Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 320  —  184. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um kennslu í fjármálalæsi.


     1.      Hvernig er vali á námsefni fyrir kennslu í fjármálalæsi háttað í grunn- og framhaldsskólum?
    Val á námsefni fyrir kennslu í fjármálalæsi, sem öðru námi í grunn- og framhaldsskólum, tekur mið af þeim hæfniviðmiðum sem sett hafa verið í aðalnámskrár þessara skólastiga. Grunn- og framhaldsskólar velja námsefni, kennsluaðferðir og vinnubrögð í samræmi við hæfniviðmið í aðalnámskrám með það að markmiði að nemendur nái þeirri hæfni sem að er stefnt.
    Fjármálalæsi er ekki sett fram sem sjálfstæð námsgrein í aðalnámskránum heldur er gert ráð fyrir því að greinin sé samþætt öðru námi. Fjallað er um fjármálalæsi í almennum hluta aðalnámskránna innan grunnþátta almennrar menntunar, svo sem læsis í víðum skilningi og sjálfbærni. Auk þess er fjallað um fjármálalæsi innan einstakra greinasviða aðalnámskrár grunnskóla, svo sem heimilisfræði, samfélagsgreina og stærðfræði. Í aðalnámskrám má t.d. sjá hæfniviðmið um vinnubrögð og beitingu stærðfræðinnar sem miða að því að við lok 4. bekkjar geti nemandi notað stærðfræði til að finna lausnir á verkefnum sem takast þarf á við í daglegu lífi og geri sér grein fyrir verðgildi peninga; við lok 7. bekkjar þekki nemandi helstu hugtök um fjármál og geti tekist á við verkefni úr umhverfinu eða samfélaginu þar sem þarf að afla upplýsinga, vinna úr þeim og finna lausn og við lok 10. bekkjar geti nemandi tekist á við verkefni úr umhverfinu eða samfélaginu þar sem þarf að afla upplýsinga og meta þær og finna lausnir, m.a. í tengslum við ábyrgð á eigin fjármálum, neyslu og þróun samfélagsins. Námsefni skal vera í samræmi við gildandi lög og aðalnámskrár á hverjum tíma, höfða til nemenda, vera aðlaðandi og áhugavekjandi, vera skýrt og skipulega sett fram og taka mið af því sem nemendur hafa áður tileinkað sér. Þá á námsefni einnig að taka mið af grunnþáttum menntunar, þ.e. læsi, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti, heilbrigði og velferð, menntun til sjálfbærni og skapandi starfa og mismuna ekki nemendum eða nemendahópum, svo sem vegna kynferðis, kynhneigðar, búsetu, uppruna og félagslegrar stöðu.

     2.      Sér Menntamálastofnun um útgáfu á námsefni fyrir kennslu í fjármálalæsi?
    Samkvæmt lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, ber stofnunin ábyrgð á því að sjá nemendum á skólaskyldualdri fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum, þ.m.t. námsefni fyrir kennslu sem fjallar um viðfangsefni fjármálalæsis. Þá segir einnig í lögunum að stofnunin sjái öðrum nemendum fyrir námsgögnum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið.
    Auk Menntamálastofnunar er einnig stutt við gerð og útgáfu námsefnis með þróunarsjóði námsgagna en úr sjóðnum er árlega úthlutað fjármagni á fjárlögum til einstaklinga og útgáfufyrirtækja. Um er að ræða annars vegar almennan þróunarstyrk vegna námsefnis á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi en einnig er hægt að sækja um þróunar- og útgáfustyrk vegna námsefnis fyrir sömu skólastig. Stefna ráðuneytisins er að námsefni sem styrkt er með opinberu fé verði gefið út með rafrænum hætti og gert aðgengilegt á netinu.
    Ráðuneytið ákveður forgangssvið úthlutunar til að styðja við stefnu sína um menntaumbætur hverju sinni og var námsefni í fjármálalæsi sett í forgang árið 2017, m.a. til að fylgja eftir niðurstöðum úttektar sem gerð var á stöðu fjármálalæsis í grunn- og framhaldsskólum, sbr. svar við 3. lið. Einnig hefur námsefni í grunnþáttunum verið sett í forgang.

     3.      Hefur árangur kennslu í fjármálalæsi verið mældur sérstaklega? Ef svo er, hver hefur sá árangur verið samkvæmt umræddri mælingu?
    Ráðuneytið lét kanna stöðu fjármálalæsis í grunn- og framhaldsskólum árið 2016. Þar komu ýmsar upplýsingar fram, m.a. að fjármálalæsi er kennt í flestum skólum eins og aðalnámskrár gera ráð fyrir eða í 87% grunnskóla og 90% framhaldsskóla, oftast sem hluti af öðru námsefni en ekki sérstök námsgrein. Í grunnskólum er algengast að fjármálalæsi sé kennt sem hluti af stærðfræði en í framhaldsskólum er algengast að fjármálalæsi sé hluti af lífsleikni. Þá er langalgengast að kennarar útbúi námsefni sjálfir, en ein helsta hindrunin í kennslu í fjármálalæsi var talin vera skortur á námsefni. Nemendur grunn- og framhaldsskóla fengu að jafnaði 11 kennslustundir í fjármálalæsi á því skólaári sem úttektin náði til.