Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 333  —  322. mál.




Fyrirspurn


til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um val á söluaðila raforku til þrautavara.

Frá Jóhanni Páli Jóhannssyni.


     1.      Hve margir almennir notendur rafmagns voru settir í viðskipti við söluaðila raforku til þrautavara, sbr. 5. mgr. 7. gr. stofnreglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019 frá því að reglugerðin tók gildi 18. desember 2019 og þar til reglugerð nr. 599/2022 um breytingu á reglugerð nr. 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar tók gildi 24. maí 2022? Óskað er sundurliðunar eftir mánuðum.
     2.      Hver er markaðshlutdeild fyrirtækisins sem var valið söluaðili til þrautavara á smásölumarkaði raforku og hvernig þróaðist markaðshlutdeild þess á tímabilinu 2018 til 2022?
     3.      Hvers vegna ákvað ráðherra, með reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019, að einu fyrirtæki skyldi veitt staða söluaðila raforku til þrautavara án þess að kveðið væri skýrt á um ábyrgð og skyldur fyrirtækisins gagnvart neytendum?
     4.      Fór fram mat á samkeppnisáhrifum fyrirkomulagsins áður en reglurnar voru settar? Taldi ráðuneytið það samrýmast sjónarmiðum um jafnræði og virka samkeppni að flytja þúsundir viðskiptavina á ári til eins fyrirtækis á samkeppnismarkaði að neytendum forspurðum og veita fyrirtækinu þannig forgjöf umfram aðra aðila á markaði?
     5.      Hvernig samrýmdust reglurnar um val á söluaðila raforku til þrautavara lagaáskilnaðarreglum stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar?
     6.      Hvers vegna voru ekki gerðar ríkari kröfur til söluaðila raforku til þrautavara, svo sem um að hann seldi öllum viðskiptavinum sínum raforku á tilteknu verði eða verðbili meðan hann teldist söluaðili til þrautavara eða að smásöluverð til þrautavaraviðskiptavina fylgdi breytingum á heildsölukjörum á tímabilinu?
     7.      Hver hafa viðbrögð stjórnvalda verið við kvörtunum vegna vals á söluaðila raforku til þrautavara og vegna viðskiptahátta fyrirtækisins og við úrskurðum úrskurðarnefndar raforkumála í málum nr. 1/2020 og 3/2020?


Skriflegt svar óskast.