Ferill 804. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 15/153.

Þingskjal 1840  —  804. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028.


    Alþingi ályktar að fram til ársins 2028 skuli unnið að eflingu barnamenningar í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun. Tekið skuli mið af aðgerðaáætluninni við gerð fjárlaga og fjármálaáætlunar fyrir árin 2024–2028, sbr. lög um opinber fjármál.

I. FRAMTÍÐARSÝN, MARKMIÐ OG ÁHERSLUR

    Menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs verði veigamikil atriði í uppvexti og skólastarfi barna og ungmenna. Starfsemi á þessu sviði endurspegli fjölbreytta samsetningu þjóðarinnar og þá alþjóðlegu menningu sem býr í íslensku samfélagi.
    Markmið aðgerðaáætlunar þessarar verði í fyrsta lagi að auka samhæfingu og efla stefnumótun á sviði barnamenningar, í öðru lagi að auka framboð lista og menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni og í þriðja lagi að festa í sessi starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Íslands.

II. AÐGERÐAÁÆTLUN FYRIR ÁRIN 2024–2028

    Lögð verði megináhersla á að börn og ungmenni verði virkir þátttakendur í íslensku menningarlífi og barnamenning stór hluti þess.
    Áhersla verði lögð á eftirfarandi viðfangsefni sem greinast í aðgerðir:
     A.      Stefnumótun, stjórnsýsla og framkvæmd verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna og ungmenna.
     B.      Framboð lista og menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni.
     C.      Barnamenningarsjóður Íslands.

A. Stefnumótun, stjórnsýsla og framkvæmd verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna og ungmenna.
A.1. Samráðsvettvangur um menningu og listsköpun barna og ungmenna.
    Ráðherra sem fer með menningarmál skipi samráðsvettvang ráðuneyta, sveitarfélaga, menningarstofnana og annarra hagaðila um gerð tillögu um stefnumótun og stjórnsýslu verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna og ungmenna. Í tillögum samráðsvettvangsins verði m.a. lögð áhersla á samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana og miðstöðva listgreina annars vegar og við skólastarf hins vegar.
          Mælikvarði: Ráðherra skipi samráðsvettvang vorið 2023 sem skili tillögum að stefnu um samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana, miðstöðva listgreina og starfsemi skólaþjónustu til farsældar barna í lok ársins 2024.
          Kostnaðaráætlun: Innan fjárhagsramma ráðuneytis.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, Listaháskóli Íslands, miðstöðvar listgreina, Miðstöð barnamenningar, Reykjavíkurborg, RÚV, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, List fyrir alla, stofnanir sviðslista og tónlistar auk höfuðsafna.

A.2. Miðstöð barnamenningar.
    Miðstöð barnamenningar verði komið á fót og starfræki barnamenningarverkefnið List fyrir alla og Barnamenningarsjóð Íslands. Ráðherra sem fer með menningarmál skipi fimm manna stjórn miðstöðvarinnar til fjögurra ára. Forsætisráðherra tilnefni einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni einn fulltrúa, Bandalag íslenskra listamanna einn fulltrúa og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna einn fulltrúa. Ráðherra skipi einn fulltrúa sem verði formaður. Ráðherra skipi framkvæmdastjóra sem veiti miðstöðinni forstöðu og ráði sérfræðing til starfa á skrifstofu miðstöðvarinnar.
          Mælikvarði: Miðstöð barnamenningar verði komið á fót á árinu 2023.
          Kostnaðaráætlun: Kostnaður greiðist af ráðuneyti menningarmála, fjárhæð 20 millj. kr. á ársgrundvelli árin 2024–2028.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, miðstöðvar listgreina, Reykjavíkurborg, RÚV, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, Félag um barnabókasafn, stofnanir sviðslista og tónlistar auk höfuðsafna.

B. Framboð lista og menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni.
B.1. Barnamenningarverkefnið List fyrir alla.
    Framboð á fjölbreyttum og vönduðum menningar- og listviðburðum fyrir börn og ungmenni verði tryggt með rekstri barnamenningarverkefnisins List fyrir alla. Verkefnið stuðli að virkum tengslum skólastarfs og menningar- og listalífs og leggi höfuðáherslu á listir og menningu fyrir börn og með börnum.
          Mælikvarði: Börn og ungmenni fái tækifæri til að upplifa að minnsta kosti tvo listviðburði á ári fyrir tilstilli verkefnisins.
          Kostnaðaráætlun: Málaflokkur 18, málefnasvið 18.3, 20 millj. kr. á ársgrundvelli árin 2024–2028.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Fræðslu- og menningarsvið sveitarfélaga, grunnskólar, listgreinakennarar, listamenn og svæðisbundin ungmennaráð.

B.2. Valnefnd barnamenningarverkefnisins List fyrir alla.
    Á vegum barnamenningarverkefnisins List fyrir alla verði starfrækt þriggja manna valnefnd fagfólks sem árlega velji listverkefni sem fyrir tilstilli Listar fyrir alla verði miðlað til skóla. Valnefndin verði skipuð til tveggja ára í senn og setji sér skýr viðmið og vinnureglur um val verkefna. Valnefnd gæti þess að fjölbreyttum viðburðum ólíkra listgreina sé miðlað á vegum Listar fyrir alla.
          Mælikvarði: Viðmið og vinnureglur valnefndar liggi fyrir í byrjun árs 2024.
          Kostnaðaráætlun: Innan fjárhagsramma ráðuneytis.
          Ábyrgðaraðili: Miðstöð barnamenningar.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, stjórn og framkvæmdastjóri Miðstöðvar barnamenningar.

C. Barnamenningarsjóður Íslands.
C.1. Markmið og hlutverk Barnamenningarsjóðs Íslands.
    Barnamenningarsjóður hafi að markmiði að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Jafnframt skuli lögð áhersla á verkefni sem efla samfélagsvitund og stuðla að lýðræðislegri þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu og verkefni er stuðla að innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Stjórn Miðstöðvar barnamenningar fari jafnframt með stjórn Barnamenningarsjóðs. Ráðherra sem fer með menningarmál setji reglur um starfsemi sjóðsins, sem birtar verði í Stjórnartíðindum. Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, sjái um umsýslu og vörslu sjóðsins.
          Mælikvarði: Árleg úthlutun úr sjóðnum fari fram á degi barnsins, síðasta sunnudag maímánaðar.
          Kostnaðaráætlun: 120 millj. kr. á ársgrundvelli árin 2024–2028.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, forsætisráðuneyti, Miðstöð barnamenningar, Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

D. Eftirfylgni, mat á árangri og endurskoðun aðgerðaáætlunar.
D.1. Eftirfylgni og ábyrgð á framkvæmd.
    Ráðuneyti menningarmála beri ábyrgð á samhæfingu vegna framkvæmdar áætlunar þessarar og eftirfylgni með henni. Aðilar sem bera ábyrgð á aðgerðum í áætluninni verði árlega, og oftar ef þurfa þykir, boðaðir til samráðsfundar um framvindu aðgerða.

D.2. Endurskoðun aðgerðaáætlunar.
    Ráðherra sem fer með menningarmál leggi aðgerðaáætlun fyrir árin 2028–2032 fyrir Alþingi eigi síðar en árið 2027. Ráðuneyti menningarmála vinni að áætluninni og byggi á tillögum samráðsvettvangs um menningu og listsköpun barna og ungmenna í samræmi við aðgerð A.1.

Samþykkt á Alþingi 23. maí 2023.