Ferill 943. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1990  —  943. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Höllu Sigrúnu Sigurðardóttur, Erlu Sigríði Gestsdóttur og Magnús Dige Baldursson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Kristínu Lindu Árnadóttur og Jónas Hlyn Hallgrímsson frá Landsvirkjun, Lárus Michael Knudsen Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Breka Karlsson og Unu Magneu Stefánsdóttur frá Neytendasamtökunum, Tryggva Felixson frá Landvernd, Hönnu Björgu Konráðsdóttur og Höllu Hrund Logadóttur frá Orkustofnun og Finn Beck og Baldur Dýrfjörð frá Samorku.
Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Landsneti hf., Landsvirkjun, Orkustofnun, Samorku og Samtökum iðnaðarins. Auk þess barst nefndinni sameiginleg umsögn frá Neytendasamtökunum og Landvernd.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003. Annars vegar eru það breytingar sem ætlað er að styrkja raforkuöryggi almennings og forgangsröðun í samræmi við orkustefnu. Með þeim er gert ráð fyrir því að almenningur og heimili njóti forgangs komi til skömmtunar ef óviðráðanleg atvik valda því að framboð raforku fullnægi ekki eftirspurn. Hins vegar eru lagðar til breytingar sem snúa að söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi á heildsölu- og smásölumarkaði.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að orkuöryggi þjóðarinnar væri margþætt langtímaverkefni og að ráðuneytið stefndi að því að leggja fram fleiri frumvörp á komandi löggjafarþingum. Verkefnið væri í raun þess eðlis að því lyki aldrei. Tveir starfshópar hafi starfað á vegum ráðuneytisins og væri unnið úr tillögum þeirra að úrbótum. Með frumvarpi því sem nefndin hefur til umfjöllunar væri ráðgert að tryggja forgang almennings og heimila komi til skömmtunar á raforku vegna óviðráðanlegra atvika og byggjast tillögurnar á vinnu fyrrnefndra starfshópa auk orkustefnu. Ráðuneytið vinni að nánari útfærslu á tillögum starfshópanna og stefnt sé að því að leggja fram frumvarp sem byggist á vinnu starfshópanna á komandi löggjafarþingi. Þá var sérstaklega áréttað að mikilvægt væri að setja sérstök viðmið um fullnægjandi raforkuöryggi og framboð á raforku og leggja til skýrara hlutverk og ábyrgð aðila á raforkumarkaði. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og hvetur ráðuneytið til að vinna áfram að gerð frumvarps þess efnis í góðu samráði við hagaðila.
    Í umsögn Landsnets eru ekki gerðar efnislegar athugasemdir við ákvæði frumvarpsins en réttilega á það bent að frumvarpið sé fyrsta skref í heildarendurskoðun regluverks um raforkuöryggi. Bendir Landsnet á mikilvægi þess að skýra hlutverk aðila í venjulegum rekstri raforkukerfisins og aðdraganda neyðaraðgerða áður en ráðist verður í slíka endurskoðun. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og beinir því til ráðuneytisins að hugað verði að heildarendurskoðun regluverks um raforkuöryggi sem fyrst.
    Í umsögn Landsvirkjunar eru gerðar tillögur að breyttu orðalagi efnisákvæða frumvarpsins. Meiri hlutinn tekur undir þær tillögur og leggur til breytingar þess efnis.
    Í sameiginlegri umsögn Neytendasamtakanna og Landverndar er fjallað um mat á framboði og eftirspurn. Það hafi til þessa verið á höndum Orkustofnunar en verði með frumvarpinu falið Landsneti. Draga samtökin hlutleysi Landsnets í efa í ljósi nýstofnaðs dótturfyrirtækis Landsnets sem ætlað er að starfa á heildsölumarkaði með raforku. Í minnisblaði ráðuneytisins sem nefndinni barst er fjallað um það mat ráðuneytisins að rekstur dótturfyrirtækis á heildsölumarkaði leiði ekki til vanhæfis til þess að framkvæma mat á raforkuöryggi, ekkert frekar en vanhæfis við önnur þau verkefni sem flutningsfyrirtækinu eru falin lögum samkvæmt. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið.
    Í umsögn raforkueftirlits Orkustofnunar er lögð áhersla á tillögur áðurnefnds starfshóps ráðuneytisins. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið er fyrsta skref í heildarendurskoðun regluverks um raforkuöryggi. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að ráðuneytið vinnur að nánari útfærslum á tillögum starfshópsins í samstarfi við alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki og hafa frekari lagafrumvörp verið boðuð.
    Í umsögn Samorku er vikið að orkuöryggisstefnu og mikilvægi þess að slík stefna verði mótuð. Þá er einnig vikið að framboði raforku sem mikilvægs þáttar í orkuöryggi. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið, en telur ljóst að ábendingar Samorku falli utan gildissviðs þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar.
    Í umsögn Samtaka iðnaðarins er vikið að framboði á raforku og skorti þar á. Að mati meiri hlutans hafa mikilvæg skref verið stigin til að tryggja frekara framboð til næstu ára, m.a. með rammaáætlun. Þá er í umsögninni fjallað um þau tilvik sem að mati samtakanna geta fallið undir óviðráðanleg atvik samkvæmt frumvarpinu, t.d. efnahagslegar þrengingar hjá raforkuframleiðanda, ásókn í raforku vegna orkuskipta samgönguflota eða algjört hrun í raforkukerfinu. Meiri hlutinn telur ljóst af efni frumvarpsins og með vísan til greinargerðar þess að túlka beri ákvæðið þröngt. Því telur meiri hlutinn þær áhyggjur óþarfar sem Samtök iðnaðarins reifa í umsögn sinni af þessum þætti málsins.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 2. málsl. 4. efnismgr. 1. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Reglugerðin skal einnig skilgreina grunnkröfur sem gerðar eru til orku- og aflspáa sem liggja matinu til grundvallar.
     2.      Við 2. efnismálsl. 2. gr. bætist: og hafa ekki samið sérstaklega um skerðanlega notkun.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað „5. mgr.“ komi: 6. mgr.
                  b.      Við 2. efnismálsl. bætist: og hafa ekki samið sérstaklega um skerðanlega notkun.

Alþingi, 6. júní 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Friðjón R. Friðjónsson. Teitur Björn Einarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.