Ferill 782. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1410  —  782. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir (sameining Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs, þjónustustöðvar).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástu Margréti Sigurðardóttur, Bjarnheiði Gautadóttur, Gissur Pétursson og Jón Þór Þorvaldsson frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Gísla Davíð Karlsson, Sverri B. Berndsen, Unni Sverrisdóttur og Vilmar Pétursson frá Vinnumálastofnun, Nichole Leigh Mosty frá Fjölmenningarsetri, Örnu Láru Jónsdóttur og Margréti Geirsdóttur frá Ísafjarðarbæ, Atla Viðar Thorstensen og Nínu Helgadóttur frá Rauða krossinum, Aleksöndru Leonardsdóttur og Sögu Kjartansdóttur frá Alþýðusambandi Íslands og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Reykjavíkurborg og Sveitarfélaginu Skagafirði.

Efni frumvarpsins.
    Markmið frumvarpsins er að sameina alla þjónustu sem snýr að innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd hjá einni stofnun með það í huga að ná meiri skilvirkni en nú þykir vera í málaflokknum. Sameining Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs virðist best til þess fallin að uppfylla það markmið. Með sameiningunni munu innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd geta leitað á einn stað og sótt þar þá þjónustu sem þeim stendur til boða sem mun einfalda og auka skilvirkni samstarfs ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum. Um leið og sameiningin fer fram verður starfsemi Fjölmenningarseturs í núverandi mynd felld niður og verður Vinnumálastofnun framkvæmdaraðili laga um málefni innflytjenda.

Umfjöllun meiri hlutans.
    Meiri hlutinn tekur undir markmið frumvarpsins og leggur áherslu á að sameining stofnananna muni auka skilvirkni í málaflokknum. Meiri hlutinn vill sérstaklega benda á hversu mikilvægt hlutverk Fjölmenningarseturs hefur verið frá stofnun þess. Þá vill meiri hlutinn árétta að hlutverk Fjölmenningarseturs er bundið í lög um málefni innflytjenda og að með frumvarpinu eru viðfangsefni þess ekki úr sögunni heldur munu verkefni Fjölmenningarseturs flytjast til Vinnumálastofnunar við sameininguna. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á mikilvægi þess að sú reynsla og frumkvöðlavinna sem unnin hafi verið í Fjölmenningarsetri undanfarin ár flytjist til Vinnumálastofnunar.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að athugasemdir hafi borist í samráðsgátt stjórnvalda við það að heiti Vinnumálastofnunar verði óbreytt við sameiningu stofnananna. Þau sjónarmið komu einnig fram við meðferð málsins í nefndinni. Þá kemur fram í greinargerð að á næstu misserum sé gert ráð fyrir að enn frekari breytingar verði á þeim verkefnum sem falla undir málefnasvið Vinnumálastofnunar. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að heiti sameinaðrar stofnunar verði endurskoðað svo að það endurspegli betur þau verkefni sem hún mun hafa með höndum ef frumvarp þetta verður að lögum. Núverandi heiti endurspeglar ekki nægilega vel þá breytingu á starfsemi stofnunarinnar sem felst í yfirfærslu lögbundinna verkefna Fjölmenningarseturs. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að breyta heiti stofnunarinnar til samræmis við nýtt hlutverk hennar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykkan álitinu.

Alþingi, 27. mars 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Jódís Skúladóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Óli Björn Kárason.