Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 372  —  358. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (sjúkraflutningar, greiðsluþátttaka).

Flm.: Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir,
Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


1. gr.

    Í stað orðanna „og 21.–22. gr.“ í 2., 3. og 4. mgr. 29. gr. laganna kemur: 21., 22. og 28. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2023.

Greinargerð.

    Markmið frumvarpsins er að fella greiðslur vegna sjúkraflutninga undir þá þjónustu sem fellur undir hámarksgreiðsluþátttökukerfi sjúklinga. Samkvæmt núgildandi lögum mynda greiðslur vegna sjúkraflutninga ekki afsláttarstofn og eru því ekki hluti af þeirri þjónustu sem myndar greiðsluþak samkvæmt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar.
    Samkvæmt samningi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við Rauða krossinn á Íslandi heldur félagið utan um sjúkrabílaflota landsins. Einstaklingur, sem fluttur er með sjúkrabíl og nýtur sjúkratrygginga Sjúkratrygginga Íslands, greiðir fast gjald óháð vegalengd. Það gjald er 7.553 kr. frá og með 1.1.2022. Sé einstaklingur fluttur oftar en einu sinni á sama sólarhring greiðir sjúklingurinn þó einungis stakt gjald. Rauði krossinn tók ákvörðun um að niðurgreiða sjúkraflutninga ellilífeyrisþega 70 ára og eldri um 25% og greiða þeir því lægra gjald eða 5.665 kr. Þá fá örorkulífeyrisþegar, sem eru með 60% örorku eða meira, 50% niðurgreiðslu en þeir þurfa þó að sækja um það sérstaklega til Rauða krossins í fyrsta skipti og framvísa örorkukorti frá Tryggingastofnun ríkisins. Sjúkrastofnanir greiða ýmist fast gjald eða kílómetragjald, 285 kr. á km.
    Flutningsmenn frumvarpsins telja eðlilegt að kostnaður vegna sjúkraflutninga falli undir greiðsluþátttökukerfið og myndi afsláttarstofn eins og kostnaður vegna annarrar heilbrigðisþjónustu. Þó svo að greiðsla fyrir staka ferð með sjúkrabíl sé hófleg þá telja flutningsmenn frumvarpsins að öll rök hnígi að því að fella greiðslur vegna sjúkraflutninga undir greiðsluþátttökukerfið til að tryggja aðgengi allra að sjúkraflutningum en hætta er á að t.d. öryrkjar og ellilífeyrisþegar, sem helst þurfa á sjúkraflutningi að halda, veigri sér við að óska eftir sjúkraflutningum vegna kostnaðar.
    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi þann 1. apríl 2023 svo hægt sé að vanda undirbúning breytinganna.