Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 750  —  534. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (frítekjumark og skerðingarhlutfall).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Þór Sigurðsson og Hildi Sverrisdóttur Röed frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að einstaklingar sem metnir hafa verið til ör orku og/eða misst hafa hluta starfsgetu sinnar geti aflað sér hærri tekna með atvinnu áður en tekjurnar komi til lækkunar á greiðslum til örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega. Lagðar eru til breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, annars vegar er varðar skerðingarhlutfall tekna við útreikning örorku- og endurhæfingarlífeyris og hins vegar er varðar sérstakt frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar.
    Meiri hlutinn bendir á að frumvarpinu er ætlað að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu með því að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku þeirra án þess að það hafi áhrif til lækkunar á örorku- eða endurhæfingarlífeyri þeirra. Þá vill meiri hlutinn vekja athygli á að frumvarpið inniheldur skref í átt að nýju greiðslukerfi vegna starfsgetumissis en gert er ráð fyrir að frekari breytingar á kerfinu verði innleiddar í áföngum á næstu misserum.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu sem er tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. gr. orðist svo:
    Í stað orðanna „1. janúar 2013 til og með 31. desember 2022 hafa 1.315.200 kr. frítekjumark“ í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 hafa 2.400.000 kr. frítekjumark.

    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykkan áliti þessu.

Alþingi, 7. desember 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðrún Hafsteinsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jódís Skúladóttir. Lenya Rún Taha Karim.
Oddný G. Harðardóttir. Óli Björn Kárason.