Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1197  —  533. mál.
2. umræða.



Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (réttindaávinnsla og breytt framsetning).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju. Eftir að málið var afgreitt til 2. umræðu kom í ljós að þar sem frumvarpið felur í sér endurröðun ákvæða í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, er þörf á að breyta ákvæði til bráðabirgða í lögunum með tilliti til millivísana, ásamt ákvæði til bráðabirgða í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu þessi ákvæði til bráðabirgða hafa að geyma úreltar tilvísanir. Slík framsetning er til þess fallin að skapa vafa um beitingu ákvæða í framkvæmd auk þess sem hún gengur gegn sjónarmiðum um skýrleika laga og vandaða lagasetningu og þeim markmiðum frumvarpsins að gera kerfi almannatrygginga gagnsærra, einfaldara og skilvirkara. Meiri hlutinn gerir því tillögur um breytingar á frumvarpinu til að bregðast við framangreindu. Tillögurnar voru unnar í samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Meiri hlutinn bendir á að þær breytingar sem eru lagðar til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa áhrif á túlkun ákvæðanna. Þær eru lagðar til með það að markmiði að auka skýrleika að teknu tilliti til breyttrar framsetningar laganna. Tillögurnar hafa þannig að geyma efnislega samhljóða ákvæði og í gildandi lögum að undanskildum uppfærðum millivísunum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      13. gr. orðist svo:
              Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
              1.      Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 30. gr. laganna skal örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 hafa 2.400.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
              2.      Þrátt fyrir ákvæði 26., 27., 28., 29. og 30. gr. skulu greiðslur örorkulífeyris, örorkustyrks, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar ekki lækka á tímabilinu 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2013 vegna almennra hækkana á örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum.
              3.      Við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2023 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 68,74% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 2. tölul. ákvæðis þessa. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.
              4.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 19. gr. gildir heimild til að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs aðeins um þá sem fæddir eru árið 1952 eða síðar. Þeir sem fæddir eru árið 1951 eða fyrr hafa heimild til að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi fram að 1. janúar 2017.
              5.      Við útreikning ellilífeyris skal Tryggingastofnun gera samanburð á útreikningi greiðslna til þeirra ellilífeyrisþega sem fá greiddan ellilífeyri 31. desember 2016. Skal stofnunin bera saman annars vegar ellilífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ellilífeyrisþega, samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2016, uppreiknað samkvæmt raungildi hvers ár, og hins vegar ellilífeyri og heimilisuppbót samkvæmt þeim reglum sem gilda frá 1. janúar 2017. Leiði samanburðurinn til hærri bóta samkvæmt eldri ákvæðum laganna skal stofnunin greiða mismuninn með þeim hætti að séu heildartekjur ellilífeyrisþega, sbr. 8. tölul. 2. gr., sbr. einnig 22. gr., 100.000 kr. á mánuði eða lægri skal greiða mismuninn að fullu. Greiðslufjárhæðin skal lækka um 1% fyrir hverjar 1.000 kr. umfram það uns hún fellur niður þegar heildartekjur lífeyrisþega nema 200.000 kr. á mánuði.
              6.      Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 24., sbr. 26. gr., slysaörorkulífeyris skv. 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, á árinu 2021 skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 53.100 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2021, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.
              7.      Þeir sem fá eftirstöðvar bóta greiddar sem eingreiðslu frá sjúkratryggingastofnuninni samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og hafa áður fengið mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 75% slysaörorkumats skulu eiga rétt á að frá sama tíma breytist 75% slysaörorkumat þeirra í 75% örorkumat skv. 24. gr. án sérstakrar umsóknar, að því gefnu að skilyrði 24. gr. séu uppfyllt. Jafnframt skulu þeir eftir því sem við á eiga rétt á öðrum tengdum greiðslum samkvæmt lögunum og lögum um félagslega aðstoð.
                     Þeir sem fá eftirstöðvar bóta greiddar í einu lagi frá sjúkratryggingastofnuninni samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og hafa fengið mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 50–74% slysaörorkumats og til viðbótar einnig fengið greiðslur á grundvelli 75% örorkumats skv. 24. gr. skulu frá sama tíma fá óskertar þær örorkulífeyrisgreiðslur skv. 24., sbr. 26. gr., sem þeir eiga rétt á vegna 75% örorkumats samkvæmt þeirri grein. Jafnframt skulu þeir eftir því sem við á eiga rétt á öðrum tengdum greiðslum samkvæmt lögunum og lögum um félagslega aðstoð.
                     Þeir sem fá eftirstöðvar bóta greiddar sem eingreiðslu frá sjúkratryggingastofnuninni samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og hafa fengið mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 50–74% slysaörorkumats án þess að vera jafnframt metnir til 75% örorku skv. 24. gr. eiga ekki rétt á áframhaldandi greiðslum nema þeir sæki um og fái samþykkt örorkumat skv. 24. eða 27. gr.
                     Skerðing örorkugreiðslna skv. 26. eða 27. gr. vegna eingreiðslu vegna slysaörorkumats sem er undir 50% samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skal falla niður frá 1. janúar 2022.
                     Þeir sem hafa fengið mánaðarlega greiðslu barnalífeyris samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga fá áframhaldandi barnalífeyri greiddan án sérstakrar umsóknar ef skilyrði 40. gr. eru uppfyllt.
              8.      Þrátt fyrir ákvæði 62. gr. laganna skulu bætur samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, hækka um 3,0% frá 1. júní 2022. Greiðslur komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2022.
              9.      Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 24., sbr. 26. gr., eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, á árinu 2022 skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2022, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.
              10.      Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 22. gr. og 1. og 2. mgr. 30. gr. skal séreign, sem myndast hefur af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hjá einstaklingi sem hefur hafið töku lífeyris samkvæmt lögum þessum fyrir 1. janúar 2023, ekki koma til lækkunar við ákvörðun um ellilífeyri, tekjutryggingu og ráðstöfunarfé.
     2.      20. gr. orðist svo:
             Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
             Við útreikning heimilisuppbótar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 gera samanburð á útreikningi heimilisuppbótar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2023 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 68,74% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

Alþingi, 27. febrúar 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Jódís Skúladóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.