Ferill 563. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Nr. 27/152.

Þingskjal 1383  —  563. mál.


Þingsályktun

um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára, sbr. lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs og í fimm ára fjármálaáætlun.

Niðurbrot á ramma fjármálaáætlunar 2022–2026 2022 2023 2024 2025 2026 Samtals
Byggðamál samtals 2.078 1.969 1.895 1.879 1.863 9.683
Byggðaáætlun 923 923 857 849 840 4.392
    Þar af aðgerðaáætlun 647 661 663 655 644 3.270
Sóknaráætlanir landshluta 569 465 460 456 451 2.401
Byggðastofnun 213 211 209 207 205 1.043
Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni 206 204 202 201 200 1.015
Jöfnun flutningskostnaðar 167 167 167 167 167 833
Miðað við verðlag í fjárlögum fyrir árið 2022. Fjárhæðir í millj. kr.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG MEGINMARKMIÐ

    Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.
    Meginmarkmið eru tvenns konar:
     a.      Innviðir mæti þörfum samfélagsins.
     b.      Byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær.
    Í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna og búsetufrelsi með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum. Grunnþjónusta verði veitt íbúum sem mest í nærsamfélaginu. Á höfuðborgarsvæðinu verði miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu sem allir landsmenn hafi gott aðgengi að.
    Byggðamál verði samhæfð við aðra málaflokka eftir því sem við á. Í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera verði loftslagsmál og sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi og áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin.

II. LYKILVIÐFANGSEFNI

    Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði byggðaþróunar verði unnið að eftirfarandi fimm lykilviðfangsefnum:
     1.      Lýðfræðilegri þróun og grunnþjónustu.
     2.      Fjölbreyttu atvinnulífi.
     3.      Innviðum.
     4.      Umhverfis- og loftslagsmálum.
     5.      Alþjóðlegri samkeppnisstöðu og sjálfbærni byggða.
    Efling sveitarstjórnarstigsins og jafnréttissjónarmið verði tengd við úrlausn þessara áskorana.

III. MARKMIÐ, ÁHERSLUR OG MÆLIKVARÐAR

    Markmið stjórnvalda í byggðamálum samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir eru að:
     A.      Jafna aðgengi að þjónustu.
     B.      Jafna tækifæri til atvinnu.
     C.      Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
    Sérstök áhersla verði lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.
    Við útfærslu á öllum markmiðum verði leitast við að beita aðferðafræði altækrar hönnunar þar sem tekið er mið af ólíkri stöðu og þörfum allra íbúa landsins.
    Eftirfarandi áherslur leiði til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samhæfingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð.

A. Jafna aðgengi að þjónustu.
     a.      Opinber grunnþjónusta verði skilgreind í lögum sem og hvernig réttur íbúa landsins til hennar verði tryggður óháð búsetu.
     b.      Opinber stefnumörkun verði samhæfð eins og kostur er og áhrif hennar á þróun búsetu í landinu metin.
     c.      Stutt verði við nýsköpun og tækniþróun í félags- og heilbrigðisþjónustu um land allt.
     d.      Öll lögheimili og vinnustaðir á landinu eigi kost á háhraðanettengingu með ljósleiðara eða annarri sambærilegri tækni.
     e.      Mótuð verði opinber viðmið um útbreiðslu og gæði farsíma- og farneta á vegakerfi landsins og viðeigandi úrbætur gerðar.
     f.      Orkukostnaður heimila verði jafnaður.
     g.      Stuðlað verði að því að verslun á dreifbýlum svæðum, fjarri stórum þjónustukjörnum, verði viðhaldið.
     h.      Almenningssamgöngur í lofti, á láði og legi styrki tengingar innan vinnu- og þjónustusóknarsvæða og auki þannig aðgengi og jafnræði íbúa, m.a. innan landfræðilega víðfeðmra sveitarfélaga en einnig með því að tengja fámennari byggðarlög stærri þjónustukjörnum.
     i.      Með aukinni samhæfingu áætlana verði við forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun og skilgreiningar á þjónustustigi horft sérstaklega til þess að efla atvinnu- og þjónustusóknarsvæði.
     j.      Aðgengi að innviðum fyrir vistvæn farartæki verði til staðar um allt land.
     k.      Tækifæri til að hagnýta upplýsingatækni og fjarskipti til náms, kennslu og eflingar heildstæðrar skólaþjónustu verði nýtt.
     l.      Innflytjendur fái aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og geti þannig nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu, m.a. með auknu aðgengi að íslenskukennslu og samfélagsfræðslu.
     m.      Íbúar landsins, ekki síst börn og ungmenni, hafi aðgang að menningu, listum, íþróttum og öðrum tómstundum óháð búsetu og efnahag.
     n.      Aðgengi að fjölbreyttu starfs-, iðn- og tækninámi verði bætt um land allt.
     o.      Háskólar leggi áherslu á aukið framboð náms í fjar- og dreifnámi og efli samstarf sín á milli, m.a. um sameiginleg námskeið, sameiginlegar prófgráður og svæðisbundnar lausnir.
     p.      Öryggi og gæði neyðar- og öryggisþjónustu verði aukin.
     q.      Tryggð verði örugg póst- og vörudreifing á þeim svæðum sem búa við markaðsbrest í þeirri þjónustu.
     r.      Rannsóknavirkni, vísindastarfsemi og nýsköpun á landsbyggðinni verði efld.

Mælikvarðar sem stuðst verði við til að meta framgang markmiðs:
     1.      Mismunur á húshitunarkostnaði heimila.
     2.      Hlutfall þeirra sem búa í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá heilsugæslustöð, leik-, grunn- og framhaldsskóla og dagvöruverslun.
     3.      Hlutfallsleg skólasókn á framhalds- og háskólastigi, annars vegar í aldurshópnum 16–24 ára og hins vegar þeirra sem eru eldri en 24 ára.

B. Jafna tækifæri til atvinnu.
     a.      Lögð verði áhersla á mikilvægi áframhaldandi uppbyggingar innviða, bæði efnislegra og félagslegra, sem taki mið af ólíkri stöðu og þörfum mismunandi hópa samfélagsins á grundvelli hugmyndafræði altækrar hönnunar, loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar.
     b.      Tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar verði nýtt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
     c.      Nýsköpunarhæfni samfélaga og áhersla á frumkvöðlastarfsemi og græn störf verði aukin um allt land með áherslu á að styrkja stoðkerfi og innviði nýsköpunar, stafræna þróun, þekkingaruppbyggingu og greiðara aðgengi að mörkuðum og fjármagni.
     d.      Stuðlað verði að eflingu hringrásarhagkerfisins um land allt með áherslu á græna atvinnuuppbyggingu, staðbundna styrkleika, aukna fullvinnslu í héraði og bætta nýtingu auðlindastrauma, þ.m.t. orkunýtingu.
     e.      Sköpuð verði fjölbreytt og verðmæt störf um land allt og stuðlað að sem jafnastri dreifingu starfa. Til að styðja við byggðaþróun og búsetufrelsi verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.
     f.      Tryggðir verði fjármunir til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða um land allt þar sem jafnvægi ríki á milli hagnýtingar, samfélagslegs ávinnings og verndunar náttúru.
     g.      Stutt verði við uppbyggingu fluggátta til landsins um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll og þannig stuðlað að jafnari dreifingu ferðamanna um landið auk þess að mæta þörfum fyrir varaflugvelli í landinu.
     h.      Staðinn verði vörður um byggðatengdar aflaheimildir smærri sjávarbyggða.
     i.      Nýliðun og búháttabreytingar í landbúnaði verði auðveldaðar og brugðist við kröfum um bættan aðbúnað bústofns með aðgengi að lánum á sem hagstæðustum kjörum.
     j.      Til að ná fram markmiðum um kolefnishlutleysi Íslands verði unnið að verndun og bindingu kolefnis í jarðvegi með endurheimt vistkerfa, landgræðslu og skógrækt og unnið að því að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda frá landi með endurheimt votlendis og sjálfbærri landnýtingu.
     k.      Áfram verði unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg og ríki og sveitarfélög skapi skilyrði til atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar um land allt.
     l.      Uppbygging þekkingarstarfsemi og annarrar þjónustu á sviði norðurslóðamála styðji við byggðaþróun og þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi.
     m.      Í samstarfi stjórnvalda, stoðkerfis atvinnulífsins og landshlutasamtaka sveitarfélaga verði lokið greiningu á styrkleikum einstakra svæða með tilliti til atvinnuuppbyggingar og fjárfestingaráherslur skilgreindar og á þeim grunni hvatt til grænna fjárfestinga um land allt.
     n.      Afhendingaröryggi raforku verði aukið og stutt við orkuskipti á landsvísu. Áhersla verði lögð á verkefni sem stuðla að sem bestri raforkunýtingu með samhæfingu framleiðslu, flutnings og notkunar eftir því sem kostur er og sem falla að öðrum markmiðum og áætlunum, m.a. um sjálfbæra byggðaþróun, full orkuskipti og kolefnishlutleysi Íslands eigi síðar en árið 2040.

Mælikvarðar sem stuðst verði við til að meta framgang markmiðs:
     1.      Atvinnuþátttaka og meðalatvinnutekjur.
     2.      Hlutfall ríkisstarfa af íbúafjölda/heildarfjölda stöðugilda.
     3.      Menntunarstig (25–64 ára).

C. Stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt.
     a.      Unnið verði með félagslegan fjölbreytileika og lýðfræðilega þætti á borð við kyn, aldur og uppruna og þau tækifæri nýtt sem felast í mannauðnum í hverju byggðarlagi.
     b.      Sveitarfélög setji sér loftslagsstefnu með skilgreindum markmiðum um samdrátt í losun og geri áætlanir til að tryggja að markmið náist með hliðsjón af markmiði um kolefnishlutleysi Íslands eigi síðar en árið 2040.
     c.      Fyrirliggjandi þekking um áhrif loftslagsbreytinga, áhættumat og tengsl við líffræðilega fjölbreytni skuli tekin til greina í stefnumótun, áætlanagerð og við ákvarðanir er varða þróun byggðar, landnotkun og skipulagsgerð, hvort sem er á landi, haf- eða strandsvæðum.
     d.      Tryggt verði skilvirkt laga- og reglugerðaumhverfi til að bregðast megi við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki.
     e.      Greindir verði styrkleikar einstakra svæða og unnið með þá og gætt að samspili þéttbýlis og dreifbýlis í þeim tilgangi að byggja upp fjölbreytt sjálfbær byggðarlög. Í því felst m.a. að móta stefnu þar sem hlutverk Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins verði skilgreint annars vegar og hlutverk Akureyrarsvæðisins í byggðaþróun í landinu hins vegar.
     f.      Aðferðafræði sóknaráætlana landshluta og brothættra byggða verði efld og þróuð.
     g.      Tryggt verði nægilegt framboð af fjölbreyttu íbúðarhúsnæði með fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu húsnæði hamlar eðlilegri framþróun og uppbyggingu byggðarlaga og atvinnulífs.
     h.      Rekstrarskilyrði fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins verði bætt.
     i.      Rannsóknir á sviði byggðamála verði efldar og virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á sviði byggðamála og rannsókna tryggð.
     j.      Skipan í opinberar stjórnir, ráð, nefndir og starfshópa endurspegli búsetudreifingu í landinu.
     k.      Í samstarfi ríkis og sveitarfélaga verði unnið að innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og verkefnis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um aldursvæn samfélög.
     l.      Sveitarfélög hafi fjárhagslega og faglega getu til að standa til lengri tíma undir lögbundnum verkefnum, innviðauppbyggingu og öðrum brýnum viðfangsefnum nærsamfélagsins og að fjármögnun þeirra stuðli að hagkvæmu skipulagi sveitarstjórnarstigsins og góðri nýtingu opinberra fjármuna.
     m.      Stutt verði við klasasamstarf sem tæki í byggðaþróun en þar hefur hið opinbera því hlutverki að gegna að bregðast við markaðsbresti og styrkja innviði nýsköpunar um allt land.
     n.      Skoðaðir verði möguleikar á beitingu hagrænna hvata sem tækis í byggðaþróun, svo sem að nýta ívilnanaheimildir laga um Menntasjóð námsmanna til endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina og svæða.
     o.      Ríki og sveitarfélög verði færari um að bregðast við áskorunum sem felast í mikilli fólksfjölgun á einstökum svæðum.
     p.      Stutt verði við hin ýmsu form samfélags- og nýsköpunarmiðstöðva í minni byggðakjörnum.
     q.      Rannsóknir á hagrænum og samfélagslegum áhrifum menningar og lista verði efldar, ekki hvað síst á landsbyggðinni.
     r.      Hlutverk íþróttahéraða verði skilgreind og þau efld, ekki hvað síst með hag barna og ungmenna að leiðarljósi.
     s.      Stuðningur við landbúnað sem mikilvægan hluta af fæðuöryggi og grunnþátt í búsetumynstri í landinu verði efldur.

Mælikvarðar sem stuðst verði við til að meta framgang markmiðs:
     1.      Framfærsluhlutfall.
     2.      Lýðfræðilegir veikleikar.
     3.      Loftslagsstefnur sveitarfélaga, sbr. mælikvarða í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

IV. SAMHÆFING VIÐ AÐRAR STEFNUR OG ÁÆTLANIR

    Alþingi ályktar að náið samráð milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings sé mikilvægt við framkvæmd byggðastefnu. Með því móti verði tryggð samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Meðal þess sem horft verði til í því sambandi er eftirfarandi:
     a.      Regluleg umræða fari fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar um stöðu og framkvæmd byggðaáætlunar og tækifæri til samhæfingar.
     b.      Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál verði efldur og virk þátttaka þvert á Stjórnarráðið tryggð.
     c.      Tryggð verði fagleg aðkoma Byggðastofnunar að framkvæmd og eftirfylgni byggðaáætlunar og unnið mat á samfélagslegum áhrifum og þjóðhagslegri arðsemi áætlunarinnar.
     d.      Þjónustukort sýni aðgengi landsmanna að opinberri þjónustu og útbúið verði mælaborð sem varpar ljósi á stöðu og framvindu byggðamála.
     e.      Samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga sé virkt.
     f.      Tryggð verði regluleg upplýsingagjöf til Alþingis.
     g.      Fram fari kerfisbundin miðlun upplýsinga, rannsóknir, fræðsla og alþjóðlegur samanburður.
    Við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs.

V. AÐGERÐAÁÆTLUN 2022–2026

    Alþingi ályktar að unnið skuli í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða byggðaáætlunar.
    Einstök ráðuneyti fjármagni aðgerðir eftir því sem við á. Fjárheimildir byggðaáætlunar verði nýttar til fjármögnunar aðgerða, ýmist til samfjármögnunar með ábyrgðar- og framkvæmdaraðilum eða að öllu leyti, eftir því sem fjárheimildir leyfa.

A. Jafna aðgengi að þjónustu.
A.1. Háhraðanettengingar.
          Markmið: Að öll lögheimili og vinnustaðir eigi kost á háhraðanettengingu um ljósleiðara.
          Stutt lýsing: Staða háhraðanettenginga á landsvísu verði greind og sú greining lögð til grundvallar samkeppnishvetjandi aðgerðum og aðkomu opinberra aðila að verkefninu, reynist þess þörf. Forgangsmál verði að koma um 50 minni byggðakjörnum sem hafa takmarkað aðgengi að nútímaháhraðanettengingum í tengingu við ljósleiðara. Gripið verði til annarra ásættanlegra lausna í þeim tilfellum þar sem ekki er talið ákjósanlegt að tengja með ljósleiðara.
          Ábyrgðarráðuneyti: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Fjarskiptafyrirtæki og sveitarfélög.
          Dæmi um samstarfsaðila: Fjarskiptastofa, fjarskiptasjóður og innviðaráðuneyti.
          Tímabil: 2022–2025.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Fjarskiptaáætlun, nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, einkum undirmarkmið 9.1 og 9.4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 172 millj. kr.

A.2. Jöfnun orkukostnaðar.
          Markmið: Að orkukostnaður í dreifbýli og þéttbýli verði jafnaður, bæði hvað varðar dreifingu á raforku og húshitunarkostnað.
          Stutt lýsing: Þar sem dreifikostnaður raforku er meiri í dreifbýli en þéttbýli og kostnaður við húshitun hærri á stöðum sem ekki búa við möguleika á hitaveitu með jarðvarma verði gripið til jöfnunaraðgerða. Markmið um jöfnun orkukostnaðar á landsvísu sem er einn þáttur í jöfnun búsetuskilyrða og atvinnutækifæra verði tryggð með jöfnunarframlagi og niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Sérstaklega verði skoðaðar skilgreiningar dreifiveitna í dreif- og þéttbýli og miðað þar við skilgreiningar í aðalskipulagi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Orkustofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7, einkum undirmarkmið 7.1.
          Tillaga að fjármögnun: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

A.3. Bráðaviðbragð neyðarþjónustu.
          Markmið: Að neyðarþjónusta verði bætt og öryggi aukið um land allt.
          Stutt lýsing: Aðgerðin verði tvíþætt. Annars vegar verði viðbragðstími neyðarþjónustu greindur og staðan kortlögð til að unnt verði að stytta tímann og auka öryggi um land allt. Mæling á viðbragðstíma lögreglu og annarra viðbragðsaðila verði samræmd, greint hvort þjónustu- og öryggisstig sé sambærilegt um allt land og metið hvaða breytinga sé þörf og hvernig bæta megi þjónustu og öryggi. Hins vegar verði nærsamfélagið virkjað til að auka líkur á góðri útkomu í bráðaaðstæðum fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga. Stutt verði við umgjörð um samræmda skipulagða þjónustu vettvangsliða um landið, svo sem björgunarsveita, RKÍ og annarra í nærumhverfi, með því að námskeiðum fyrir vettvangsliða verði fjölgað.
          Ábyrgðarráðuneyti: Dómsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Ríkislögreglustjóri, heilbrigðisstofnanir og heilsugæslur.
          Dæmi um samstarfsaðila: Lögreglustjórar, sveitarfélög, slökkvilið, Rauði krossinn á Íslandi, björgunarsveitir, félagasamtök, Sjúkraflutningaskólinn og Neyðarlínan.
          Tímabil: 2022–2025.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Löggæsluáætlun, aðgerðaáætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 1, 3, 11 og 16, einkum undirmarkmið 1.5, 3.6, 11.5, 11.a og 16.6.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 30 millj. kr.

A.4. Velferðarnet.
          Markmið: Að heildstæð þjónusta á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála verði styrkt og aukin og ávinningur notenda af þjónustu ríkis og sveitarfélaga þannig aukinn.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram með þróun tilraunaverkefna í þverfaglegum landshlutateymum/velferðarnetum sem sinni samhæfingu, ráðgjöf, gæðamálum og fleiru á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála í anda laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Sett verði á laggirnar velferðarnet sem myndi heildstæða og samræmda þjónustukeðju sveitarfélaga og ríkis á umræddum sviðum. Byggð verði upp kunnátta til að veita starfsfólki sveitarfélaga, notendum og foreldrum sérhæfða stað- og fjarbundna ráðgjöf sem miði m.a. að því að beita fyrirbyggjandi stuðningi og ráðgjöf fyrr. Unnið verði að verkefnum sem miði að því að styðja notendur og fjölskyldur þeirra í dreifðum byggðum til sjálfshjálpar þar sem ekki er greiður aðgangur að sérfræðingum. Áhersla verði lögð á þróun stafrænna lausna á sviði velferðartækni. Árangur aðgerðarinnar verði m.a. mældur í fjölda velferðarstofa.
          Ábyrgðarráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Stofnanir ríkis og sveitarfélaga á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála á viðkomandi svæði.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, landshlutasamtök sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, hagsmunasamtök fatlaðs fólks, almannaheillasamtök og fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði velferðar- og menntamála.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, heilbrigðisstefna, nýsköpunarstefna, stefna í nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 1, 3, 4 og 16, einkum undirmarkmið 1.3, 3.5, 3.8, 4.a og 16.1.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 25 millj. kr.

A.5. Fjarheilbrigðisþjónusta.
          Markmið: Að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði aukið og bætt með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu.
          Stutt lýsing: Með innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu verði leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og talmeinafræðingum. Jafnframt verði rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu, og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi, og með þeim hætti verði teymisvinna innan heilbrigðisþjónustunnar auðvelduð. Árangur aðgerðarinnar verði m.a. mældur í fjölda þeirra sem nýta sér sérfræðiþjónustu í gegnum netið.
          Ábyrgðarráðuneyti: Heilbrigðisráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Embætti landlæknis og veitendur heilbrigðisþjónustu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir, heilsugæslustöðvar, sveitarfélög, aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu og fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði heilbrigðismála.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Heilbrigðisstefna, nýsköpunarstefna, fjarskiptastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 100 millj. kr.

A.6. Aðgengi að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.
          Markmið: Að aðgangur að ýmiss konar sérfræðiþjónustu óháð búsetu verði jafnaður.
          Stutt lýsing: Skoðað verði hvort fjölga megi sérfræðingum á heilbrigðissviði á landsbyggðinni með því að nýta ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna þar sem kveðið er á um sérstaka ívilnun vegna námsgreina sem og sérstaka ívilnun vegna námsgreina á sérstökum svæðum. Lögð verði áhersla á mikilvægi þess að tryggja ýmiss konar sérfræðiþjónustu, til að mynda þjónustu geðhjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, talmeinafræðinga og sérfræðilækna, á landsbyggðinni.
          Ábyrgðarráðuneyti: Heilbrigðisráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Heilbrigðisstefna og menntastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

A.7. Nærþjónusta við innflytjendur.
          Markmið: Að aðgengi innflytjenda að opinberri þjónustu um land allt verði bætt.
          Stutt lýsing: Mótaðir verði samræmdir verkferlar/móttökuáætlanir og fjölmenningarstefnur á vettvangi sveitarfélaga. Upplýsingar um þjónustu sveitarfélaga verði aðgengilegar og hugað sérstaklega að nýjum innflytjendum. Kannaðar verði leiðir til að gera úrræði og upplýsingar sýnilegar fyrir innflytjendur í atvinnuleit. Þróað verði rafrænt fræðsluefni fyrir fagstéttir og boðið upp á stutt fræðsluerindi á vegum Fjölmenningarseturs. Símenntunarstöðvar fái námsgögn til þess að halda ítarlegri námskeið fyrir starfsfólk. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda sveitarfélaga sem innleiða fjölmenningarstefnur og/eða móttökuáætlanir, fjölda sveitarfélaga sem þiggja boð um fræðsluerindi og fjölda námskeiða sem haldin eru á vegum símenntunarstöðva.
          Ábyrgðarráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Fjölmenningarsetur.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Vinnumálastofnun, símenntunarstöðvar, Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda (í vinnslu, mars 2022), nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 10, einkum undirmarkmið 10.2, 10.3, 10.4 og 10.7.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12 millj. kr.

A.8. Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði.
          Markmið: Að opinber þjónusta í héraði verði efld, atvinnutækifærum fjölgað og ríkisrekstur bættur.
          Stutt lýsing: Starfsemi sýslumannsembætta um land allt og opinber þjónusta í héraði verði efld með betri nýtingu innviða, þ.m.t. stafrænnar tækni, húsnæðis og mannauðs. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda starfa á sýsluskrifstofum og fjölda sérfræðinga þar.
          Ábyrgðarráðuneyti: Dómsmálaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Dómsmálaráðuneyti og sýslumannaráð.
          Dæmi um samstarfsaðila: Sýslumenn, Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélögin, verkefnastofa um stafrænt Ísland, önnur ráðuneyti og undirstofnanir.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Sýslumenn – Framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri, skýrsla dómsmálaráðuneytisins (mars 2021).
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.a og 11.b.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 50 millj. kr.

A.9. Verslun í dreifbýli.
          Markmið: Að stutt verði við rekstur dagvöruverslunar í minni byggðarlögum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu.
          Stutt lýsing: Komið verði til móts við vanda dreifbýlisverslana á fámennum markaðssvæðum, sem búa við háan flutningskostnað, óhagkvæm innkaup og erfið rekstrarskilyrði, með fjárhagsstuðningi sem m.a. taki mið af flutningsvegalengd og veltu. Einnig verði boðið upp á fjárfestingarstuðning og metið hvernig best verði staðið að ráðgjöf.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9, 11 og 12, einkum undirmarkmið 8.9, 9.1, 11.b, 12.3 og 12.b.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 75 millj. kr.

A.10. Almenningssamgöngur milli byggða.
          Markmið: Að stutt verði við áframhaldandi þróun almenningssamgangna milli byggða, m.a. til að tengja ýmsa sérakstursþjónustu við almenningssamgöngur.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram að greina kerfi almenningssamgangna og þróa nýjar lausnir. Skoðað verði hvort þörf sé á að leggja til breytingar á gildandi laga- og reglugerðaumhverfi til að almenningssamgöngur nýtist fólkinu í landinu sem best og þannig staðinn vörður um hinar dreifðu byggðir þar sem alla jafna er erfiðast að reka reglubundnar almenningssamgöngur. Til að tryggja og styrkja lágmarksþjónustu í dreifðustu byggðunum verði hugmyndir um samflutning farms og farþega og deiliakstur sérstaklega skoðaðar.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Vegagerðin, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög, ráðgjafar, háskólar og fyrirtæki.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Samgönguáætlun, Ferðumst saman – heildarstefna í almenningssamgöngum milli byggða.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1 og 11.2.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 65 millj. kr.

A.11. Heildstæð skólaþjónusta.
          Markmið: Að heildstæð skólaþjónusta á leik- og grunnskólastigi á landsbyggðinni verði efld og þróuð og samhæfð félags- og heilbrigðisþjónustu.
          Stutt lýsing: Heildstæð skólaþjónusta, sem snýst um ráðgjöf, leiðbeiningar og stuðning við starfsemi skóla og starfsfólk, styðji við skólaþróun og starfsþróun kennara, veiti nemendum almennan og sértækan stuðning og foreldrum þeirra leiðbeiningar og ráðgjöf eftir þörfum. Lágmarksviðmið um skólaþjónustu verði skilgreind og því fylgt eftir að þjónustan sé veitt í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Heildræn nálgun verði tryggð með því að skóla-, heilbrigðis- og félagsþjónusta verði fléttuð saman með markvissu samstarfi milli mismunandi kerfa og þjónustu og sem bestu aðgengi að þjónustunni óháð landfræðilegri staðsetningu og stærð sveitarfélaga. Hagnýtt verði tækifæri sem felast í auknu samstarfi sveitarfélaga, samnýtingu og samhæfingu sérfræðiþekkingar, m.a. með hjálp stafrænna lausna. Sérstök áhersla verði lögð á að auka stuðning við nemendur með annað tungumál en íslensku og uppbyggingu og þróun samhæfðrar skólaþjónustu á þeim stöðum þar sem þörfin er brýnust.
          Ábyrgðarráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Rekstraraðilar skóla, landshlutasamtök sveitarfélaga, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa.
          Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, háskólar, Fjölmenningarsetur, skólastjórnendur og fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði velferðar- og menntamála.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4, einkum undirmarkmið 4.1, 4.2, 4.7 og 4.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 26 millj. kr.

A.12. Jafnræði til náms.
          Markmið: Að aðgengi verði aukið að kennurum með sérþekkingu í tilteknum faggreinum og á tilteknum námssviðum á grunn- og framhaldsskólastigi.
          Stutt lýsing: Nemendur hafi aðgengi að sérfræðiþekkingu kennara með sérhæfingu í tilteknum faggreinum eða á tilteknum námssviðum, kennslu og kennsluráðgjöf, m.a. stafrænt, svo að jafnræði þeirra til náms óháð landfræðilegri staðsetningu verði tryggt eins og kostur er. Mönnun í tilteknum faggreinum og á tilteknum námssviðum í grunn- og framhaldsskólum verði kortlögð og þörf fyrir rafræna kennslu og kennsluráðgjöf metin.
          Ábyrgðarráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, fagfélög skólastjórnenda og kennara og fyrirtæki í stafrænni þróun tæknilausna á sviði velferðar- og menntamála.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4, einkum undirmarkmið 4.1, 4.3, 4.4, 4.5 og 4.7.
          Tillaga að fjármögnun: Mennta- og barnamálaráðuneyti.

A.13. Starfsþróun starfsfólks leik- og grunnskóla.
          Markmið: Að fagháskólanámi í leikskólafræðum verði komið á fót og það fest í sessi í öllum landshlutum og íslenskukunnátta starfsfólks leikskóla sem ekki hefur íslensku að móðurmáli verði efld.
          Stutt lýsing: Aðgerðin verði tvíþætt. Annars vegar að til að koma í veg fyrir kennaraskort og auka nýliðun verði starfsfólki leikskóla sem ekki uppfyllir inntökuskilyrði til háskólanáms boðið tækifæri til aðfaranáms að háskólanámi í leikskólafræðum sem jafnframt teldist vera fyrstu skref í háskólanámi. Áhersla verði lögð á að sveitarfélögin veiti sínu starfsfólki stuðning við upphaf námsins. Skoðað verði að koma á fót raunfærnimati til að fá inngöngu í nám í leikskólafræði. Hins vegar verði stefnt að því að starfsfólk leik- og grunnskóla sem ekki hefur íslensku að móðurmáli fái tækifæri til að efla íslenskukunnáttu sína svo að það nái færni B samkvæmt Evrópska tungumálarammanum. Námið verði sniðið að þörfum þess og hægt verði að stunda það jafnhliða starfi, m.a. með fjarnámi og stafrænu námsefni. Árangur aðgerðarinnar verði m.a. mældur í fjölda þeirra sem sækja námið.
          Ábyrgðarráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Háskólar, sveitarfélög og fræðsluaðilar.
          Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Fjölmenningarsetrið og stéttarfélög ófaglærðra starfsmanna leik- og grunnskóla.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4.
          Tillaga að fjármögnun: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.

A.14. Ráðstöfun fjármuna til grunnskóla.
          Markmið: Að reglum um úthlutun og ráðstöfun fjármuna verði breytt þannig að horfið verði frá viðbragðsmiðuðum stuðningi og þess í stað lögð áhersla á snemmtækan stuðning og forvarnir.
          Stutt lýsing: Unnið verði með niðurstöður tilraunaverkefnis mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og tólf sveitarfélaga sem fram fór 2019– 2020. Reglur sveitarfélaga um úthlutun og ráðstöfun fjármuna til kennslu og þjónustu í grunnskólum verði endurskoðaðar og þær færðar að þeim viðmiðunum sem Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar hefur lagt til. Sveitarfélög sem tóku þátt í tilraunaverkefninu haldi áfram samstarfi og samstarfið nái jafnframt til sveitarfélaga um land allt.
          Ábyrgðarráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Rekstraraðilar skóla og fræðslumála, Menntamálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Kennarasamband Íslands, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um barnvænt Ísland.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

A.15. Opinber grunnþjónusta og jöfnun aðgengis.
          Markmið: Að aðgengi og þjónustustig opinberrar grunnþjónustu verði jafnað með bættum aðstæðum og tæknilausnum.
          Stutt lýsing: Skilgreint verði aðgengi að opinberri grunnþjónustu. Einnig verði skilgreint lágmarksþjónustustig opinberrar grunnþjónustu fyrir dreifbýli þar sem of kostnaðarsamt getur þótt að veita þjónustuna. Jafnframt verði lagðar fram tillögur um tæknilega framkvæmd og jöfnun kostnaðar við að sækja einstaka þætti þjónustu á vegum ríkisins.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti og stofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 1, 10 og 11, einkum undirmarkmið 1.4, 10.2, 10.3, 10.4, 10.7, 11.1, 11.2, 11.3 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

A.16. Kostnaðargreining vegna þjónustusóknar.
          Markmið: Að heildarkostnaður vegna þjónustusóknar verði greindur.
          Stutt lýsing: Greindur verði heildarkostnaður við þjónustusókn, þ.m.t. ferða- og uppihaldskostnaður, vinnutap og annar samfélagslegur kostnaður sem til fellur, hjá mismunandi samfélagshópum við að sækja tiltekna opinbera þjónustu um lengri veg, svo sem heilbrigðis-, mennta- og félagsþjónustu. Aðgerðir til jöfnunar aðgengis geti byggst á samfélagslegum heildarkostnaði, óháð því hver ber hann.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun og fleiri.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, stofnanir og háskólar.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1, 11.2 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 5 millj. kr.

B. Jafna tækifæri til atvinnu.
B.1. Þrífösun og jarðstrengjavæðing.
          Markmið: Að afhendingaröryggi raforku verði aukið, aðgengi að áreiðanlegri orku á landsvísu jafnað, búsetuskilyrði bætt og atvinnutækifæri efld.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku og samhliða verði það þrífasa. Einnig verði unnið að einföldun regluverks varðandi framkvæmdir í flutnings- og dreifikerfi raforku. Aðgerðin verði unnin í samræmi við fimm ára fjármálaáætlun 2021–2025 þar sem gert er ráð fyrir 600 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði í sérstakt átak til að ljúka þrífösun og jarðstrengjavæðingu þjóðhagslega mikilvægs hluta dreifikerfis raforku að mestu leyti fyrir árið 2025.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Rarik og Orkubú Vestfjarða.
          Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2025.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna, nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7 og 11, einkum undirmarkmið 7.1 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 275 millj. kr.

B.2. Orkuskipti og betri orkunýting.
          Markmið: Að orkuöryggi á landsvísu verði aukið og stutt við orkuskipti í samræmi við markmið Orkustefnu um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040.
          Stutt lýsing: Stutt verði við orkuskipti, svo sem rafhleðslustöðvar, jarðhitaleit, innlenda eldsneytisframleiðslu, vetnisvæðingu, rafvæðingu hafna og uppbyggingu sjálfbærra smávirkjana, og styrkir veittir til aukinnar einangrunar húsa og uppsetningar varmadæla þar sem þörf er á. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda nýorkuverkefna og rafvæðingarverkefna í höfnum, fjölgun varmadæla og smávirkjana og heildarafli þeirra og fjölda jarðhitaleitarverkefna og árangri af þeim.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Orkustofnun og Orkusjóður.
          Dæmi um samstarfsaðila: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, nýsköpunarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7 og 13, einkum undirmarkmið 7.1 og 13.2.
          Tillaga að fjármögnun: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

B.3. Efling nýsköpunar í byggðum landsins.
          Markmið: Að komið verði á fót stafrænni nýsköpunargátt fyrir frumkvöðla og fræðslu- og stuðningsaðila nýsköpunar um land allt.
          Stutt lýsing: Nýsköpunargáttin verði fyrsti snertiflötur frumkvöðla við stoðkerfi nýsköpunar og vettvangur fyrir miðlun á stoðefni og upplýsingum. Aðgerðin verði unnin í samræmi við 9. gr. laga um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, þar sem kemur fram að setja skuli á fót stafræna nýsköpunargátt fyrir upplýsingagjöf um stuðning við nýsköpun. Tilgangur gáttarinnar verði að miðla á einum stað upplýsingum og stoðefni frá ólíkum aðilum innan stoðkerfis nýsköpunar á Íslandi. Unnið verði að þarfagreiningu út frá væntum notendum, svo sem frumkvöðlum, fræðsluaðilum og ráðgjöfum. Samráð verði haft um efnistök, áherslur og framsetningu sem nýtast eiga aðilum á landinu öllu. Niðurstöður þarfagreiningar og samráðs verði lagðar til grundvallar við framkvæmd. Aðgerðin feli í sér hönnun, uppsetningu og rekstur vefsvæðis auk framleiðslu á stoðefni.
          Ábyrgðarráðuneyti: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, Byggðastofnun, Samtök iðnaðarins, háskólar og aðrar þekkingarstofnanir.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna, klasastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11, einkum undirmarkmið 8.3, 8.5, 8.9, 9.3, 9.5 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 15 millj. kr.

B.4. Stafrænt forskot.
          Markmið: Að fyrirtæki nýti stafræna tækni til vaxtar og viðnámsþróttar í ört breytilegu viðskiptaumhverfi.
          Stutt lýsing: Fyrirtæki verði hvött til að hagnýta stafræna tækni til að auka samkeppnishæfni og nýbreytni í rekstri. Jafnframt verði þau hvött til að nýta stafrænar lausnir til að sækja fram á sviði nýsköpunar og vöruþróunar. Boðið verði upp á aðgang að fræðslu og fyrirlestrum sérfræðinga um nýtingu stafrænnar tækni, svo sem sjálfvirknivæðingu, bálkakeðjutækni, sýndarveruleika og gervigreind, við daglegan rekstur og nýsköpun. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda fyrirtækja sem taka þátt.
          Ábyrgðarráðuneyti: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og Samtök verslunar og þjónustu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólinn á Bifröst, Samtök verslunar og þjónustu, landshlutasamtök sveitarfélaga, áfangastaðastofur og símenntunarmiðstöðvar.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna, klasastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 9, einkum undirmarkmið 8.3, 9.4 og 9.5.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12 millj. kr.

B.5. Greining atvinnusóknar.
          Markmið: Að ferðaleiðir verði greindar vegna atvinnusóknar, þ.e. ferða milli heimilis og vinnustaðar.
          Stutt lýsing: Skilgreint verði staðfang vinnustaðar og tíðni ferða milli heimilis og vinnustaðar þar sem slík greining er nauðsynleg forsenda þess að beita megi hagrænum hvötum við þróun atvinnusóknarsvæða. Upplýsinga verði m.a. leitað um það hvernig slíkum upplýsingum er safnað í Noregi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, innviðaráðuneyti, Skatturinn, Þjóðskrá Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1, 11.2 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 2 millj. kr.

B.6. Staðarval ríkisstarfa.
          Markmið: Að dreifing starfa á vegum ríkisins verði jöfnuð og stuðlað að fjölbreyttu atvinnulífi sem víðast um landið.
          Stutt lýsing: Þegar ný starfsemi hefst eða breytingar verða á starfsmannahaldi á vegum ríkisins verði metið með hlutlægum hætti hvort staðsetja megi störfin/starfsemina utan höfuðborgarsvæðisins.
          Ábyrgðarráðuneyti: Forsætisráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Forsætisráðuneyti, önnur ráðuneyti og stofnanir þeirra.
          Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019–2033.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun: Forsætisráðuneyti.

B.7. Óstaðbundin störf.
          Markmið: Að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni.
          Stutt lýsing: Störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega, þannig að búseta hafi ekki áhrif á ráðningar. Tekið verði saman yfirlit um fjölda starfsstöðva/-rýma og fjölda ríkisstarfa sem eru óháð staðsetningu. Í kjölfarið verði sett markmið um fjölgun vinnurýma og óstaðbundinna starfa með sem jafnastri dreifingu um landið. Byggðir verði upp vinnustaðaklasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila eftir atvikum þannig að góð vinnuaðstaða verði í boði sem víðast um landið. Skoðað verði hvort Byggðastofnun geti boðið lán með veði í slíkum klösum. Settir verði upp samkeppnispottar til að styðja annars vegar við uppbyggingu vinnustaðaklasa og hins vegar við einskiptiskostnað vegna starfa sem staðsett verða í skilgreindum vinnustaðaklösum eða annars staðar utan atvinnusóknar höfuðborgarsvæðisins. Árangur aðgerðarinnar verði metinn út frá fjölda vinnurýma og dreifingu þeirra um landið. Þá verði fylgst með nýtingu þeirra og fjölbreytni starfa.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti í samstarfi við forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun í samstarfi við ráðuneyti og ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu.
          Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, samtök þeirra og fyrirtæki.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019–2033.
          Tenging við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 9.1, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 298 millj. kr.

B.8. Miðstöð norðurslóðamála.
          Markmið: Að staða Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á landsvísu verði styrkt og samstarf þeirra fjölmörgu aðila sem hafa aðkomu að málaflokknum eflt.
          Stutt lýsing: Stutt verði við starfsemi Norðurslóðanetsins varðandi stafræna sókn, uppbyggingu samstarfsnets og þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Utanríkisráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Norðurslóðanetið.
          Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna Íslands í málefnum norðurslóða.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, 13 og 17, einkum undirmarkmið 9.5, 13.2 og 17.16.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 9 millj. kr.

B.9. Stefnumótun og hlutverk menningarstofnana.
          Markmið: Að starfsemi menningarstofnana á landsbyggðinni verði efld.
          Stutt lýsing: Unnin verði stefnumótun og skilgreining á hlutverkum menningarmiðstöðva og sambærilegra stofnana á landsvísu líkt og gert er í nágrannalöndunum. Landshlutasamtökum sveitarfélaga verði falið að greina stöðu þeirra og leggja drög að stefnumörkun til framtíðar. Sérstaklega verði litið til samþættingar við sóknaráætlun viðkomandi landshluta.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Menningarstofnanir og háskólar.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menningarstefna, sóknaráætlanir landshluta.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 10 millj. kr.

B.10. Nýting menningarminja.
          Markmið: Að menningarminjar til stuðnings byggðaþróun verði nýttar, einkum á svæðum sem standa höllum fæti í byggðarlegu tilliti.
          Stutt lýsing: Leitast verði við að fá heildarsýn yfir minjaarfinn til að greina nýtingarmöguleika og þau sóknartækifæri sem í honum felast. Menningarminjar (fornleifar, mannvirki og hús) verði kortlagðar á tilteknum svæðum og þau gögn notuð sem forsenda fyrir hönnun verkefna. Minjastofnun verði byggðarlögum til aðstoðar við leit að fjármagni fyrir þau verkefni sem sett verða í gang í kjölfarið, svo sem með því að benda á viðeigandi sjóði, styðja umsóknir og veita faglega ráðgjöf.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Minjastofnun Íslands.
          Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, Þjóðminjasafn Íslands, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög, áfangastaðastofur, ferðaþjónustuaðilar og háskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menningarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

B.11. Fluggáttir.
          Markmið: Að ferðamenn dreifist jafnar um landið.
          Stutt lýsing: Flugþróunarsjóður styðji við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Árangur verði mældur í fjölgun ferðamanna sem koma með flugi/fjölda lendinga.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Flugþróunarsjóður.
          Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, Isavia, landshlutasamtök sveitarfélaga og áfangastaðastofur.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 og Flugstefna Íslands.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11, einkum undirmarkmið 8.2, 9.1, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.

C. Stuðla að sjálfbærni byggða um land allt.
C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.
          Markmið: Að heimafólki verði færð aukin ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og sóknaráætlanir landshluta verði tengdar við byggðaáætlun.
          Stutt lýsing: Landshlutasamtök sveitarfélaga geti í samstarfi við haghafa í hverjum landshluta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar verði í forgangi. Sérstök áhersla verði lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf með gerð viðaukasamninga við sóknaráætlanir viðkomandi landshluta um tiltekin verkefni eftir forgangsröðun heimafólks.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, háskólar, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Sóknaráætlanir landshluta, stefnur/áætlanir ríkisins sem hafa áhrif á byggðaþróun.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 700 millj. kr.

C.2. Brothættar byggðir.
          Markmið: Að spornað verði við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum.
          Stutt lýsing: Haldið verði áfram með verkefnið Brothættar byggðir þar sem leitað er lausna á bráðum vanda á tilteknum svæðum vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undangengin ár. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í íbúaþróun í þátttökubyggðarlögum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Íbúar viðkomandi byggðarlaga, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, ráðuneyti og stofnanir.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11, einkum undirmarkmið 8.3, 8.9, 9.4 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 600 millj. kr.

C.3. Grænt og snjallt Ísland.
          Markmið: Að nýttar verði snjallar og grænar lausnir til að efla atvinnulíf og samfélag.
          Stutt lýsing: Unnið verði í víðtæku samstarfi að framtíðarsýn fyrir Ísland sem einkennist af sjálfbærni, jöfnum tækifærum og samstarfi um verkefni sem nýta snjallar og grænar lausnir til að efla atvinnulíf og samfélag. Skilgreind verði lykilverkefni og grænar fjárfestingar sem nauðsynlegt er að ráðast í til þess að markmiðið um Grænt og snjallt Ísland (GOS) verði að veruleika. Í tengslum við GOS verði sett á fót samstarfsteymi sem m.a. samhæfir sókn í fjármagn, þ.m.t. í ESB-sjóði.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Samband íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við teymi sem stofnað verður.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, Íslandsstofa, Byggðastofnun, Verkefnastofa um stafrænt Ísland og háskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun um eflingu stafrænnar þjónustu, framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, stefna í málefnum sveitarfélaga, orkustefna, nýsköpunarstefna og klasastefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7, 9, 12 og 13, einkum undirmarkmið 7.2, 7.3, 9.5, 12.2, 12.5, 12.8 og 13.2.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 5 millj. kr.

C.4. Borgarstefna.
          Markmið: Að stærstu þéttbýlissvæðin verði efld og samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins styrkt.
          Stutt lýsing: Með hliðsjón af vinnu starfshóps um mótun höfuðborgarstefnu og starfshóps um svæðisbundið hlutverk Akureyrar verði mótaðar stefnur sem annars vegar skilgreini hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðli að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og hins vegar hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Í vinnunni verði viðmið OECD um mótun og inntak borgarstefnu lögð til grundvallar eftir því sem við á.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneyti, Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Akureyrarbær og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.
          Dæmi um samstarfsaðila: Ráðuneyti, Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og ýmsir haghafar.
          Tímabil: 2022–2023.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsskipulagsstefna, samgönguáætlun, svæðisskipulag og aðrar skipulagsáætlanir sveitarfélaga.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 4 millj. kr.

C.5. Húsnæðismál.
          Markmið: Að tryggt verði nægilegt framboð af fjölbreyttu íbúðarhúsnæði með fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu húsnæði hamlar eðlilegri framþróun og uppbyggingu atvinnulífs.
          Stutt lýsing: Gripið verði til margvíslegra aðgerða til að bregðast við skorti á hentugu íbúðarhúsnæði, hvort sem er til leigu eða kaupa, á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á að fá fjármögnun á almennum markaði. Slíkar aðgerðir geti til að mynda falist í viðbótarframlagi til almennra íbúða (sérstakt byggðaframlag), lánveitingum til nýbygginga, samstarfi við Leigufélagið Bríeti um framboð á leiguíbúðum og stuðningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á hönnunar- og undirbúningsstigi og verið liður í verkefninu Tryggð byggð. Markaðsbrestur á mismunandi svæðum verði greindur, m.a. til að nýta megi sem best húsnæðisstuðning, svo sem í formi viðbótarstofnframlaga. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur í fjölda íbúða sem byggðar verða á fyrrnefndum svæðum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Leigufélagið Bríet, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðis- og skipulagsáætlanir sveitarfélaga, landsskipulagsstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.1, 11.3 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

C.6. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.
          Markmið: Að raunhæfar og markvissar húsnæðisáætlanir verði í gildi hjá öllum sveitarfélögum á stafrænu formi og þær endurskoðaðar árlega.
          Stutt lýsing: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vinni að því að innleiða stafrænar húsnæðisáætlanir með það að markmiði að auðvelda sveitarfélögum gerð þeirra og uppfærslu og auka áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þar koma fram. Sveitarfélög skili áætlunum sínum í áætlanakerfi HMS. Stuðlað verði að því að sveitarfélög vinni saman að gerð húsnæðisáætlana, t.d. á vettvangi landshlutasamtaka. Framkvæmd verði sameiginleg þarfagreining, m.a. í tengslum við landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag og þá þætti í aðalskipulagi sem snúa að framboði og eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, einkum til leigu. Í húsnæðisáætlunum komi fram hvernig íbúðaþörf mismunandi hópa verði mætt, þ.m.t. að fötluðu fólki sem býr á stofnunum eða herbergjasambýlum verði boðnir aðrir búsetukostir og staðan á því verkefni kortlögð og metin við árlega endurskoðun húsnæðisáætlunar.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög og Skipulagsstofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðis- og skipulagsáætlanir sveitarfélaga.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11, einkum undirmarkmið 11.1, 11.3 og 11.a.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

C.7. Efling fjölmiðlunar í héraði.
          Markmið: Að öflugir fjölmiðlar um land allt verði stoð undir lýðræðislega umræðu og fjölbreyttan fréttaflutning.
          Stutt lýsing: Veittir verði styrkir til einkarekinna staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins enda gegni þeir mikilvægu hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál. Efni þeirra sé fjölbreytt og ætlað almenningi á útbreiðslusvæði fjölmiðilsins og styðji þannig við lýðræðisþátttöku og menningarstarf.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Fjölmiðlanefnd og Byggðastofnun.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 10, 11 og 16, einkum undirmarkmið 10.2, 10.3, 11.3 og 16.10.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 12,5 millj. kr.

C.8. Sjálfbær samfélög – efling hringrásarhagkerfis.
          Markmið: Að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda við meðhöndlun úrgangs, unnið að kolefnishlutleysi Íslands og dregið úr myndun úrgangs. Enn fremur að endurvinnsla og önnur endurnýting verði aukin, dregið úr urðun og urðun lífbrjótanlegs úrgangs hætt.
          Stutt lýsing: Dregið verði úr myndun úrgangs, flokkun og endurvinnsla aukin og stuðlað að meiri samræmingu á landsvísu. Horft verði til þess að sveitarfélög nýti svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem stjórntæki og að þau samþætti viðeigandi stefnumörkun og áætlanir til að efla hringrásarhagkerfið, bæti auðlindanýtingu og dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Veittir verði styrkir til sveitarfélaga til þess að styrkja úrgangsforvarnir og bæta meðhöndlun úrgangs í sveitarfélögum, einkum byggðarlögum sem búa við veikan fjárhag, mjög dreifða byggð eða neikvæða byggðaþróun.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök iðnaðarins, Fenúr og fyrirtæki í úrgangsgeiranum.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, Orkustefna, klasastefna, Saman gegn sóun – almenn stefna um úrgangsforvarnir 2016–2027, stefna um meðhöndlun úrgangs 2021–2032, Matarauðlindin Ísland – matvælastefna Íslands til ársins 2030.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 2, 9, 11, 12 og 13, einkum undirmarkmið 2.4, 9.4, 11.6, 12.3, 12.4, 12.5, 12.8, 13.2 og 13.3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 85 millj. kr.

C.9. Náttúruvernd til eflingar byggðaþróun.
          Markmið: Að þáttur náttúruverndar í byggðaþróun verði efldur.
          Stutt lýsing: Greint verði hvernig aukin náttúruvernd geti haft jákvæð áhrif á byggðaþróun og hvaða tækifæri og ávinningur gæti falist í því innan eins eða fleiri sveitarfélaga. Gerð verði grein fyrir hvernig náttúruverndaráform samræmist stefnu hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga og hvernig megi best nýta þau tækifæri sem felast í náttúruvernd, svo sem með uppbyggingu innviða og þjónustu.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og Umhverfisstofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Markaðsstofur, Skipulagsstofnun, Byggðastofnun og háskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Náttúruverndaráætlun og verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun), landsskipulagsstefna, landsáætlun um uppbyggingu innviða, landsáætlun í skógrækt 2021–2031 (í vinnslu, mars 2022) og landgræðsluáætlun 2021– 2031 (í vinnslu, mars 2022).
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 6, 11, 13 og 15, einkum undirmarkmið 6.3, 11.3, 11.4, 13.2, 15.1, 15.2, 15.3 og 15.9.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 30 millj. kr.

C.10. Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög.
          Markmið: Að heildræn nálgun á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga verði mótuð.
          Stutt lýsing: Stigin verði fyrstu skrefin í mótun heildrænnar nálgunar á aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga í byggðum landsins. Tilviksrannsóknir verði framkvæmdar í litlum hópi ólíkra sveitarfélaga, t.d. hvað varðar fjarlægð frá sjó, þéttbýli, landslag, gróðurlendi og atvinnustarfsemi, með það að markmiði að þróa aðferðafræði sem nýtast muni á seinni stigum sem leiðarvísir fyrir íslensk sveitarfélög til frekari greininga á áhættu, tjónnæmi og aðlögunarþörf, sem og við uppsetningu aðlögunaráætlana. Horft verði til sambærilegra áhættugreininga erlendis frá, sér í lagi þeirra sem sveitarfélög hérlendis hafa tekið þátt í. Niðurstöðurnar verði einnig nýttar í norrænt samstarfsverkefni um aðlögun smærri samfélaga á norðurslóðum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Veðurstofa Íslands, Skipulagsstofnun og Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, landshlutasamtök, ráðuneyti, stofnanir, háskólar og norræna ráðherranefndin.
          Tímabil: 2022–2024.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum, landsskipulagsstefna, aðlögunaráætlun (í vinnslu, mars 2022).
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 13.1–13.3.
          Tillaga að fjármögnun: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

C.11. Bætt landnotkun sveitarfélaga.
          Markmið: Að binding kolefnis verði aukin og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi með breyttri landnotkun.
          Stutt lýsing: Greind verði tækifæri sem felast í breyttri landnotkun innan sveitarfélaga í þágu loftslagsmála með aukinni kolefnisbindingu í skógrækt og endurheimt vistkerfa, samdrætti í losun frá landi, svo sem þurrkuðu votlendi eða rofnu landi, eða breyttri landnýtingu. Unnin verði tækifærisgreining sem geti orðið grunnur stefnumörkunar í aðalskipulagi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Matvælaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Skógræktin, Landgræðslan, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, landsáætlun í skógrækt 2021–2031 (í vinnslu, mars 2022) og landgræðsluáætlun 2021–2031 (í vinnslu, mars 2022) og landsskipulagsstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 6, 11, 13 og 15, einkum undirmarkmið 6.6, 11.3, 13.2, 15.1 og 15.2.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 25 millj. kr.

C.12. Uppsetning og rekstur matvælakjarna.
          Markmið: Að nýsköpun og vöruþróun heima í héraði verði styrkt og stutt við matarfrumkvöðla með bættri og útbreiddari aðstöðu.
          Stutt lýsing: Komið verði á fót matvælakjörnum (matarsmiðjum/tilraunaeldhúsum) víðar um landið en nú er. Matvælakjarni sé vottað vinnslurými þar sem frumkvöðlar og smáframleiðendur hafi aðgang að aðstöðu til að framleiða og þróa vörur. Samhliða verði komið á fót stöðu matvælafulltrúa sem hafi það hlutverk að sjá um rekstur matvælakjarnans og hafa yfirsýn yfir matvælaframleiðslu á viðkomandi svæði. Hann verði tengiliður á milli frumframleiðenda, annarra matvælaframleiðenda, ferðaþjónustuaðila og veitingamanna á svæðinu. Með aðgerðinni verði neysla afurða úr nærsamfélaginu aukin, vöruþróun styrkt og matarfrumkvöðlum og smáframleiðendum verði auðveldað að þróa hugmyndir sínar til nýsköpunar og nýtingar hráefnis úr héraði.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, matvælaráðuneyti, Matís ohf., Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög og matar- og vörusmiðjur í landinu.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Matarauðlindin Ísland, matvælastefna Íslands til ársins 2030, nýsköpunarstefna, klasastefna, tillögur starfshóps um aðgerðir gegn matarsóun.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 2, 8, 9 og 12, einkum undirmarkmið 2.4, 8.2, 8.4, 8.9, 9.1, 9.3, 9.4, 12.2 og 12.3.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 20 millj. kr.

C.13. Opinberar upplýsingar á sviði byggðamála.
          Markmið: Að þekkingargrunnur stefnumótunar og framkvæmdar á sviði byggðamála verði styrktur.
          Stutt lýsing: Aflað verði nýrrar þekkingar á sviði byggðamála í samstarfi við opinberar stofnanir, m.a. með rannsóknum og uppbyggingu tölfræðilegra gagnagrunna þar sem upplýsingar um þætti á borð við íbúaþróun, kyn, atvinnuþátttöku, tekjur, menntun og afkomu atvinnugreina verði aðgengilegar og samhæfðar alþjóðlegum gagnagrunnum. Tölfræðilegir mælikvarðar sem byggjast á upplýsingum um landfræðilega legu, lýðfræðilega þætti og efnahagslegar og félagslegar aðstæður verði notaðir til að leggja mat á stöðu svæða. Þannig verði til nokkurs konar byggðavísitala sveitarfélaga sem gefin verði út reglulega og geti nýst sem árangursmælikvarði og við mat á sértækum byggðaaðgerðum. Upplýsingar um byggðaþróun og þróun borgarsvæða verði aðgengilegar og samanburðarhæfar við upplýsingar annars staðar á Norðurlöndum.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun, Hagstofan, Skatturinn, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11 og 17, einkum undirmarkmið 11.a, 17.13 og 17.17.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 125 millj. kr.

C.14. Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi.
          Markmið: Að þekkingargrundvöllur stefnumótunar og framkvæmdar á sviði byggðamála verði styrktur með aðgengi að alþjóðlegum straumum og stefnum á því sviði.
          Stutt lýsing: Virk þátttaka verði í alþjóðlegu samstarfi, svo sem undir merkjum Nora, Nordregio, Norðurslóðaáætlunar, ESPON og OECD, og þekkingar- og hugmyndafræðilegur grundvöllur byggðaaðgerða þannig styrktur og efldur.
          Ábyrgðarráðuneyti: Innviðaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneyti og Byggðastofnun.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, aðrar þekkingar- og rannsóknarstofnanir, landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög og atvinnulífið.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11 og 17, einkum undirmarkmið 11.a, 17.13, 17.14, 17.16 og 17.17.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 410 millj. kr.

C.15. List fyrir alla.
          Markmið: Að öllum árgöngum grunnskóla verði gert kleift að njóta listverkefna á vegum Listar fyrir alla.
          Stutt lýsing: Listviðburðir verði valdir og þeim miðlað um land allt og þannig verði jafnaður aðgengismunur barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla verði lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Árangur af aðgerðinni verði m.a. mældur með fjölda skóla sem taka þátt í verkefninu og fjölda árganga skólabarna sem býðst þátttaka.
          Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: List fyrir alla.
          Dæmi um samstarfsaðila:
Sveitarfélög, menningarfulltrúar og grunnskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menningarstefna.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 25 millj. kr.

C.16. Jafnrétti í sveitarstjórnum.
          Markmið: Að sveitarstjórnir verði efldar og aukin vitund sköpuð um mikilvægi fjölbreyttra sjónarmiða innan þeirra.
          Stutt lýsing: Stuðlað verði að því að sveitarstjórnir endurspegli fjölbreytileika mannlífsins til þess að ákvarðanataka í þágu þjónustu við íbúa sé sem best og í samræmi við áætlanir sveitarfélaga í jafnréttismálum. Unnið verði markvisst að því að viðhalda jöfnu kynjahlutfalli í sveitarstjórnum og fólk með fjölbreyttan bakgrunn, t.d. af erlendum uppruna, verði hvatt til þátttöku í stjórnun nærsamfélagsins. Samhliða verði unnið að því að laga starfsaðstæður í sveitarstjórnum að fjölbreyttum aðstæðum fólks og stutt við möguleika á að samræma starfið fjölskyldu- og einkalífi.
          Ábyrgðarráðuneyti: Forsætisráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Jafnréttisstofa.
          Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, Fjölmenningarsetur og Samband íslenskra sveitarfélaga.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019–2033.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 5, einkum undirmarkmið 5.5.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 3 millj. kr.

C.17. Grænir iðngarðar.
          Markmið: Að nýta betur tækifæri til uppbyggingar grænnar atvinnustarfsemi sem byggist á svæðisbundnum styrkleikum.
          Stutt lýsing: Greint verði hvernig hvetja megi til uppbyggingar grænna iðngarða sem byggjast á hringrásarhugsun, annarrar grænnar atvinnustarfsemi og fjárfestingar í nýsköpun almennt. Greint verði hvaða lágmarksundirbúningsvinnu og innviðauppbyggingu þurfi til svo að ferlið við uppbyggingu slíkrar grænnar atvinnustarfsemi verði sem skilvirkast og hvatt verði til fjárfestingar. Jafnframt verði skoðað hvort skýra þurfi regluverk eða eftir atvikum einfalda það.
          Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Framkvæmdaraðili: Landshlutasamtök sveitarfélaga og sveitarfélög.
          Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Landsvirkjun, Nýsköpunarsjóður, Samorka, orkufyrirtæki og háskólar.
          Tímabil: 2022–2026.
          Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Í átt að hringrásarhagkerfi, Orkustefna fyrir Ísland, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
          Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður við markmið 13 og fleiri.
          Tillaga að fjármögnun af byggðaáætlun: 1 millj. kr.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 2022.