna nauðsynlegrar ríkisaðstoðar til þess að vinna gegn efnahagssamdrætti. Þá hefði gengið vel að halda sameiginlegu EES-nefndinni að verki í faraldrinum en á vettvangi hennar taka fulltrúar EFTA-ríkjanna innan EES og framkvæmdastjórnar ESB ákvarðanir um upptöku regluverks ESB í EES-samninginn. Fram kom að það sem af væri ári hefðu 392 gerðir verið teknar upp í EES-samninginn en þó biði mikill fjöldi upptöku.
    Í umfjöllun um uppbyggingarsjóð EES flutti Árni Páll Árnason, varaforstjóri sjóðsins, framsögu. Uppbyggingarsjóðurinn er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Markmið sjóðsins er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA-ríkjanna í EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Sjóðurinn stuðlar að umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa lakar í efnahagslegu tilliti. Starfsemi sjóðsins er skipulögð í sjö ára tímabilum, nú síðast tímabilinu 2014–2021.
    Í umræðum um uppbyggingarsjóðinn var m.a. fjallað um áskoranir í samstarfi sjóðsins við Pólland og Ungverjaland. Staða Póllands og styrkveitingar úr sjóðnum hafa verið í brennidepli undanfarna mánuði og m.a. komið til umfjöllunar í þingmannanefnd EES í tvígang. Í ályktun þingmannanefndar EES frá 16. nóvember 2020 er harmað að nokkrar pólskar héraðsstjórnir og sveitarfélög hafi lýst sig sérstök svæði sem séu laus við hugmyndafræði hinsegin fólks. Þá er tekið undir yfirlýsingar framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins um að slíkt brjóti í bága við evrópsk grunngildi, og loks hvatt til þess að slík sveitarfélög komi ekki til greina við styrkveitingu úr uppbyggingarsjóði EES. Í ályktun þingmannanefndar EES frá 28. apríl 2021 er því fagnað að Evrópuþingið hafi lýst Evrópu frjálst svæði fyrir hinsegin fólk og hvatt til þess að einungis þeir sem virði réttindi hinsegin fólks komi til greina sem styrkþegar uppbyggingarsjóðsins. Hvað Ungverjaland varðar náðist ekki samkomulag við þarlend stjórnvöld um hvernig staðið skyldi að úthlutun styrkjanna á yfirstandandi styrkjatímabili, 2014–2021, og því gengu engir styrkir til landsins.
    Þá var fjallað um fyrirhugað landamæraaðlögunarkerfi ESB fyrir kolefni (e. Carbon Border Adjustment Mechanism). Með kerfinu er ætlunin að leggja kolefnislosunargjald á vörur sem fluttar eru til Evrópu ef slík gjöld eru ekki lögð á í framleiðsluríkinu. Slíku gjaldi er ætlað að koma í veg fyrir undirboð á kostnað umhverfisins og tryggja jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja innan ESB sem greiða kostnað vegna kolefnislosunar við framleiðslu sína. Enn fremur er gjaldið hugsað sem hvati til framleiðsluríkja utan ESB til að koma á eigin kolefnisgjaldi og hvetja til umhverfisvænni framleiðslu.
    Loks var fjallað um málefni norðurslóða og voru Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, og Michael Mann, sendiherra ESB fyrir norðurslóðir, framsögumenn. Í máli þeirra og umræðum sem á eftir fylgdu var m.a. fjallað um ástæður þess að vægi svæðisins hefur aukist mjög á undanförnum árum. Í fyrsta lagi er það vegna loftslagsbreytinga sem eru meiri á norðurslóðum en annars staðar og hafa afleiðingar langt út fyrir svæðið. Ef 20% af Grænlandsjökli bráðna hækkar yfirborð sjávar um tvo metra. Þá er bráðnun íshellunnar á norðurslóðum ein helsta ástæða aukinna öfga í veðurfari um heim allan. Í öðru lagi hafa auðlindir á norðurslóðum aukið pólitískt jafnt sem efnahagslegt vægi svæðisins. Þannig er Grænland t.d. ríkt af sjaldgæfum málmum sem eru nauðsynlegir í ýmsa hátækniframleiðslu. Bandaríkin gætu keypt slíka málma í auknum mæli frá Grænlandi í stað þess að vera háð Kína um slík kaup. Í þriðja lagi eru samgöngur, annars vegar aukin umferð fragtskipa með opnun nýrra siglingaleiða og hins vegar auknar flugsamgöngur yfir norðurskautið. Fram kom að ESB mundi kynna endurskoðaða norðurslóðastefnu sína á ráðstefnunni Hringborð norðurslóða í október 2021 þar sem áhersla á umhverfis- og loftslagsmál yrði í forgrunni. Aðkoma ESB að málefnum norðurslóða er annars vegar fyrir milligöngu þriggja aðildarríkja sambandsins sem eru norðurslóðaríki og hins vegar horfir ESB til þess að þróun mála á norðurslóðum, einkum hvað varðar loftslagsbreytingar, hefur áhrif á alla Evrópu og víðar.


Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af fundum þingmannanefndar EFTA í Brussel 23.–24. nóvember 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Í Brussel átti þingmannanefnd EFTA fund með formanni ráðherraráðs EFTA um fríverslunarmál og fund með formanni utanríkisráðherra EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið. Að auki hélt þingmannanefndin eigin fund þar sem helstu dagskrármál voru loftslagsmál, samskipti ESB og Bretlands, innri markaðurinn og COVID-19 og regluverk á sviði gervigreindar.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með formanni ráðherraráðs EFTA, Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, var fjallað um fríverslunarmál. Hnattræn viðskipti drógust verulega saman vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, ekki síst á sviði þjónustuviðskipta þegar ferðamennska hrundi í kjölfar strangra sóttvarnaráðstafana. Vöruútflutningur EFTA-ríkjanna dróst saman um 9% frá 2019 til 2020 og innflutningur um 8%. Það sem af er ári 2021 hafa viðskipti leitað í fyrra horf og nálgast aftur það sem var árið 2019.
    Á fundinum var farið yfir stöðu fríverslunarsamninga EFTA við svokölluð þriðju ríki utan Evrópusambandsins. Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum og hafa samtök ríkja og einstök lönd í auknum mæli beint sjónum sínum að gerð tvíhliða eða marghliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar samtakanna nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Samningarnir taka alls til um 12% af útflutningsviðskiptum EFTA-ríkjanna. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna þá og afla stuðnings við gerð þeirra.
    EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við Indland, Malasíu, Moldóvu og Víetnam. Þá hefur verið ákveðið að hefja viðræður við Kósóvó. Enn fremur er vonast til að hægt verði að hefja viðræður á ný við Taíland á næstu misserum. Fríverslunarsamningi er efnislega lokið við Mercosur, sem er tollabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs. Samningurinn sætir nú lagalegri skoðun og bíður undirritunar. Loks er unnið að uppfærslu eldri fríverslunarsamninga við Síle og Tollabandalag Suður-Afríkuríkja (SACU).
    Þá var farið yfir helstu áherslur Íslands meðan á eins árs formennsku í ráðherraráði EFTA stendur. Þær eru m.a. að styrkja EFTA sem helsta vettvang viðskiptastefnu aðildarríkjanna; að auka sameiginlega upplýsingagjöf og gagnsæi á sviði viðskiptasamninga og viðskiptastefnu; að styrkja eftirlit með því að ákvæði fríverslunarsamninga um sjálfbærni séu virt; að sækja fram í yfirstandandi fríverslunarviðræðum við samstarfsríki og vinna jafnframt að uppfærslu eldri fríverslunarsamninga; að horfa til þess að hefja fríverslunarviðræður við ný samstarfsríki; og að fylgjast grannt með þróun fríverslunarmála á heimsvísu, einkum viðskiptastefnu Bretlands og þróun svæðisbundinna fríverslunarsamninga í Asíu.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með utanríkisráðherra Noregs, Anniken Huitfeldt, og sendiherrum Íslands og Liechtensteins var fjallað um stöðu EES-samstarfsins og m.a. farið yfir fund EES-ráðsins sem ráðgerður var sama dag en þar funduðu fulltrúar EFTA-ríkjanna innan EES með fulltrúum ráðs, framkvæmdastjórnar og utanríkisþjónustu ESB. Fram kom að þvert á venju yrði fundi EES-ráðsins ekki lokið með sameiginlegri yfirlýsingu þar sem eitt ríki ESB, Ungverjaland, beitti sér gegn slíku. Að baki er talin óánægja ungverskra stjórnvalda með þá áherslu sem lögð er á samstarf við frjáls félagasamtök, lýðræðið, mannréttindi og réttarríkið í verkefnum uppbyggingarsjóðs EES. Ísland, Noregur og Liechtenstein fjármagna sjóðinn sem er ætlað að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki náðist samkomulag við ungversk stjórnvöld um hvernig staðið skyldi að úthlutun styrkjanna á yfirstandandi styrkjatímabili, 2014–2021, og því gengu engir styrkir til landsins.
    Á fundinum gerði Huitfeldt grein fyrir helstu áherslum nýrrar norskrar ríkisstjórnar í EES-samstarfinu. Þær eru í fyrsta lagi áhersla á að frjáls för og opinn vinnumarkaður stuðli ekki að félagslegum undirboðum. Í öðru lagi er lögð áhersla á loftslagsmál og framfylgd samkomulags loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow þar sem Norðmenn hefðu viljað sjá sterkari skuldbindingar en af varð. Loks leggur stjórnin áherslu á að styrkja lýðræðið og réttarríkið sem hefur átt undir högg að sækja í nokkrum ríkjum innan EES. Í því sambandi væru uppbyggingarstyrkir EES og Noregs mikilvægt tæki.
    Í umfjöllun þingmannanefndar EFTA um innri markaðinn og COVID-19 kom fram að komist hefði verið fyrir helstu aðfangavandamál sem fylgdu heimsfaraldrinum í upphafi. Helstu hagvísar bentu í rétta átt og góður bati hefði verið í hagkerfum innri markaðarins árið 2021. ESB hefði náð að auka framleiðslugetu á bóluefni stórlega með styrkjum til framleiðenda sem hefði hraðað opnun hagkerfanna. Mikilvægasta skrefið þar var að koma á frjálsri för yfir landamæri innan EES en samræmd bólusetningarvottorð ESB voru þar mikilvægur þáttur. EFTA-ríkin nota hin samræmdu bólusetningarvottorð en alls hafa um 600 milljónir eintaka verið gefin út af þeim.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af fundum framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Varsjá 25.–26. nóvember 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sótti fundina Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Tilgangur heimsóknarinnar til Varsjár var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og frjáls félagasamtök um verkefni sem fjármögnuð eru með uppbyggingarstyrkjum EES og Noregs í Póllandi. Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Markmið sjóðsins er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA-ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Sjóðurinn stuðlar að umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa lakar í efnahagslegu tilliti. Pólland hefur verið stærsta viðtökuríki styrkjanna en næstum 2 milljörðum evra hefur verið varið til verkefna þar í landi. Verkefnin hafa m.a. verið á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar, baráttu gegn atvinnuleysi ungs fólks, sjálfbærni, byggðaþróunar og styrkingar frjálsra félagasamtaka og réttarríkisins.
    Staða Póllands og styrkveitingar úr uppbyggingarsjóði EES hafa verið í brennidepli undanfarna mánuði og m.a. komið til umfjöllunar í þingmannanefnd EES í tvígang. Í ályktun þingmannanefndar EES frá 16. nóvember 2020 er harmað að nokkrar pólskar héraðsstjórnir og sveitarfélög hafi lýst sig sérstök svæði sem séu laus við hugmyndafræði hinsegin fólks. Tekið er undir yfirlýsingar framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins um að slíkt brjóti í bága við evrópsk grunngildi, og loks hvatt til þess að slík sveitarfélög komi ekki til greina við styrkveitingu úr uppbyggingarsjóði EES. Í ályktun þingmannanefndar EES frá 28. apríl 2021 er því fagnað að Evrópuþingið hafi lýst Evrópu frjálst svæði fyrir hinsegin fólk og hvatt til þess að einungis þeir sem virði réttindi hinsegin fólks komi til greina sem styrkþegar uppbyggingarsjóðsins.
    Þá hefur réttindastaða kvenna í Póllandi sætt gagnrýni eftir að pólsk stjórnvöld lýstu yfir vilja til að segja sig frá Istanbúl-sáttmála Evrópuráðsins sem miðar að því að draga úr heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum. Þá hefur löggjöf um þungunarrof verið þrengd en í janúar 2021 samþykkti pólska þingið lög sem heimila þungunarrof einungis ef þungunin er í kjölfar nauðgunar eða ógnar lífi eða heilsu móður.
    Loks hafa breytingar stjórnvalda á skipan dómstóla í Póllandi sætt gagnrýni að undanförnu, enda virðast þær í heild miða að því að draga úr sjálfstæði dómara þar í landi gagnvart löggjafar- og framkvæmdarvaldi. Hluti þeirra lagabreytinga sem pólska stjórnin hefur gripið til varðar m.a. lækkun eftirlaunaaldurs dómara og pólitíska skipan í dómstólaráð landsins, en ráðið gerir tillögur um skipan nýrra dómara.
    Í Varsjá átti sendinefnd þingmanna EFTA fundi með fulltrúum beggja deilda pólska þingsins. Viðmælendur í efri deild voru Tomasz Grodzki, forseti efri deildar, Bogdan Klich, formaður utanríkis- og Evrópunefndar, og Zygmunt Frankiewicz, formaður nefndar um svæðisstjórnir og sveitarfélög. Viðmælendur í neðri deild þingsins voru Anita Czerwinska, varaformaður Evrópunefndar, Marek Ast, formaður dómsmála- og mannréttindanefndar, Wanda Nowicka, formaður nefndar þjóðernisminnihluta, og Tomasz Lawniczak, formaður nefndar svæðisstjórna og byggðastefnu. Sendinefndin fundaði einnig með Malgorzötu Jarosinsku- Jedynak, aðstoðarráðherra ráðuneytis þróunarsjóða og byggðastefnu. Þá var fundað með fulltrúum frjálsra félagasamtaka, m.a. samtaka hinsegin fólks, dómarafélags og samtaka sem aðstoða flóttafólk.
    Formaður sendinefndarinnar, Günter Vogt, þingmaður frá Liechtenstein, flutti framsögu á öllum fundum með pólskum viðmælendum. Hann lýsti þungum áhyggjum af stjórnmálaþróun í Póllandi, sérstaklega er varðaði breytingar á sviði dómsmála, réttindi minnihlutahópa og stöðu réttarríkisins. Hann undirstrikaði að fyrir þingmenn í EFTA-ríkjum kæmi ekki til greina að gera neinar málamiðlanir þegar kæmi að grunngildum lýðræðisins, mannréttinda og réttarríkisins. Nú þegar samningaviðræður um nýtt sjö ára tímabil uppbyggingarstyrkja EES stæðu fyrir dyrum væri það skýrt af hálfu EFTA-þingmanna að virðing fyrir þessum grunngildum væri forsenda styrkveitinga á nýju tímabili. Styrkirnir væru fjármagnaðir af skattgreiðendum í EFTA-ríkjunum og yrðu því að vera í takt við gildi þeirra.
    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók undir skilaboð formanns sendinefndarinnar og fjallaði sérstaklega um réttindi kvenna til þungunarrofs og réttindi hinsegin fólks. Þá fjallaði hún um tvíhliða samskipti Íslands og Póllands og undirstrikaði hve fjölmennt og sterkt pólska samfélagið á Íslandi væri. Tæplega 21 þúsund Pólverjar byggju á Íslandi sem svaraði til um 5,7% íbúa landsins. Bjarkey greindi frá skýrslunni Vinátta og vaxtarbroddar: Samskipti Íslands og Póllands sem starfshópur skipaður af utanríkisráðherra sendi frá sér í september 2021 og fór stuttlega yfir helstu tilmæli hennar til að styrkja samband ríkjanna á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar. Á stjórnmálasviðinu er lögð áhersla á opnun sendiskrifstofu í Varsjá en Pólverjar opnuðu sendiskrifstofu í Reykjavík þegar árið 2013. Hvað efnahagssamvinnu varðar er m.a. horft til orkumála, jarðvarmavirkjunar og sjávarútvegsmála.
    Svör viðmælenda í Varsjá við málflutningi þingmanna EFTA skiptust skýrt eftir stjórn og stjórnarandstöðu. Fulltrúar stjórnarandstöðu gagnrýndu ástandið heima fyrir harðlega og vonuðust til að eftir þingkosningar, sem ráðgerðar eru árið 2023, sneri landið aftur til evrópskra grunngilda. Fulltrúar stjórnar vörðu aðgerðir stjórnvalda af krafti.
    Auk uppbyggingarstyrkja EES og þeirra mála sem að framan voru nefnd var fjallað um ástandið á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands þar sem fjöldi flóttamanna frá Mið-Austurlöndum hefur freistað þess að komast til Póllands. Pólsk stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á landamærunum og bannað aðgang fjölmiðla og mannúðarsamtaka að svæðinu. Fram kom að stjórn og stjórnarandstaða væru sammála um að tryggja öryggi landamæranna en greindi á um aðgang fyrir mannúðaraðstoð. Fulltrúar mannúðarsamtaka lýstu aðstæðum flóttafólks við landamærin sem harðneskjulegum og gagnrýndu pólsk stjórnvöld fyrir að vísa flóttafólki frá við landamærin án þess að taka beiðni þess um alþjóðlega vernd til greina.