Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1268  —  575. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Fyrsti minni hluti fagnar því að komin sé fram þingsályktunartillaga um stefnu í geðheilbrigðismálum til 2030 enda brýnt og aðkallandi að stjórnvöld leggi fram stefnu, aðgerðaáætlun og yfirsýn yfir málaflokkinn. 1. minni hluti styður málið í megindráttum en telur að stefnan sé ekki nægilega metnaðarfull og að ganga þurfi lengra enda er ekki að finna í stefnunni vísi að skýrum aðgerðum sem ráðast þarf í. Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir í heilbrigðisráðuneyti við gerð áætlunar þarf að tryggja að áætlunin sé fjármögnuð. Ljóst er af skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi að víða er pottur brotinn, vandamálin eru flestum löngu kunn en illa gengur þó að leysa þau. Þar kemur fram að árangur aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum 2016–2020 sé ófullnægjandi og flest vandamál sem voru fyrir hendi þegar hún var sett séu enn til staðar. Við eftirgrennslan kemur í ljós að einu aðgerðir þeirrar áætlunar sem komust til framkvæmdar voru þær sem voru fjármagnaðar frá byrjun. Því er ljóst að enn annað ófjármagnað þjóðarátak dugir ekki til. Það þarf langtímasýn, fjármagnaðar og tímasettar aðgerðir og pólitískan vilja og úthald. Óttast 1. minni hluti að vera kunni að þetta olnbogabarn íslenskrar heilbrigðisþjónustu fái annars enn að bíða skýrra markmiða og aðgerða.
    Brýnt er að grípa fyrr einstaklinga sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda til að koma í veg fyrir stærri vandamál síðar á lífsleiðinni. 1. minni hluti telur það því framfaraskref að stefnt sé að því að geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga og þarf því að setja geðrækt inn í öll skólastig frá unga aldri.
    Fyrsti minni hluti bendir á, líkt og gert er í áðurnefndri skýrslu ríkisendurskoðanda, að bæta þarf aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og útrýma gráum svæðum sem myndast hafa í kerfinu undanfarin ár. Eins og staðan er í dag sitja ekki öll við sama borð þegar kemur að aðgengi að geðheilbrigðiskerfinu og ákveðin kerfislæg mismunun innbyggð. Það ræðst gjarnan af efnahag, tegund geðvanda og búsetu hvort einstaklingar fái þjónustu eða ekki. Þá á flóttafólk og annað fólk af erlendum uppruna sem ekki talar íslensku eða stendur félagslega verr að vígi enn erfiðara með aðgang að þjónustunni. Gráu svæðin hafa myndast í geðheilbrigðiskerfinu vegna óljósrar ábyrgðarskiptingar innan heilbrigðisþjónustunnar, milli ríkis og sveitarfélaga og ágreinings um ábyrgð á kostnaði. Þessi vandi kemur skýrt fram þegar þörf er á sértækri þjónustu sem enginn telur sig eiga að veita. Það er því afar brýnt að skilgreina betur ábyrgðar- og hlutverkaskiptingu þjónustuaðila en einnig auka samvinnu, þverfagleg vinnubrögð og samfellu í þjónustu.
    Biðlistar eftir lífsnauðsynlegri þjónustu eru allt of langir um allt land. Ríkisendurskoðandi telur að helsta skýringin sé skortur á sérhæfðu starfsfólki og viðeigandi úrræðum og að hvati sé til staðar í kerfinu til að vísa erfiðum málum frá til að komast þannig hjá kostnaði. Að mati 1. minni hluta er afar brýnt að ráðast strax í aðgerðir til að sporna við þessari þróun og koma í veg fyrir langa biðlista. Löng bið eftir geðheilbrigðisþjónustu getur aukið vanda sjúklinga og aðstandenda þeirra og getur gert verkefni þjónustunnar mun flóknari, erfiðari og dýrari en ella hefði orðið. Í þessu samhengi er við hæfi að ítreka að þörf er á fyrirhyggju og langtímahugsun í þessum mikilvæga og vandasama málaflokki.
    Í stefnunni er að finna góð markmið sem 1. minni hluti styður en stefnan þarf að miða að nútímalegri útfærslu út frá sjónarmiði notenda þjónustunnar en ekki veitenda hennar. Samanburðarríki okkar eru komin mun lengra en við í þróun þjónustu við fólk með geðrænar áskoranir og þangað eigum við að stefna. Til að hægt sé að ná stórum skrefum í þessum málaflokki sem setið hefur eftir af hálfu stjórnvalda þarf að horfa til framtíðar með þarfir notenda að leiðarljósi. Þannig náum við árangri og fækkum á endanum þeim einstaklingum sem þurfa á flóknari inngripum að halda.
    Fyrsti minni hluti beinir því til ríkisstjórnarinnar að tryggt verði að væntanleg aðgerðaáætlun verði fjármögnuð og ítarlegri en fyrri áætlun og taki m.a. á þeim atriðum sem 1. minni hluti hefur bent á sem og ríkisendurskoðandi í skýrslu sinni um geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Alþingi, 13. júní 2022.

Guðný Birna Guðmundsdóttir.