Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1319  —  482. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002 (einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins.
    Nefndinni barst umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og Controlant hf.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar hvað varðar veitingu tímabundinna atvinnuleyfa til einstaklinga sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis með starfsstöð hér á landi. Lagt er til að Vinnumálastofnun verði veitt heimild til að veita tímabundin atvinnuleyfi starfsmönnum með ótímabundna ráðningu sem stjórnendur eða sérfræðingar við starfsstöð atvinnurekanda erlendis sem atvinnurekandi sendir tímabundið til starfa við starfsstöð sína hér á landi, sbr. 8. gr. laganna. Í gildandi lögum er Vinnumálastofnun heimilt að veita slíkum starfsmönnum tímabundin atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki á grundvelli 9. gr. laganna, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.
    Tilgangurinn með þessari breytingu á lögunum er að tryggja að framangreindir starfsmenn njóti sömu réttinda og þeir sem fá veitt tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. gildandi laga. 8. gr. laganna veitir meiri réttindi en 9. gr., m.a. að heimilt sé að veita nánustu aðstandendum hlutaðeigandi starfsmanna dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar en slíkt er ekki heimilt á grundvelli 9. gr. laganna. Þá er heimilt að veita tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. til lengri tíma en heimilt er á grundvelli 9. gr.
    Í stjórnarsáttmála er skýrt tekið fram að lög um útlendinga, nr. 80/2016, og lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku og auka skilvirkni með einföldun ferla, m.a. á grundvelli sérstakra tengsla við landið eins og á grundvelli fjölskyldusameiningar. Lagt er til að haft verði samráð við aðila vinnumarkaðarins í þeirri vinnu en við vinnslu þessa frumvarps var ríkt samráð við aðila vinnumarkaðarins. Þá kemur einnig fram í stjórnarsáttmála að umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verði einfaldað. Í þessu frumvarpi er um slíka breytingu að ræða.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að innlendum störfum muni fjölga mjög mikið á næstu árum, umfram fjölgun innlends fólks á vinnualdri, og þörfin fyrir innflutning erlendra starfsmanna því mikil. Telja samtökin því þörf á að ganga enn lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Meiri hlutinn bendir á að nauðsynlegt er að rökstuðningur fylgi frá atvinnurekanda og að ferlið sé einfalt og gangi fumlaust fyrir sig. Það er mikilvægt að mæta þeirri þróun sem Samtök atvinnulífsins benda á í umsögn sinni. Meiri hlutinn telur þó skýrt að samþykki Vinnumálastofnunar verður að vera fyrir hendi þar sem kveðið er á um slíkt í lögum og reglugerðum um atvinnuréttindi útlendinga.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Björgvin Jóhannesson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Orri Páll Jóhannsson.
Óli Björn Kárason.