Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 643  —  490. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018 (framkvæmd fyrninga).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, Benedikt Árnason, Kára Gautason og Sigríði Norðmann frá matvælaráðuneyti, Karl Óskar Magnússon og Jón Ásgeir Tryggvason frá Skattinum, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, Heiðmar Guðmundsson og Ægi Pál Friðbertsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Nefndinni barst umsögn um málið frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá óskaði nefndin eftir tveimur sérfræðiálitum um málið, frá Ásmundi G. Vilhjálmssyni, lögmanni hjá Skattvís slf., og Garðari Víði Gunnarssyni, lögmanni hjá Lex lögmannsstofu.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018. Með þeim er leitast við að draga úr sveiflum á upphæð veiðigjalds, einkum víxlverkun sem er milli ákvæðis 5. gr. laga nr. 145/2018, um veiðigjald, og ákvæðis til bráðabirgða LXX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Ákvæði til bráðabirgða LXX kom inn í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, vorið 2021 og var liður í aðgerðum til að bregðast við efnahagslegum áhrifum af heimsfaraldri kórónuveiru og hvetja til fjárfestinga með sérstakri áherslu á eignir sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum. Áðurnefnd víxlverkun á milli ákvæðis 5. gr. laga nr. 145/2018, um veiðigjald, og ákvæðis til bráðabirgða LXX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, mun að óbreyttu leiða til minna samræmis á milli raunverulegrar afkomu sjávarútvegs og innheimtra veiðigjalda. Samkvæmt frumvarpinu verður ríkisskattstjóra falið að dreifa fyrningum skipa umfram tiltekna upphæð á fimm ár, þak er sett á fyrningar skipa og skipsbúnaðar sem geta komið til frádráttar við útreikning á reiknistofni veiðigjalds. Verði skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skuli ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár. Með frumvarpinu er þar með leitast við að draga úr sveiflum á fyrningum og þar af leiðandi reiknistofni veiðigjalds.
    Samanlögð áhrif breytinganna eru áætluð 2,5 milljarðar kr. til hækkunar á greiðslum á veiðigjaldi ársins 2023, vegur þar þyngst veiðigjald uppsjávartegundanna loðnu, síldar, makríls og kolmunna. Veiðigjald næstu ára verður hærra en áætlað var vegna þaksins en lægra árin þar á eftir. Skattlagningin verður hvorki aflögð né gefin eftir, heldur er með frumvarpinu leitast við að fletja út mögulega toppa.

Áhrif á reiknistofn veiðigjalds.
    Líkt og áður segir óskaði nefndin eftir tveimur álitum utanaðkomandi sérfræðinga á fundum sínum 24. og 25. nóvember sl., sbr. XI. kafla starfsreglna fastanefnda Alþingis. Óskað var álits á því hvort ákvæði til bráðabirgða LXX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafi eða hafi ekki áhrif á ákvörðun um reiknistofn veiðigjalds, sbr. 5. gr. laga nr. 145/2018, um veiðigjald. Hafi það áhrif á reiknistofn veiðigjalda, hver þau áhrif þá væru.
    Sérfræðiálit þau sem nefndin óskaði eftir hafa verið birt sem umsagnir um frumvarpið. Niðurstaða beggja sérfræðiálita er sú að reiknistofn veiðigjalds, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um veiðigjald, sé samsettur af ýmsum tekjum og gjöldum, þ.m.t. skattalegum fyrningum skipa og skipsbúnaðar líkt og þær eru ákveðnar með lögum. Af því leiðir að sú tímabundna hækkun á fyrningum sem heimiluð er í ákvæði til bráðabirgða LXX í lögum um tekjuskatt árin 2021– 2025 hefur bein áhrif á ákvörðun reiknistofns veiðigjalds. Vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar í þeim sérfræðiálitum sem nefndin aflaði við vinnslu málsins.
    Meiri hlutinn telur rétt að þak sé sett á fyrningar þannig að þær dreifist með jafnari hætti á fleiri ár og hafi ekki, eða síður, áhrif á reiknistofn veiðigjaldsins fyrir einstök fiskveiðiár. Tekur meiri hlutinn undir það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að þetta leiði til stöðugra rekstrarumhverfis, rekstraraðilar fái meiri fyrirsjáanleika og geti skipulagt rekstur sinn betur fram í tímann auk þess sem breytingin samræmist markmiðum og tilgangi laga um veiðigjald. Þá telur meiri hlutinn rétt að árétta að hér er einungis um að ræða tilflutning fyrninga milli ára.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 28. nóvember 2022.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Hildur Sverrisdóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.