Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1446  —  565. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Unnið er að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að efla starfsemi stofnana. Meðal þessara verkefna er flutningur garðyrkjunáms á Reykjum frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands og stofnun nýrrar þjónustustofnunar á sviði menntamála samhliða niðurlagningu Menntamálastofnunar.
    Þá má nefna að unnið er að því að koma stofnunum sem þjónusta börn og fjölskyldur í sameiginlegt húsnæði. Breytingarnar eiga að leiða til betri þjónustu fyrir börn og fjölskyldur ásamt því að auka möguleika á samvinnu stofnana, t.d. samnýtingu húsnæðis og miðlægri stoðþjónustu.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Eins og fjallað er um í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er í ráðuneytinu unnið að verkefnum sem tengjast stofnanauppbyggingu, þar á meðal um aukna samvinnu milli stofnana, sem var ein af tillögum Ríkisendurskoðunar. Þá var á meðal markmiða með breytingum á skipuriti ráðuneytisins, sem tóku gildi 2. júní sl., að tryggja skilvirkni við eftirlit og stuðning við stofnanir ráðuneytisins, sem var önnur tillaga frá Ríkisendurskoðun.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var sérstaklega fjallað um fjölda stofnana þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis og laut ein af úrbótatillögunum að fækkun þeirra. Á þessi umfjöllun við um framhaldsskólastigið sem lýtur yfirstjórn mennta- og barnamálaráðuneytisins. Skipulag og fjöldi framhaldsskóla er í sífelldri skoðun. Í því sambandi má m.a. benda á að samkvæmt spá ráðuneytisins um þróun á fjölda nemenda í framhaldsskólum má gera ráð fyrir að á næstu árum fjölgi nemendum í starfsnámi en bóknámsnemendum fækki. Þessar aðstæður kalla m.a. á fjárfestingu í uppbyggingu starfsnámsskóla en samhliða þarf að hefja undirbúning þess að draga úr húsnæðisnotkun í bóknámi. Í þessu samhengi þarf að kanna hvort ástæða sé til að gera breytingar á framhaldsskólum.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?

    Stofnanir ráðuneytisins eru 30. Þær eru Barna- og fjölskyldustofa, Menntamálastofnun, Ráðgjafar- og greiningarstöð og 27 framhaldsskólar. Ellefu framhaldsskólar eru með færri en 50 starfsmenn en það eru Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Menntaskólinn að Laugarvatni, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskóli Austurlands.
     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Eins og framan greinir er stofnanafyrirkomulag ráðuneytisins í stöðugri endurskoðun. Fjallað er um breytingar á framhaldsskólastiginu og áhrif þeirra á stofnanir í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Eins og fjallað er um í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar er verið að leita leiða til að efla samvinnu milli stofnana, m.a. með því að koma þeim fyrir í sama húsnæði. Unnið er að mótun aðgerðaáætlunar til að mæta þeim áskorunum sem tengjast fækkun nemenda í bóknámi og hvernig hægt verði að draga úr húsnæðisnotkun og nýta þannig framlög betur til virkrar þjónustu við börn og ungmenni.