Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 1910  —  540. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða opinbert eftirlit Matvælastofnunar (samræming gjaldtökuheimilda).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Eir Hólmgeirsdóttur og Kolbein Árnason frá matvælaráðuneyti, Hilmar Vilberg Gylfason og Sverri Fal Björnsson frá Bændasamtökum Íslands, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Margréti Gísladóttur frá Samtökum fyrirtækja í landbúnaði og Aðalstein Óskarsson og Sigríði Kristjánsdóttur frá Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandi Vestfirðinga.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Samtökum fyrirtækja í landbúnaði og sameiginleg umsögn Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gjaldtökuheimildum Matvælastofnunar auk þess sem lagðar eru til tvær nýjar heimildir til gjaldtöku á verkefnum sem stofnunin sinnir þegar. Frumvarpinu er ætlað að samræma orðalag og gera nánari grein fyrir þeim kostnaðarþáttum sem standa að baki raunkostnaði þjónustu og/eða eftirlits Matvælastofnunar og skýra heimildir til reglugerðar og gjaldskrár. Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að einfalda regluverk og auka gagnsæi við gerð gjaldskrár.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í umsögn Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga er vikið að aðgengi að veittri þjónustu, m.a. við eftirlit vegna fiskeldis. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram og áréttar mikilvægi þess að skapa samkeppnishæft starfsumhverfi fyrirtækja, óháð iðnaði, um allt land. Beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að huga vel að þeim þáttum, enda eru þeir grundvöllur atvinnu og byggðafestu á landsbyggðinni.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er fjallað um gagnsæi og fyrirsjáanleika í gjaldtökuheimildum, benda samtökin á að skort hafi á hvað það varðar. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið samtakanna hvað gagnsæi og fyrirsjáanleika varðar, en bendir á að frumvarpinu er einmitt ætlað að hafa þau áhrif að auka fyrirsjáanleika og gagnsæi í gjaldtöku Matvælastofnunar fyrir veitta þjónustu og eftirlit það sem stofnuninni ber lögum samkvæmt að viðhafa.
    Í umsögn Bændasamtaka Íslands og í umsögn Samtaka fyrirtækja í landbúnaði er vikið að gjaldskrá og mögulegum hækkunum á gjaldskrá Matvælastofnunar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að gagnsæi og jafnræði verði haft að leiðarljósi þegar kemur að gjaldtökuheimildum, mikilvægi þess fyrir þær atvinnugreinar sem gjaldtakan snýr að er ótvírætt. Gjaldskrá þarf eftir sem áður að standa undir veittri þjónustu en mikilvægt er að árétta að flestar þær heimildir sem hér er fjallað um eru til staðar nú þegar og er frumvarpinu ætlað að samræma þær, auk þess að endurspegla þá þjónustu og eftirlit sem stofnunin viðhefur nú þegar. Matvælastofnun hefur nú þegar gjaldtökuheimildir samkvæmt þeim lagabálkum sem stofnunin vinnur eftir. Markmið frumvarpsins er að samræma orðalag og bæta í þar sem skort hefur á.
    Meiri hlutinn bendir á að með frumvarpinu er ekki verið að breyta hinni eiginlegu gjaldskrá, utan þeirra breytinga sem lagðar eru til í 4. og 6. gr., sem hafa óveruleg áhrif á innheimtu þjónustugjalda stofnunarinnar. Með samræmingu heimilda er ætlunin að skýra hvaða kostnaður flokkast til raunkostnaðar, gjaldskrá Matvælastofnunar er ákveðin af ráðherra og skal hann lögum samkvæmt afla umsagna hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur gjaldskrár stofnunarinnar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    
     1.      A-liður 3. gr. orðist svo:
                   Í stað 1. málsl. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar Matvælastofnunar og skal hann gefa út gjaldskrá að fengnum tillögum stofnunarinnar. Við gerð reglugerðar og gjaldskrár opinberra eftirlitsaðila er heimilt að taka tillit til eftirfarandi atriða:
                  a.      hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
                  b.      hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
                  c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
                  d.      þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir landfræðilegar takmarkanir.
     2.      Í stað orðsins „fimm“ í inngangsmálsgrein 5. gr. komi: sex.
     3.      Í stað orðsins „fimm“ í inngangsmálsgrein 6. gr. komi: sex.
     4.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað orðsins „fimm“ í inngangsmálsgrein komi: sex.
                  b.      Í stað orðanna „reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar“ í 2. efnismgr. komi: reglugerð um eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun.

    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 26. maí 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Friðjón R. Friðjónsson. Teitur Björn Einarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.