Ferill 937. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1693  —  937. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur um sjóði á vegum ráðuneytisins og stofnana þess.


     1.      Hvaða sjóði starfrækja ráðuneytið og stofnanir þess?
    
Utanríkisráðuneytið starfrækir tvo sjóði. Annars vegar Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífs um þróunarsamvinnu, hins vegar sjóð fyrir styrkveitingar til félagasamtaka í þróunarsamvinnu .

     2.      Hver fer með umsýslu hvers sjóðs?
    
Þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins fer með umsýslu beggja sjóða.

     3.      Hvaða lög og reglur gilda um útdeilingu fjármuna úr hverjum sjóði?
    
Reglur um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka og fyrirtækja í þróunarsamvinnu nr. 1035/2020 gilda um styrkveitingar ráðuneytisins vegna verkefna á sviði þróunarsamvinnu til íslenskra félagasamtaka og íslenskra fyrirtækja. Styrkveitingar skulu samræmast áherslum stjórnvalda um framlög til alþjóðlegra þróunarsamvinnu, sbr. 6. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu nr. 121/2008, ákvæðum 42. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015, reglugerð um styrkveitingar ráðherra nr. 642/2017 og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Unnið er eftir reglum 1035/2020 vegna beggja sjóðanna. Verklagsreglur Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs er að finna á vefsíðu ráðuneytisins og eru þær uppfærðar reglulega, síðast í apríl 2022. Vegna sjóðs um styrkveitingar til félagasamtaka er unnið samkvæmt stefnumiðum í samstarfi við félagasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð og verklagsreglum um samstarf við íslensk félagasamtök um þróunarsamvinnuverkefni. Stefnumiðin og verklagsreglurnar má finna á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

     4.      Hvað kostaði að starfrækja hvern sjóð árið 2022?
    Samstarfssjóður um atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:
     *      Þóknanir fyrir matsnefndir: 1.174.736 kr.
     *      Auglýsingakostnaður: 4.016.257 kr.
     *      Launakostnaður starfsmanna: 12.426.427 kr. (75% starfshlutfall)
     *      Samtals greiðslur: 17.617.420 kr.

    Styrkveitingar til félagasamtaka í þróunarsamvinnu:
     *      Þóknanir fyrir matsnefndir: 648.946 kr.
     *      Launakostnaður starfsmanna: 5.809.091 kr. (50% starfshlutfall)
     *      Samtals greiðslur: 6.458.037 kr.


     5.      Hver var kostnaðurinn við að starfrækja hvern sjóð í hlutfalli við þá fjármuni sem var úthlutað úr sjóðnum árið 2022?

    Samstarfssjóður við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:
     *      Kostnaður: 17.617.420 kr.
     *      Fjármunum úthlutað: 67.969.661 kr.
     *      Hlutfall: 26%

    Styrkveitingar til félagasamtaka í þróunarsamvinnu:
     *      Kostnaður: 6.458.037 kr.
     *      Fjármunum úthlutað: 159.407.323 kr.
     *      Hlutfall: 4%

    Alls fóru þrjár vinnustundir í að taka svarið saman.