Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
2. uppprentun.

Þingskjal 1479  —  537. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (orkuskipti).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnar Braga Jónsson, Jón Þránd Stefánsson og Guðmund Þórðarson frá matvælaráðuneyti, Örn Pálsson og Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Heiðmar Guðmundsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Auði Önnu Magnúsdóttur og Ágústu Jónsdóttur frá Landvernd, Finn Ricart Andrason frá Ungum umhverfissinnum, Alfreð Túliníus, Bárð Hafsteinsson og Kára Logason frá Nautic ehf., Örvar Marteinsson og Þorstein Bárðarson frá Samtökum smærri útgerða og Högna Bergþórsson frá Samtökum iðnaðarins og samtökum skipaiðnaðarins.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Ísafjarðarbæ, Landssambandi smábátaeigenda, Landvernd, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum smærri útgerða og Ungum umhverfissinnum auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum skipaiðnaðarins. Nefndinni barst einnig minnisblað frá matvælaráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, í þá átt að innleiða hvata til orkuskipta hjá bátum með krókaveiðileyfi, að skilyrðum uppfylltum. Heimilt verði að veita bátum sem eru styttri en 15 metrar og ná allt að 45 tonnum veiðileyfi með krókaaflamarki noti þeir að lágmarki til helminga vistvæna orkugjafa. Um er að ræða undantekningu frá gildandi reglu um að aðeins þeir bátar sem eru styttri en 15 metrar og minni en 30 brúttótonn geti öðlast slíkt leyfi.
    Fyrir nefndinni kom fram að bátar með vistvæna orkugjafa kalla á aukið umfang og þyngd orkugeyma, auk þess sem sá búnaður sem nauðsynlegur er til notkunar slíkra orkugjafa er mun plássfrekari, t.d. stærri tankar eða rými fyrir rafhlöður. Í umræðu um stærð báta kom fram það sjónarmið að ekki er miðað við brúttótonnahámark í öðrum útgerðarflokkum. Eðlilegast væri að afnema það en jafnframt yrði að vera skýrt hvaða kröfur væru gerðar til hönnunar á bæði bátum og búnaði. Yrði hámarkið fjarlægt fengju útgerðir frelsi til hönnunar skipa sem henti best að teknu tilliti til öryggis um borð og orkuskipta. Meiri hlutinn fellst á það sjónarmið og leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis.
    Verði frumvarpið samþykkt munu rafmagn, vetni, metan og rafeldsneyti teljast til vistvænna orkugjafa þegar litið er til ívilnunar en einnig mun ráðherra með reglugerð geta heimilað aðra vistvæna orkugjafa sem teljast hafa lítið kolefnisspor. Nefndin ræddi mikilvægi þess að skýrt væri hvaða orkugjafar teldust vistvænir til að frumvarpið næði markmiði sínu, þ.e. að við framleiðslu slíkra orkugjafa væri ekki notast við óvistvæna grunnorku. Meiri hlutinn telur að mikilvægt sé að horft sé til upprunavottunar þegar kemur að því að skilgreina vistvæna orkugjafa.
    Meiri hlutinn telur í þessu samhengi rétt að benda á að frumvarpið er aðeins eitt skref af þeim mörgu grænu skrefum sem þarf að stíga til að ná markmiðum um orkuskipti í sjávarútvegi. Í því samhengi bendir meiri hlutinn á að hún hefur einnig til meðferðar tvö önnur mál er lúta að orkuskiptum á hafi, þ.e. 538. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (aflvísir), og 539. mál, stjórn fiskveiða (rafvæðing smábáta).
    Fyrir nefndinni kom fram að aukið frelsi þegar kemur að veiðarfærum krókaleyfisbáta gæti einnig haft jákvæð umhverfisáhrif, með sparnaði í olíunotkun, minni útblæstri og lægri kostnaði. Meiri hlutinn hvetur ráðherra til að skoða það frekar.
    Eva Sjöfn Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Hanna Katrín Friðriksson ritar undir álit þetta með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Orðin „og minni en 45 brúttótonn“ í 1. málsl. falli brott.
     b.      Í stað orðsins „lágu“ í 3. málsl. komi: litlu.

Alþingi, 30. mars 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Harpa Svavarsdóttir.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Haraldur Benediktsson.
Tómas A. Tómasson. Þórarinn Ingi Pétursson.