Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1057  —  687. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2022.

1. Inngangur.
    Á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) bar á árinu 2022 hæst umræðu um innrás Rússlands í Úkraínu. Á vorþingi IPU í mars var samþykkt ályktun um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu, virðingu við alþjóðalög, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og landhelgi. Ályktunin fordæmdir viðvarandi valdbeitingu Rússa gegn Úkraínu sem brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal á meginreglunni um fullveldi og landhelgi. Lýst er yfir áhyggjum af því að stríðið í Úkraínu ógni alþjóðaöryggi og valdi efnahagslegri óvissu. Þá er skorað á þingmenn aðildarríkja IPU að greiða fyrir mannúðaraðstoð við þá sem eru á flótta vegna stríðsins og tryggja jafna þátttöku kvenna í friðarviðræðum.
    Á haustþingi IPU í október var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og innrás Rússlands í Úkraínu harðlega fordæmd. Þingið samþykkti samhljóða ályktun sem bar yfirskriftina „Fordæming á innrás Rússa í Úkraínu og innlimun landsvæða í kjölfarið, til varnar landhelgi ríkja heims“. Í ályktuninni er kallað eftir því að tafarlaust verði bundinn endi á hernám Rússa í landhelgi Úkraínu. Enn fremur er lýst er yfir stuðningi við ályktanir ýmissa alþjóðastofnana um að rannsaka og lögsækja gerendur hugsanlegra stríðsglæpa í Úkraínu og að stofnaður verði dómstóll með sérstaka lögsögu til að rannsaka þá.
    Baráttan gegn loftslagbreytingum var jafnframt áhersluatriði á árinu og gaf IPU út yfirlýsingu á haustþingi um það hvernig virkja mætti þjóðþing í þeirri baráttu. Þar er gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem þjóðþing þurfa að ráðast í við innleiðingu Parísarsáttmálans. Lögð er áhersla á að flýta orkuskiptum yfir í hreina orku, tryggja afkomu jaðarsettra hópa í samfélögum og efla alþjóðlegt samstarf um sameiginlegar lausnir í loftslagsmálum. Forseti IPU, Duarte Pacheco, sagði í umræðu um yfirlýsinguna að tíminn til að bregðast við loftslagsvánni væri núna og brátt á þrotum. Það væri skylda þingmanna heims að ganga á undan með góðu fordæmi og grípa til nauðsynlegra aðgerða áður en það væri um seinan.
    Á árinu voru haldnir fundir þingkvenna þar sem m.a. var rætt um COVID-19 faraldurinn, eftirköst hans og reynslu þjóðþinga af því að hlúa að heilsu kvenna og ungmenna á tímum COVID-19. Jafnframt fór fram umræða um jafnrétti kynjanna og jafnréttismiðuð þjóðþing sem gætu orðið drifkraftur breytinga í átt að friðsælli heimi. Enn fremur var samþykkt yfirlýsing þar sem aðildarríki IPU eru hvött til þess að leggja sig fram um að stuðla að jafnrétti kynjanna í stofnunum og samfélaginu öllu.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum IPU á árinu 2022 má nefna netárásir, fæðuóöryggi, hvernig nýta megi upplýsinga- og samskiptatækni til að virkja menntageirann og hvernig megi endurhugsa og skipuleggja nálgun friðarferla með það að markmiði að stuðla að varanlegum friði. Skorað er á þjóðþing að tryggja að friðarferlar séu eins heildrænir og mögulegt er, að allar hliðar máls séu skoðaðar vandlega og að einnig sé tekið mark á röddum kvenna og ungs fólks. Enn fremur fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga í að samræma ráðstafanir í heilbrigðismálum í heimsfaraldri.
    Að lokum ber að nefna mikilvægt starf sambandsins við að efla lýðræði en mörg aðildarþing þess eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf á árinu 2022 má nefna svæðisbundnar málstofur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að aðstoða þá við að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu gaf IPU m.a. út nýja handbók fyrir þingmenn í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um það hvernig styrkja megi viðbúnað til að bæta heilsuöryggi. Markmið handbókarinnar er að færa þingmönnum og þjóðþingum tól til að efla neyðarviðbúnað og heilbrigðisöryggi.

2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú 179 þjóðþing en aukaaðild að því eiga 14 svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem einn af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvo þingfundi árlega, þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og þing að hausti sem haldið er í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.

    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.

    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Í því eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild en fulltrúum fækkar í tvo ef í sendinefndinni eru ekki fulltrúar beggja kynja oftar en þrjú þing í röð. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en það eru nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar sambandsins og vinnuhópur um samstarf kynjanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna gefur út skýrslu fyrir hvert þing sambandsins þar sem fjallað er um brot á mannréttindum þingmanna, hvort sem um er að ræða fangelsanir, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsföll. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Nefndin hefur það að markmiði að styrkja þjóðþing í að tryggja öryggi og friðhelgi þingmanna svo að þeir geti sinnt starfi sínu á lýðræðislegan og öruggan hátt. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar. Ályktanir sambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við.

3. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Árið 2022 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Hildur Sverrisdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður, þingflokki Miðflokks, og Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi fram að kosningum þar sem þátttaka í fundum IPU var undirbúin og starf sambandsins rætt.

4. Fundir Alþjóðaþingmannasambandsins 2022.
    Á venjubundnu ári kemur IPU tvisvar saman til þings og jafnframt fundar ráð IPU í tengslum við þingin. Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlöndin skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Ísland formennsku á árinu. Fyrri norræni fundurinn var haldinn í Grindavík í mars en sá síðari í Reykjavík í september.
    Árið 2022 tók Íslandsdeild þátt í vorþingi í mars og haustþingi í október og tveimur norrænum samráðsfundum. Einnig tóku Hildur Sverrisdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson þátt í sameiginlegum fundi IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York og vinnuheimsókn í norrænu sendiráðin í Washington í febrúar. Þá tók Bergþór Ólason þátt í fundi á vegum IPU og egypska þingsins í Sharm El Sheikh í nóvember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27.

Norrænir fundir Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í Washington 14.–16. febrúar og sameiginlegur fundur IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York 17.–18. febrúar.
    Dagana 14.–16. febrúar stóðu norrænu sendiráðin í Washington fyrir fundardagskrá fyrir norrænar landsdeildir Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í finnska sendiráðinu. Af hálfu Íslandsdeildar IPU sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá fundanna voru öryggismál í Evrópu og Rússlandi, samskipti Bandaríkjanna og Kína, lýðræðisleg forysta í Bandaríkjunum og norðurslóðastefna Bandaríkjanna, auk pallborðsumræðna um loftslagsmál. Einnig fór fram umræða um heimsfaraldur COVID-19 og dreifingu bóluefnis og um innanríkisstjórnmál í Bandaríkjunum eftir fyrsta ár Bidens í embætti forseta. Að auki fengu þingmenn kynningu á starfsemi norrænu sendiráðanna og norrænu samstarfi. (Sjá fylgiskjal I.)

Norrænn samráðsfundur í Grindavík 7. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 144. þingi IPU 24.-27. mars 2022. (Sjá fylgiskjal II.)

144. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Nusa Dua 20–24. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um hvernig nýta mætti upplýsinga- og samskiptatækni til að virkja menntageirann og hvernig mætti endurhugsa og skipuleggja friðarferla með það að markmiði að stuðla að varanlegum friði. Jafnframt fór fram almenn umræða um það hvernig virkja mætti þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þá var utandagskrárumræða um stríðið í Úkraínu og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar. (Sjá fylgiskjal III.)

Norrænn samráðsfundur í Reykjavík 22. september.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 145. þingi IPU 11.–15. október 2022. (Sjá fylgiskjal IV.)

145. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Kígalí 11.–15. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um þinglega hvata til þróunarríkja sem eru með hátt hlutfall alþjóðlegra fólksflutninga og leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Jafnframt fór fram almenn umræða um jafnrétti kynjanna og jafnréttismiðuð þjóðþing sem gætu orðið drifkraftur breytinga í átt að friðsælli heimi. Þá fór fram utandagskrárumræða um stríðið í Úkraínu og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar. (Sjá fylgiskjal V.)

Fundur IPU í tengslum við loftslagsráðstefnu sameinuðu þjóðanna, COP27, í Sharm El Skeikh 13. nóvember.
    Alþjóðaþingmannasambandið og egypska þingið stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 13. nóvember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, sem fór fram í Sharm El Sheikh 7.–18. nóvember. IPU hefur undanfarin ár skipulagt þingmannafund samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við þing gestgjafalandsins. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bergþór Ólason, Vilhjálmur Árnason og Logi Einarsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Markmið fundanna er að veita þingmönnum tækifæri til að fá milliliðalaust upplýsingar frá sérfræðingum um loftslagsmál og ræða leiðir til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. (Sjá fylgiskjal VI.)

Alþingi, 2. febrúar 2023.



Hildur Sverrisdóttir,


form.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,


varaform.


Jóhann Friðrik Friðriksson.




Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af norrænum fundi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í Washington 14.–16. febrúar og sameiginlegum fundi IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York 17.–18. febrúar.

    Dagana 14.–16. febrúar stóðu norrænu sendiráðin í Washington fyrir fundardagskrá fyrir norrænar landsdeildir Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) í finnska sendiráðinu. Af hálfu Íslandsdeildar IPU sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá fundanna voru öryggismál í Evrópu og Rússland, samskipti Bandaríkjanna og Kína, lýðræðisleg forysta í Bandaríkjunum og norðurslóðastefna Bandaríkjanna auk pallborðsumræðna um loftslagsmál. Einnig fór fram umræða um heimsfaraldur COVID-19 og dreifingu bóluefnis og um innanríkisstjórnmál í Bandaríkjunum eftir fyrsta ár Bidens í embætti. Að auki fengu þingmenn kynningu á starfsemi norrænu sendiráðanna og norrænu samstarfi.
    Hildur Sverrisdóttir tók þátt í umræðum um norðurslóðir og sagði ljóst að svæðið væri sífellt að verða mikilvægara í efnahags- og öryggislegu tilliti. Aukið aðgengi að norðurslóðum hefði ýtt undir áhuga ríkja utan norðurslóða á svæðinu, t.d. Kína sem hefði á undanförnum árum aukið vísindarannsóknir á norðurslóðum sem hefðu augljóslega bæði borgaralegt og hernaðarlegt gildi. Hildur tók einnig þátt í umræðum um hernaðaruppbyggingu Rússa og hlutverk NATO á norðurslóðum í ljósi þróunar alþjóðastjórnmála. Jafnframt átti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Bergdís Ellertsdóttir, fund með sendinefnd Íslands og kynnti fyrir henni helstu verkefni sendiráðsins og áherslur. Einnig heimsótti Íslandsdeildin fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York og fékk kynningu á helstu verkefnum frá Jörundi Valtýssyni, fastafulltrúa Íslands.
    IPU og Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) stóðu fyrir árlegum sameiginlegum fundi 17.–18. febrúar í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til 2030. Þema fundarins var hvernig byggja mætti upp pólitískan stuðning við sjálfbærni og tryggja að viðbrögð þjóðþinga væru án aðgreiningar. Sjónum var beint að sjálfbærri þróun í ljósi yfirstandandi heimsfaraldurs, jafnréttismálum og loftslagsbreytingum. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna þar sem 160 þingmenn frá 60 aðildarríkjum IPU, auk sérfræðinga og embættismanna, tóku þátt með það að markmiði að stuðla að þingræðislegum aðgerðum til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
    Forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (SÞ), Abdulla Shahid, hélt opnunarávarp fundarins og lagði áherslu á sameiginleg markmið SÞ og IPU varðandi fjölþjóðastefnu og alþjóðlegt samstarf. Hann sagði þjóðþing mikilvægan vettvang þar sem hægt væri að breyta ályktunum SÞ í landslög. Enn fremur væri hægt að koma áhyggjum af málefnum heima fyrir á framfæri við SÞ og alþjóðasamfélagið í gegnum þjóðþing aðildarríkjanna. Einnig lagði hann áherslu á ómetanlegt hlutverk þingmanna við að ná heimsmarkmiðum SÞ, þar sem stefnumótun og lagasetning gegndi lykilhlutverki. Þá væri samstarf aldrei brýnna en þegar alþjóðlegar kreppur gengju yfir, eins og heimsfaraldur COVID-19, eða þegar heimurinn stæði frammi fyrir alþjóðlegum áskorunum eins og loftslagsbreytingum.
    Forseti IPU, Duarte Pacheco frá Portúgal, lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstarfs IPU og SÞ. Hann sagði heimsfaraldur COVID-19 aðeins nýjasta dæmið um alþjóðlegt vandamál sem virti ekki landamæri, loftslagsbreytingar væru annað slíkt vandamál og einnig kerfisbundin útilokun kvenna, ungmenna og annarra samfélagshópa. Vandamálin væru mörg og brýn og ekki væri hægt að leysa þau nema með því að virkja bæði aðgerðir á landsvísu og alþjóðlegt samstarf. Þá minntist hann þess að IPU hefði haft fasta áheyrnaraðild að SÞ frá árinu 2002 og að árið 2004 hefði allsherjarþing SÞ samþykkt ályktun A/RES/59/19 um samstarf milli SÞ og IPU þar sem mikilvægi samstarfs SÞ og IPU væri áréttað.
    Fundurinn skiptist í fimm pallborðsumræður þar sem þingmenn, sendiherrar og embættismenn SÞ tóku þátt, auk sérstakrar umræðu um hlutverk þjóðþinga hjá SÞ í að takast á við alþjóðlegar áskoranir. Þátttakendur deildu góðum starfsvenjum þegar kemur að því að vinna gegn ójöfnuði, auka jafnrétti kynjanna og réttindi minnihlutahópa og berjast gegn loftslagsbreytingum. Rætt var um leiðir til að byggja upp hagkerfi sem virkar fyrir alla, samfélög sem leiða fólk saman og umhverfi sem er sjálfbært fyrir komandi kynslóðir.
    Hildur Sverrisdóttir tók þátt í umræðum um ákvarðanatöku og jafnrétti kynjanna sem lykil að sjálfbærni. Hún sagði mikilvægt að vinna að stefnumótun sem verndi konur gegn ofbeldi og mismunun. Þá greindi hún frá því að á Íslandi hefði verið settur fjöldi laga með það að markmiði að binda enda á kynferðislegt og kynbundið ofbeldi, nú síðast breytingar á hegningarlögum til að takast á við aukið kynbundið ofbeldi á internetinu. Enn fremur sagði hún fjárhagslegt sjálfstæði kvenna mikilvægan þátt í því að binda enda á kynjamisrétti, en til þess að konur gætu tekið jafnan þátt á vinnumarkaði yrði að skapa aðstæður sem gerðu þeim það kleift. Hún sagði málið ekki einfalt en að til væru áhrifaríkar leiðir eins og launað fæðingarorlof fyrir öll kyn og leikskólar á viðráðanlegu verði. Þá benti hún á að sennilega hefði engin þessara leiða verið til umræðu á pólitískum vettvangi fyrr en konur fóru að taka þátt í stjórnmálaumræðunni og að þegar þessar leiðir hefðu verið farnar hefði það ekki eingöngu veitt konum fleiri tækifæri heldur hefðu karlar einnig tekið þátt í átt að vinna að auknu jafnrétti.
    Framkvæmdastjóri IPU, Martin Chungong, sagði sameiginlegan fund sem þennan gera þingmönnum kleift að leggja sitt af mörkum til vinnu SÞ og alþjóðlegrar lagasetningar. Undanfarin tvö ár hefði mikið verið rætt um þau slæmu áhrfi sem COVID-19 faraldurinn hefði haft á sjálfbæra þróun. Þó hefði verið ljóst fyrir faraldurinn að ætti árangur að nást þyrfti að skoða sjálfbæra þróun á breiðum grunni og út frá samhengi efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta.

Fylgiskjal II.

FRÁSÖGN
af norrænum samráðsfundi landsdeilda IPU í Grindavík 7. mars 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 144. þingi IPU 20.–24. mars 2022. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum. Hildur Sverrisdóttir, formaður Íslandsdeildar, stýrði fundinum en Ísland fer með formennsku í norræna hópnum árið 2022.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ceciliu Widegren, formanns sænsku landsdeildarinnar og fulltrúa norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU. Hún sagði ólögmæta árás Rússa í Úkraínu hafa verið aðalumræðuefnið á síðasta fundi framkvæmdastjórnar sem fór fram 26. febrúar 2022. Stjórnin hefði birt yfirlýsingu þar sem árásin er harðlega fordæmd og hún yrði rædd og útfærð nánar á vorþingi IPU 20.–24. mars. Hún sagði ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu án vafa verða í brennidepli á vorþinginu og voru fundarmenn sammála um mikilvægi þess að IPU sendi frá sér skýra yfirlýsingu á þinginu þar sem árásin væri fordæmd harðlega.
    Þá kynnti Cecilia vinnu undirnefndar um fjármál IPU þar sem hún gegnir formennsku. Hún sagði sambandið hafa dregið markvisst úr kostnaði undanfarin ár og lækkað árgjöld jafnt og þétt í samræmi við kröfur aðildarríkjanna. Þá hefði aukin áhersla verið lögð á frjáls framlög til starfseminnar og Svíþjóð verið þar í fararbroddi. Í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 og efnahagsþrenginga sem mörg aðildarríkin stæðu frammi fyrir yrði áfram lögð áhersla á aðhald í fjármálum IPU.
    Norrænu ríkin hafa átt fulltrúa í trúnaðarstörfum í flestum nefndum IPU, auk framkvæmdastjórnar, undanfarin ár og voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess. Sérstaklega var rætt um mikilvægi umræðuvettvangs þingkvenna og ungra þingmanna hjá IPU, en sá umræðuvettvangur er mjög virkur og hefur vaxið á undanförnum misserum. Þá fór fram umræða um árlega sameiginlega fundi IPU og Sameinuðu þjóðanna sem haldnir eru í New York í febrúar og hvort áhugi væri fyrir því að halda þeim fundum áfram. Einnig fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga í að sigrast á heimsfaraldri og tryggja örugga framtíð.
    Hildur Sverrisdóttir sagði frá ástandinu á Íslandi á tímum COVID-19 og frá helstu aðgerðum stjórnvalda. Hún greindi frá því að Alþingi hefði verið að störfum meðan faraldurinn geisaði en þó með fjarlægðartakmörkunum í þinghúsinu. Stjórnvöld hefðu kynnt til sögunnar fjölda efnahagsúrræða vegna heimsfaraldursins sem nýttust heimilum og fyrirtækjum með beinum hætti. Þá sagði hún gagnlegt að norrænu landsdeildirnar hefðu deilt upplýsingum um faraldurinn og viðbrögðum stjórnvalda við honum. Jafnframt greindi Hildur frá niðurstöðum síðustu þingkosninga á Íslandi og bauð norrænu landsdeildunum til vinnuhádegisverðar hinn 22. mars 2022, í tengslum við vorþing IPU.
    Þá hélt Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytis Íslands, erindi og svaraði spurningum fundarmanna um samskipti Bandaríkjanna og Íslands og herstöðina í Keflavík. Hún greindi frá því að öryggis- og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna byggðist á tvíhliða varnarsamningi ríkjanna frá árinu 1951, en tæki nú mið af breyttum aðstæðum sem endurspeglaðist í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna frá árinu 2006. Þar væri kveðið á um fjölþætt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Hún sagði samstarfið hafa þróast í takti við breytingar á öryggisumhverfi í heimshluta okkar og tæki nú til mun fleiri þátta en áður. Þar mætti nefna málefni norðurslóða, þ.m.t. umhverfisöryggi, leit og björgun á hafi, auk varna gegn netvá, hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Einnig færi fram reglubundið samráð milli utanríkisráðuneytis Íslands og utanríkis- og varnarmálaráðuneyta Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál á breiðum grunni.
    Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til þess að undirbúa vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborg viðkomandi formennskuríkis eða nágrenni hennar. Þá hefði heimsfaraldur COVID-19, með ströngum ferðatakmörkunum milli ríkjanna, sýnt nefndarmönnum fram á gagnsemi og möguleika fjarfunda og að nýta mætti þá í auknum mæli í framtíðinni. Þá bauð formaður Íslandsdeildar norrænu formönnunum á næsta samráðsfund í september 2022 í Reykjavík.

Fylgiskjal III.

F R Á S Ö G N
af 144. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og tengdum fundum 11.–15. mars 2022 í Nusa Dua.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um hvernig nýta mætti upplýsinga- og samskiptatækni til að virkja menntageirann og hvernig endurhugsa mætti og skipuleggja friðarferla með það að markmiði að stuðla að varanlegum friði. Jafnframt fór fram almenn umræða um hvernig virkja mætti þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þá var utandagskrárumræða um stríðið í Úkraínu og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar. Um 780 þátttakendur sóttu þingið, þar af 404 þingmenn (154 þingkonur, eða 38%) frá 101 aðildarríki og 30 þingforsetar. Einnig var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 27% þátttakenda.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Jóhann Friðrik Friðriksson var, ásamt hollensku þingkonunni og formanni Tólfplús-hópsins, Ördu Grekens, valinn fulltrúi Tólfplús-hópsins í sérstakan vinnuhóp sem fyrirhugað er að stofna sem vettvang friðarumleitana vegna stríðsins í Úkraínu. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í stýrihópum og framkvæmdastjórn IPU, með sænsku þingkonuna Ceciliu Widegren í fararbroddi, kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar. Hópur norrænna þingmanna hittist jafnframt í tengslum við þingið og er Ísland í formennsku í norræna hópnum árið 2022.
    Enn fremur var haldinn kvennafundur 20. mars þar sem m.a. var rætt um reynslu þjóðþinga af því að hlúa að heilsu kvenna og ungmenna á tímum COVID-19 og um eftirköst faraldursins. Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur hún út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsanir, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsföll.
    Þrjár tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins og beindu þær allar sjónum sínum að stríðinu í Úkraínu. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU og fór fram kosning um hvaða tillaga yrði fyrir valinu. Tillaga Nýja-Sjálands, sem var studd af Úkraínu og Tólfplús-hópnum, fékk flest atkvæði. Ályktun þingsins, sem bar yfirskriftina „Friðsamleg lausn stríðsins í Úkraínu, virðing við alþjóðalög, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og landhelgi”, var samþykkt samhljóða með fyrirvara frá tíu ríkjum (Barein, Hvíta-Rússlandi, Kína, Íran, Suður-Afríku, Sýrlandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Víetnam og Simbabve).
    Ályktunin fordæmdir viðvarandi valdbeitingu Rússa gegn Úkraínu og segir hana brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal á meginreglunni um fullveldi og landhelgi. Lýst er yfir áhyggjum af því að stríðið í Úkraínu ógni alþjóðaöryggi og valdi efnahagslegri óvissu. Þá er skorað á þingmenn aðildarríkja IPU að greiða fyrir mannúðaraðstoð við þá sem eru á flótta vegna stríðsins og tryggja jafna þátttöku kvenna í friðarviðræðum milli þingmanna beggja landa. Enn fremur eru rússneskir og úkraínskir þingmenn hvattir til að eiga frumkvæði að því að stöðva stríðsrekstur og leysa ágreining með friðsamlegum og diplómatískum leiðum.
    Jafnframt er lagt til að IPU verði hugsanlegur vettvangur friðar í gegnum sérstakan vinnuhóp sem stofnaður verði fyrir verkefnið og samanstandi af þingmönnum landahópa IPU. Ályktunin styður við ályktun framkvæmdastjórnar IPU sem gefin var út 22. febrúar 2022 og fordæmir harðlega árás Rússa á Úkraínu.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að því hvernig virkja mætti þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Jóhann Friðrik Friðriksson tók þátt í umræðunum fyrir hönd Íslandsdeildar og sagði ljóst að ríki heims þyrftu að gera betur þegar kæmi að innleiðingu Parísarsáttmálans og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þá greindi hann frá markmiðum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um meira en helming fyrir árið 2030, ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og verða jafnframt jarðefnaeldsneytislaust fyrir árið 2050. Hann sagði heiminn standa frammi fyrir áskorunum sem aðeins væri hægt að sigrast á með raunverulegum aðgerðum og samvinnu. Að lokum vék hann orðum sínum að skelfilegri innrás Rússa í Úkraínu sem hefði þegar hrakið milljónir íbúa á flótta og ekki sæi fyrir endann á þeim hörmungum sem þar ættu sér stað. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að IPU fordæmdi stríðið í Úkraínu og sendi frá sér skýra yfirlýsingu þess efnis.
    Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið í Nusa Dua yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Þar er gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem þjóðþing þurfa að ráðast í við innleiðingu Parísarsáttmálans, þar á meðal að flýta orkuskiptum yfir í hreina orku, að tryggja afkomu jaðarsettra hópa í samfélögum og efla alþjóðlegt samstarf um sameiginlegar lausnir í loftslagsmálum. Forseti IPU, Duarte Pacheco, sagði í umræðu um yfirlýsinguna að tíminn til að bregðast við loftslagsvánni væri núna og brátt á þrotum. Það væri skylda þingmanna heims að ganga á undan með góðu fordæmi og grípa til nauðsynlegra aðgerða áður en það væri um seinan. Hann hvatti þingmenn til að bregðast ekki þegnum sínum og ungu kynslóðinni og standa saman í baráttunni.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Í 1. nefnd, um frið og öryggismál, var samþykkt ályktun um það hvernig mætti endurhugsa og skipuleggja friðarferli með það fyrir augum að stuðla að varanlegum friði. Í ályktuninni er skorað á þjóðþing að tryggja að friðarferlar séu eins heildrænir og mögulegt er, að allar hliðar máls séu skoðaðar vandlega og að hlustað sé á raddir kvenna og ungs fólks. Þá er lögð áhersla á nauðsyn þess að þingmenn komi á fót ferlum þar sem þeir sem stríð hafa áhrif á, þar á meðal þeir viðkvæmustu, geta komið á framfæri kvörtunum sínum, gerendur séu dregnir til ábyrgðar og fórnarlömbum tryggt réttlæti.
    Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, var samþykkt ályktun um að nýta í auknum mæli upplýsinga- og samskiptatækni í námi og kennslu. Ályktunin miðar að því að byggja á reynslu af fjarkennslu, sérstaklega á tímum COVID-19 heimsfaraldurs, og auka aðgengi að menntun. Litið er til þarfa kennara og innviða auk upplýsingamiðlunarlæsis (e. Information Communication Technology literacy). Sérstaklega er hugað að því hvernig þjóðþing geti með löggjafar- og fjárveitingarhlutverki sínu stuðlað að aukinni menntun án aðgreiningar.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga í að samræma ráðstafanir í heilbrigðismálum meðan á heimsfaraldri stendur. Voru þingmenn sammála um að yfirstandandi heimsfaraldur COVID-19 hefði beint athyglinni í auknum mæli að áleitnum spurningum um varðveislu borgaralegs frelsis. Þá var tekin ákvörðun um að næsta umræðuefni nefndarinnar yrði um það hvernig þjóðþing gætu hvatt til byggðaþróunar í ríkjum sem væru með hátt hlutfall alþjóðlegra fólksflutninga og hvernig stöðva mætti mansal og mannréttindabrot.
    IPU kynnti tvær nýjar útgáfur á þinginu. Annars vegar þriðju alþjóðlegu skýrsluna, sem gefin er út í samstarfi við Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, og byggist á tveggja ára ítarlegri rannsókn á samskiptum þjóðþinga við þau samfélög sem þau eru fulltrúar fyrir. Hins vegar gaf IPU út nýja handbók fyrir þingmenn í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um hvernig styrkja mætti viðbúnað til að tryggja heilsuöryggi, Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin (2005). Markmið handbókarinnar er að færa þingmönnum og þjóðþingum tól til að efla neyðarviðbúnað og heilbrigðisöryggi. Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 178 talsins. Rætt var um fjárhagsáætlun IPU og var yfirlit yfir skipulagða fundi fram undan kynnt.
Fylgiskjal IV.

FRÁSÖGN
af norrænum samráðsfundi landsdeilda IPU í Reykjavík 22. september 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Hildur Sverrisdóttir formaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 145. þingi IPU 11.–15. október 2022. Hér á eftir fer stutt yfirlit um helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum. Hildur Sverrisdóttir, formaður Íslandsdeildar, stýrði fundinum en Ísland fór með formennsku í norræna hópnum árið 2022.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ceciliu Widegren, formanns sænsku landsdeildarinnar og fulltrúa norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU, á helstu málum sem til umræðu voru í framkvæmdastjórn og stýrihóp Tólfplús-hópsins. Hún sagði ólögmæta innrás Rússlands í Úkraínu hafa verið í brennidepli á fundunum og hvernig IPU gæti fordæmt innrásina á sem áhrifaríkastan hátt á haustþingi bandalagsins í október. Þá sagði hún stuttlega frá niðurstöðum þingkosninga í Svíþjóð sem fóru fram 11. september og tilkynnti að hún myndi hætta sem þingmaður og snúa sér að öðrum störfum. Hún þakkaði samstarfið á vettvangi IPU sem hún sagði hafa gefið sér mikla ánægju og gagnlega reynslu.
    Því næst fór fram umræða um niðurstöður vorþings IPU í mars 2022 og annarra ráðstefna og funda sem nefndarmenn höfðu sótt á vegum IPU-þingsins undanfarna sex mánuði. Jafnframt var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna voru m.a. hvatar til þróunarríkja sem eru með hátt hlutfall alþjóðlegra fólksflutninga og leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Fundarmenn voru sammála um að ólögmæt innrás Rússa í Úkraínu yrði í brennidepli á haustþingi IPU. Þeir ræddu enn fremur mikilvægi þess að utandagskrárumræða færi fram um stríðið og að þingið samþykkti ályktun á grundvelli hennar þar sem innrásin væri fordæmd harðlega.
    Einnig fór fram almenn umræða á haustþinginu um jafnrétti kynjanna og jafnréttismiðuð þjóðþing sem drifkraft breytinga í átt að friðsælli heimi. Þá var árlegur kvennafundur haldinn í tengslum við þingið þar sem sjónum var beint að jafnréttismiðuðum þjóðþingum, kynjamisrétti, áreiti og ofbeldi gegn konum. Rætt var um tengsl kynbundinna þinga og afnáms kynjamisréttis, áreitni og ofbeldis gegn konum á þingi. Einnig fór fram umræða um það hvernig þjóðþing þurfa að aðlagast yngri og fjölbreyttari kynslóð þingmanna og hvernig kynjameðvitund getur gert þjóðþing skilvirkari og í samræmi við fjölbreytileika samfélaga.
    Jafnframt hélt Þórey Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Empower erindi um jafnrétti á Alþingi Íslendinga og svaraði spurningum fundarmanna. Nýsköpunarfyrirtækið Empower sinnir jafnréttis- og fjölbreytniráðgjöf og greindi Þórey m.a. frá hugbúnaðinum Empower Now sem gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að fá yfirsýn yfir stöðu jafnréttismála, setja sér mælanleg markmið og fræða starfsfólk eftir stafrænum leiðum. Áhersla er lögð á að styðja við uppbyggingu á jákvæðri fyrirtækjamenningu með jafnrétti og fjölbreytni að leiðarljósi. Þá sagði hún að lykilatriði til að koma á auknu jafnrétti og fjölbreytni væri að horfast í augu við undirliggjandi fordóma og mismunun sem væru til staðar á vinnustöðum og annars staðar í samfélaginu; oftast án þess að fólk gerði sér grein fyrir því. Kortleggja þyrfti stöðuna til að skilja hana, setja okkur skýr markmið og hafa viljann til að breyta.
    Rætt var um sameiginlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna sem fer árlega fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og fyrirhugað er að halda 13.–15. febrúar 2023. Cecilia Widegren upplýsti fundarmenn um að á fundum framkvæmdastjórnar IPU hefði verið rætt um að hætta við skipulagningu fundanna vegna mikils kostnaðar við framkvæmd þeirra. Fundarmenn vorum sammála um að þeir vildu ekki að hætt yrði við fundina þar sem þeir væru mjög ganglegir og veittu innsýn í starf Sameinuðu þjóðanna og styrktu tengslin við stofnunina. Tekin var ákvörðun um að ritari íslandsdeildar skrifaði bréf til framkvæmdastjórnar IPU fyrir hönd formanna norrænu landsdeildanna þar sem formennirnir lýstu yfir eindregnum stuðningi við að árlegum fundum IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York yrði haldið áfram. Það væri skoðun þeirra og reynsla að fundirnir væru mikilvægur hluti af starfi IPU og veittu þingmönnum einstakan og mikilvægan vettvang til að ræða málefni Sameinuðu þjóðanna og mynda tengslanet við embættismenn þar.
    Að lokum var fjallað um mögulega vinnuheimsókn norrænna landsdeilda til Washington í febrúar 2023 í tengslum við árlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York. Fundarmenn voru sammála um að áhugi væri á að skipuleggja slíka heimsókn eins og gert hefði verið í febrúar 2022. Á fundi IPU í New York verður sjónum beint að málefnum vatns og hafsvæða. Undanfarin tvö ár hefur mikið verið rætt um þann skaða sem COVID-19 hefur valdið sjálfbærri þróun en ljóst var fyrir heimsfaraldur að horfa þyrfti til sjálfbærrar þróunar á breiðari grunni.
    Árið 2023 tekur Svíþjóð við formennsku í norræna samráðshópnum af Íslandi. Formaður sænsku landsdeildarinnar bauð nefndarmenn velkomna til næsta fundar hópsins sem fyrirhugaður er í Stokkhólmi í mars 2023. Verður fundurinn haldinn til undirbúnings fyrir vorþing IPU sem fram fer í Barein 11.–15. mars 2023.

Fylgiskjal V.

F R Á S Ö G N
af 145. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og tengdum fundum í Kígalí í Rúanda 11.–15. október 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um þinglega hvata til þróunarríkja sem eru með hátt hlutfall alþjóðlegra fólksflutninga og leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Jafnframt fór fram almenn umræða um jafnrétti kynjanna og jafnréttismiðuð þjóðþing sem gætu orðið drifkraftur breytinga í átt að friðsælli heimi. Þá fór fram utandagskrárumræða um stríðið í Úkraínu og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar. Um 960 þátttakendur sóttu þingið, þar af 573 þingmenn frá 119 aðildarríkjum og 39 þingforsetar. Af þeim voru 207 þingkonur, eða 36%. Einnig var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 23% þátttakenda.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Fulltrúar hópsins í stýrihópum og framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar. Hópur norrænna þingmanna hittist jafnframt í tengslum við þingið í vinnuhádegisverði 13. október en Íslandsdeild fór með formennsku í norræna hópnum árið 2022.
    Enn fremur var haldinn kvennafundur 11. október þar sem m.a. var rætt um jafnréttismiðuð þjóðþing, kynjamisrétti, áreiti og ofbeldi gegn konum. Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur hún út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsanir, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsföll. Nefndin skoðaði mál 428 þingmanna í 17 löndum og vörðuðu nær öll málin stjórnarandstæðinga sem höfðu verið háværir í gagnrýni sinni á stjórnvöld.
    Fjórar tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Kosning fór fram um hvaða tillaga yrði fyrir valinu og fékk tillaga Síle, sem var studd af landahóp Suður-Ameríku og Eyjaálfu, flest atkvæði. Ályktun þingsins, sem bar yfirskriftina „Fordæming á innrásinni í Úkraínu og innlimun landsvæða í kjölfarið, til varnar landhelgi (e. territorial integrity) ríkja heims”, var samþykkt samhljóða. Í ályktuninni er kallað eftir því að tafarlaust verði bundinn endi á hernám Rússa í landhelgi Úkraínu. Jafnframt er valdbeiting Rússa gegn Úkraínu harðlega fordæmd og sögð brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal meginreglunni um fullveldi og landhelgi. Lýst er yfir stuðningi við ályktanir ýmissa alþjóðastofnana þess efnis að rannsaka og lögsækja gerendur hugsanlegra stríðsglæpa sem framdir voru í Úkraínu og að stofnaður verði dómstóll með sérstaka lögsögu til að rannsaka þá. Jafnframt er áréttaður stuðningur við vinnu starfshóps IPU um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að jafnrétti kynjanna og jafnréttismiðuðum þjóðþingum sem gætu orðið drifkraftur breytinga í átt að friðsælli heimi. Duarte Pacheco, forseti IPU, áréttaði að 145. þing IPU væri það fyrsta sem haldið væri í landi þar sem þingkonur væru í meirihluta. Þá greindi hann frá því að hlutfall kvenna á þjóðþingum heims hefði tvöfaldast frá árinu 2000 og náð 26% en með sömu þróun myndi taka 40 ár til viðbótar að ná jöfnu hlutfalli kynjanna. Því væri nauðsynlegt að þjóðþing heims fylgdu fordæmi þeirra landa sem þegar hefðu náð árangri í átt að auknu jafnrétti.
    Jóhann Friðrik Friðriksson tók þátt í umræðunum fyrir hönd Íslandsdeildar. Hann sagði jafnréttismál vera forgangsmál hjá íslenskum stjórnvöldum, bæði innan lands og í utanríkisstefnu landsins. Þá greindi hann frá því að Ísland væri skilgreint sem friðsælasta land í heimi fjórtánda árið í röð samkvæmt friðarvísi Stofnunar um hagsæld og frið. Ísland skoraði sérstaklega hátt þegar horft væri til menntunar kvenna og pólistískrar valdeflingar þeirra. Hann sagði jafnrétti kynjanna vera mannréttindi og rannsóknir sýna fram á að í þeim samfélögum þar sem baráttan fyrir jafnrétti kynjanna hefði borið mestan árangur væru félagsleg og efnahagsleg réttindi almennings meiri. Í dag væru 47,5% þingmanna á Íslandi konur, auk þess sem forsætisráðherra landsins væri kona. Að lokum vék hann orðum sínum að ólögmætri innrás Rússa í Úkraínu sem hefði hrakið milljónir íbúa á flótta og ekki sæi fyrir endann á þeim hörmungum sem þar ættu sér stað. Hann sagði stríðið hafa skelfilegar afleiðingar og lagði áherslu á mikilvægi þess að IPU fordæmdi það harðlega og gæfi frá sér yfirlýsingu þess efnis á þinginu.
    Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið Kígalí-yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Þar eru aðildarríkin hvött til þess að leggja sig fram um að stuðla að jafnrétti kynjanna í stofnunum og samfélaginu öllu. Lagt er til að þjóðþing innleiði kynjakvóta í kosningum til að jöfnuður náist í pólitískri ákvarðanatöku, tryggja megi að lagasetning og fjárlagagerð sé kynbundin og binda megi enda á kynbundna mismunum og ofbeldi.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Í 1. nefnd, um frið og öryggismál, fór fram umræða um efni næstu ályktunar nefndarinnar sem fjallar um netárásir og þá ógn sem af þeim stafar fyrir alþjóðlegt öryggi. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, fór fram umræða um kolefnisjöfnun skóga og mikilvægi þess að tryggja fjármagn til átaksverkefna um verndun skóga og endurnýjun þeirra. Einnig var rætt um meginregluna um sameiginlega ábyrgð og hugtakið loftslagsréttlæti (climate justice). Þá skipulagði nefndin, í samstarfi við 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, vinnustofu um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var afgreidd ályktun um þinglega hvata til þróunarríkja sem eru með hátt hlutfall alþjóðlegra fólksflutninga og leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot. Í ályktuninni hvetur IPU Sameinuðu þjóðirnar til að leggja á næsta allsherjarþingi stofnunarinnar aukna áherslu á aðgerðir vegna mansals, smygls á fólki og nútímaþrælahalds. Jafnframt eru ríkisstjórnir og þjóðþing hvött til þess að beina sjónum sínum í auknum mæli að mansali, m.a. á konum og stúlkum í þeim tilgangi að misnota þær kynferðislega. Við afgreiðslu ályktunarinnar var tekin afstaða til 91 breytingartillagna frá 18 aðildarríkjum. Endurskoðuð drög voru lögð fyrir nefndarfund 14. október og voru þau samþykkt samhljóða. Eftir afgreiðslu og samþykkt ályktunarinnar lýsti rússneska landsdeildin yfir andstöðu við hana.
    Í 4. nefnd, um málefni Sameinuðu þjóðanna, fór fram umræða um viðbrögð Sameinuðu þjóðanna við vaxandi hungri og versnandi hungursneyð um allan heim. Rætt var um stríð og loftslagsbreytingar sem orsök fæðuóöryggis og leiðir til úrbóta. Önnur mál voru til umfjöllunar, m.a. áhrif stríðs og grimmdarverka á óbreytta borgara og hnignun umhverfisins og áhrif hennar á útbreiðslu hryðjuverka.
    Cremer-Passy viðurkenningin var veitt í fyrsta sinn en hún er veitt þingmönnum sem hafa lagt mikið af mörkum til varnar og eflingar markmiða IPU og til að stuðla að sameinaðri, sanngjarnari, öruggari, sjálfbærari og réttlátari heimi.Viðurkenningin er nefnd eftir stofnendum IPU, William Randall Cremer og Frédéric Passy, þingmönnum frá Bretlandi og Frakklandi, sem boðuðu til fyrsta fundar Alþjóðaþingmannasambandsins í París árið 1889. Viðurkenningin var veitt tveimur tilnefndum, annars vegar Cynthiu López Castro, þingkonu frá Mexíkó, og hins vegar Ruslan Stefanchuk, forseta úkraínska þingsins, fyrir hönd allra 450 þingmanna úkraínska þingsins. Voru Stefanchuk og úkraínsku þingmennirnir tilnefndir vegna skuldbindingar sinnar við þingstörf þrátt fyrir yfirstandandi stríð í Úkraínu. Þeir hafa á tímum neyðarástands í landinu haldið áfram að þjóna kjósendum sínu og setja lög.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 178 talsins. Rætt var um fjárhagsáætlun IPU og var yfirlit yfir skipulagða fundi fram undan kynnt. Næsta þing IPU verður haldið í Barein 11.–15. mars 2023.

Fylgiskjal VI.

FRÁSÖGN
af sameiginlegum fundi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og egypska þingsins í Sharm El Sheikh 13. nóvember 2022.


    Alþjóðaþingmannasambandið og egypska þingið stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 13. nóvember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, sem fór fram í Sharm El Sheikh 7.–18. nóvember. IPU hefur undanfarin ár skipulagt þingmannafund samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við þing gestgjafalandsins. Markmið fundanna er að veita þingmönnum tækifæri til að fá milliliðalaust upplýsingar frá sérfræðingum um loftslagsmál og ræða leiðir til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Um 200 þingmenn frá 50 aðildarríkjum IPU, auk sérfræðinga og embættismanna, sóttu fundinn. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Bergþór Ólason, Vilhjálmur Árnason og Logi Einarsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Á fundinum var m.a. fjallað um framvindu samningaviðræðna á ráðstefnunni COP27, áhrif loftslagsbreytinga og leiðir til að takast á við afleiðingar þeirra, svo sem að draga úr losun og virkja loftslagsfjármögnun. Einnig var rætt um loftslagsaðgerðir og sjálfbæra þróun með áherslu á mikilvæg tengsl milli aðgerða í loftslagsmálum og sjálfbærrar þróunar. Áhersla var lögð á mikilvægi sérstakra þróunarverkefna, matvælaöryggi, landflótta og viðkvæm ríki. Enn fremur fór fram umræða um loftslagsréttlæti og forgangsröðun ábyrgðar. Áhersla var lögð á ábyrgð sem helsta drifkraftinn til að sporna við loftslagsóréttlæti. Rætt var um leiðir fyrir þjóðþing til að stuðla að því að þróuð ríki taki aukinn þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með því m.a. að draga úr útblæstri og auka fjárframlög, sérstaklega til aðlögunar.
    Jafnframt deildu þingmenn frá ríkjum sem eru viðkvæmust fyrir áhrifum loftslagsbreytinga reynslu sinni af áhrifum þeirra á heimkynni sín og samfélög og kölluðu eftir tafarlausum aðgerðum alþjóðasamfélagsins. Meðal þeirra sem greindu frá stöðu mála í heimalandi sínu var Sherry Rehman, ráðherra loftslagsmála í Pakistan. Hún sagði Pakistan hafa staðið frammi fyrir mörgum loftslagshamförum á árinu 2022, allt frá banvænum vorhita til sumarflóða sem ollu dauða 1.700 manns og 30 milljarða dollara tjóni. Martröð Pakistans setti svip sinn á umræður fundarins. Rehman lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að komið yrði á stofn loftslagsbótasjóði til handa fátækari ríkjum heims sem illa hafa orðið úti vegna loftslagsbreytinga. Hún sagði ríkari lönd, sem mestan þátt ættu í því að skapa vandann, hafa tregðast við að taka ábyrgð af ótta við að þurfa að leggja til fé um ókomna tíð. Afleiðingar gríðarlegra flóða í Pakistan, Nígeríu og víðar hefðu verið kornið sem fyllti mælinn og ekki væri hægt að bíða lengur. Lífsnauðsyn væri að koma á loftslagsbótasjóði og það væri hennar helsta baráttumál á COP27.
    Forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Duarte Pacheco, hélt opnunarávarp fundarins og lagði áherslu á að tíminn til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga væri senn liðinn. Hann kallaði eftir kröftugum viðbrögðum þingmanna og sagði vísindin hafa sýnt fram á að óafturkræfar breytingar hefðu nú þegar átt sér stað og grípa þyrfti til aðgerða strax til að afstýra loftslagshörmungum víða um heim. Logi Einarsson tók þátt í umræðum á fundinum og lagði m.a. áherslu á að ríkari og þróaðri ríki ættu að taka aukna ábyrgð og leggja meira til en þau sem væru í viðkvæmari stöðu gagnvart loftslagsbreytingum.
    Í samþykkt fundarins voru settar fram metnaðarfullar leiðbeiningar fyrir aukna þátttöku þjóðþinga í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þar voru áréttaðar skuldbindingar við alþjóðlegar aðgerðir til að takast á við alvarleg áhrif loftslagsbreytinga sem ógna heiminum. Gengist var við þeirri eyðileggingu sem þegar hefur orðið af völdum loftslagsbreytinga og stutt við að auka aðgerðir í loftslagmálum til verndar náttúruauðlindum og fjölbreytni lífríkis. Þá var skorað á þjóðþing að styðja við stofnun sérstaks loftslagsbótasjóðs, en ákvörðun um það verður tekin á COP27.
    Alþjóðaþingmannasambandið hefur undanfarinn áratug stutt þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í samvinnu við samstarfsaðila veitir IPU þjóðþingum tæknilega aðstoð og heldur námskeið til þess að auka vitund þingmanna um alvarleika loftslagsbreytinga og til að skilgreina mikilvægustu aðgerðir.
    Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin dagana 13.–18. nóvember í Sharm El Sheikh og fóru Egyptar með formennsku á ráðstefnunni. Bergþór Ólason, Logi Einarsson, Vilhjálmur Árnason og Gísli Rafn Ólafsson, auk Örnu Gerðar Bang alþjóðaritara, sóttu ráðstefnuna 14.–17. nóvember fyrir hönd Alþingis. Meðal helstu niðurstaðna COP27 var að aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna komust að samkomulagi um sérstakan loftslagsbótasjóð til handa fátækari ríkjum heims sem illa hafa orðið úti vegna loftslagsbreytinga. Til stendur að auðugri ríki heims leggi samtals hundrað milljarða bandaríkjadali árlega til sjóðsins til að bæta upp það tjón sem loftslagsváin hefur valdið fátækari ríkjum heims. Ráðstefnunni lauk með því að fulltrúar ríkjanna kölluðu eftir frekari notkun endurnýjanlegra orkugjafa og staðfestu fyrri markmið um að halda aftur af frekari hlýnun umfram 1,5°C frá því fyrir iðnbyltingu.
    Í norræna skálanum fór fram dagskrá um áskoranir og lausnir í loftslagsmálum og norrænt samstarf. Bergþór Ólason, Gísli Rafn Ólafsson, Logi Einarsson, Vilhjálmur Árnason og Bryndís Haraldsdóttir tóku þátt í pallborðsumræðum um væntanlegar niðurstöður COP27 og horfur í loftslagsmálum á Norðurlöndum. Jafnframt fór fram umræða um það hvernig Norðurlöndin geta verið í fararbroddi þegar kemur að grænum lausnum og orkuskiptum og tvíþætt samband loftslagsbreytinga og líffræðilegs fjölbreytileika.

Fylgiskjal VII.

Ályktanir og yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2022.


    Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins:
          Um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu, virðingu við alþjóðalög, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og landhelgi.
          Um það hvernig endurhugsa og endurskipuleggja megi friðarferla með það fyrir augum að stuðla að varanlegum friði.
          Um það hvernig nýta megi upplýsinga- og fjarskiptatækni til að virkja menntageirann, þ.m.t. á tímum heimsfaraldurs.
          Um hvata til þróunarríkja sem eru með hátt hlutfall alþjóðlegra fólksflutninga og leiðir til að stöðva mansal og mannréttindabrot.
          Um fordæmingu á innrás Rússa í Úkraínu og innlimun landsvæða í kjölfarið, til varnar landhelgi ríkja heims.

    Yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins:
          Um það hvernig virkja megi þjóðþing til að bregðast við loftslagsbreytingum.
          Um jafnrétti kynjanna og jafnréttismiðuð þjóðþing sem gætu orðið drifkraftur breytinga í átt að friðsælli heimi.