Ferill 645. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 1352  —  645. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002 (sérhæfð þekking).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Þór Þorvaldsson og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Berglindi Ásgeirsdóttur frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Hilmar Vilberg Gylfason og Gunnar Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Nönnu Elísu Jakobsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Sverri B. Berndsen og Bryndísi Axelsdóttur frá Vinnumálastofnun og Öldu Karen Svavarsdóttur frá Útlendingastofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Lagt er til að í nýrri 3. mgr. 8. gr. laganna verði kveðið á um heimild ráðherra til þess að birta í reglugerð lista yfir þau störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar þar sem tímabundinn skortur er á starfsfólki. Skal ráðherra óska eftir tillögum að breytingum á framangreindri reglugerð frá hlutaðeigandi stofnunum og hagsmunaaðilum að minnsta kosti á tólf mánaða fresti. Þá er lagt til að Vinnumálastofnun verði veitt heimild til þess að veita tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli þeirra breytinga sem lagðar eru til og að heimilt verði að framlengja atvinnuleyfi sem veitt eru á grundvelli nýrrar 3. mgr. 8. gr. laganna um allt að tvö ár, þrátt fyrir að það starf sem um ræðir hafi verið fellt brott af lista yfir störf í framangreindri reglugerð.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja markvissari afgreiðslu umsókna um atvinnuleyfi vegna starfa sem ekki krefjast tiltekinnar sérfræðiþekkingar í formi háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntunar sem viðurkennd er hér á landi en krefjast þess þó að sá einstaklingur sem gegni því starfi sem um ræðir hverju sinni búi yfir sérhæfðri þekkingu sem tímabundinn skortur er á hér á landi. Gert er ráð fyrir að þau störf kunni m.a. að vera á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni eða annarra starfsgreina þar sem störf kunna að krefjast sérhæfingar sem telst þó ekki til sérfræðiþekkingar í skilningi gildandi laga.

Umfjöllun málsins.
    Við meðferð málsins var fjallað um að skilyrði fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa hér á landi og afgreiðsla þeirra væri þung í vöfum sem hefði m.a. neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslensks vinnumarkaðar gagnvart öðrum ríkjum. Þung og hæg afgreiðsla á atvinnuleyfum erlendra sérfræðinga gæti m.a. haft þær afleiðingar í för með sér að þeir sérfræðingar sem hingað hefðu annars komið leiti í störf í öðrum ríkjum.
    Nefndin undirstrikar að eitt meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja markvissari afgreiðslu umsókna um atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérhæfðrar þekkingar. Auk þess sem frumvarpinu er ætlað að auka fyrirsjáanleika við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga í tengslum við veitingu tímabundinna atvinnuleyfa vegna starfa sem verða talin upp í reglugerð, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins, í þeim tilgangi að auðvelda aðgengi íslenskra fyrirtækja að sérhæfðri þekkingu.
    Fjallað var um að sá iðnaður, sem ætla má að frumvarpið hafi helst áhrif á, sé mjög kvikur þar sem aðstæður geta breyst hratt, m.a. að því er varðar skort á sérhæfðu starfsfólki. Í því samhengi var rætt um hvort nauðsynlegt væri að setja í frumvarpinu frekari skyldur á ráðherra til þess að uppfæra áðurnefnda reglugerð örar en nú er gert ráð fyrir. Nefndin bendir á að skv. a-lið 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ráðherra skuli að minnsta kosti á tólf mánaða fresti óska eftir tillögum að breytingum á framangreindri reglugerð frá hlutaðeigandi stofnunum og hagsmunasamtökum. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins bendir nefndin á að ekki er útilokað að reglugerðin verði uppfærð oftar en á tólf mánaða fresti þar sem ráðherra er heimilt að uppfæra reglugerðina oftar á því tímabili. Nefndin telur rétt að árétta að þó að störf séu ekki á lista í reglugerð yfir þau störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar er Vinnumálastofnun eftir sem áður heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 97/2002, enda er ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins ekki ætlað koma í stað 2. mgr. 8. gr. laganna heldur er um að ræða viðbót.
    Fyrir nefndinni var rætt um að ganga mætti lengra í því en gert er í frumvarpinu að hvetja erlenda sérfræðinga til að koma til landsins en almennt var lögð áhersla á að með frumvarpinu væru lagðar til tímabærar breytingar og að stigið væri jákvætt skref og tekur nefndin undir það. Nefndin bendir á að frumvarpið er liður í að auka möguleika erlendra sérfræðinga utan Evrópska efnahagssvæðisins á að flytja hingað til lands og starfa.

Breytingartillögur.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023. Þar sem það tímamark er liðið er nauðsynlegt að breyta ákvæðinu og leggur nefndin því til að lögin öðlist þegar gildi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „sbr. 3. mgr.“ í c-lið 1. gr. falli brott.
     2.      2. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 20. mars 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Oddný G. Harðardóttir. Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Halldóra Mogensen. Jódís Skúladóttir. Óli Björn Kárason.