Ferill 1038. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2120  —  1038. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um fitubjúg.


     1.      Er sjúkdómurinn fitubjúgur (lipoedema) viðurkenndur af stjórnvöldum?
    Sjúkdómurinn er viðurkenndur og skilgreindur í ICD-10 sjúkdómaflokkunarkerfinu sem notað er hér á landi. Greiningarnúmer sjúkdómsins innan sjúkdómaflokkunarkerfisins hérlendis er E88.2 ( lipomatosis, not elsewhere classified) sem embætti landlæknis og Sjúkratryggingar hafa mælt með að sé notað. Nákvæmari greining er hins vegar E88.22 ( lipedema) og ástæðan fyrir því að það hugtak er ekki notað er að ekki er hægt að styðjast við tvo aukastafi í greiningunni hérlendis en úr því verður bætt við næstu uppfærslu á kerfinu ICD-11 skv. upplýsingum frá embætti landlæknis. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur nýlega byrjað að veita þjónustu vegna þessa sjúkdóms undir þjónustu Kvenheilsu og hefur þeirri þjónustu verið vel tekið.

     2.      Hversu mörg tilfelli fitubjúgs voru greind árin 2013–2022?
    Ekki liggja fyrir tölur um fjölda þeirra sem eru greindir með sjúkdóminn. Tíðnin er um 11% í löndunum í kringum okkur. Hingað til hefur lítil áhersla verið lögð á greiningu og meðferð þessa sjúkdóms í kennslu heilbrigðisstétta og því má búast við að sjúkdómurinn sé vangreindur. Sjúkdómnum var oft ruglað saman við offitu enda oft mikið magn fituvefs hjá þeim sem hafa þessa tegund fituvefs.

     3.      Eru gerðar aðgerðir vegna fitubjúgs hér á landi, til að mynda með fitusogi? Ef svo er, hver var fjöldi slíkra aðgerða árin 2013–2022 og hver var meðalbiðtími eftir aðgerð? Ef svo er ekki, er í ráði að bjóða slíkar aðgerðir?
    Ekki eru gerðar sérhæfðar fitusogsaðgerðir vegna fitubjúgs hér á landi í dag en hefðbundnar fitusogsaðgerðir eiga ekki við sem meðferð við fitubjúg. Aukin þekking hefur myndast á þessum sjúkdómi undanfarin ár og stórar rannsóknir eru í gangi erlendis í dag til kanna meðal annars árangur sérhæfðra fitusogsaðgerða og hvort núverandi aðgerðir geti talist viðurkennd og gagnreynd meðferð umfram þá meðferð sem nú er viðurkennd og ráðlögð við sjúkdómnum sem felst helst í fyrirbyggjandi aðgerðum með mataræði og æfingum ásamt þrýstiumbúðum og sérhæfðu nuddi.
    Að mati þeirra sérfræðinga sem greina og meðhöndla þennan sjúkdóm er engu að síður rétt að skoða þann möguleika að bjóða upp á slíka meðferð hérlendis og að Sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði vegna aðgerðanna, þar sem hann veldur miklum verkjum og skerðingu á lífsgæðum og hefur áhrif á atvinnuþátttöku hjá einstaklingum með langt genginn sjúkdóm.

     4.      Hver var kostnaðarþátttaka Sjúkratrygginga Íslands vegna læknisþjónustu erlendis sakir fitubjúgs árin 2013–2022?
    Sjúkratryggingar Íslands hafa til þessa ekki tekið þátt í kostnaði vegna aðgerða við fitubjúg og einstaklingar undirgangast meðferð á eigin kostnað á einkareknum erlendum stofnunum en alls hefur verið sótt fimm sinnum um kostnaðarþátttöku til SÍ vegna aðgerða við fitubjúg. Þeim umsóknum var öllum synjað.

     5.      Hyggst ráðherra efla aðstöðu til að framkvæma aðgerðir vegna fitubjúgs líkt og gert var við uppbyggingu liðskiptaseturs við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi?
    Stöðugt er unnið að þróun heilbrigðisþjónustu til að mæta þörfum íbúa. Fyrsta skrefið í eflingu þjónustu fyrir þau sem greind eru með fitubjúg hérlendis væri að kanna umfang sjúkdómsins, styrkja greiningarferli og skráningu, samhliða því sem lagt er mat á meðferðarúrræði og gagnsemi þeirra. Tilefni er til að kanna sérstaklega gagnsemi skurðaðgerða við fitubjúg og hvort eigi að mæla með þeim sem hluta af meðferð við fitubjúg hér á landi.