Ferill 689. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 12/153.

Þingskjal 1684  —  689. mál.


Þingsályktun

um tónlistarstefnu fyrir árin 2023–2030.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu í málefnum tónlistar fyrir árin 2023–2030. Aðgerðaáætlun stefnunnar verði í tveimur hlutum, fyrir árin 2023–2026 og 2027–2030.

MARKMIÐ OG FRAMTÍÐARSÝN

    Með tónlistarstefnu verði mótuð framtíðarsýn og vegvísar með það að markmiði að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist. Tryggð verði inngilding og aðgengi almennings að tónlist og tónlistarmenntun.
    Tónlistarstefnan innihaldi þrjár megináherslur sem hver um sig hafi að geyma tiltekin markmið og aðgerðir til ná að þeim.

TÓNLISTARSTEFNA OG AÐGERÐAÁÆTLUN 2023–2030

Megináhersla 1. Tónlistarmenning og -menntun.
Markmið 1.1. Húsnæði til tónlistariðkunar verði greint og kortlagt.
    1.1.1. Greint verði og kortlagt hvaða húsnæði í eigu hins opinbera, t.d. menningarhús eða félagsheimili um allt land, væri hægt að nýta undir sköpun, hljóðritun eða flutning tónlistar.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Hefjist haustið 2023.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    1.1.2. Úthlutunarreglur nýs tónlistarsjóðs verði þannig úr garði gerðar að tónleikastaðir og tónleikahaldarar geti sótt um styrki fyrir verkefni á borð við umbætur á aðstöðu, listræna stjórnun tónleikaraða og fleira.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Vorið 2023.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarsjóð.

Markmið 1.2. Hugað verði að íslenskri tónlistararfleifð og varðveislu tónlistar.
    1.2.1. Starfshópur verði settur á laggirnar sem komi með tillögur að því hvernig best megi varðveita og tryggja aðgengi að tónlistarverðmætum. Enn fremur kortleggi hann hvar menningarverðmæti á sviði tónlistar sé helst að finna.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist vorið 2024.
    Kostnaður: Á ekki við.

    1.2.2. Ríkisútvarpið kanni hlut íslenskrar tónlistar í dagskrárgerð á öllum sínum miðlum. Í framhaldinu verði samtal hafið um fleiri tækifæri til miðlunar og kynningar á íslenskri tónlist og tónverkum og útfærsla gerð í tengslum við endurskoðun á þjónustusamningi.
    Ábyrgð: Ríkisútvarpið og menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: Falli undir Ríkisútvarpið.

Markmið 1.3. Tónlistarmenntun verði fjölbreytt og af miklum gæðum.
    1.3.1. Hafin verði endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Úttekt hefjist í desember 2023.
    Kostnaður: Metinn eftir að úttekt lýkur.

    1.3.2. Átak verði gert í nýliðun tónlistarkennara. Farið verði í auknar kynningar á kennaramenntun í tengslum við tónlist á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Úttekt hefjist í desember 2023.
    Kostnaður: Metinn eftir að úttekt lýkur.

    1.3.3. Ráðist verði í uppbyggingu framtíðarhúsnæðis Listaháskóla Íslands. Samhliða fari fram greining á framtíðarfyrirkomulagi skólans hvað varðar rekstrarform og skólagjöld.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Tímaáætlun: Lok áætluð 2025–2027.
    Kostnaður: Fjármögnun staðfest.

    1.3.4. Áhersla verði lögð á áframhaldandi stuðning við verkefni sem miða að því að auka aðgengi og áhuga barna á tónlist og tónlistarsköpun.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: 2023–2026.
    Kostnaður: Verði metinn eftir einstökum verkefnum.

    1.3.5. Áhersla verði lögð á stuðning við verkefni sem tengjast aðgengi fatlaðs fólks að tónlistariðkun svo það fái að njóta og þróa tónlistarhæfileika sína. Þannig verði stuðlað að þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi og listum.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: 2023–2026.
    Kostnaður: Verði metinn eftir einstökum verkefnum.

Megináhersla 2. Tónlist sem skapandi atvinnugrein.
Markmið 2.1. Tónlistariðnaðurinn verði sterkur og framsækinn.
    2.1.1. Sett verði á fót tónlistarmiðstöð sem stuðli að auknu samstarfi innlendra og erlendra fyrirtækja og veiti ráðgjöf varðandi fjáröflun til tónlistarverkefna, frá einkaaðilum og opinberum sjóðum.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: 450 millj. kr. 2023–2026.

    2.1.2. Hafin verði skoðun á rekstrarumhverfi tónlistarverkefna á Íslandi og það borið saman við rekstrarumhverfi tónlistarverkefna annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum löndum þar sem tónlistariðnaður er sterkur, þ.m.t. verði skattalegir hvatar skoðaðir.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Vorið 2024.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    2.1.3. Reglur um endurgreiðslur vegna hljóðritunarkostnaðar verði endurskoðaðar þannig að þær styðji við markmið stjórnvalda um samkeppnishæft umhverfi.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023 og ljúki 2024.
    Kostnaður: Verði metinn síðar.

    2.1.4. Skoðað verði hvort útvíkka eigi endurgreiðslur vegna hljóðritunarkostnaðar svo að þær nái til fleiri þátta, svo sem framleiðslu tónlistarmyndbanda.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023 og ljúki 2024.
    Kostnaður: Verði metinn síðar.

    2.1.5. Sett verði á laggirnar tónlistarráð sem hafi það hlutverk að vera samráðsvettvangur hagaðila og stjórnvalda og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni tónlistar.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Vorið 2023.
    Kostnaður: Á ekki við.

Markmið 2.2. Tónlist verði fullgild og eftirsóknarverð atvinnugrein.
    2.2.1. Ráðist verði í kynningarátak á þeim störfum sem tónlistargeirinn býður upp á.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Vorið 2024.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    2.2.2. Hvatt verði til aukins samstarfs og þekkingaryfirfærslu þvert á hugverkagreinar á sviði fyrirtækja- og atvinnuuppbyggingar.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Hefjist vorið 2024.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    2.2.3. Í nýrri tónlistarmiðstöð verði svið sem sinni fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við tónlistarfólk á öllum stigum ferils þess og haldi úti verkefnum á borð við viðskiptahraðla sem miði að því að styðja við uppbyggingu sprotafyrirtækja.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Vorið 2023.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    2.2.4. Úttekt verði gerð á starfsumhverfi tónlistarfólks með það að markmiði að finna leiðir til að bæta lífsafkomu þess og efla listgreinina.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Vorið 2025.
    Kostnaður: Verði metinn síðar og falli á ríkissjóð.

Markmið 2.3. Betri yfirsýn fáist yfir umfang tónlistargeirans.
    2.3.1. Gerð verði úttekt á skráningu tónlistartengdra fyrirtækja og þeim grunngögnum sem notuð eru í tölfræðiúttektum Hagstofu Íslands.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Vorið 2025.
    Kostnaður: Verði metinn síðar.

    2.3.2. Tónlistarmiðstöð hýsi miðlægan grunn með ýmiss konar tölulegum upplýsingum um tónlist og sé tengiliður tónlistar við Hagstofu Íslands, háskólastofnanir og aðra sem sinna rannsóknum á sviði menningar og lista. 
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Haustið 2024.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    2.3.3. Gerð verði greining á því í hvaða alþjóðlegu, evrópsku og norrænu tölfræðirannsóknum tengdum tónlist Ísland taki þátt og samstarfi verði komið á við Hagstofu Íslands um gerð aðgerðaáætlunar í því skyni. 
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Vorið 2025.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    2.3.4. Hafin verði skoðun á samstarfi við nágrannalönd um rannsóknir á hagrænum áhrifum tónlistar.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Vorið 2025.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

    2.3.5. Vinna verði hafin við að móta mælaborð tónlistariðnaðarins.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Hefjist vorið 2024.
    Kostnaður: Verði metinn síðar.

Markmið 2.4. Sjóðakerfi tónlistar verði skilvirkt.
    2.4.1. Hljóðritasjóður, Tónlistarsjóður og Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar verði sameinaðir í nýjum tónlistarsjóði. Í tónlistarsjóði verði mismunandi deildir sem sinni ólíkum stigum tónlistarverkefna, allt frá frumsköpun til markaðssetningar og útflutnings.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Vorið 2023.
    Kostnaður: 645 millj. kr. 2023–2026.

    2.4.2. Markmið nýs tónlistarsjóðs og árangursmælikvarðar verði skilgreind. Árangur verði metinn árlega.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarsjóð.

    2.4.3. Efld verði kynning á erlendum styrktarsjóðum sem standa til boða fyrir íslensk verkefni og verkefni þvert á landamæri.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: Verði metinn síðar.

Megináhersla 3. Útflutningur á íslenskri tónlist.
Markmið 3.1. Útflutningstekjur af tónlist aukist.
    3.1.1. Leitað verði leiða til að vekja athygli á íslenskri tónlist.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: Hefjist 2024.
    Kostnaður: Verði metinn þegar greiningu er lokið.

    3.1.2. Tónlistarsjóður styðji við tónlistarverkefni sem eiga möguleika á hröðum vexti á erlendum mörkuðum.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Vorið 2023.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarsjóð.

    3.1.3. Skoðað verði hvernig virkja megi enn frekar samstarf við sendiskrifstofur Íslands erlendis í útflutningi og kynningu á íslenskri tónlist og tónlistarfólki og í því skyni verði burðir sendiskrifstofanna til að taka við slíkum verkefnum skoðaðir sérstaklega.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð í samstarfi við utanríkisþjónustuna og sendiráð.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: Á ekki við.

    3.1.4. Samtal verði hafið við stærri streymisveitur um íslenska ritstjórn og hagsmuni íslensks tónlistarfólks.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: Á ekki við.

    3.1.5. Stuðningur við tónlistarhátíðir verði markviss, m.a. með því að nýr tónlistarsjóður bjóði upp á rekstrarstuðning til lengri tíma.
    Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarsjóð.

    3.1.6. Skoðað verði hvernig efla megi kynningar á landinu, tónlist þess og tónlistarhátíðum.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð og Íslandsstofa.
    Tímaáætlun: Hefjist 2023.
    Kostnaður: Verði metinn þegar möguleikar hafa verið greindir.

    3.1.7. Hafin verði greining á því hvenær á ferli tónlistarfólks er mest þörf fyrir útflutningsstuðning.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: 2024.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

Markmið 3.2. Tónlistargeirinn verði sjálfbær og umhverfisvænn.
    3.2.1. Mótaður verði staðall fyrir tónlistarfólk, tónleikahaldara og tónlistarhátíðir um hvernig minnka megi kolefnisfótspor viðburða og tónleikaferðalaga og stuðla að meiri sjálfbærni.
    Ábyrgð: Tónlistarmiðstöð.
    Tímaáætlun: 2025.
    Kostnaður: Falli undir tónlistarmiðstöð.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2023.