Ferill 780. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1500  —  780. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni um stöðu umsóknar Íslands um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu (ESA).


     1.      Hver hefur þróunin verið á umsókn Íslands um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu (ESA), sbr. þingsályktun nr. 69/145, síðan svar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á þingskjali 1293 á 151. löggjafarþingi var birt?
    Málefni umsóknar Íslands um aðild að ESA fluttist frá mennta- og menningarmálaráðuneyti yfir í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti (HVIN) 1. febrúar 2022 með forsetaúrskurði um skiptingu málefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 2/2022. Áður en HVIN tók við málefninu höfðu fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis átt nokkra fundi með sérfræðingum ESA, auk samráðs við Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís). Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis funduðu sín á milli um mögulegan ávinning af samstarfi íslenskra stjórnvalda við ESA, m.a. á sviði fjarkönnunar þar sem Háskóli Íslands hefur sterka stöðu í rannsóknum. Þá höfðu fulltrúar ráðuneytisins átt samtöl við Auðnu tæknitorg, Geimvísinda- og tækniskrifstofuna og Geimvísindastofnun Íslands um málið. Í HVIN hafa þessi mál áfram verið til skoðunar í samstarfi við utanríkisráðuneytið, einkum vegna mögulegrar aðildar Íslands að Artemis-geimferðaáætlun NASA í Bandaríkjunum og verkefnum þar að lútandi, þar sem ESA hefur verið virkur þátttakandi.

     2.      Hefur bréf, sem samkvæmt fyrrnefndu svari stóð til að senda stofnuninni til að leitast eftir aðildarviðræðum, verið ritað og sent?
    Meta þarf ávinning af aðild Íslands áður en leitast verður eftir samningi við ESA. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti hefur forystu í samráði ráðuneyta um greiningu á þeim tækifærum sem felast í samstarfi og síðar aðild að ESA og undirbýr frekari greiningarvinnu á því sviði.

     3.      Hefur ráðherra látið meta ávinning af aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu með tilliti til:
                  a.      öryggisþátta í samgöngum, landvarna og eftirlits með mögulegri náttúruvá,
                  b.      faglegrar þátttöku í vísindum og rannsóknum og aðgengis íslenskra vísindamanna, stofnana og nýsköpunarfyrirtækja að styrkjakerfi og verkefnum ESA?

    a. Mat á ávinningi af aðild Íslands með tilliti til öryggisþátta í samgöngum, landvarna og eftirlits með mögulegri náttúruvá fellur utan málefnasviðs háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu málefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og hefur því ekki verið skoðað sérstaklega. Þess má vænta að slíkt mat fari fram síðar í samráðshópi ráðuneyta um ávinning Íslands af aðild að ESA.
    b. Ávinningur af aðild Íslands með tilliti til faglegrar þátttöku í vísindum og rannsóknum hefur ekki verið greindur með formlegum hætti, en áform um slíka greiningu eru í undirbúningi. Hafinn er undirbúningur að hugsanlegri aðild Íslands að Artemis-yfirlýsingunni sem tengist Artemis-geimferðaáætlun NASA, sem ESA tekur einnig þátt í.

     4.      Hafi aðildarviðræður ekki hafist nú þegar, stendur til að fara að framangreindri ályktun Alþingis og hefja viðræður um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu á yfirstandandi kjörtímabili?
    Eins og rakið er að framan hafa fulltrúar ESA átt kynningarfundi með íslenskum aðilum um ýmsa kosti samstarfs á vettvangi stofnunarinnar en þar sem faglegur ávinningur af fullri aðild Íslands að ESA hefur ekki verið metinn þykir ekki tímabært að lýsa yfir stuðningi við fulla aðild. Vinna þarf frekari greiningu á slíkum ávinningi og huga að tilnefningu tengiliðar íslenskra stjórnvalda við stofnunina vegna hugsanlegs samstarfssamnings. Mikilvægt er að öll hlutaðeigandi ráðuneyti komi sameiginlega að undirbúningi slíks samstarfs, auk þátttöku Rannís sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna við þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins. Þar sem samstarfssamningur yrði mögulega fyrsta skref að fullri aðild að stofnuninni þarf samráð við utanríkisráðuneyti um þau skref sem verða tekin.
    Að öðru leyti er vísað til svars mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn um sama efni á þingskjali 1357 á 151. löggjafarþingi 2020–2021 og svars utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn um sama efni á þingskjali 1293 á 151. löggjafarþingi 2020–2021.