Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1212  —  513. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið á fjölmörgum fundum frá því að því var vísað til hennar 25. mars 2022. Tillagan byggist á 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Þar kemur fram að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta.

Umsagnaraðilar.
    Alls bárust umsagnir frá 26 aðilum og komu 18 þeirra fyrir nefndina. Þeir voru frá ASÍ, BHM, BSRB, dómstólasýslunni, fjármálaráði, Fjórðungssambandi Vestfjarða, Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Landspítala, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og frá Viðskiptaráði Íslands.
    Að auki bárust umsagnir frá Alzheimer-samtökunum, félaginu Femínískum fjármálum, Grundarfjarðarbæ, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Valorku ohf. og frá Sjúkraliðafélagi Íslands.
    Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis komu í þrígang á fund nefndarinnar, bæði til að kynna efni þingsályktunartillögunnar og einnig til að rökstyðja breytingartillögur við hana.

Meginþættir áætlunarinnar og samanburður við fyrri áætlun.
    Tillagan sjálf samanstendur af sjö töflum sem taka til lykiltalna um afkomu og efnahag, fjármála opinberra aðila í heild, skiptingar í A-hluta ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga, heildarútgjalda málefnasviða ríkissjóðs, rammasettra útgjalda og sjóðstreymis ríkissjóðs.
    Efnisuppbygging greinargerðar er með þeim hætti að fyrst er fjallað um stefnumið og meginmarkmið stjórnvalda, því næst um efnahagshorfur, fjármál ríkis og sveitarfélaga og loks um umbætur í starfsemi hins opinbera. Að síðustu kemur langefnismesti kaflinn sem eru greinargerðir um málefnasvið, þar sem fjallað er um stefnumótun ráðuneyta og einstök málefnasvið sem undir þau heyra.
    Síðasta áætlun var samþykkt fyrir um ári. Áætlunin nú hefur verið uppfærð miðað við nýjustu hagspá Hagstofu Íslands og fjallar í meginatriðum um hagstjórnarlegt hlutverk hins opinbera og efnahagsframvinduna.
    Á tekjuhlið er fyrri áætlun uppfærð miðað við þær breytingar sem felast í nýrri þjóðhagsáætlun. Gert er ráð fyrir að útgjöld verði að meðaltali 37 ma.kr. hærri hvert ár tímabilsins miðað við verðlag ársins 2022, eða samtals um 148 ma.kr. hærri. Breyting á málefnasviðum milli áætlana rennur að mestu til heilbrigðismála og þar vega þyngst aukin framlög til framkvæmda við nýjan Landspítala. Aukin áhersla á nýsköpun sést í samanburðinum þar sem framlögin eru aukin árlega um 10–11 ma.kr. frá fyrri áætlun.

Ríkisfjármálastefnan.
    Ríkisstjórnin hefur glímt við næstmesta efnahagsáfall seinni tíma vegna afleiðinga af heimsfaraldri. Þróttur efnahagslífsins sýnir að ráðstafanir sem gripið hefur verið til, útgjaldaaukning ríkissjóðs og hallarekstur, hafa skilað þeim árangri að efnahagur hefur tekið hratt við sér. Allar helstu mælingar sýna svo að ekki verður um villst að tekist hefur að beita ríkisfjármálum til verndar heimilum og fyrirtækjum. Að öðrum kosti væri viðspyrnan ekki jafnkröftug.
    Helsta ógn heimila og fyrirtækja er verðbólga og versnandi efnahagshorfur í heiminum vegna hennar. Styrjöld í Úkraínu í kjölfar heimsfaraldurs lætur enga þjóð ósnortna.
    Fyrirséð er að þær aðstæður sem samfélagið stendur frammi fyrir muni hafa töluverð áhrif á tekjur og útgjöld ríkissjóðs. Þegar litið er á tekjuhlið ríkissjóðs hafa talsverðar sveiflur átt sér stað á liðnum árum, annars vegar á skattkerfinu sjálfu og hins vegar á skatttekjunum sem þessir skattar hafa skilað.
    Nýlega var ráðist í mótvægisaðgerðir vegna aukinnar verðbólgu sem munu draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Í þeim fólst hækkun bóta almannatrygginga, sérstakur barnabótaauki og hækkun húsnæðisbóta.
    Á liðnu kjörtímabili var sérstök áhersla lögð á að létta skattbyrði á tekjulága einstaklinga á sama tíma og skatttekjur jukust samhliða vexti hagkerfisins. Við fall WOW air og heimsfaraldur kórónuveiru í kjölfarið drógust skatttekjur saman. Þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld réðust í ásamt þróttmiklu atvinnulífi hafa gert samfélaginu kleift að ná kröftugri viðspyrnu þar sem skatttekjur ríkisins nálgast sögulegt meðaltal, ef frá eru taldar lækkandi skatttekjur af ökutækjum og eldsneyti. Tekjustofnar nálgast því fyrri styrk fyrr en gert var ráð fyrir.
    Á hinni hlið sama penings má finna útgjöld ríkissjóðs. Í tíð síðustu ríkisstjórnar jukust útgjöld og fjárfestingar hratt samhliða þeim úrbótum sem ráðist var í á kjörtímabilinu. Útgjöld til heilbrigðismála, félags-, húsnæðis- og tryggingamála, rannsókna, þróunar og umhverfis- og loftslagsmála voru stóraukin á tímabilinu, svo að dæmi séu nefnd.
    Nú blasir við nýr veruleiki þar sem draga þarf úr spennu í hagkerfinu til að verja kaupmátt og ráðstöfunartekjur. Þar má hið opinbera ekki láta sitt eftir liggja. Í fjármálaáætlun þessari má sjá áframhaldandi vöxt ríkisútgjalda en talsvert hægari vöxt en verið hefur undanfarin ár. Í því felst ákveðið aðhald sem kallar á skýra forgangsröðun útgjalda á komandi árum. Nefndin hefur tekið saman gögn um útgjaldaþróun á tímabili áætlunarinnar og einnig allt frá árinu 2017.

Framvinda efnahagsmála.
    Á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá því að tillagan var lögð fram hafa efnahagshorfur breyst talsvert miðað við forsendur í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þingsályktunartillögunni. Endurspeglast það í nýrri hagspá annarra aðila, svo sem Seðlabanka Íslands. Þar vegur þyngst að gert er ráð fyrir meiri verðbólgu og minna atvinnuleysi. Gerð er grein fyrir þessari efnahagsþróun í sérstökum kafla nefndarálits þessa.
    Eðlilegt er að velta fyrir sér hvaða áhrif aukin verðbólga muni hafa á forsendur fjármálaáætlunar. Á tekjuhliðinni mun verðbólga auka tekjur ríkissjóðs til skamms tíma, enda eru stærstu skattstofnar ríkisins tengdir þróun verðlags, t.d. virðisaukaskattur á neysluvörur og tekjuskattur á launatekjur.
    Sömu sögu má segja um útgjaldahliðina, en stór hluti útgjalda ríkisins hefur einhverja tengingu við verðbólgu. Þannig hefur verðbólga ekki veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs nema innan ársins þegar óvænt verðbólga fellur til. Meiri hluti fjárlaganefndar hvetur sérstaklega til þess að horft verði til aðgerða sem miðast að því að verjast verðbólgu og versnandi viðskiptahorfum, ekki hvað síst til varnar fyrir þá hópa sem minna hafa á milli handanna.
    Um þessar mundir tekur efnahagslífið vel við sér eftir heimsfaraldur kórónuveiru. Hagvöxtur er talsverður og atvinnuleysi hefur farið lækkandi. Stríðið í Úkraínu hefur þó valdið óvissu og verðhækkunum á hrávörumörkuðum. Þetta hefur breytt efnahagsforsendum frá því í byrjun árs. Verðbólgan er helsta ógnin og áskorunin sem efnahagslífið þarf að takast á við um þessar mundir.
    Efnahagsforsendur fjármálaáætlunar, sem grundvallast á spá Hagstofu Íslands, voru gefnar út í lok mars þegar ekki var enn ljóst hver efnahagsáhrif af stríði í Úkraínu yrðu. Síðar hafa verið gefnar út nokkrar efnahagsspár þar sem hærri verðbólgu er spáð miðað við spá Hagstofu Íslands. Í spá Seðlabanka Íslands frá því í byrjun maí var því til að mynda spáð að verðbólga í ár yrði um 7,4%. Í spá Hagstofu Íslands var aftur á móti áætlað að verðbólgan yrði 5,9%. Með hærri verðbólgu breytast forsendur fjármálaáætlunar bæði á tekju- og gjaldahlið. Í töflunni hér að aftan er samanburður á hagspám við spá Hagstofu Íslands.

Hagvöxtur í % 2022 2023 2024
Hagstofa Íslands* 4,6 2,7 2,2
Seðlabanki Íslands 4,6 2,6 2,7
Meðaltal greiningaraðila** 4,7 3,0 2,6
Verðbólga í %
Hagstofa Íslands* 5,9 3,5 2,6
Seðlabanki Íslands 7,4 5,0 2,9
Meðaltal greiningaraðila** 7,2 5,4 3,7
Atvinnuleysi í %
Hagstofa Íslands* 4,3 4,1 4,0
Seðlabanki Íslands 4,3 4,2 4,2
Meðaltal greiningaraðila** 4,4 4,0 3,9
* Forsendur fjármálaáætlunar
**Helstu greiningaraðilar sem gáfu út hagspá eftir 31. mars 2022

    Eins og sést á töflunni hafa spár um hagvöxt og atvinnuleysi breyst óverulega frá spá Hagstofu Íslands. Talsverð hækkun hefur þó orðið í spám um verðbólgu. Helstu spár sem hafa verið gefnar út eftir útgáfu Hagstofu Íslands benda til þess að verðbólga á þessu ári verði ríflega 7%. Á næsta ári er áætlað að verðbólga verði áfram há eða um og yfir 5%.
    Í byrjun árs voru greiningaraðilar á því að verðbólga myndi lækka fram eftir ári í kjölfar hækkana sem urðu á mörkuðum vegna áhrifa kórónuveirufaraldurs. En með stríði í Úkraínu tóku verðbólguspár að hækka eins og kemur fram í eftirfarandi töflu.

Greiningaraðili Útgáfa Verðbólguspá 2022 í %
Íslandsbanki 21. janúar 3,2
Seðlabanki Íslands 9. febrúar 5,3
Hagstofa Íslands 29. mars 5,9
Arion banki 8. apríl 6,7
AGS 20. apríl 6,7
Seðlabanki Íslands 4. maí 7,4
Landsbankinn 19. maí 7,4
Íslandsbanki 19. maí 7,6

    Samkvæmt nýjustu mælingum Hagstofu Íslands nemur ársbreyting á vísitölu neysluverðs nú um 7,6%. Þetta er hæsta mæling á ársbreytingu vísitölunnar frá vormánuðum 2010. Í apríl árið 2010 nam ársbreyting á vísitölu neysluverðs 8,6%. Helstu hækkanir á vísitölunni í síðustu mælingu Hagstofunnar má finna í matvöru og drykkjarvöru, húsnæðiskostnaði, verði á nýjum bílum og í verði á bensíni og olíu.
    Flestir greiningaraðilar áætla að verðbólga haldist há fram eftir árinu, eða a.m.k. fram á haust. Þó er reiknað með því að verðbólga verði einnig nokkuð há á næsta ári, eða í kringum 5%. Verðbólga mun því ekki byrja að lækka og nálgast verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (2,5%) fyrr en árið 2024. Seðlabanki Íslands hefur brugðist við verðbólgu með verulegum hækkunum á meginvöxtum bankans, úr 2,0% í 3,75% frá áramótum.
    Nú í lok maí birti Hagstofa Íslands tölur um landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi ársins 2022. Þar var áætlað að landsframleiðsla hefði hækkað um 8,6% að raungildi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Árstíðarleiðrétt landsframleiðsla nam um 1,1% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við fjórða ársfjórðung ársins 2021.
    Það sem knúði hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi ársins 2022 samanborið við fyrsta ársfjórðung ársins 2021 var helst útflutningur (28,3% hækkun), fjárfestingar (20,3% hækkun) og einkaneysla (8,8% hækkun). Í útflutningi hækkaði þjónustuútflutningur mest með mikilli fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands. Atvinnuvegafjárfestingar vógu þyngst í heildaraukningu fjárfestinga og munaði þar mikið um fjárfestingar í flugvélum á tímabilinu. Í einkaneyslu mældist aukning í ferðalögum og talsverð kaup á nýjum bifreiðum.
    Í hagspám helstu greiningaraðila er að meðaltali gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði tæplega 5%. Ekki verður annað séð að svo stöddu en það muni ganga nokkurn veginn eftir. Hagvöxtur á eftir að aukast enn frekar fram eftir ári þegar ferðamenn taka að streyma til landsins. Greiningaraðilar spá því að fjöldi ferðamanna í ár verði á bilinu 1,4–1,7 milljónir manna.

Hækkun útgjaldaheimilda málefnasviða fyrir gildistíma áætlunarinnar.
    Áætlunin byggist á árangursríku stjórnarsamstarfi sem staðið hefur frá árinu 2017. Á þeim tíma hafa útgjöld til helstu málaflokka velferðar og menntamála verið stóraukin. Á sama tíma hefur verið ráðist í sókn á sviði nýsköpunar og rannsókna og í fjárfestingar í innviðum samfélagsins sem tryggja framtíðarhagvöxt og samkeppnishæfni íslenskrar þjóðar.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á það í nefndaráliti þessu að skoða tíu ára þróun frá árinu 2017 til loka tímabilsins sem þingsályktunartillagan tekur til, sem er árið 2027. Við bætist verulegt umfang efnahagsráðstafana vegna heimsfaraldurs fyrir árin 2020 og 2021.
    Heildarfjárheimildir árið 2017 á verðlagi ársins 2022 voru 909 ma.kr. en árið 2022 námu þau 1.207 ma.kr. á sama verðlagi. Hækkunin nemur tæpum 300 ma.kr. eða 33%. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að þau hækki í 1.271 ma.kr. árið 2027 og hafa þá hækkað um 362 ma.kr. eða 40% að raungildi á þessum tíu árum.

Breytingar á rammasettum útgjöldum á tímabilinu frá 2017 til 2023–2027 að raungildi.
    Rammasett útgjöld sýna útgjaldaþróun án vaxtagjalda, lífeyrisskuldbindinga og atvinnuleysistrygginga. Heildarhækkun á tímabili áætlunarinnar nemur rúmum 47 ma.kr. frá 2023 til 2027. Breytingar á tímabilinu eru af ýmsum toga. Gert er ráð fyrir að tímabundnar heimildir falli niður, bætt verði verulega í varasjóð fjárlaga og aðrar breytingar tengjast reikniverki þar sem t.d. er gert ráð fyrir raunvexti umfram launa- og verðlagsuppreikning.

Málefnasvið í m.kr. Fjárlög 2017 Áætlun 2023 Áætlun 2027 Breyting frá 2023 Hlutf. br. frá 2023 Breyting frá 2017 Hlutf. br. frá 2017
01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess 6.090 6.773 5.500 -1.272 -19% -590 -10%
02 Dómstólar 3.046 3.560 3.560 0 0% 515 17%
03 Æðsta stjórnsýsla 2.112 2.987 2.438 -549 -18% 326 15%
04 Utanríkismál 10.935 15.746 13.361 -2.384 -15% 2.426 22%
05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla 25.487 35.737 36.478 741 2% 10.990 43%
06 Hagskýrslugerð og grunnskrár 4.261 4.020 3.733 -287 -7% -528 -12%
07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar 14.532 28.430 31.999 3.569 13% 17.468 120%
08 Sveitarfélög og byggðamál 2.138 3.352 3.177 -175 -5% 1.040 49%
09 Almanna- og réttaröryggi 29.825 34.921 36.177 1.257 4% 6.352 21%
10 Rétt. einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála 15.130 17.346 16.694 -652 -4% 1.564 10%
11 Samgöngu- og fjarskiptamál 37.378 51.623 44.178 -7.446 -14% 6.799 18%
12 Landbúnaður 20.183 19.275 18.965 -311 -2% -1.218 -6%
13 Sjávarútvegur og fiskeldi 6.866 6.824 6.353 -470 -7% -512 -7%
14 Ferðaþjónusta 1.801 2.256 1.969 -287 -13% 168 9%
15 Orkumál 4.243 6.069 5.782 -287 -5% 1.539 36%
16 Markaðseftirlit og neytendamál 3.093 3.261 3.766 505 15% 673 22%
17 Umhverfismál 16.719 27.403 26.905 -498 -2% 10.186 61%
18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál 14.974 18.931 17.413 -1.518 -8% 2.438 16%
19 Fjölmiðlun 3.977 5.839 6.779 941 16% 2.802 70%
20 Framhaldsskólastig 36.080 37.659 36.918 -741 -2% 838 2%
21 Háskólastig 48.397 60.001 59.872 -129 0% 11.474 24%
22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála 5.083 5.037 4.783 -254 -5% -300 -6%
23 Sjúkrahúsþjónusta 103.693 141.154 144.388 3.234 2% 40.695 39%
24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 52.445 69.822 74.282 4.460 6% 21.838 42%
25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta 58.982 72.906 70.337 -2.569 -4% 11.355 19%
26 Lyf og lækningavörur 21.545 32.606 35.287 2.681 8% 13.741 64%
27 Örorka og málefni fatlaðs fólks 67.730 90.104 99.453 9.349 10% 31.723 47%
28 Málefni aldraðra 83.979 103.996 116.965 12.969 12% 32.986 39%
29 Fjölskyldumál 32.232 54.706 54.925 219 0% 22.693 70%
30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi 5.987 7.982 7.961 -21 0% 1.974 33%
31 Húsnæðis- og skipulagsmál 15.496 14.875 14.974 100 1% -521 -3%
32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála 9.837 10.531 10.041 -490 -5% 204 2%
34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir 12.397 20.497 44.985 24.488 119% 32.588 263%
35 Alþjóðleg þróunarsamvinna 5.892 11.517 14.513 2.996 26% 8.622 146%
Samtals 782.565 1.027.741 1.074.910 47.169 5% 292.345 37%

    Um helmingur hækkunarinnar kemur fram í almennum varasjóði, eða 24,5 ma.kr. Í fjárhæðum talið hækka framlög til málefna aldraðra næstmest eða um 13 ma.kr. Framlög til málefnasviða nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækka um 3,6 ma.kr á tímabili áætlunarinnar. Lækkanir á ákveðnum málefnasviðum á tímabilinu skýrast í langflestum tilfellum af sveiflum í fjárfestingarútgjöldum. Af lækkunum munar mest um framlög til samgöngumála sem skýrast af því að sérstakt fjárfestingarátak til að vega á móti áhrifum heimsfaraldurs fellur niður á tímabilinu.
    Í töflunni kemur einnig fram samanburður við rammasett útgjöld ársins 2017 og koma þá betur fram áherslur við fjárlagagerð undanfarinna ára. Áætlað er að rammasett útgjöld aukist að raungildi um 292 ma.kr. á tímabilinu frá 2017 til 2027. Það er 37% hækkun á tíu árum.
    Í fjárhæðum talið hækka framlög til sjúkrahúsþjónustu mest eða um 40,6 ma.kr. Skýrist það af raunvexti til reksturs Landspítala og nýbyggingar spítalans. Málefni aldraðra hækka um 33 ma.kr. og þar er gert ráð fyrir töluverðri fjölgun aldraðra á tímabilinu auk kaupmáttaraukningar ellilífeyris. Framlög í varasjóð hækka um 32,6 ma.kr. í samræmi við markmið laga um opinber fjármál og framlög til örorkubóta og málefna fatlaðs fólks um 31,7 ma.kr.
    Framlög til heilsugæslu og annarra heilbrigðismála utan sjúkrahúsa hækka um 21,8 ma.kr. og um 17,5 ma.kr. til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina. Lyf og lækningavörur hækka um 13,7 ma.kr., framlög til háskóla um 11,5 ma.kr. og til hjúkrunarþjónustu um 11,4 ma.kr.
    Hlutfallslega er mesta hækkunin á varasjóði fjárlaga enda var hann mjög veigalítill í byrjun tímabilsins. Því næst er 146% hækkun til þróunarsamvinnu sem er í samræmi við hækkandi hlutfall af þjóðartekjum til málefnasviðsins. Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækka um 120% og 64% hækkun er vegna lyfja. Framlög til umhverfismála hækka um 61% og til sveitarfélaga og byggðamála um 49%. Framlög til örorkubóta og málefna fatlaðs fólks hækka um 47% og um 42% til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa.

Umfjöllun um álitsgerð fjármálaráðs.
    Samkvæmt 13. gr. laga um opinber fjármál ber fjármálaráði að leggja fram mat og álitsgerð um fjármálaáætlun. Mat ráðsins á stefnumörkun og áætlanagerð opinberra fjármála er mikilvægt tæki fyrir umfjöllun um stefnu stjórnvalda hverju sinni.
    Helstu efnisatriði úr álitinu eru talin hér að aftan.

Varðar grunngildin sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.
     *     
Ráðið telur að grunngildin, samkvæmt lögum um opinber fjármál, hafi staðist vel í áranna rás, t.d. í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, og verið leiðarljós í þeim hremmingum. Umfjöllun fjármálaráðs miðast við grunngildin og í henni hafa tölusettar fjármálareglur verið settar til hliðar í bili.
     *      Leggja hefði mátt meiri áherslu á grunngildin í framsetningu á framlagðri áætlun. Bent er á að mjög sjaldan er vísað í varfærni, sem er meðal grunngilda, í áætluninni.
     *      Ráðið telur að grunngildamiðuð stefnumið og áætlanagerð hafi ekki heppnast nægilega vel á gildistíma laga um opinber fjármál.
     *      Þá minnir fjármálaráð á að það sé ígildi fjármálareglu að yfirlýst markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum sé að vöxtur skuldahlutfallsins stöðvist árið 2026.

Varðar áætlanagerð, sviðsmyndir, forgangsröðun og markmiðasetningu.
     *      Bent er á að meiri festa þurfi að ríkja um samanburð á milli áætlana þannig að henni verði ekki breytt eftir aðstæðum eða áskorunum hverju sinni.
     *      Stefnumörkunin felur í sér að fjármögnun nýrra eða fleiri verkefna muni að stærstum hluta þurfa að fara fram með breyttri forgangsröðun og bættri nýtingu fjármuna. Ef auknar tekjur myndast umfram það sem áætlað er verður þeim varið í að draga úr lántökuþörf.
     *      Minnt er á að vanda þarf til verka við spá- og áætlanagerð, sem er aldrei fullkomin. Þar af leiðandi er mikilvægt að framkvæma frávikaspár þar sem boðuð eru viðbrögð við þeim ólíku aðstæðum sem upp geta komið.
     *      Lögð er áhersla á mikilvægi þess að halda því til haga hvort markmið í greinargerð með fjármálastefnunni nást eða ekki.
     *      Ráðið bendir á að gerð sviðsmynda sé til batnaðar en þó má bæta umfjöllunina um niðurstöður sviðsmynda og láta þær flæða út í áætlanagerðina með boðuðum viðbrögðum við ólíkri framvindu.
     *      Í framsetningu á römmum er áhersla lögð á niðurstöður en þar mætti skýra betur frá því hvernig niðurstaðan fékkst. Þetta mætti styðja með tæknilegum viðaukum sem auka gagnsæi og dýpt greiningarinnar.
     *      Ítrekuð er áhersla á að við val á ólíkum fjárfestingarkostum verði stuðst við mat á arðsemi og hagkvæmni.

Varðar áskoranir til framtíðar og mat á afkomu hins opinbera.
     *      Bent er á að heppilegast sé að styðja við stöðugleika í hagkerfinu frekar en að einblína á mikla nafnhækkun launa. Ráðið telur að verðbólguspá um 2,5% árið 2025 náist ekki ef niðurstaða kjarasamninga verði ekki í samræmi við undirliggjandi stöðu hagkerfisins.
     *      Ítrekað er mikilvægi þess að styrkja rannsóknir, nýsköpun og menntun til að efla hagvöxt til framtíðar. Í því samhengi er bent á að hugverkaiðnaðurinn býr við skort á hæfu vinnuafli en á sama tíma eru ekki merki um þróun í skólakerfinu til að mæta þeim vanda.
     *      Bent er á nauðsyn þess að koma í veg fyrir að hið opinbera eyði meira eða afli minna á uppgangstímum þegar hagvöxtur reynist meiri en vænst var.
     *      Fjármálaráð bendir á undirliggjandi halla ríkissjóðs. Í því samhengi er áætlað að halli ríkissjóðs hafi verið neikvæður árið 2021 um 1,9% af vergri landsframleiðslu eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Varanlegur undirliggjandi halli er andstæður varfærni, sem er meðal grunngilda.
     *      Fjármálaráð hvetur til áframhaldandi endurbóta á skattkerfinu þannig að ríkissjóður búi til lengri tíma að tekjuöflun sem stendur undir öllum þeim verkefnum sem honum eru falin og valdi um leið sem minnstum neikvæðum áhrifum á verðmætasköpun.
     *      Fjármálaráð telur að áætlun um 1% raunvöxt útgjalda eða minni feli í sér verulegar áskoranir. Ráðið bendir á að kröfur kunni að verða gerðar um ný verkefni sem brýnt verður að ráðast í þegar líður á áætlunina.
     *      Fjármálaráð ítrekar að vandasamt getur verið að nota fjárfestingar í sveiflujöfnun. Yfirleitt tekur tíma að undirbúa og útfæra fjárfestingaráform. Þegar fjárfestingarframkvæmdir eru komnar á fullan skrið er hætt við því að það sé um seinan.

Heildarniðurstaða ráðsins.
     *      Talið er að markmiðin sem birtast í fjármálaáætlun um að fjármálareglur taki aftur gildi árið 2026 muni ganga eftir að því gefnu að forsendur standist. Þó má lítið út af bregða þar sem varast þarf að falla í þá freistni að velta vandanum á undan sér. Í því samhengi bendir ráðið á að hugsanlega hefði mátt lengja tímabil framlagðrar áætlunar.

    Meiri hlutinn tekur undir margt af því sem fram kemur í álitinu. Fjallað er sérstaklega um mikilvægi fjárfestinga undir málefnasviði um samgöngur og fjarskipti. Brýnt er að móta verklag og mælikvarða til að bera saman fjárfestingarvalkosti og gera sérstaklega grein fyrir verklaginu og forgangsröðun í áætluninni.
    Meiri hlutinn tekur einnig undir sjónarmið um að í uppsveiflu í hagkerfinu, eins og nú standi yfir, sé mikilvægt að ríkisfjármálastefna sé í takt við peningastefnu með hófsömu aðhaldi í stað þess að vera þensluhvetjandi eins og hætt er við þegar að tekjur ríkisins aukast vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu.

Brýn verkefni sem meiri hlutinn leggur áherslu á.
    Skerpa þarf á forgangsröðun verkefna innan fjárhagsramma í stað þess að stöðugt sé óskað eftir auknum fjármunum fyrir ný verkefni. Endurskoðun núverandi útgjalda þarf að efla. Við myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í desember 2021 var nýtt heimild laga um Stjórnarráð Íslands til að ráðast í endurröðun verkefna innan ráðuneyta og í skiptingu ráðuneyta. Með þeirri breytingu kom vel í ljós vilji til að gera stjórnsýsluna markvissari og skilvirkari.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á nauðsyn þess að rekstur hins opinbera verði hagkvæmari og þarf þar að horfa á milli sviða og ráðuneyta. Aukin samfella og samstarf á milli ráðuneyta er lykill að bættri nýtingu fjármuna.
    Vel tókst til við þróun á stafrænum lausnum í samstarfi við Stafrænt Ísland á liðnu kjörtímabili. Slíkar fjárfestingar eru dæmi um leið að bættri þjónustu sem gæti á sama tíma skapað hagræði í opinberum rekstri til frambúðar. Það er því mikilvægt að aðhald í ríkisrekstri á næstu árum dragi ekki úr hvata til stafrænnar þróunar í opinberri þjónustu heldur ýti undir hana sem leið til að nýta betur þá fjármuni sem varið er í þjónustuna.
    Nýta þarf eignir hins opinbera betur, sérstaklega land í opinberri eigu. Skortir verulega á innleiðingu þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið. Er þetta sérstaklega áberandi í meðferð og notkun á ríkisjörðum. Fyrir liggur nýleg eigandastefna ríkisins sem styður eflingu byggðar og varðveislu á ræktunarlandi og nýtingu þess. Þá er kominn lagarammi um nýtingu landsvæða og sérstæðra staða.
    Meiri hlutinn er áfram um að innleitt verði að fullu verklag á grundvelli eigandastefnu og lagaramma um útboð og nýtingu landsvæða. Nauðsynlegt er að skýra og einfalda stjórnsýslu að því er snertir nýtingu á landi í eigu ríkisins.
    Til að efla enn framtíðarvöxt og tækifæri leggur meiri hlutinn áherslu á að unnið verði með mun markvissari hætti að samþættingu til að rjúfa ákveðna stöðnun í ýmsum þáttum innviða. Það snýst ekki allt um aukna fjármuni til verkefna á vettvangi hins opinbera heldur um það að beita réttum aðferðum og hvötum til að laða fram sókn á sviði innviða sem samfélagið hefur tæplega efni á að byggja ekki upp.

Tekjuöflun ríkissjóðs.
     Skattlagning á umferð og ökutæki. Í áætluninni er boðuð endurskoðun á skattlagningu á umferð og ökutæki. Veruleg eftirgjöf tekna af ökutækjum og ákveðið skattleysi á afnotum af vegakerfi landsins er verulegt ef miðað er við fyrra fyrirkomulag skattlagningar. Þó að ekki liggi fyrir nákvæm greining á þeirri eftirgjöf er um verulegar fjárhæðir að ræða.
    Meiri hlutinn telur að ekki megi draga að ljúka þessari endurskoðun. Við endurskoðun skattlagningar verður að tengja saman rétta hvata til að nýta nýorkuökutæki til að styðja við markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig er mikilvægt að réttir hvatar verði við fjölbreyttari fjármögnun samgöngumannvirkja. Ekki verður horft fram hjá því mikið lengur að ökutæki sem „greiða“ ekki fyrir afnot af vegum koma niður á viðhaldi þeirra.
    Í gögnum um þörf á viðhaldi og ástæðum þess sem Vegagerðin hefur sýnt fjárlaganefnd kemur vel fram að þyngd ökutækja skiptir þar höfuðmáli.
    Meiri hlutinn leggur til að við breytta skattlagningu verði m.a. horft til þyngdar ökutækja samhliða því að gætt sé að jafnræði við skattlagninguna. Þegar í næstu fjárlögum verða að liggja fyrir breytingar sem endurspegla notkun allra ökutækja á vegakerfinu.

Málefnasvið 07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
    Stjórnvöld hafa lagt sérstaka áherslu á nýsköpun og varið gífurlegum fjármunum í rannsóknarsjóði, endurgreiðslur, hvata og stuðningsnet. Áhersla hefur verið lögð á loftslagsmál, heilbrigðismál og jafnréttismál umfram aðra þætti þó að allt sé undir.
    Áhersla stjórnvalda á nýsköpun og stuðning hefur stutt við sókn til aukinnar verðmætasköpunar. Gríðarlegur vöxtur í útflutningi hugvits og fjölgun starfa er grunnur að framtíðarhagvexti. Samhliða er nauðsynlegt að greina ávinninginn af endurgreiðslum betur og greina hindranir á markvissan hátt til að fjármagnið nýtist sem best.
    Í lagaumhverfinu þarf að gera ráð fyrir nýjum lausnum og taka á innbyggðum hindrunum. Opinberar stofnanir nýta ekki nægilega þær tæknilausnir sem spretta úr stuðningskerfi hins opinbera. Dæmi eru um að nágrannaþjóðir okkar kaupi þjónustu íslenskra nýsköpunarfyrirtækja, t.d. í heilsutækni, en að hún sé ekki nýtt hér á landi. Hvetja þarf hið opinbera til að nýta innlendar lausnir sem það hefur fjárfest í og byggt upp.
    Nýsköpun snýst um að fá að prófa lausnir og að búa við umhverfi þar sem lausnir geta orðið til. Íslensk nýsköpun þarf því að hafa aðgang að orkuöflun, orkudreifingu og framleiðslu á innlendum orkugjöfum og fá að starfa innan íslensks heilbrigðiskerfis til að þróa lausnir sem hægt verður að selja um allan heim. Þannig varð íslenskur sjávarútvegur að stærstu atvinnugrein innan nýsköpunar og útflutningsverðmæti þar margfölduðust.

Rannsóknir atvinnuvega.
    Atvinnugreinar sem hafa lengst af verið burðarásar í atvinnulífi okkar og ferðaþjónustan til viðbótar búa allar við það að framlög til rannsókna hafa gefið verulega eftir á undanförnum áratugum. Samkeppnissjóður er gott tæki til að laða fram krafta í rannsóknum, fjármagn og fólk. En langtímarannsóknir, þ.e. vöktun og mælingar á mörgum grundvallaratriðum sem falla illa að samkeppnissjóðum, eru samt grundvöllur að mörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum.
    Meiri hlutinn ítrekar að auknir fjármunir til samkeppnissjóða eru mikilvægir en að sama skapi verður að forgangsraða fjármunum til rannsóknarstofnana á sviði ferðaþjónustu, hafrannsókna, landbúnaðar, byggingarfræði og jarðvísinda. Jarðhræringar og náttúruvá eru til viðbótar við framangreinda þætti, sem kalla mætti rannsóknir atvinnuvega, það svið sem leggja þarf meiri áherslu á.
    Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að unnið skuli að því þvert á ráðuneyti málaflokkanna að marka stefnu um grundvallarrannsóknir á þessum sviðum og um fjármögnun þeirra.

Málefnasvið 09 Almanna- og réttaröryggi.
    Meiri hlutinn bendir á nýjar og vaxandi áskoranir sem löggæsla og almannavarnir standa frammi fyrir. Mikilvægt er að hafa öryggismál í víðu samhengi í lagi. Almannavarnir hér á landi hafa verið að störfum nánast stanslaust síðan í óveðrinu 2019 og tekist á við jarðhræringar, eldgos, skriðuföll og fleira sem nauðsynlegt hefur reynst að bregðast við.
    Netglæpum hefur fjölgað stöðugt auk þess sem álag eykst á löggæslu með ferðamannastraumi, umferðarslysum og öðrum óhöppum.
    Markmiðum ríkisstjórnarinnar um aukna áherslu á jafnrétti og kynfrelsi verður best náð með því að auka öryggi og öryggistilfinningu með bættum rannsóknum í kynferðisbrotamálum, auknum málshraða og öflugri löggæslu.

Málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
     Samgöngumál. Styðja þarf við þróun á uppbyggingu samgönguinnviða með því að hafa fjölbreyttar fjármögnunarleiðir. Meiri hlutinn telur fjárfestingu í samgöngumannvirkjum vera mjög arðsama til lengri tíma. Slíkri fjárfestingu er einnig hægt að beita sem ákveðnu efnahagsstjórnartæki og horfa til framkvæmda á þeim svæðum sem eru „kaldari“ og þar sem er minni framleiðsluspenna. Minni framkvæmdir, eins og tengivegaframkvæmdir, og aðgerðir til að bæta umferðaröryggi eru oftar en ekki mannaflsfrekar. Í þessari fjármálaáætlun er fest í sessi átak í endurbyggingu á tengivegum. Skólasóknarsvæði eru nánast gerð óbyggileg og atvinnusókn úr dreifðum byggðum, þar sem dagleg umferð fer stöðugt vaxandi, nánast gerð ómöguleg ef ekki tekst að hraða verulega endurbyggingu tengivega. Huga þarf að fleiri lausnum í fjármögnun og kröfum til tengivega en nú er gert.
    Jafnframt liggja fyrir metnaðarfull og góð markmið um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu með sögulegu samkomulagi sveitarfélaga og stjórnvalda. Samhliða uppbyggingu samgöngumannvirkja er gert ráð fyrir nýjum byggingarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög vinni hratt og vel að því að koma af stað uppbyggingu á því landi hið fyrsta enda er húsnæðisskortur einn af helstu orsökum verðbólguþrýstings.
     Fjarskipti og netöryggi. Stigin hafa verið skref markaðsaðila á fjarskiptamarkaði um frekari samnýtingu fjárfestinga. Ný lög um fjarskipti gegna þar lykilhlutverki, þar sem heimildir til samstarfs gera það mögulegt að blása til frekari sóknar. Ríkisvaldið heldur einnig á mörgum mikilvægum fjarskiptainnviðum sem geta stutt við frekari sókn. Nú er hafin lagning á nýjum fjarskiptasæstreng til Írlands og í kjölfar þess skapast tækifæri til verðmætasköpunar á sviði atvinnugreina sem byggjast á fjarskiptum.
    Öflug fjarskipti eru grundvöllur atvinnu og mannlífs til lengri tíma. Fjárfesting ríkisins í stafrænum lausnum jafnar aðgengi landsmanna að ríkisvaldinu og sparar útgjöld. Áætlað er að árlegur sparnaður hins opinbera af stafrænum fjárfestingum verði um 9 ma.kr. á ári. Til að slíkur árangur náist þarf með réttum hvötum að endurbyggja og ljúka byggingu öflugra fjarskiptatenginga.
    Í þessari fjármálaáætlun virðist ekki tekið tillit til tekna af leigu á tíðnisviðum vegna fjarskipta. Þær tekjur geta numið allt að 750 m.kr. Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að nýta þær tekjur til að efla starfsemi á sviði netöryggis og ekki síst að styðja þau svæði þar sem fjarskiptafyrirtæki munu ekki tengja fólk án þess að til komi önnur aðstoð frá hinu opinbera.
    Lagt er til að hluta af þessum tekjum verði sem áður varið til verkefna á sviði uppbyggingar. Netöryggismál skipta enn meira máli en áður og hefur starfsemi og fjárþörf aukist verulega. Með því að virkja saman ákvæði nýrra fjarskiptalaga og rétta hvata má efla sókn til eflingar fjarskipta sem aftur styður við fjárfestingu á sviði stafrænnar þjónustu.

Málefnasvið 12 Landbúnaður.
    Meiri hlutinn fagnar vinnu matvælaráðherra að því er snertir aðgerðir og skilgreiningu á fæðuöryggi landsmanna. Verulegar ógnir blasa nú við matvælaframleiðslu og blikur á lofti varðandi þróun matvælaverðs. Ekki þarf að rekja ástæður þess. Augljóst er að á næstunni minnki framboð matvæla og að hráefnaverð hækki. Líkur eru á að skortur verði viðvarandi næstu misseri. Þessi þróun mun hafa veruleg áhrif á lífskjör almennings, sem verja þarf stærri hluta tekna sinna til matarkaupa.
    Verkefnið nú er ekki síður að verja afkomu framleiðenda og getu þeirra til að framleiða. Oft er talað um framleiðsluvilja og framleiðslugetu. Með skorti og ógnvænlegri hækkun á verði aðfanga er ástand búvöruframleiðslu afar brothætt. Ljóst er að ekki er hægt að velta öllum kostnaðarhækkunum yfir á neytendur.
    Meiri hlutinn minnir á að í fjárlögum fyrir þetta ár voru lagðar til um 750 m.kr. til að mæta aðfangahækkun á áburði. Meta þarf markvisst hvort og hvernig er hægt að styðja við frumframleiðendur til að halda getu og vilja til framleiðslu. Því er ekki síður beint til matvælaráðherra að nýta aðrar leiðir. Eindregið er lagt til að ástandið verði tekið mjög alvarlega og einskis látið ófreistað til að nýta lög og regluverk í því skyni. Meiri hlutinn telur það ekki eingöngu vandamál bænda og afurðastöðva að takast á við þennan vanda. Vinna þarf á mun breiðari grundvelli til að halda utan um matvælaframleiðslu í landinu, bæði til að efla og bæta fæðuöryggi og verja byggð.
    Landbúnaður er grundvallarþáttur í loftslagsmálum og mikilvægt að treysta framþróun íslensks samfélags með jafnvægi í samlífi manns og náttúru. Sterkar vísbendingar eru um að sækja megi með landbúnaði með öflugum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnytja meiri árangur í loftslagsmálum.
    Aukin innlend grænmetisframleiðsla sem dregur úr innflutningi, bætt nýting og meðhöndlun áburðar og bætt fóðrun búfjár styður við þá þróun og dregur úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Til þess að sækja megi fram með grænni og loftslagsvænni landbúnaði er mikilvægt að hafa skýra sýn og markmið. Meiri hlutinn beinir því til hlutaðeigandi ráðherra að nýta búvörusamninga á virkari hátt með náttúruvernd að leiðarljósi, sem umbuni jafnframt bændum fyrir árangur.

Málefnasvið 13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
    Sjávarútvegur er ein af burðarstoðum efnahagslífs og byggðar í landinu. Mikilvægt er að treysta greinina á sama tíma og litið er til framtíðar. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og sjávarútvegsins að umgjörð greinarinnar byggist á sjálfbærni. Sérstaklega er tilgreint í stjórnarsáttmála að byggja þurfi áframhaldandi vinnu á skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra, Græn skref í sjávarútvegi, til að standa megi við sett markmið í loftslagsmálum.
    Hafrannsóknir eru grundvöllur að nýtingu nytjastofna sjávar. Stofnmælingar og aðrar rannsóknir á hafinu eru því grundvallarmál. Með nýju rannsóknarskipi hafa opnast enn fleiri tækifæri til aukinnar vöktunar og mælinga. Mikilvægt er að tryggja sem besta nýtingu á mannafla og tækjum til rannsókna á þessu sviði. Rannsóknir styðja enn fremur við græn umskipti í sjávarútvegi og mikilvægt að styðja og efla náttúruvernd og orkuskipti með samdrætti í losun og með grænni fjárfestingu. Í þessu samhengi er mikilvægt að halda til haga framlagi greinarinnar sjálfrar sem hefur verið óhrædd við að fjárfesta í nýsköpun og tækni sem ekki aðeins hefur aukið hagkvæmni heldur stuðlað að umhverfisvænni nýtingu.
    Í kjölfar stríðsreksturs Rússa í Úkraínu hefur fiskverð hækkað umtalsvert með tilheyrandi tekjuaukningu til handa sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði í útgerð og fiskeldi. Nefndin vill koma því á framfæri að bætt afkoma í greininni mun skila hærri veiðigjöldum, sem lögð eru sérstaklega á sjávarútveginn, til ríkissjóðs. Þannig munu þeir aðilar sem hagnast á hækkandi afurðaverði á alþjóðlegum mörkuðum leggja meira af mörkum í sameiginlega sjóði. Í ljósi stöðu ríkissjóðs til næstu ára er engu að síður óhjákvæmilegt að mat verði lagt á möguleika til frekari tekjuöflunar sé þess þörf.

Fiskeldi.
    Jákvæð hagræn áhrif fiskeldis aukast ár frá ári hvort sem litið er til byggðaáhrifa eða aukningar í útflutningsverðmætum landsins. Mikilvægt er að mati meiri hlutans að hugað verði sérstaklega að sóknartækifærum í fiskeldi til frekari verðmætasköpunar með frekari rannsóknum og eftir atvikum með breytingum á reglum í kjölfar aukinnar þekkingar og reynslu undanfarinna ára. Brýnt er að stjórnvöld tryggi að allar ákvarðanir um starfsumhverfi fiskeldis byggist á vísindalegum rannsóknum á vistkerfi nytjastofna, lífríki þeirra og umhverfi.

Málefnasvið 14 Ferðaþjónusta.
    Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hraðast á undanförnum árum. Segja má að hún hafi slitið barnsskónum sem ein helsta útflutningsgrein landsins. Allar stefnumarkandi ákvarðanir til lengri tíma verða að byggjast á traustum grunni og á því hvernig ná megi meiri festu í atvinnugreininni og meiri verðmætasköpun. Meiri hlutinn tekur undir að horfa þurfi til rannsókna á sviði ferðaþjónustu og að styðja og efla þurfi slíkt starf.
    Lengi hefur veruleg uppbyggingarþörf verið á mörgum ferðamannastöðum þrátt fyrir að bent hafi verið á fjölbreyttar leiðir til að fjármagna þá uppbyggingu. Hér má nefna sanngjörn notendagjöld og/eða bílastæðagjöld. Þá mætti afla tekna með komugjöldum til landsins, sem í senn myndu styðja við ríkissjóð og uppbyggingu á fjölförnum ferðamannastöðum. Þá er bent á að þegar hefur náðst góður árangur á þessu sviði víða. Stíga þarf mun markvissari skref til að nýta aðra krafta til uppbyggingar en bein framlög.
    Meiri hlutinn vill að fyrir næstu fjárlagagerð liggi fyrir aðgerðaáætlun um nýtingu þeirra leiða og um uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Málefnasvið 15 Orkumál.
    Auknar rannsóknir á sviði orkumála eru einn af meginþáttum í orkuskiptum og loftslagsmálum. Því er mikilvægt að festa í sessi þá hækkun fjárheimildar sem gerð var við gerð fjárlaga 2022.
    Stór og mikilvæg verkefni á sviði raforkudreifingar líða fyrir hindranir í leyfismálum og ákvarðanatöku. Í áætluninni er haldið áfram að styðja við uppbyggingu dreifikerfis raforku í dreifðum byggðum. Áherslan hefur verið á jöfnun dreifikostnaðar og aðgengi að traustu dreifikerfi. Í landi þar sem orkuskipti, t.d. í samgöngum, hafa komist á skrið vakna mikilvægar pólitískar spurningar um aðgengi fólks og fyrirtækja að traustum tengingum við raforkukerfið og afhendingaröryggi.
    Verulegum fjármunum er varið til að jafna dreifikostnað og nást sjaldan markmið um jafnræði sem þó eru bundin í lög. Orkuskiptin eru verkefni allrar þjóðarinnar og mikilvægt að fjármagnið og regluverkið styðji við það. Aðgengi fyrirtækja og byggðarlaga að raforku er víða hamlandi þegar kemur að búsetuöryggi og verðmætasköpun. Dæmi eru um að ekki fáist raforka eða tenging. Jafnvel eru heimili í dreifbýli sem eru ekki tengd dreifikerfinu og orkuskipti því ekki möguleiki fyrir alla landsmenn.
    Grænbók um stöðu orkuframleiðslu leiddi í ljós ákveðna vankanta á orkuframleiðslu og afhendingaröryggi raforku á Íslandi. Þar er bent á að ákvarðanataka og stefnumótun skipti mestu máli hvað varðar dreifikerfi og raforkuframleiðslu. Við gerð fjárlaga fyrir árið 2022 voru fjármunir til Orkustofnunar auknir og er mikilvægt að sú hækkun verði til lengri tíma. Þá var aukið fjármagn til jöfnunar dreifikostnaðar sem nær ekki enn lögbundnum markmiðum. Það er álit meiri hlutans að skoða verði alvarlega regluverk um ákvarðanatöku í orkuframleiðslu, uppbyggingu dreifikerfis og fyrirkomulag hennar.
    Þá leggur meiri hlutinn til að fyrirkomulag uppbyggingar á kostnaðarlíkani rafmagnsflutnings verði endurskoðað til að ná fram meiri jöfnuði á milli íbúa í landinu og minnka til lengri tíma fjárþörf ríkissjóðs til að standa undir þeirri jöfnun.

Málefnasvið 20 Framhaldsskólastig.
    Í umsögnum frá landshlutasamtökum á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra var fjallað um kostnað sveitarfélaga af dreifnámi eða skólaselum framhaldsskóla. Mjög mismunandi er á milli sveitarfélaga hve mikinn kostnað þau bera af rekstri dreifnáms, sem er útibú framhaldsskóla landshlutanna. Þá hefur sú jákvæða þróun orðið að fleiri ungmennum gefst nú kostur á að sækja sér framhaldsnám í heimabyggð sinni, óháð tilteknum framhaldsskóla. Með bættum búnaði og fjarskiptum hafa opnast nýir möguleikar á að enn meiri fjölbreytni verði í námsframboði.
    Meiri hlutinn beinir því til mennta- og barnamálaráðherra að vinna að stefnumörkun um kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga í rekstri dreifnáms og aðstöðu fyrir það, og verði í framhaldinu unnið að samningum við sveitarfélög. Við gerð fjárlaga haustið 2022 verði fjármögnun þeirra gagnsærri og markvissari.

Málefnasvið 23, 24 og 26 Heilbrigðismál.
    Nauðsynlegt er að bregðast við þeim fjölmörgu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðismálum. Þar má nefna viðvarandi skort á starfsfólki í ákveðnum heilbrigðisstéttum. Á vegum stjórnvalda starfar landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sem m.a. hefur það hlutverk að skila ráðherra ár hvert tillögum að aðgerðaáætlun til að ná markmiðum heilbrigðisstefnu sem ætlað er að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar samhliða því sem mannaflaþörfin hverju sinni er skilgreind.
    Heilbrigðisvísindum hefur fleygt fram á liðnum árum og leitt til margvíslegra nýjunga í meðferð við sjúkdómum. Ný tækni og ný lyf hafa komið fram sem skipt geta sköpum fyrir sjúklinga en í mörgum tilvikum fela nýjar meðferðir í sér stóraukin útgjöld til heilbrigðisþjónustu. Miklu skiptir að nýta tækni og nýsköpun til að veita betri þjónustu og auka skilvirkni hennar.
    Samhliða þarf að leggja aukna áherslu á lýðheilsuaðgerðir sem miða að því að efla heilbrigði, fyrirbyggja sjúkdóma og beita viðeigandi aðgerðum til að greina frávik svo að beita megi snemmtækri íhlutun og hindra sjúkdómsþróun og fylgikvilla sjúkdóma sem þegar eru til staðar. Verkefni af þessu tagi eru ein besta ráðstöfunin til að draga úr sívaxandi heilbrigðiskostnaði vegna öldrunar þjóðarinnar.
    Meiri hlutinn bendir einnig á nauðsyn þess að stefnumörkun í heilbrigðismálum taki til kerfisins í heild í stað þess að einblínt sé á einstök vandamál í of ríkum mæli, eins og svokallaðan fráflæðisvanda Landspítala. Til að leysa þau mál þarf samstillt kerfi þar sem allar heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimili og heimaþjónusta sveitarfélaga hafa hlutverki að gegna samhliða því sem nauðsynlegt er að auka lífsgæði eldra fólks og gera þeim kleift að búa heima hjá sér sem lengst.
    Jafnframt þarf áfram að huga að endurhæfingu yngra fólks sem fallið hefur út af vinnumarkaði vegna veikinda og slysa. Tryggja þarf aðgang þeirra aftur inn í samfélagið, t.d. í nám og vinnu.

Málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Meiri hlutinn fagnar nýgerðum samningum vegna reksturs hjúkrunarheimila. Afar mikilvægt er að fylgja þeim samningum eftir og halda áfram að þróa og bæta rekstur heimilanna. Með samningunum er ljóst að staða þeirra hefur batnað til mikilla muna og nauðsynlegt er að halda vel á málum þannig að ekki myndist aftur sá vandi sem var í rekstri heimilanna á undanförnum árum.
    Heilbrigðisráðuneyti þarf að endurskoða áætlanir sínar um fjármögnun þeirra og byggingu nýrra heimila. Framkvæmdir hafa tafist og þarf fjármögnun nýrra heimila og núverandi samnings að haldast í hendur.

Málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að í fjármálaáætluninni eru stigin fyrstu skrefin í átt að þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar að einfalda örorkulífeyriskerfið og bæta kjör örorkulífeyrisþega, líkt og lagt er til í stjórnarsáttmála.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á nauðsyn þess að við gerð næstu fjármálaáætlunar komi fram áætlanir um einföldun kerfisins, en mikilvægt er að sameina bótaflokka, draga úr tekjutengingum og búa til hvata til aukinnar atvinnuþátttöku á sama tíma og kjör örorkulífeyrisþega sem ekki geta stundað atvinnu eru tryggð.
    Mikilvægt er að tryggja góða þjónustu við fatlað fólk í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem á að lögfesta á þessu kjörtímabili, eins og tilgreint er í stjórnarsáttmála. Samningurinn hefur þegar kallað á veigamiklar og mikilvægar breytingar á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk í nútíð og framtíð sem bæta munu lífskjör þess til muna.
    Meiri hlutinn vekur athygli á skýrslu starfshóps félags- og vinnumarkaðsráðherra um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í skýrslunni kemur m.a. fram að rekstrarniðurstaða sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk á árunum 2018–2020 er neikvæð um tæpa 9 ma.kr.
    Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur tilkynnt um stofnun starfshóps sem á að móta tillögur varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Við gerð næstu fjármálaáætlunar þarf að horfa til niðurstöðu þessa hóps með tilliti til fjárhagslegs bolmagns sveitarfélaganna svo að standa megi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands við fatlað fólk.

Málefnasvið 29 Fjölskyldumál.
     Málefni innflytjenda og flóttamanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að móta markvissa og skýra langtímastefnu í málefnum útlendinga sem stuðli að farsælli og gagnkvæmri aðlögun innflytjenda og innlendra hérlendis og komi þannig í veg fyrir að á landinu myndist jaðarsett samfélag innflytjenda eins og dæmi eru um í sumum Evrópuríkjum.
    Jafnframt er lögð áhersla á þjónustuvilja opinberra aðila, hvort sem er á vegum ríkis eða sveitarfélaga, sem endurspegli það fjölmenningarsamfélag sem tekið hefur að myndast hér á landi. Það er ekki aðeins réttlætismál heldur snýr það að ríkum þjóðhagslegum hagsmunum að hér hafi fólk, óháð uppruna, tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.
    Ríkisstjórnin hyggst ráðast í heildarstefnumótun í málefnum útlendinga á kjörtímabilinu og vekur meiri hlutinn athygli á því að það kann að kalla á auknar fjárheimildir til íslenskukennslu og samfélagsfræðslu, til stuðnings við atvinnuþátttöku og fleiri þætti. Hafa þarf þessi atriði í huga við gerð næstu fjármálaáætlunar.

Málefnasvið 31 Húsnæðis- og skipulagsmál.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að draga úr spennu í hagkerfinu til að verja kaupmátt og ráðstöfunartekjur. Þrátt fyrir það er uppsöfnuð þörf fyrir íbúðarhúsnæði ein helsta áskorun við stjórn efnahagsmála.
    Þá vísar meiri hlutinn til þess meginmarkmiðs opinberrar stefnu í húsnæðismálum að tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna. Hægari vöxtur efnahagslífsins á seinni hluta áætlunartímabilsins, líkt og gert er ráð fyrir í þessari fjármálaáætlun, kallar á skýra forgangsröðun. Þá er rétt að rifja upp að víða um land hefur ekki náðst að byggingarkostnaður íbúða endurspeglist í fasteignaverði. Sannarlega hefur „köldum svæðum“ á fasteignamarkaði fækkað á landsbyggðinni, ekki síst vegna þeirrar stefnu á undanförnum árum að styðja við brothættan fasteignamarkað þar sem lágt fasteignaverð hamlar helst uppbyggingu.
    Útgjaldaaukning heimilanna vegna vaxandi verðbólgu kallar á að þétt sé staðið að uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fjárhagslegur stuðningur vegna húsnæðis til handa þeim sem þess þurfa verði byggður á traustum áætlunum og að markmiðum fjármálaáætlunar á gildistíma hennar verði fylgt eftir, einkanlega að stutt verði við óhagnaðardrifin leigufélög og byggingarfélög sem starfa á félagslegum grundvelli hvort sem lýtur að opinberum framkvæmdum eða sjálfstæðum.

Breytingartillögur.
    Eins og rakið hefur verið í áliti þessu hafa efnahagshorfur breyst töluvert frá því að áætlunin var lögð fram. Nú er gert ráð fyrir töluvert hærri verðbólgu heldur en miðað var við í forsendum gildandi þjóðhagsspár Hagstofu Íslands og í því ljósi er gerð tillaga um að uppfæra áætlunina.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er tekið tillit til þessa bæði á tekju- og gjaldahlið áætlunarinnar. Einnig er stefnt að því að nýta uppsveifluna í hagkerfinu til þess að draga hraðar úr halla ríkissjóðs heldur en ráð var fyrir gert, sem er í samræmi við markmið peningastefnunnar um að lækka verðbólgu með því að draga úr þenslu í hagkerfinu.

Helstu breytingar á tekjuhlið fjárlaga.
    Flestir tekjustofnar hækka frá framlagðri áætlun. Það er í samræmi við nýjar efnahagsforsendur og innheimtuþróun það sem af er árinu. Af einstökum sköttum vega þyngst hækkanir á áætlun virðisaukaskatts, tekjuskatts einstaklinga, tryggingagjalds og fjármagnstekjuskatts. Þrátt fyrir minni raunvöxt einkaneyslu en ætlað var er virðisaukaskattur endurmetinn til hækkunar vegna aukinnar verðbólgu og grunnáhrifa af tekjuuppgjöri síðasta árs. Áætlun um tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald hækkar í samræmi við hærri laun. Fjármagnstekjuskattur hækkar vegna grunnáhrifa yfirstandandi árs þar sem ný álagning Skattsins leiddi í ljós mikla aukningu fjármagnstekna.
    Auk breytinga sem leiðir af efnahagsþróuninni er gert ráð fyrir aðgerðum á tekjuhlið til að sporna við þenslu í hagkerfinu. Þær vega samtals 61 ma.kr. á tímabilinu og skiptast með eftirfarandi hætti:

Tekjur í ma.kr. 2023 2024 2025 2026 2027
Krónutölugjöld uppfærð með hliðsjón af spá um verðlag 3,0 3,8 3,9 4,0 4,0
Nokkrar sértækar gjaldabreytingar 2,7 5,8 6,1 6,4 6,5
Flýting á innleiðingu nýrra gjalda vegna umferðar og eldsneytis 3,4 3,2 3,0 2,8 2,7
Samtals 9,1 12,8 13,0 13,2 13,2

    Í heild hækka tekjur ríkissjóðs um 32,0 til 43,5 ma.kr. á ári og samtals um 194 ma.kr. fyrir áætlunartímabilið í heild. Þar vegur virðisaukaskattur langþyngst eða samtals um 90 ma.kr. Áætlað er að tekjur sveitarfélaga hækki samtals um 60 ma.kr. á tímabilinu.
    Í fylgiskjali III kemur fram nánari sundurliðun á tekjulið ríkisins og í fylgiskjali IV er birt sama framsetning fyrir sveitarfélög. Samtölu tekjubreytinga A1-hluta ríkis og sveitarfélaga má sjá í fylgiskjali II.

Helstu breytingar á gjaldahlið fjárlaga.
    Breytingum má skipta í fimm flokka:
     1.      Í fyrsta lagi hækka áætlaðar launa-, almannatrygginga- og verðlagsbætur um 14–17 ma.kr. á ári. Forsendur miðast við 0,5% kaupmáttaraukningu á næsta ári og 1% fyrir árin 2024–2027, sem tekur mið af hærri verðbólguspá.
     2.      Vaxtagjöld hækka um 10 ma.kr. í ár vegna verðbóta, sem hefur lítils háttar áhrif til hækkunar árin 2023 og 2024, en lækka eftir það.
     3.      Mótvægisaðgerðir til að styðja við tekjulægri heimili vegna aukinnar verðbólgu auka útgjöldin um 5–7 ma.kr. á ári. Um er að ræða hækkun húsnæðisbóta og hækkun bóta almannatrygginga.
     4.      Aðgerðir til að sporna við þenslu í hagkerfinu. Gert er ráð fyrir að forsendur um aðhald málefnasviða árið 2023 verði þær sömu, sem felst í auknu aðhaldi. Hluta af auknu útgjaldasvigrúmi ársins 2023 verði frestað og lækkun heimilda vegna ferðakostnaðar verður gerð varanleg. Loks er miðað við að fjárfestingaráformum verði hliðrað milli ára, m.a. vegna þess að ekki hefur tekist að nýta allar fjárfestingarheimildir fyrri ára. Einnig er miðað við nokkrar aðrar breytingar, svo sem lækkun á framlögum til stjórnmálasamtaka og hliðrun á sérstöku framlagi til menningarmála 2023–2024. Samtals er um að ræða 24,3 ma.kr. lækkun á tímabilinu sem skiptist með eftirfarandi hætti:

Gjöld í ma.kr. 2023 2024 2025 2026 2027
Forsendur um aðhald á árinu 2023 verði þær sömu og árið 2022 2,7 2,7 2,7 2,7 2,7
Hluta af auknu útgjaldasvigrúmi 2023 verði frestað í eitt ár 2,0 1,0 0,0 0,0 0,0
Lækkun vegna ferðakostnaðar gerð varanleg 0,6 0,6 0,6 0,6 0,6
Aðrar breytingar á útgjaldahlið málefnasviða 1,6 -1,3 -0,9 -1,1 -1,1
Hliðrun fjárfestingaráfanga um eitt ár eða aðlögun að raunstöðu 9,6 0,6 0,8 -0,9 -2,8
Samtals 16,5 3,7 3,2 1,4 -0,5

     5.      Á móti vega nokkrar aðrar breytingar, bæði til lækkunar og hækkunar. Áætlað er að útgjöld aukist vegna aukins fjölda flóttamanna á næstu tveimur árum um 2 ma.kr. hvort ár um sig. Tekið er tillit til hækkunar framlaga til þróunarsamvinnu í samræmi við auknar þjóðartekjur og vegur það samtals 1,2 ma.kr. á tímabilinu. Á móti vegur lækkun gjalda vegna lægra atvinnuleysis um samtals 7 ma.kr. Samtals nema þessar breytingar á bilinu 1–3 ma.kr. á ári til lækkunar.
    Að öllu samanlögðu nema gjaldabreytingar málefnasviða um 75 ma.kr. til hækkunar á tímabili áætlunarinnar. Sundurliðun á einstökum málefnasviðum kemur fram í fylgiskjali V.
    Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs batni um sem nemur á bilinu 20–30 ma.kr. árlega á tímabili áætlunarinnar.
    Breytingar á afkomu hins opinbera í heild, ríkissjóðs (A1-hluta) og sveitarfélaga, koma fram í fylgiskjölum I–IV.
    Í fylgiskjölum V og VI eru sýndar breytingar á heildargjöldum málefnasviða og á rammasettum útgjöldum. Í fylgiskjali VII kemur fram breyting á sjóðstreymi ríkissjóðs.

    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar eru í áliti þessu og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. júní 2022.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Teitur Björn Einarsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Stefán Vagn Stefánsson. Vilhjálmur Árnason. Þórarinn Ingi Pétursson.



Fylgiskjal I.


Lykilstærðir fyrir hið opinbera og opinbera aðila í heild 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1212-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Rekstraryfirlit fyrir hið opinbera 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1212-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Rekstraryfirlit fyrir ríkissjóð (A1-hluta) 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1212-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


Rekstraryfirlit fyrir A-hluta sveitarfélaga 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1212-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Heildarútgjöld málefnasviða 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1212-f_V.pdf



Fylgiskjal VI.


Útgjaldarammar málefnasviða 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1212-f_VI.pdf



Fylgiskjal VII.


Sjóðstreymi ríkissjóðs (A1-hluta) 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1212-f_VII.pdf