Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 914  —  185. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um áhafnir skipa.

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að fjórir lagabálkar verði sameinaðir í ein lög um áhafnir skipa. Markmið frumvarpsins er ekki að gera umfangsmiklar breytingar á þeim efnislegu reglum sem gilda um málaflokkinn heldur fyrst og fremst að stuðla að einföldun regluverks. Núverandi lagaumhverfi má kalla óþarflega flókið og er endurskoðun laganna mikilvægur þáttur í að auka skýrleika gagnvart þeim sem eftir þeim starfa.
    Í frumvarpinu er þó að finna efnislega breytingu sem 1. minni hluti nefndarinnar telur ástæðu til að gera athugasemd við. Með 10. og 18. gr. frumvarpsins eru undanþágu- og mönnunarnefndir skipa lagðar af og verkefni þeirra fengin Samgöngustofu. Er breytingin rökstudd þannig að henni sé ætlað að bæta skilvirkni, auka samræmi og sérhæfingu, en stofnunin hefur haft ákvarðanir um undanþágu frá réttindum til skipstjórnar- og vélstjórnarstarfa hvað varðar farþegaskip, farþegabáta og flutningaskip. Þá er vísað til þess að Samgöngustofa hafi undanfarin ár annast skrifstofuhald fyrir nefndirnar tvær. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þessi fyrirhugaða breyting gangi gegn vilja stéttarfélaga sjófarenda og hafi raunar verið bætt við frumvarpið þvert á þeirra ráðleggingar. Í umsögnum þeirra er reifað að slíkar breytingar séu ekki til þess fallnar að efla öryggi sjófarenda og geti jafnvel skert það. Í sameiginlegri umsögn Félags skipstjórnarmanna, VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambands Íslands, sem Alþýðusamband Íslands tekur undir, er lagst alfarið gegn þessum fyrirhuguðu breytingum. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að með aðild fagfélaganna að ákvörðunum um frávik frá mönnun og samþykki undanþága væri séð til þess að kunnáttufólk með reynslu fjallaði um undanþágurnar, auk þess sem fyrirkomulagið tryggði mikilvægt samtal á milli þeirra sem gæta hagsmuna starfsfólks og atvinnurekenda um undanþágurnar. Núverandi fyrirkomulag hefur gefist ágætlega og fær 1. minni hluti ekki séð að knýjandi rök séu fyrir því að gera Samgöngustofu einráða um undanþágu frá lágmarksmönnun annars vegar skv. 18. gr. og undanþágur til að gegna stöðu á tilteknum skipi þótt einstaklingur hafi ekki tilskilin réttindi skv. 10. gr. hins vegar.
    Undanþágunefnd og mönnunarnefnd eru nú báðar skipaðar fimm fulltrúum – tveimur skipuðum eftir tilnefningu viðeigandi stéttarfélaga, tveimur tilnefndum af samtökum útgerðarmanna og einum fulltrúa sem ráðherra skipar án tilnefningar. Að svipta þessa hagsmunaaðila fulltrúum sínum í ákvarðanatökunni án þess að tryggja aðkomu þeirra með öðrum hætti dregur úr getu þeirra til að veita aðhald með ákvörðunum sem geta dregið úr eða skert öryggi félagsfólks þeirra. Aðkoma þessara stéttarfélaga sem og hagsmunasamtaka útgerðanna tryggir mikilvægt samráð milli mismunandi anga vinnumarkaðarins. Ekki verður séð að færsla þessa samráðs inn á skrifstofur Samgöngustofu sé til þess fallin að bæta eða efla öryggi sjófarenda. 1. minni hluti tekur undir mikilvægi þess að hlutlæg viðmið liggi til grundvallar við afgreiðslu umsókna um undanþágur hverju sinni eins og bent hefur verið á af hálfu umsagnaraðila, en telur slíkt jafnt á færi nefndanna tveggja og á Samgöngustofu. Réttast er því að ákvæði um undanþágunefnd og mönnunarnefnd verði óbreytt frá gildandi lögum og gerir 1. minni hluti tillögu þess efnis.
    Í sameiginlegri umsögn Félags skipstjórnarmanna, VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambands Íslands kemur fram að samtökin hafi gagnrýnt ákvarðanir Samgöngustofu, þar sem hún hefur heimilað fækkun í áhöfnum útsýnis- og hvalaskoðunarbáta umfram það sem samtökin telja vera lágmarksmönnun. Telja samtökin að best verði leyst úr þessu með því að láta mönnun þeirra skipa falla undir verksvið mönnunarnefndar. Samtök ferðaþjónustunnar kalla sömuleiðis eftir skýrara umhverfi varðandi mönnun fyrir farþegaskip og báta í stuttum útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum, m.a. með því að koma á laggirnar mönnunar- og öryggisnefnd fyrir slík skip. 1. minni hluti tekur undir nauðsyn þessa og gerir því tillögu þess efnis að ráðherra skuli eigi síðar en við upphaf haustþings 2022 leggja fram á Alþingi frumvarp til laga þar sem lagðar eru til nauðsynlegar breytingar til að mönnunarnefnd skv. 18. gr. nái jafnframt til farþegaskipa og báta í stuttum útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum. Þar sem gildistaka laganna er áætluð 1. janúar 2023 myndi þetta gefa ráðrúm til að innleiða þær breytingar nógu fljótt til að þær tækju gildi samhliða öðrum ákvæðum laganna.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 10. gr.
                  a.      Á undan 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Samgöngustofa skipar undanþágunefnd til þriggja ára í senn. Í nefndina skal skipa tvö samkvæmt tilnefningu samtaka útgerðarmanna, tvö samkvæmt tilnefningu samtaka sjómanna og einn starfsmann Samgöngustofu sem formann án tilnefningar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt. Undanþágunefnd hefur starfsaðstöðu hjá Samgöngustofu og er kostnaður af starfsemi nefndarinnar greiddur af ríkissjóði.
                  b.      Í stað orðsins „Samgöngustofa“ í 1. og 2. mgr. komi, í viðeigandi beygingarfalli: undanþágunefnd.
     2.      Við 18. gr.
                  a.      Á undan 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Samgöngustofa skipar mönnunarnefnd til þriggja ára í senn. Í nefndina skal skipa tvö samkvæmt tilnefningu samtaka útgerðarmanna, tvö samkvæmt tilnefningu samtaka sjómanna og einn starfsmann Samgöngustofu sem formann án tilnefningar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt. Mönnunarnefnd hefur starfsaðstöðu hjá Samgöngustofu og er kostnaður af starfsemi nefndarinnar greiddur af ríkissjóði.
                  b.      Í stað orðsins „Samgöngustofa“ í 1. mgr. komi: Mönnunarnefnd.
                  c.      Í stað orðsins „sínar“ í 2. mgr. komi: mönnunarnefndar.
     3.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal eigi síðar en við upphaf haustþings 2022 leggja fram á Alþingi frumvarp til laga þar sem lagðar eru til nauðsynlegar breytingar til að mönnunarnefnd skv. 18. gr. nái jafnframt til farþegaskipa og báta í stuttum útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum.

Alþingi, 8. apríl 2022.

Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Helga Vala Helgadóttir.