Ferill 133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 133  —  133. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.


Flm.: Ágúst Bjarni Garðarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna Sævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðanda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.
    Ráðherra geri grein fyrir niðurstöðum starfshópsins í lok maí 2023.

Greinargerð.

    Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða íþróttaiðkun vegna þess að fyrirtæki veigra sér við að ráða starfsmenn sem þurfa að vera frá vegna tíðra æfinga eða keppnisferða. Afleiðingarnar eru að keppnisþróttafólk stendur frammi fyrir því erfiða vali hvort það vilji halda áfram að æfa og keppa í sinni íþrótt með tilheyrandi óvissu um framfærslu. Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur eða rétt til fæðingarorlofs. Það að bæta við fjárhagsáhyggjum ofan á það að byggja upp feril í íþróttum er ekki hvetjandi og síst til þess fallið að fjölga efnilegu íþróttafólki hérlendis. Á þetta bæði við um einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum, upprennandi afreksíþróttafólk sem og núverandi afreksíþróttafólk. Flutningsmenn telja mikilvægt að skapaður verði hvati með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til þess að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna sem og aukinn hvata til þess. Á 151. löggjafarþingi voru samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), nr. 32/2021. Með þeim voru útvíkkaðir skattalegir hvatar og lögfestir nýir til að styrkja starfsemi þriðja geirans, m.a. íþróttafélaga, björgunarsveita, góðgerðarfélaga og mannúðarsamtaka. Horfa má til þessara laga og huga að því hvort laun til íþróttafólks frá launagreiðanda gætu t.d. verið skilgreind með svipuðum hætti og einstakar gjafir og framlög til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla.
    Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk með þessum hætti er jafnframt verið að styðja við lýðheilsu í landinu. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að geta státað okkur af fjölbreyttu og efnilegu keppnis- og afreksíþróttafólki. Forvarnagildi íþrótta er ótvírætt og mikilvægt er að börn og ungmenni eigi sér öflugar fyrirmyndir, en rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur m.a. jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan.
    Flutningsmenn telja þessa tillögu ekki koma í staðinn fyrir hugmyndir um laun og styrki frá ríkinu til afreksíþróttafólk heldur frekar til stuðnings við þær hugmyndir.