Ferill 939. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1977  —  939. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996 (geymsla og nýting fósturvísa og kynfrumna).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðlín Steinsdóttur og Kristínu Ninju Guðmundsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Svanhildi Þorbjörnsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Finn Martein Sigurðsson og Telmu Halldórsdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Salvöru Nordal og Sigurveigu Þórhallsdóttur frá umboðsmanni barna, Snorra Einarsson frá Livio Reykjavík og Ingibjörgu Ruth Gulin frá Samtökunum '78.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Livio Reykjavík, Samtökunum '78, umboðsmanni barna og Þjóðskrá Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað um málið frá heilbrigðisráðuneyti.

Efni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tæknifrjóvgun þannig að í stað skyldu til að eyða kynfrumum eða fósturvísum ef annar þeirra sem stendur að tæknifrjóvgun andast eða hjúskap eða sambúð er slitið verði einstaklingum gert heimilt að veita vottað og skriflegt samþykki fyrir notkun kynfrumna og fósturvísa til tæknifrjóvgunar á eftirlifandi maka eða fyrrverandi maka þrátt fyrir skilnað eða sambúðarslit. Gerð er krafa um að sá sem vilji nýta kynfrumur eða fósturvísa á þennan hátt sé einhleypur þegar að tæknifrjóvgun kemur og geti notað kynfrumurnar eða fósturvísi í eigin líkama. Þá eru samhliða framangreindum breytingum lagðar til breytingar á barnalögum um að þeir einstaklingar sem standa saman að ákvörðun, þ.e. leghafi sem óskar eftir tæknifrjóvgun og fyrrverandi maki sem samþykkt hefur notkun leghafans á kynfrumum eða fósturvísi eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, verði foreldrar barns sem þannig er getið.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um ýmis álitaefni sem tengjast breytingum á lögum um tæknifrjóvgun og barnalögum, m.a. um réttarstöðu barna. Í umsögnum sem nefndinni bárust er að finna ábendingar um að ekki sé þörf á að setja það sem skilyrði að einstaklingar sem vilji nýta fósturvísa í kjölfar skilnaðar, sambúðarslita eða andláts annars aðilans þurfi að vera einhleypir; um að tímabært sé að afnema nafnleynd kynfrumugjafa; og um að leggja þurfi sérstakt mat á áhrif frumvarpsins á börn. Auk þess komu fram athugasemdir við skráningu á foreldrastöðu og breytingar á skráningu. Hildur Sverrisdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um breytingu á barnalögum og lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna (þskj. 8, 8. mál á yfirstandandi löggjafarþingi) sem hefur einnig verið rætt fyrir nefndinni. Þar er gengið lengra en frumvarpið sem hér er til umfjöllunar kveður á um og m.a. lagt til að gjöf fósturvísa verði heimiluð og að sambúð eða hjúskapur verði ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingar geti staðið saman að tæknifrjóvgun í þeim tilgangi að búa til barn.
    Nefndin tekur fram að vanda þarf til verka við breytingar á lögum um tæknifrjóvgun sem og við samsvarandi breytingar á barnalögum. Skoða þarf ákvörðunarrétt einstaklinga sem leitast eftir tæknifrjóvgun í samanburði við réttarstöðu barns sem verður til við þessar aðstæður. Í 4. kafla í greinargerð með frumvarpinu er að finna upptalningu á þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar, laga og alþjóðasamninga sem vernda hagsmuni barna. Í 6. kafla er að finna mat á áhrifum frumvarpsins á þau sem geyma kynfrumur, pör sem geyma fósturvísa, fyrirtæki sem annast tæknifrjóvgunarferli og á Þjóðskrá Íslands.
    Nefndin brýnir fyrir heilbrigðisráðuneyti að við breytingar á lögum um tæknifrjóvgun og barnalögum þarf að liggja fyrir sjálfstætt mat á áhrifum breytinganna á réttindi og stöðu barna sem verða til með þessum hætti. Samkvæmt 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var með lögum nr. 19/2013, ber að hafa bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn. Í því felst m.a. að leggja mat á áhrif frumvarpa á réttindi og hagsmuni barna með hliðsjón af ákvæðum laga og alþjóðasamninga sem gilda um þau réttindi.
    Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að fyrirhuguð sé heildarendurskoðun barnalaga og laga um tæknifrjóvgun þar sem m.a. eigi að skoða nafnleynd kynfrumugjafa. Þar mun gefast tækifæri til að kanna ábendingar sem fram komu í umsögnum um málið. Nefndin leggur áherslu á að við þá heildarendurskoðun verði sérstaklega litið til 7. og 16. gr. barnasáttmálans um rétt barns til að njóta foreldra og til að þekkja uppruna sinn.

Breytingartillögur.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samkvæmt ákvæðum barnalaga geti barn einungis átt tvo foreldra. Með hliðsjón af því þyki skýr rök standa til þess að gerð sé krafa um að leghafi sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun eigi sér stað. Jafnvel þótt lögin gætu mælt fyrir um foreldrastöðu án þess að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur sé hætt við að sú staða gæti skapað árekstra mismunandi væntinga og hagsmuna og með því skapað togstreitu og álag fyrir barnið. Þá segir einnig í greinargerðinni að nýr maki leghafa, sem undirgengist hefur tæknifrjóvgun í samræmi við skilyrði tillagna frumvarpsins, geti eftir atvikum farið með forsjá barnsins eða stjúpættleitt barnið.
    Í umsögnum Félagsráðgjafafélags Íslands og Samtakanna '78 eru gerðar athugasemdir við áskilnað frumvarpsins um að einstaklingur þurfi að vera einhleypur ætli hann sér að nýta kynfrumur eða fósturvísa í kjölfar skilnaðar, sambúðarslita eða andláts annars aðilans skv. 1. og 2. gr. frumvarpsins. Í minnisblaði heilbrigðisráðuneytis kemur fram að ráðuneytið leggist ekki gegn slíkri breytingu svo framarlega sem það sé áréttað og skýrt í barnalögum hverjir eigi að teljast foreldrar barns, þ.e. annars vegar sá sem gengst undir tæknifrjóvgun og hins vegar sá sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi maka.
    Nefndin telur mögulegt að verða við þessum ábendingum og breyta frumvarpinu þannig að áskilnaður um að einstaklingur sé einhleypur falli brott enda komi skýrt fram í barnalögum hverjir eigi að teljast foreldrar barns, þ.e. annars vegar sá sem gengst undir tæknifrjóvgun og hins vegar sá sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi maka. Með vísan til þessa eru lagðar til breytingar á 1. gr., 2. gr. og 1. tölul. b- og c-liðar 1. tölul. 5. gr. frumvarpsins þannig að ekki verði gert að skilyrði að einstaklingur sé einhleypur þegar hann nýtir kynfrumur eða fósturvísa til tæknifrjóvgunar skv. 1. og 2. gr. frumvarpsins. Lúta breytingartillögur í 1. tölul., 2. tölul. og í a- og b-lið 4. tölul. að aftan að framangreindri efnislegri breytingu á frumvarpinu. Aðrar breytingartillögur lúta að lagfæringu á tilvísunum og orðalagi sem nefndin telur rétt að gera á frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sá sem leggur kynfrumur til getur veitt skriflegt og vottað samþykki fyrir notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun enda geti eftirlifandi maki notað kynfrumurnar í eigin líkama. Sama á við um samþykki fyrir notkun fyrrverandi maka eftir skilnað eða sambúðarslit, enda geti hann notað kynfrumurnar í eigin líkama og skriflegt og vottað samþykki liggi fyrir samhliða umsókn um tæknifrjóvgun.
     2.      2. gr. orðist svo:
                      Við 3. mgr. 9. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Einstaklingur sem samþykkt hefur geymslu fósturvísa skv. 2. mgr. getur veitt skriflegt og vottað samþykki fyrir notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun enda geti eftirlifandi maki notað fósturvísi í eigin líkama. Sama á við um samþykki fyrir notkun fyrrverandi maka eftir skilnað eða sambúðarslit enda geti hann notað fósturvísana í eigin líkama og skriflegt og vottað samþykki liggi fyrir samhliða umsókn um tæknifrjóvgun.
     3.      Við c-lið 3. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „andast“ komi: og.
                  b.      Á eftir orðinu „skal“ komi: þá.
     4.      Við 1. tölul. 5. gr.
                  a.      2. málsl. 1. tölul. b-liðar orðist svo: Gildir þetta þrátt fyrir að sá sem gengst undir tæknifrjóvgun kunni að vera í hjúskap eða skráðri sambúð með öðrum þegar tæknifrjóvgun fer fram eða við fæðingu barns.
                  b.      2. málsl. 1. tölul. c-liðar orðist svo: Gildir þetta þrátt fyrir að sá sem gengst undir tæknifrjóvgun kunni að vera í hjúskap eða skráðri sambúð með öðrum þegar tæknifrjóvgun fer fram eða við fæðingu barns.
                  c.      2. tölul. d-liðar orðist svo: Í stað vísunarinnar „2. mgr.“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: 2. eða 4. mgr.
                  d.      Á eftir 3. tölul. d-liðar komi nýr töluliður, svohljóðandi: Í stað vísunarinnar „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 4. mgr.

    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 5. júní 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Halldóra Mogensen.
Jódís Skúladóttir. Oddný G. Harðardóttir. Óli Björn Kárason.