Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1180  —  530. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu, snemmtækur stuðningur).

Frá velferðarnefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Tryggvadóttur frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Evu Margréti Kristinsdóttur frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Unni Helgu Óttarsdóttur og Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurveigu Þórhallsdóttur frá umboðsmanni barna, Herdísi Gunnarsdóttur og Theódóru Sigurðardóttur frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Lúðvík Júlíusson.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Barna- og fjölskyldustofu, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Landssamtökunum Þroskahjálp, Lúðvík Júlíussyni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umboðsmanni barna. Þá barst nefndinni minnisblað frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Efni frumvarpsins.
         Meginmarkmið frumvarpsins er að skapa umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Markmiðið er m.a. að afnema lagalegar hindranir sem geta komið í veg fyrir samstarf um veitingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpinu er ætlað að skapa skilyrði til að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir.
    Á 151. löggjafarþingi voru samþykktar á Alþingi umfangsmiklar lagabreytingar sem stefna að aukinni farsæld barna og barnafjölskyldna með því að bæta snemmtækan stuðning við börn og auka samvinnu þeirra sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu. Frumvarp þetta felur í sér breytingar á fjórum lagabálkum á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðherra sem er ætlað að samræma þá löggjöf og lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og styrkja umgjörð um þjónustu og snemmtækan stuðning í þágu barna.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Flestir umsagnaraðilar eru jákvæðir gagnvart frumvarpinu og gera ekki efnislegar athugasemdir við það. Leggja þeir áherslu á mikilvægi þess að frumvarpið verði að lögum, m.a. til að styðja við þær miklu og góðu breytingar sem lög um samþættingu í þágu farsældar barna kalla á.
    Einn umsagnaraðili gerir ýmsar athugasemdir við ákvæði frumvarpsins, einkum út frá því að frumvarpið taki ekki nægt tillit til fjölbreyttra fjölskyldumynstra. Er m.a. vísað til þess að frumvarpið skerði að einhverju leyti möguleika foreldra á að bera sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn, sbr. t.d. 18. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í umsögninni eru lagðar til breytingar á 6. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að fjallað verði um skyldur sveitarfélaga til að veita félagsþjónustu út frá foreldrum barnsins.
    Nefndin leggur sérstaka áherslu á að í 6. gr. frumvarpsins er vísað til ákvarðana um félagsþjónustu sveitarfélaga fyrir framfærendur barna. Í 1. mgr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 53. og 54. gr. barnalaga, nr. 76/2003, bera báðir foreldrar framfærsluskyldu gagnvart barni sínu, auk þess sem í 54. gr. a er fjallað um framfærsluskyldu stjúp- og sambúðarforeldra. Framfærendur barna eru þannig báðir foreldrar barns og stjúp- og sambúðarforeldrar, þótt framfærsluskylda sé í barnalögum útfærð með mismunandi hætti eftir því hvaða stöðu foreldri hefur gagnvart barni. Telur nefndin því ótvírætt að 6. gr. frumvarpsins taki til ákvarðana um félagsþjónustu gagnvart þeim sem fara með framfærsluskyldu gagnvart barni en ekki bara þeim foreldrum sem eru með sama lögheimili og barnið. Fær nefndin því ekki séð að ákvæðið feli í sér einhverjar hindranir, frá því sem nú er, varðandi réttindi barna sem búa við fjölbreytt fjölskyldumynstur. Að mati nefndarinnar nær tillaga að breyttu ákvæði, sem kemur fram í áðurnefndri umsögn, ekki því markmiði að draga fram reglu 3. gr. barnasáttmálans í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Þá vill nefndin árétta að framangreindar ábendingar umsagnaraðila lúta, eins og áður sagði, að þjónustu við börn sem búa á tveimur heimilum og fjölskyldur þeirra. Af því tilefni fékk nefndin upplýsingar um að málefni barna sem búa á tveimur heimilum séu á meðal viðfangsefna stefnumótunar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Meðal annars fer nú fram vinna innan ráðuneytisins í tengslum við innleiðingu reglna um skipta búsetu þegar kemur að félagsþjónustu og búsetu barna á tveimur heimilum, sérstaklega þegar foreldrar búa hvort í sínu sveitarfélaginu. Nefndin leggur áherslu á að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er.

Breytingartillaga.
    Í umsögn umboðsmanns barna koma fram athugasemdir er varða 13. gr. frumvarpsins. Þar er einkum vísað til 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og virðist umsagnaraðili telja að 13. gr. frumvarpsins skerði að einhverju leyti þann rétt sem tryggður er börnum samkvæmt sáttmálanum.
    Nefndin bendir á að barnasáttmálinn er lögfestur með lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins kemur fram að ætlunin sé að ákvæðið sé túlkað til samræmis við 12. gr. sáttmálans. Nefndin bendir á að ætlunin sé því ekki að ákvæði 13. gr. frumvarpsins verði túlkað þrengra en 12. gr. sáttmálans eða að réttindi barna séu að einhverju leyti skert með ákvæðinu. Engu síður telur nefndin þörf á að breyta orðalagi 13. gr. frumvarpsins til að færa það meira til samræmis við 12. gr. sáttmálans. Nefndin vill þó árétta að ekki er um efnislega breytingu að ræða heldur einungis orðalagsbreytingu.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 13. gr.
     a.      1. málsl. orðist svo: Barn á rétt á að tjá sig um mál sem það varðar.
     b.      Á undan orðinu „tillit“ í 2. málsl. komi: réttmætt.


Alþingi, 8. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðný Birna Guðmundsdóttir. Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Halldóra Mogensen. Orri Páll Jóhannsson. Óli Björn Kárason.