Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 434  —  397. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.


Flm.: Þórarinn Ingi Pétursson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.

Greinargerð.

    Ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geta gert það að verkum að flutningsleiðir til landsins stöðvist. Við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun október sl. er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur, leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma. Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Fyrirkomulagið getur falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum til að tryggja lágmarksbirgðahald og jafnvægi á mörkuðum. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf mismunandi leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða.
    Í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér 2021 var fjallað um fæðuöryggi og hvað þarf til að uppfylla viðmið þess efnis. Þar kemur fram að við stöndum okkur að mörgu leyti vel en við erum og verðum áfram háð innflutningi á ákveðnum vörum sem og aðföngum til að geta framleitt ýmsar vörur innan lands.
    Það fyrirkomulag sem lagt er til í tillögu þessari snýr að kerfi sem tryggir að hægt sé að framleiða landbúnaðarafurðir hérlendis og í umframmagni miðað við hefðbundna neyslu, en ríkisvaldið hafi á sama tíma heimildir til að greiða framleiðendum geymslugjald til að geyma umframframleiðsluna án þess að hún hafi áhrif á verðmyndun á markaði. Fyrirkomulagið þarf að taka mið af mismunandi framleiðsluvörum sem eru með ólíkan geymslutíma og framleiðslumagn. Á sama tíma og afurðastöðvar/framleiðendur fengju greitt geymslugjald fyrir ákveðið magn afurða mættu þeir ekki afsetja þær vörur á markaði á sama tíma.
    Skoða þarf einnig sérstaklega uppbyggingu kornræktar og geymslu á kornbirgðum hér á landi. Byggja þarf upp viðamikil kornsamlög þar sem fjárfest yrði í innviðum vegna kornræktar til manneldis og skepnufóðurs. Ríkisvaldið þyrfti að koma inn með fjárfestingarstuðning til að byggja upp innviði til þurrkunar, vinnslu og geymslu á korni til að tryggja lágmarksbirgðir af kornvöru í landinu á hverjum tíma. Skoða þyrfti svipað fyrirkomulag og með hin hefðbundnu matvæli hvað varðar geymslugjald til þess að tryggja að umframbirgðir yrðu til staðar á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi væri hægt að festa kornrækt í sessi sem búgrein hér á landi, bæta fæðuöryggi þjóðarinnar og efla innlenda framleiðslu til framtíðar.