Ferill 1098. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2207  —  1098. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um endurmat útgjalda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðuneytið innleitt endurmat útgjalda samkvæmt skilgreiningu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD)? Ef svo er, hvenær var það gert og hvaða árangri hefur það skilað?

    Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði starfshóp árið 2021 um endurmat útgjalda í þjónustu við aldraða. Þar áttu sæti tveir starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins ásamt starfsmönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og formanns hópsins, sem skipaður var af fjármála- og efnahagsráðherra án tilnefningar. Skýrslu starfshópsins var skilað árið 2022 og hún birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í maí það ár (Þjónusta við aldraða: Árangur fjárveitinga). Niðurstaða hópsins var meðal annars að með því að auka þjónustu á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustu, með áherslu á aldurshópinn 80–89 ára, mætti seinka þörf fyrir dýrari þjónustu líkt og veitt er í hjúkrunarrýmum. Með þessu mætti nýta fjárveitingar til þjónustu við aldraða betur, sem nauðsynlegt er að gera með hliðsjón af hækkandi aldri þjóðarinnar og áætlaðri aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum. Samkvæmt skýrslunni sparast a.m.k. 12 m.kr. á hvern einstakling fyrir hvert ár sem aldraður einstaklingur nýtir dagdvöl eða heimahjúkrun í stað flutnings á hjúkrunarheimili. Í upphafi þyrfti að veita aukið fjármagn til heimaþjónustu og dagdvalar til að gera fólki kleift að búa lengur á eigin heimili og seinka þörf fyrir flutning í hjúkrunarrými.
    Heilbrigðisráðuneytið hefur tekið mið af tillögum starfshópsins við vinnu síðustu tveggja fjármálaáætlana ríkisstjórnarinnar.