Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1120  —  531. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (fjármögnun skilasjóðs, iðgjöld og fyrirkomulag Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Elísabetu Júlíusdóttur, Guðmund Kára Kárason, Gunnlaug Helgason, Hjörleif Gíslason og Tinnu Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Brynjar Kristjánsson, Fanneyju Frímannsdóttur og Lúðvík Örn Steinarsson frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, Guðmund Ásgeirsson og Sigríði Örlygsdóttur frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Flóka Halldórsson, Kristjönu Jónsdóttur, Björk Sigurgísladóttur, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Seðlabanka Íslands og Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Þá barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í umsögn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) er á það bent að með frumvarpinu sé gert ráð fyrir tilfærslu fjármagns í skilasjóð fyrir árslok 2022. Telur TIF að ekki sé nógu skýrlega gert ráð fyrir tilfærslum á öðru formi en peningum. Bendir TIF á að fjárhagur hverrar deildar sé aðskilinn og að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um að tilfærsla fjármuna megi eiga sér stað með fjármálagerningum.
    Í umsögn TIF er einnig gerð athugasemd við það fyrirkomulag á skipan stjórnar sem lagt er til með frumvarpinu. Í 14. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stjórn sjóðsins skuli skipuð fjórum einstaklingum í stað sex. Einn skuli skipaður samkvæmt tilnefningu frá Samtökum fjármálafyrirtækja, einn samkvæmt tilnefningu frá Seðlabanka Íslands og tveir af ráðherra án tilnefningar. Einfaldur meiri hluti atkvæða ráði úrslitum á stjórnarfundum og falli atkvæði jafnt ráði atkvæði formanns úrslitum. Telur TIF að sá háttur á skipan og samsetningu stjórnar sé mögulega til þess fallinn að draga úr vægi sjóðsins sem sjálfstæðrar og óháðrar sjálfseignarstofnunar. Í umsögninni er einnig vikið að stjórnarskiptum ef frumvarpið verður að lögum.
    Að lokum bendir TIF á að verði frumvarpið að lögum sé ekki að finna nein úrræði eða viðurlög í þeim tilfellum þegar aðildarfyrirtæki sjóðsins vanrækja upplýsingagjöf til hans.
    Líkt og fram kemur í umsögn TIF til nefndarinnar eru þær athugasemdir sem þar koma fram þær sömu og TIF lagði fram í samráðsgátt stjórnvalda þegar drög að frumvarpi voru kynnt. Meiri hlutinn bendir á að afstaða fjármála- og efnahagsráðuneytis til þeirra athugasemda er rakin ítarlega í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu. Þar kemur m.a. fram að í skýringum við 10. gr. frumvarpsins sé brugðist við athugasemd TIF um tilfærslu fjármuna úr innstæðudeild í skilasjóð. Þá kemur fram að í greinargerð með frumvarpinu sé umfjöllun um breytt hlutverk TIF og einnig er í stuttu máli vísað til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á reglu- og eftirlitsumhverfi á fjármálamarkaði. Í ljósi breytts hlutverks sjóðsins og breyttrar regluumgjarðar er talið tilefni til að fækka stjórnarmönnum og bæta við stjórnarmanni sem tilnefndur er af Seðlabanka Íslands. Jafnframt kemur þar fram að ef til þess kemur að aðildarfyrirtæki sjóðsins afhendi honum ekki umbeðnar upplýsingar muni skapast augljóst tilefni til að skoða það sérstaklega og bregðast við eftir þörfum. Þá barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem fjallað er um fyrirkomulag við skipan og samsetningu skilasjóða á Norðurlöndum og á Írlandi þar sem fram kemur m.a. að ekkert eitt stjórnarfyrirkomulag er ráðandi í skilasjóðum þeirra ríkja en það fyrirkomulag sem lagt er til líkist því finnska. Það taki mið af íslenskum aðstæðum, reynslu undanfarinna ára, samspili innstæðutryggingarsjóðs og skilasjóðs auk hagkvæmnissjónarmiða. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem fram koma í minnisblaðinu og tilvísuðum 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu og telur meiri hlutinn ekki þörf á að bregðast frekar við þeim athugasemdum sem finna má í umsögn TIF.
    Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna er einnig vikið að skipan og samsetningu stjórnar TIF líkt og hún er lögð til með frumvarpinu. Meiri hlutinn telur ekki þörf á að bregðast við þeim athugasemdum sem þar koma fram en vísar til áðurnefnds minnisblaðs fjármála- og efnahagsráðuneytis og þeirrar umfjöllunar sem finna má í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu.
    Nefndinni barst umsögn frá Seðlabanka Íslands. Í umsögninni er vikið að tilvísunum til hugtaka og einstakra greina tilskipunar 2014/59/ESB (BRRD). Að mati Seðlabankans er nauðsynlegt að þær skýringar sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu á áðurnefndum tilvísunum séu settar fram í frumvarpstextanum sjálfum, en ekki í greinargerð með frumvarpinu. Meiri hlutinn bendir á að þær tilvísanir sem Seðlabankinn vísar til í umsögn sinni, þ.e. í lögum nr. 115/2021, 244. máli, og þær tilvísanir sem finna má í 570. máli á yfirstandandi löggjafarþingi, eru að nokkru eðlisólíkar þeim sem um ræðir í því máli sem hér er til umfjöllunar. Í málinu er ekki um að ræða gerðir sem varða skyldur sem beinast að einstaklingum eða ákvæði um refsingar eða refsikennd viðurlög. Telur meiri hlutinn því óþarft að leggja til viðlíka breytingar og Seðlabanki Íslands leggur til. Þá bendir meiri hlutinn á að það kann að vera vandkvæðum bundið að viðhalda vísunum sem þessum í lögum enda skapist þá þörf á lagabreytingum þegar aðrar Evrópugerðir sem vísununum er ætlað að skýra breytast.
    Þá er í umsögn Seðlabanka Íslands vikið að þeirri skipan stjórnar TIF sem lögð er til með frumvarpinu. Leggur Seðlabankinn til breytingu þess efnis að Samtök fjármálafyrirtækja geti ekki tilnefnt einstakling í stjórn TIF sem er starfsmaður fjármálafyrirtækis eða sinnir öðrum trúnaðarstörfum fyrir fjármálafyrirtæki. Fallist nefndin ekki á framangreinda tillögu Seðlabankans er í umsögn lagt til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þess efnis að stjórn TIF skuli setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Sé það til þess fallið að takmarka hættuna á hagsmunaárekstrum. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis til nefndarinnar er vikið að skipan stjórnar TIF, þá er einnig umfjöllun um sama efni í greinargerð með frumvarpinu. Að mati meiri hlutans eru verkefni stjórnar TIF, verði frumvarpið að lögum, ekki þess eðlis að líklegt sé að hætta skapist á raunverulegum hagsmunaárekstrum. Mikilvægt er, í ljósi reynslu, að líta til þess að starfsmenn fjármálafyrirtækja hafa oft þekkingu umfram aðra sem kann að nýtast stjórninni, þ.m.t. hvað varðar ávöxtun fjármuna sjóðsins. Hvað varðar athugasemd Seðlabankans, er lýtur að því að stjórn TIF setji sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar, bendir meiri hlutinn á að með frumvarpinu er lagt til að stjórn setji sjóðnum samþykktir í stað aðalfundar. Þá eru þær skipulagsbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þess eðlis að æskilegt sé að stjórn TIF gefi út nýjar samþykktir fyrir sjóðinn. Telur meiri hlutinn eðlilegast að umræða um hættu á hagsmunaárekstrum eigi sér stað á vettvangi stjórnar. Það verði þá nýrrar stjórnar TIF að ákveða hvort nauðsynlegt sé að útfæra það í samþykktum að aðkoma fulltrúa SFF verði skilyrt með þeim hætti sem Seðlabanki Íslands leggur til. Þá bendir meiri hlutinn einnig á að stjórn TIF getur sett sér vinnureglur án þess að þær hafi beina stoð í lögum. Er það því stjórnar TIF að tryggja að farið sé að lögum og að venjum sé framfylgt og sömuleiðis meginreglum, óskráðum og lögfestum, um vanhæfi stjórnarmanna við stjórnarstörf o.fl. við störf hennar.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands er lagt til að gerðar verði breytingar á 13. gr. frumvarpsins þannig að ákvæðið taki einnig til lánastofnana. Leggur Seðlabankinn til að í stað orðanna „Viðskiptabankar, sparisjóðir“ í a-lið ákvæðisins komi orðið „Lánastofnanir“.
    Meiri hlutinn tekur undir það með Seðlabankanum að æskilegt sé að gera breytingar á a-lið 13. gr. frumvarpsins. Leggur meiri hlutinn til breytingu á greininni en þó ekki að fullu til samræmis við tillögu Seðlabankans. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki rúmast hugtakið „lánafyrirtæki“ innan hugtaksins „lánastofnun“. Um þessar mundir eru starfandi þrjú lánafyrirtæki sem ekki er skylt að eiga aðild að sjóðnum. Fái lánafyrirtæki hins vegar starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins til að veita fjárfestaþjónustu eða til að stunda fjárfestingarstarfsemi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga er þeim skylt að eiga aðild að verðbréfadeild sjóðsins. Leggur meiri hlutinn til að lánafyrirtækjum verði bætt við greinina og að auki verði kveðið á um að þau skuli eiga aðild að innstæðu- og/eða verðbréfadeild sjóðsins, enda hafi þau staðfestu hér á landi.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast þær ekki skýringa.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað „og 5. mgr.“ í b-lið 5. gr. komi: 5. og 8. mgr.
     2.      Í stað orðanna „en að jafnvirði 300 milljónum“ í 4. mgr. a-liðar 7. gr. komi: en jafnvirði 300 milljóna.
     3.      Efnismálsgrein 11. gr. orðist svo:
                      Markmið með lögum þessum er að veita innstæðueigendum og viðskiptavinum fjármálafyrirtækja lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við ákvæði laga þessara og laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
     4.      Við a-lið 13. gr.
                  a.      Á undan orðinu „rekstrarfélög“ komi: lánafyrirtæki.
                  b.      Í stað orðanna „innstæðu- og verðbréfadeild“ komi: innstæðu- og/eða verðbréfadeild.


    Ágúst Bjarni Garðarsson og Guðbrandur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og skrifa undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 27. maí 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.