Ferill 1183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2202  —  1183. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hafa hugmyndir um fjárfestingar þýska hafnarrekstrarfélagsins Bremenports til uppbyggingar stórskipahafnar í Finnafirði verið metnar miðað við möguleg áhrif á þjóðaröryggi, m.a. í ljósi frétta af því að kínversk stjórnvöld kunni að vera fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins að einhverju leyti?
     2.      Hafa samstarfsaðilar Íslands í varnar- og öryggismálum lýst áhuga á því að koma að uppbyggingunni með formlegum eða óformlegum hætti, m.a. í ljósi frétta af því að sjóher Bandaríkjanna hafi hug á að ná varanlegri fótfestu hér á landi?


    Samkvæmt a-lið 7. tölul. 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. og 1. gr. úrskurðar nr. 7/2022, með síðari breytingum, heyrir þjóðaröryggisráð undir málefnasvið forsætisráðherra. Líkt og fram kemur í svari ráðherra við fyrirspurn frá fyrirspyrjanda á yfirstandandi löggjafarþingi, sbr. þskj. 1662, 907. mál, er þjóðaröryggisráð samráðs- og samhæfingarvettvangur um þau málefni er varða þjóðaröryggi en ábyrgð á stjórnarframkvæmd einstakra stjórnarmálefna er hjá hlutaðeigandi ráðherra samkvæmt forsetaúrskurði hverju sinni. Þjóðaröryggisráð hefur því ekki lögum samkvæmt eftirlit með starfsemi stofnana eða samstarfsverkefna sem heyra undir ábyrgðarsvið einstakra ráðherra. Um hlutverk þjóðaröryggisráðs vísast að öðru leyti til framangreinds svars ráðherra á þskj. 1662.
    Fyrirspurnin lýtur nánar tiltekið að mögulegri uppbyggingu alþjóðlegrar stórskipahafnar í Finnafirði á grunni samkomulags sveitarfélaga á svæðinu við Bremenports og viljayfirlýsingar framangreindra aðila, Eflu verkfræðistofu og íslenskra stjórnvalda. Samgöngur, þ.m.t. hafnarmál, og málefni sveitarfélaga heyra undir málefnasvið innviðaráðherra samkvæmt tilvísuðum forsetaúrskurðum. Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um málefnið ber að beina fyrirspurn þar að lútandi til innviðaráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.