Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 468  —  418. mál.




Beiðni um skýrslu


frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um „gullhúðun“ við innleiðingu EES-gerða frá árinu 2010 til 2022.

Frá Diljá Mist Einarsdóttur, Ásmundi Friðrikssyni, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, Birgi Þórarinssyni, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Haraldi Benediktssyni, Hildi Sverrisdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni, Óla Birni Kárasyni og Vilhjálmi Árnasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um innleiðingu EES-gerða. Skýrslan verði unnin af óháðum sérfræðingum.
    Í skýrslunni verði fjallað um:
          hver stefna ráðuneytisins hafi verið varðandi innleiðingu EES-gerða,
          hvernig innleiðingu EES-gerða hafi verið háttað í ráðuneytinu,
          hvort gengið hafi verið lengra en þörf var á við innleiðingu ákvæða sem talist geta íþyngjandi fyrir þá aðila sem starfa eftir þeim,
          hvort unnt sé að bæta verklag varðandi innleiðingu EES-gerða hjá ráðuneytinu.
    Ráðherra skili Alþingi skýrslunni á 154. löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Í skýrslu starfshóps um EES-samstarfið sem kom út í september 2019 er m.a. fjallað um svokallaða „gullhúðun“ við innleiðingu EES-gerða í landsrétt. Með því er átt við það þegar stjórnvöld einstakra ríkja herða á íþyngjandi reglum EES-gerða til að ná fram sérgreindum markmiðum á heimavelli eða „lauma“ heimasmíðuðum ákvæðum inn í innleiðingarfrumvörp.
    Fram kemur í skýrslunni að víða sé pottur brotinn hvað þetta varðar þrátt fyrir að í umræðum á Alþingi, í reglum um þinglega meðferð EES-mála frá árinu 2010 og í almennum reglum um meðalhóf á vettvangi stjórnsýslunnar sé lögð áhersla á að við innleiðingu EES-gerða eigi ekki að ganga lengra en gerðirnar sjálfar krefjast við að íþyngja þeim sem gert er að starfa eftir reglunum.
    Þrír innlendir aðilar hafi vakið máls á þessu. Í fyrsta lagi birti ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur skýrslu um þróun reglubyrði atvinnulífs á árunum 2013–2016, en á þeim tíma urðu 35 frumvörp að lögum sem höfðu áhrif á þá reglubyrði. Samkvæmt skýrslunni var um sjö tilvik að ræða þar sem gengið var lengra í innleiðingu en viðkomandi EES-gerðir mæltu fyrir um en yfir helmingur þeirra íþyngjandi reglna sem settar voru eiga uppruna sinn í ESB-tilskipunum. Þá kemur fram að greining á hugsanlegum áhrifum á íþyngjandi reglum sé ábótavant en án slíkrar greiningar sé ómögulegt fyrir stjórnvöld, almenning og atvinnulíf að átta sig á ábata og íþyngjandi áhrifum reglusetningarinnar fyrir atvinnulífið.
    Þá bentu Samtök atvinnulífsins á það í ársskýrslu sinni 2015–2016 að æskilegt væri að stjórnvöld gæti að ákveðnum viðmiðunum við innleiðingu tilskipana ESB. Stjórnvöld hafi í mörgum tilvikum ákveðið að gullhúða regluverk ESB með því að hafa reglur viðameiri og meira íþyngjandi en þörf er á án þess að það sé rökstutt með fullnægjandi hætti.
    Samtök iðnaðarins hafa einnig bent á að þær reglur sem settar eru á Íslandi megi ekki vera óþarflega íþyngjandi og óskilvirkar. Dæmi séu um frumvörp sem fela í sér „gullhúðun“ þar sem lagt er til að lögfesta strangari reglur fyrir íslensk fyrirtæki en samkeppnisaðilar á innri markaðnum búi við.
    Það er mat skýrslubeiðenda að nauðsynlegt sé að kanna hvernig innleiðingu EES-gerða hafi verið háttað þegar kemur að málefnasviði ráðuneytisins og hvort unnt sé að bæta verklag að þessu leyti. Mikilvægt sé að leiða í ljós hvort „gullhúðun“ hafi átt sér stað með þeim afleiðingum að skapast hafi meira íþyngjandi regluverk en þörf var á miðað við lágmarkskröfur viðkomandi EES-gerða. Skýrslubeiðendur telja enn fremur mikilvægt að ráðherra feli óháðum sérfræðingum að vinna skýrsluna. Í ljósi umfangs innleiðinga hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er lagt til að athugunin verði afmörkuð við innleiðingu á EES-gerðum frá árinu 2010 til 2022.