Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 417  —  136. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010 (stjórn Fræðslusjóðs).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Evu Margréti Kristinsdóttur og Hildi Margréti Hjaltested frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
    Nefndinni barst ein umsögn um málið, frá BSRB.
    Með frumvarpinu er kveðið á um breytingu á 11. gr. laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, til að tryggja að ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál tilnefni einn fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs. Með forsetaúrskurði nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fluttist málaflokkur fræðslumála og málefni Fræðslusjóðs frá þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og skipar því félags- og vinnumarkaðsráðherra nú formann stjórnar fræðslusjóðs skv. 1. mgr. 11. gr. laga um framhaldsfræðslu.

Breytingartillögur.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að Félag íslenskra framhaldsskóla sem er mælt fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna að tilnefni einn fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs sé ekki lengur starfandi en að Skólameistarafélag Íslands hafi tekið við hlutverki þess félags. Því leggur nefndin til breytingu þess efnis.
    Til þess að gæta að innbyrðis samræmi í löggjöf og tryggja rétta notkun heitis heildarsamtaka stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu í 1. mgr. 11. gr. laganna leggur nefndin til breytingu þess efnis að heitið BSRB komi í stað orðanna Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. bætist nýr liður, a-liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Félag íslenskra framhaldsskóla“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: BSRB og Skólameistarafélag Íslands.

    Bergþór Ólason og Birgir Þórarinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. október 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir,
frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.
Bjarni Jónsson. Eyjólfur Ármannsson. Helga Vala Helgadóttir.
Jóhann Friðrik Friðriksson.