Ferill 609. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1238  —  609. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Hildu Jönu Gísladóttur um landshlutasamtök og umhverfismál.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fjármagn verði veitt í sóknaráætlanir landshlutanna í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál?
     2.      Mun ráðherra stuðla að markvissu samstarfi landshlutasamtaka og ríkisins vegna umhverfis- og loftslagsmála? Ef svo er, hvernig?


    Sóknaráætlanir landshlutanna eru gott tæki til þess að halda utan um áhersluverkefni í landshlutum og þær geta jafnframt skapað farveg til þess að veita fé í forgangsmál í hverri sveit. Á síðastliðnum árum hafa umhverfis- og loftslagsmál orðið veigameiri þráður í verkefnum sóknaráætlana svo að mikilvægt er að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið skoði vel hvernig best megi styrkja þá vinnu sem þar er lagt upp með og tryggja samlegð milli stefnumótunar ríkis og sveitarfélaga.
    Ráðuneytið hyggst annars vegar láta kanna þann möguleika að auka almenn framlög ráðuneytisins til sóknaráætlana sem eru eyrnamerkt umhverfis-, orku- og loftslagsmálum og hins vegar hvernig veita megi fjármagn eyrnamerkt málefnum hringrásarhagkerfis, náttúruverndar og loftslagsmála í gegnum ráðstöfunarfé tengdra aðgerða í byggðaáætlun og í gegnum málefnasvið 17 um umhverfismál sem heyrir undir ráðuneytið.
    Ráðuneytið hyggst taka upp samtal við landshlutasamtökin og kanna með hvaða hætti sé hægt að styrkja sveitarstjórnarstigið undir fyrrnefndum málefnum með hliðsjón af áhersluverkefnum í sóknaráætlunum landshlutanna og aðgerðum á ábyrgð ráðuneytisins í byggðaáætlun. Ráðuneytið hefur þegar kallað saman framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna til almenns fundar með sérfræðingum í ráðuneytinu um umhverfis-, orku- og loftslagsmál þar sem áhersluverkefni í hverjum landshluta voru rædd. Mæltist fundurinn vel á báða bóga og mun ráðuneytið á næstunni halda áfram samtalinu með hverjum landshlutasamtökum fyrir sig. Jafnframt hefur ráðuneytið ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga átt samtal við nokkur landshlutasamtök varðandi mögulegar umsóknir í LIFE, styrktarsjóð Evrópusambandsins á sviði umhverfismála. Þá hefur ráðuneytið nýlega styrkt nýsköpunarverkefnið Norðanátt sem Eimur stendur að ásamt landshlutasamtökunum á Norðurlandi.