Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 619  —  342. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um störf án staðsetningar.


     1.      Hvaða störf á vegum hins opinbera teljast til starfa án staðsetningar? Svar óskast sundurliðað eftir ráðuneytum, undirstofnunum, staðsetningu og fjölda.
    Samkvæmt stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá því í nóvember 2021 og stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var einróma á Alþingi í júní 2022 eru öll störf ríkisins óstaðbundin. Í stjórnarsáttmálanum segir að „til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega“ og í stefnumótandi byggðaáætlun segir að „störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega, þannig að búseta hafi ekki áhrif á ráðningar.“
    Stjórnvöld hafa þannig breytt stefnu sinni frá því að tilgreina hvaða störf geti verið óstaðbundin yfir í að skilgreina hvaða störf þurfi að vera staðbundin. Með þessari stefnubreytingu liggur fyrir að skilgreina þarf sérstaklega hvaða störf séu staðbundin. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir en fram undan er vinna við að kalla eftir þeim frá ráðuneytum og stofnunum ríkisins.

     2.      Hve mörg ný störf án staðsetningar hafa orðið til undanfarin fjögur ár hjá hinu opinbera? Svar óskast sundurliðað eftir ráðuneytum, undirstofnunum og staðsetningu.
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins er búið að auglýsa 46 störf án staðsetningar undanfarin fjögur ár. Þá hefur 21 starf til viðbótar verið auglýst bæði með og án staðsetningar. Þó ber að hafa í huga að ekki eru allar stofnanir ríkisins að nota ráðningarkerfi ríkisins og því kunna að vera fleiri störf sem hafa verið auglýst án tiltekinnar staðsetningar.
    Ráðuneytið hefur upplýsingarnar ekki sundurliðaðar eftir ráðneytum og undirstofnunum. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um staðsetningu starfanna en störfin eru auglýst án staðsetningar og hæfasti einstaklingurinn ráðinn óháð því hvar hann býr.
    Líkt og fram kom í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar eru störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega og því snýr vinnan fram undan að því að skilgreina sérstaklega og halda utan um hvaða störf hjá hinu opinbera eru staðbundin.

     3.      Hve mörg störf án staðsetningar hafa flust af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið vegna búferlaflutninga starfsmanna undanfarin tíu ár? Hve mörg störf hafa flust frá höfuðborgarsvæðinu út á land af sömu ástæðu?
    Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Stefnt er að því að með breyttu verklagi verði slíkar upplýsingar aðgengilegar.
    Aðgerðin er byggðaaðgerð og þannig sett fram bæði í stjórnarsáttmálanum og í byggðaáætlun. Henni er þannig ætlað að fjölga fjölbreyttum atvinnutækifærum á landsbyggðinni og eftir því verður unnið.

     4.      Hver er fjöldi starfa á vegum hins opinbera á landsvísu? Svar óskast sundurliðað eftir ráðuneytum, undirstofnunum, staðsetningu og hlutfalli opinberra starfa eftir landshlutum.
    Vísað er í mælaborð 1 og skýrslu 2 Byggðastofnunar þar sem fram koma upplýsingar um fjölda starfa á vegum hins opinbera á landsvísu, sundurliðað eftir ráðuneytum og hlutfalli eftir landshlutum og sveitarfélögum.
    Störfin eru flokkuð eftir málaflokkum ráðuneyta en til að birta gögn um fjölda ríkisstarfa eftir stofnunum þyrfti samþykki þeirra allra. Síðasta úttekt er miðuð við 31. desember 2021 og þar með þá ráðuneytisskipan sem þá var.

1     public.tableau.com/app/profile/byggdastofnun/viz/rikisstorf/stodugildi
2     www.byggdastofnun.is/static/files/Starfagreining/31.12.2020/rikisstorf_31-12-2020.pdf