Ferill 571. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1241  —  571. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (íbúakosningar á vegum sveitarfélaga).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðna Geir Einarsson, Hönnu Dóru Hólm Másdóttur og Björn Inga Óskarsson frá innviðaráðuneyti, Guðjón Bragason og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Indriða B. Ármannsson frá landskjörstjórn og Telmu Halldórsdóttur frá Þjóðskrá Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá landskjörstjórn, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrá Íslands. Jafnframt bárust nefndinni minnisblað og gögn frá innviðaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að einfalda íbúakosningar á vegum sveitarfélaga um einstök málefni, sameiningu og þegar kosið er til nefndar fyrir hluta sveitarfélags. Jafnframt er lagt til að mögulegt sé að halda rafrænar íbúakosningar á vegum sveitarfélaga.
    Að mati meiri hlutans er frumvarpið framfaraskref í átt að aukinni lýðræðislegri þátttöku íbúa sveitarfélaga sem meiri hlutinn telur mikilvægt að vinna að. Við umfjöllun málsins komu þó fram athugasemdir varðandi fjármögnun á skyldu sem er lagt til að Þjóðskrá Íslands hafi við gerð kjörskrár fyrir atkvæðagreiðslu, sbr. 2. málsl. 3. mgr. a-liðar 5. gr. (133. gr.). Af þessu tilefni áréttar meiri hlutinn að Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald af sveitarfélögum vegna gerðar rafrænnar kjörskrár fyrir íbúakosningar, sbr. 3. mgr. b-liðar 5. gr. (134. gr.).

Breytingartillögur meiri hlutans.
Kosningarréttur.
    Í núgildandi 1. málsl. 3. mgr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, kemur fram að kosningarrétt í kosningum til nefndar sem starfar fyrir hluta sveitarfélags hafi þeir sömu og eiga kosningarrétt samkvæmt lögum um kosningar. Þá er í 1. málsl. 3. mgr. a-liðar 5. gr. (133. gr.) frumvarpsins kveðið á um að kosningarrétt í íbúakosningum sveitarfélaga hafi íbúar viðkomandi sveitarfélags. Núgildandi kosningalög, nr. 112/2021, gera hins vegar ráð fyrir því að kosningarréttur taki breytingum með hliðsjón af því hvort um er að ræða kosningar til sveitarstjórna eða Alþingis, kjör forseta Íslands eða þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Í ljósi framangreinds og tengsla íbúakosninga við sveitarstjórnir telur meiri hlutinn því rétt að leggja fram breytingartillögu með það að markmiði að árétta að í íbúakosningum sveitarfélaga skuli að jafnaði taka mið af kosningarrétti í sveitarstjórnarkosningum.

Kjörskrár.
    Við umfjöllun málsins komu fram ábendingar frá landskjörstjórn um að í 1. málsl. 4. mgr. 38. gr. og 5. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga væri enn miðað við að Þjóðskrá Íslands afhenti sveitarstjórnum kjörskrárstofna. Núgildandi kosningalög, nr. 112/2021, geri hins vegar ekki ráð fyrir þessu heldur er nú gert ráð fyrir að stofnunin afhendi kjörskrár. Vegna þessa er það mat meiri hlutans að tilefni sé til að leggja til breytingar vegna þessa til að samræma ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og kosningalaga, nr. 112/2021.

Aðkoma landskjörstjórnar.
    Þrátt fyrir að frumvarpi þessu sé ætlað að einfalda íbúakosningar í sveitarfélögum telur meiri hlutinn afar mikilvægt að skýrar reglur gildi um íbúakosningar til að traust ríki um framkvæmdina. Til að tryggja að svo megi verða er það því mat meiri hlutans að mikilvægt sé að landskjörstjórn hafi aðkomu að setningu reglugerðar skv. 4. mgr. a-liðar 5. gr. (133. gr.) frumvarpsins og leggur til breytingu þar að lútandi.
    Aðrar breytingar eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Við bætist nýr stafliður sem verði a-liður og orðist svo: Á eftir orðinu „eiga“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: til sveitarstjórnar.
                  b.      Á eftir a-lið komi nýr stafliður sem orðist svo: Í stað orðsins „kjörskrárstofn“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: kjörskrá.
     2.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Í stað orðsins „kjörskrárstofni“ í 5. mgr. 108. gr. laganna kemur: kjörskrá.
     3.      Við a-lið 5. gr. (133. gr.).
                  a.      Í stað orðsins „sveitarstjórnarlaga“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: laga þessara.
                  b.      Á eftir orðinu „sveitarfélaginu“ í 1. málsl. 3. mgr. komi: til sveitarstjórnar.
                  c.      1. málsl. 4. mgr. orðist svo: Til að tryggja að íbúakosning á vegum sveitarfélags uppfylli grundvallarskilyrði um lýðræðislegar kosningar, skal ráðuneytið setja reglugerð að höfðu samráði við landskjörstjórn þar sem mælt er fyrir um þau lágmarksatriði sem fram skulu koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar.
     4.      Talan „VI“ í 6. gr. falli brott.

Alþingi, 13. júní 2022.

Vilhjálmur Árnason,
form.
Ingibjörg Isaksen,
frsm.
Bjarni Jónsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.