Ferill 735. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1659  —  735. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Ólaf Kr. Hjörleifsson og Hólmfríði Bjarnadóttur frá innviðaráðuneyti, Bergþóru Þorkelsdóttur, Stefán Erlendsson og Guðmund Val Guðmundsson frá Vegagerðinni, Arnar Má Elíasson og Sigurð Árnason frá Byggðastofnun, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur og Stefán Vilbergsson frá ÖBÍ – réttindasamtökum, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins og Hilmar Gylfason frá Bændasamtökum Íslands.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins og Vegagerðinni. Þá barst nefndinni jafnframt minnisblað frá innviðaráðuneyti.

Efni og markmið frumvarpsins.
Samhæfing stefna á málefnasviði ráðuneytisins.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný lög verði sett um stefnur og aðgerðaáætlanir á málefnasviði nýs innviðaráðuneytis, þ.e. húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna, byggðamála og sveitarstjórnarmála. Lög þessi skuli gilda um stefnur á sviði húsnæðismála, samgangna og byggðamála en skipulagslög taki á hinn bóginn til landsskipulagsstefnu og sveitarstjórnarlög til stefnu og aðgerðaáætlunar á sviði sveitarstjórnarmála.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að aukinni samhæfingu og auknum gæðum einstakra stefna og áætlana á málefnasviði ráðuneytisins og skarpari pólitískri aðkomu að stefnumótun, auk þess að bæta samráð við almenning og hagsmunaaðila. Rík áhersla er lögð á samhæfingu þessara stefna, að þær styðji hver aðra og byggist á heildstæðri stefnumörkun ráðherra, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Mikilvægt sé að samhæfa eins og kostur er langtímastefnur á þessum tilteknu málefnasviðum en langtímamarkmið sé að festa í sessi samhæfingu allrar stefnumörkunar hins opinbera. Þá er lagt til að felld verði á brott lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008, lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, og ákvæði um stefnumótun á sviði húsnæðismála í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Í staðinn komi ákvæði laga þessara.
    
Breytingartillögur.
Skortur á markmiðsákvæðum um markmið einstakra stefna.
    Þær umsagnir sem bárust um málið voru almennt jákvæðar og fagna umsagnaraðilar aukinni samhæfingu og eflingu stefnumótunar á þessu sviði. Þó gagnrýna sumir að markmið einstakra áætlana verði ekki lengur skilgreind í lögum, enda eigi að fella úr gildi framangreinda lagabálka þar sem markmiðum til að mynda byggðaáætlunar og samgönguáætlunar er lýst sérstaklega. Í staðinn komi almennt orðað markmiðsákvæði, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í umsögn Vegagerðarinnar er bent á að verði frumvarpið samþykkt falli lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008, úr gildi en í 2. mgr. 2. gr. þeirra komi fram skýr markmið með gerð samgönguáætlunar, m.a. að samgöngur skuli vera greiðar, hagkvæmar, öruggar, umhverfislega sjálfbærar og stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Leggur Vegagerðin til að orðalagi markmiðsákvæðis frumvarpsins verði breytt þannig að það verði skilgreint á svipaðan hátt en að teknu tilliti til víðtækara gildissviðs.
    Innviðaráðuneyti bendir um þetta á það í minnisblaði sínu að meginmarkmið frumvarpsins sé að samhæfa stefnumótun ráðuneytisins. Mikilvægt sé að sömu viðmið séu höfð að leiðarljósi í áætlanagerð þó svo að nánari markmiðssetningu yrði lýst í hverri stefnu fyrir sig. Um frekari skýringu á markmiðsákvæði frumvarpsins bendir ráðuneytið sérstaklega á það sem fram komi í frumvarpinu um mikilvægi þess að stefnurnar séu samhæfðar, styðji hver aðra og byggi á heildstæðri stefnumörkun ráðherra. Meginmarkmiðið með slíkri samhæfingu sé að innviðir mæti þörfum samfélagsins og að til staðar séu sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt þar sem búsetufrelsi fólks sé tryggt. Þá kemur fram í minnisblaðinu að eftir sem áður verði byggt á þeim megináherslum sem legið hafa til grundvallar áætlunum til þessa, svo sem að stuðla að greiðum, hagkvæmum, öruggum og umhverfislega sjálfbærum samgöngum, jákvæðri byggðaþróun og öruggu húsnæði fyrir landsmenn. Til að undirstrika þetta og jafnframt með hliðsjón af framkomnum athugasemdum í umsögnum um skort á markmiðsákvæðum, megi bæta við nýjum málslið við 4. gr. frumvarpsins þar sem m.a. yrði áréttað að markmið sérhverrar stefnu yrðu útfærð nánar á hverju sviði fyrir sig.
    Í ljósi þess að frumvarpið gildir um stefnur og aðgerðaáætlanir á afar víðtækum og fjölbreyttum sviðum telur meiri hlutinn að orðalag markmiðsákvæðis frumvarpsins þurfi að skýra betur þar sem tekið sé frekara mið af þeim atriðum sem ráðuneytið leggur áherslu á að verði eftir sem áður höfð að leiðarljósi við stefnumótun á hverju sviði fyrir sig. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á orðalagi 1. gr. frumvarpsins þannig að kveðið verði á um að markmið laganna sé að stuðla að öruggri uppbyggingu innviða og jákvæðri byggðaþróun með því að efla og samhæfa áðurgreindar stefnur þar sem sjálfbær þróun sé höfð að leiðarljósi. Þá þykir meiri hlutanum jafnframt til bóta og aukins skýrleika að bæta við frumvarpið sérstöku ákvæði til áréttingar því að markmiðssetning á sérhverju sviði verði útfærð og skilgreind nánar í hverri stefnu fyrir sig.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Markmið laga þessara er að stuðla að öruggri uppbyggingu innviða og jákvæðri byggðaþróun með því að efla og samhæfa áætlanagerð á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna, byggðamála og sveitarstjórnarmála, þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi.
     2.      Við 4. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við mótun tillagnanna skulu því sömu viðmið höfð að leiðarljósi en nánari markmiðssetning útfærð á hverju sviði fyrir sig.

    Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2023.

Vilhjálmur Árnason,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ingibjörg Isaksen.
Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.