Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 602  —  201. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um Þróunarsjóð námsgagna.


     1.      Hve mörg þeirra verkefna sem fengið hafa styrk úr Þróunarsjóði námsgagna hafa verið gefin út? Hve mörg þeirra eru notuð við kennslu í grunn- og framhaldsskólum?
    Á árunum 2013–2021 var úthlutað alls 233 styrkjum og er 166 þeirra verkefna lokið með útgáfu. Við úthlutun er gerður 18 mánaða samningur við styrkhafa en sá tími getur lengst. Hafa ber í huga að COVID-19 faraldurinn hafði töluverð áhrif á framgang margra verkefna og ákvað núverandi stjórn sjóðsins að koma til móts við þá stöðu með því að veita frest á skilum til þeirra sem þess óskuðu. Allt útgefið efni er notað við kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum en oft er erfitt að skilgreina námsefni fyrir ákveðið skólastig og þá sérstaklega milli leikskólastigs og grunnskólastigs þar sem efni getur nýst að hluta til á báðum skólastigum.

     2.      Hvernig er eftirfylgni með styrktum verkefnum úr Þróunarsjóði námsgagna háttað?
    Eftirfylgni með styrktum verkefnum úr Þróunarsjóði námsgagna fer þannig fram að gerður er 18 mánaða samningur við styrkþega um verkefnið þar sem 4/ 5 styrkupphæðar er greiddur út við upphaf samningstímans og 1/ 5 upphæðar við útgáfu og þar með lok samningstíma. Það kemur fyrir að sótt sé um frest á skilum verkefnis og er hann veittur telji sjóðstjórn málefnalegar ástæður vera fyrir hendi.