Ferill 1060. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2006  —  1060. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um stöðu barna þegar foreldri fellur frá.


     1.      Hver er staða á vinnslu reglugerða er varða rétt barna sem aðstandenda eftir fráfall foreldris og frumkvæðisskyldur hins opinbera gagnvart þeim, sbr. 7., 8. og 9. gr. laga nr. 50/2019?
    Í ráðuneytinu er unnið að undirbúningi reglugerða um framkvæmd stuðnings við leikskólabörn og nemendur í grunn- og framhaldsskólum sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri á grundvelli 22. gr. a laga um leikskóla, nr. 90/2008, 17. gr. a laga um grunnskóla, nr. 91/2008, og 34. gr. a laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Sú vinna tengist náið stefnumótun stjórnvalda og endurskipulagningu á þjónustu í þágu barna sem markvisst hefur verið unnið að síðan vorið 2018.
    Hinn 1. janúar 2022 tóku gildi ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, þar sem áhersla er lögð á að börnum og fjölskyldum þeirra sé tryggður snemmtækur stuðningur og samþætt þjónusta við hæfi. Á grundvelli laganna eiga öll börn, þ.m.t. þau sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri, rétt á þjónustu tengiliðar. Tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns er einstaklingur í nærumhverfi barns sem hefur næga þekkingu til að geta verið barni og foreldrum innan handar ef þörf krefur, þ.m.t. með því að veita upplýsingar og aðstoð við að koma málum í réttan farveg. Á grundvelli laga nr. 86/2021 hvílir skylda á öllum þeim aðilum sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns eða farsældarþjónustu að fylgjast með velferð og farsæld barns og bregðast við greini þeir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt, þ.m.t. með því að veita leiðbeiningar um hlutverk tengiliðar. Horft er til þess að reglugerðir um stuðning við leikskólabörn og nemendur í grunn- og framhaldsskólum sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri taki mið af ákvæðum laga nr. 86/2021 og því verklagi sem lögfest var með samþykkt þeirra.
    Yfirstandandi er frekari vinna við kortlagningu á þjónustu í þágu barna og er þar m.a. horft til úrræða fyrir þann hóp barna sem fyrirspurnin lýtur að. Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hefur ráðherra sett á fót starfshóp sem m.a. er ætlað að fjalla um viðbrögð við áföllum í lífi barna. Þá hefur ráðherra styrkt frjáls félagasamtök sem styðja við úrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda.
    
     2.      Hafa verið settir skýrir verkferlar, t.d. í samráði við önnur ráðuneyti, sem tryggja frumkvæðisskyldu og framkvæmd laga nr. 50/2019 gagnvart börnum sem aðstandendum við fráfall foreldris? Ef svo er, hverjir eru þeir og ef ekki, hvenær má þess vænta að slíkir verkferlar verði settir?
    Innan leik-, grunn- og framhaldsskóla hefur verið komið á verklagi sem miðar að því að tryggja börnum upplýsingar, stuðning og eftirfylgni vegna fráfalls foreldris. Í mörgum skólum eru starfrækt svonefnd áfallaráð sem er m.a. ætlað að tryggja viðeigandi viðbrögð þegar upp kemur sú staða að aðstandandi barns eða nemanda fellur frá. Þá er hverjum leik-, grunn- og framhaldsskóla skylt að gefa út skólanámskrá, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2008, 29. gr. laga nr. 91/2008 og 22. gr. laga nr. 92/2008. Í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla kemur fram að í skólanámskrá skuli birta upplýsingar um áætlanir viðkomandi skóla um viðbrögð við áföllum. Í slíkum áætlunum er víða að finna verklag sem unnið er eftir þegar aðstandandi nemanda fellur frá. Dæmi eru um að leikskólar hafi einnig sett sér slíkt verklag þrátt fyrir að ekki sé að finna sambærilega skyldu í aðalnámskrá leikskóla.
    Gert er ráð fyrir að stefnumótunarvinna sem nú fer fram innan ráðuneytisins leiði til skýrari og samræmdari verkferla innan skóla fyrir börn við fráfall foreldris.