Ferill 953. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1966  —  953. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarka Þórsson og Gísla Rúnar Gíslason frá utanríkisráðuneyti. Nefndinni barst umsögn um málið frá Skattinum.
    Með frumvarpinu verður til ný rammalöggjöf um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit. Sameinaðir verða í ein heildarlög lagabálkar sem kveða á um framkvæmd þjóðréttarsamninga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit. Með því að sameina efni þessara lagabálka skapast heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og einfaldara verður að stuðla að samræmi reglugerðarheimilda, eftirlitsheimilda og refsiheimilda eftir því sem unnt er með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum. Þá verður ráðherra lögformlega falið stefnumótunarhlutverk og málaflokkunum um leið skipaður skýrari sess í lagasafninu. Í frumvarpinu felast ekki nýmæli að öðru leyti en því að styrkja og skýra framkvæmd samkvæmt núgildandi ákvæðum.
    Með frumvarpinu verða uppfærð ákvæði um útflutningseftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi samkvæmt gildandi rétti til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttarsviðinu innan Evrópusambandsins. Með því verður komið í veg fyrir að íslensk útflutningsfyrirtæki verði fyrir aðgangshindrunum á markaði þar sem krafist er útflutningsleyfa fyrir vörur með tvíþætt notagildi og jafnframt komið í veg fyrir að Ísland sé notað til umflutnings fyrir hluti með tvíþætt notagildi sem kunna að verða notaðir í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar og mannúðarrétt, eða til hryðjuverka eða alvarlegra brota á mannréttindum.

Breytingartillaga.
Skilgreiningar (3. gr.).
    Í 11. tölul. 3. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningu á hugtakinu „útflutningur“. Þar kemur m.a. fram að útflutningur sé „útflutningur, endurútflutningur og umflutningur í skilningi tollalaga, nr. 88/2005“. Í umsögn Skattsins til nefndarinnar er gerð athugasemd við orðskýringuna og lagt til að hugtakið „endurútflutningur“ falli brott þar sem það komi ekki fram í tollalögum.
    Samkvæmt hugtakasafni Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins er „endurútflutningur“ þýðing á enska hugtakinu „re-export“, sem er skilgreint og mikið notað í reglugerð (ESB) 2021/821 um útflutningseftirlit, sem ákvæði IV. kafla frumvarpsins taka mið af. Að mati nefndarinnar eru því rök til að halda hugtakinu í skilgreiningunni í 11. tölul. 3. gr. Nefndin leggur þó til orðalagsbreytingu á þessum lið þannig að ljóst sé að um hugtakið „endurútflutningur“ sé ekki vísað til tollalaga.
    Í umsögn sinni gerir Skatturinn jafnframt tillögu um að skilgreining á útflytjanda, sbr. 12. tölul. 3. gr., breytist þannig að útflytjandi verði ekki skilgreindur sem aðili sem hafi heimild til að ákveða að hlutur verði sendur frá Íslandi heldur aðili sem með lögmætum hætti geti ráðstafað vöru til tollmeðferðar hjá tollyfirvöldum. Nefndin telur ekki samræmast markmiði laganna að þrengja skilgreininguna með þessum hætti, jafnvel þó að þannig yrði hugtakanotkun í betra samræmi við tollalög og það sem almennt tíðkast í tollaframkvæmd. Gerir nefndin því ekki tillögu um breytingu á skilgreiningunni í 12. tölul.

Vopnaviðskiptasamningur Sameinuðu þjóðanna (14. gr.).
    Í III. kafla frumvarpsins eru útfærð ákvæði átta nánar tilgreindra alþjóðasamninga sem fjalla um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar. Í 14. gr. er fjallað um vopnaviðskiptasamning Sameinuðu þjóðanna, sem þó er ekki ætlunin að útfæra í þessum lögum heldur í vopnalögum, sbr. 6. gr. frumvarps til laga um breytingu á vopnalögum sem er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd (þskj. 1478, 946. mál). Um umfjöllun um ákvæðið vísast til greinargerðar með því frumvarpi. Í greinargerð með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar segir um 14. gr. að þrátt fyrir þetta standi vilji til þess að um samninginn sé einnig fjallað í þessum lögum til þess að þar verði að finna heildrænt yfirlit yfir þá alþjóðasamninga um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar sem Ísland er aðili að.
    Frumvarpsákvæðið er tvær málsgreinar. Í hinni fyrri er kveðið á um að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt vopnaviðskiptasamningi Sameinuðu þjóðanna verði útfærðar í vopnalögum. Í hinni síðari er að finna heimild ráðherra til að útfæra ákvæði samningsins nánar í reglugerð að höfðu samráði við ráðherra sem fer með vopnamál. Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu þannig að 1. mgr. þess falli brott en þess í stað verði vísað til viðeigandi greinar í vopnalögum. Samhliða þessari breytingu, þar sem ekki liggur ljóst fyrir hver afdrif áðurnefnds frumvarps til laga um breytingu á vopnalögum verða, leggur nefndin til að efnisákvæði 6. gr. þess frumvarps bætist við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar með nýjum tölulið í 29. gr. Komi til afgreiðslu frumvarpsins í 946. máli á yfirstandandi löggjafarþingi þarf að taka tillit til þessarar breytingar. Breytingin er gerð að höfðu samráði við utanríkisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti.
    Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „vopn, hluti og háttsemi sem þeim tengjast“ í b-lið 1. gr. komi: vopn og hluti og háttsemi sem þeim tengist.
     2.      Við 3. gr.
                  a.      1. málsl. 11. tölul. orðist svo: Útflutningur er útflutningur og umflutningur í skilningi tollalaga, nr. 88/2005, svo og endurútflutningur, með eða án endurgjalds.
                  b.      13. tölul. orðist svo: Vopnasölubann tekur til þvingunaraðgerða í formi banns við sölu á vopnum, sem innleiddar eru samkvæmt lagaákvæðum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.
     3.      14. gr. orðist svo:
                  Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með vopnamál, að setja í reglugerð ákvæði um framkvæmd vopnaviðskiptasamnings Sameinuðu þjóðanna, sbr. 6. gr. a vopnalaga, nr. 16/1998.
     4.      Í stað orðanna „er háð“ í b-lið 3. mgr. 19. gr. komi: sætir.
     5.      Í stað orðanna „20.–21. gr.“ í 2. mgr. 23. gr. komi: 21.–22. gr.
     6.      Í stað orðanna „miðlunar- eða tækniþjónustu“ í 3. mgr. 26. gr. komi: miðlunarþjónustu eða tækniaðstoð.
     7.      Í stað orðanna „50. tölul. 11. gr.“ í 1. mgr. 27. gr. komi: 19. tölul. 12. gr.
     8.      1. mgr. 28. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi.
     9.      Við 29. gr.
                  a.      Orðið „þeirra“ í efnismálsgrein 3. tölul. falli brott.
                  b.      Við bætist nýr töluliður, 4. tölul., svohljóðandi: Vopnalög, nr. 16/1998: Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, er orðast svo:
                     Enginn má flytja úr landi hergögn og varnartengdar vörur eins og þær eru skilgreindar í reglugerð skv. 8. mgr. nema með leyfi ráðherra sem fer með utanríkismál, eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
                     Leyfisveiting skv. 1. mgr. tekur einnig til véla, tækja, eða annars sem er sérstaklega hannað eða breytt til framleiðslu, þróunar eða nota á hergögnum og varnartengdum vörum, sbr. 1. mgr.
                     Enginn má flytja úr landi tækni eða hugbúnað til þróunar, framleiðslu eða nota á hlutum, sbr. 1. og 2. mgr., nema með leyfi ráðherra sem fer með utanríkismál, eða þess sem hann felur leyfisveitinguna. Leyfisskylda samkvæmt þessari málsgrein tekur einnig til flutnings á hugbúnaði eða tækni með rafrænum miðlum, þ.m.t. með bréfsíma, síma, tölvupósti eða á annan rafrænan hátt. Það felur einnig í sér að gera slíkan hugbúnað og tækni tiltæk á rafrænu formi eða munnlega yfirfærslu þegar tækni er lýst í gegnum talflutningsmiðil fyrir einstakling eða lögaðila í öðru ríki.
                     Leyfisskylda skv. 1., 2. og 3. mgr. tekur einnig til umflutnings í skilningi tollalaga, endurútflutnings, gegnumferðar, umfermingar og miðlunar.
                     Óheimilt er að flytja hergögn og varnartengdar vörur eins og þær eru skilgreindar í reglugerð skv. 8. mgr. með íslenskum loftförum hvar sem þau eru stödd nema með leyfi ráðherra sem fer með utanríkismál, eða þess sem hann felur leyfisveitinguna . Hafi útflytjandi þegar fengið leyfi til útflutnings skv. 1. mgr. þarf ekki að sækja um leyfi til ráðherra samkvæmt þessari málsgrein.
                     Ekki skal veita leyfi samkvæmt þessari grein gangi leyfisveitingin gegn gildandi þvingunaraðgerðum, ráðstöfunum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt í samræmi við VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, einkum ráðstöfunum varðandi vopnasölubann, eða viðeigandi alþjóðlegum skuldbindingum samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.
                     Ekki skal veita leyfi samkvæmt þessari grein ef ætla má, þegar leyfi er veitt, að hergögnin, varnartengdu vörurnar eða hlutirnir verði notaðir til þess að fremja alvarleg mannréttindabrot eða hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi eða glæpi gegn friði.
                     Ráðherra, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með utanríkismál, skal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda lista yfir hergögn og varnartengdar vörur, sbr. 1. mgr. Gefi Evrópusambandið út lista yfir hergögn eða varnartengdar vörur er ráðherra þá heimilt í reglugerð að vísa til hans á vefsetri Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og telst það lögmæt birting. Í reglugerð er ráðherra heimilt að kveða á um að breytingar eða uppfærslur lista öðlist sjálfkrafa gildi við uppfærslu eða breytingar á vefsetri Stjórnartíðinda Evrópusambandsins.
                     Ráðherra, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með utanríkismál, skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um heimild til útgáfu almennra leyfa, heildarleyfa og stakra leyfa til útflutnings, umsóknir um leyfi og þau gögn og vottorð sem fylgja skulu umsóknum eða sem heimilt er að afla vegna þeirra, undanþágur frá leyfisskyldu og gildistíma leyfa.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. júní 2023.

Bjarni Jónsson,
form.
Teitur Björn Einarsson,
frsm.
Birgir Þórarinsson.
Diljá Mist Einarsdóttir. Jakob Frímann Magnússon. Jóhann Friðrik Friðriksson.
Logi Einarsson. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.