Ferill 1118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2213  —  1118. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um einkarekstur heilsugæslu í Reykjanesbæ.


     1.      Hvenær tekur einkarekin heilsugæsla til starfa í Reykjanesbæ?
    Samkvæmt samningi milli Sjúkratrygginga Íslands og umrædds þjónustuveitanda (Heilsugæslunnar Höfða ehf.) er áætlað að móttaka sjúklinga hefjist 1. september 2023.

     2.      Til hve langs tíma eru samningar Sjúkratrygginga Íslands við rekstraraðila heilsugæslunnar?
    Samningurinn gildir í fimm ár frá og með þeim degi sem móttaka sjúklinga hefst. Við undirritun samningsins var áætlað að móttaka sjúklinga hefjist 1. september 2023, gangi það eftir gildir samningurinn til og með 31. ágúst 2028.

     3.      Eru gerð skilyrði um arðgreiðslur í samningunum?
    Kveðið er á um arðgreiðslur í samningnum, sbr. 4. mgr. 9. gr. hans:
    „Óheimilt er að taka arð út úr rekstri heilsugæslustöðva. Ávinning af rekstri skal nýta til úrbóta og uppbyggingar í þágu notenda þjónustunnar.“

     4.      Eru kröfulýsingar í samningunum um gæði þjónustunnar?
    4. gr. samningsins fjallar um gæði og kröfur til þjónustunnar. Þar er vísað til gæðamála, m.a. varðandi gæða- og þjónustumarkmið sem skulu sett, skrá um kvartanir, óvænt atvik og að gæðaeftirlit skuli vera í samræmi við tiltekna grein (5.4) í kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytisins vegna rekstrar heilsugæsluþjónustu útg. 2.0, sem er hluti samningsins. 1 Sá kafli fjallar um mat á árangri og gæðum þjónustunnar, nánar tiltekið: Innra eftirlit, þjónustu og árangur, gæðaviðmið og viðhorfs- og þjónustukannanir.
    Þá fjallar 9. gr. almennra skilmála Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu um gæði.

     5.      Hvernig verður séð til þess að einkarekin heilsugæsla í Reykjanesbæ dragi ekki úr hæfni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að veita þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt, sbr. reglugerð 510/2010 um samninga um heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan heilbrigðisstofnana sem ríkið rekur?
    Árið 2021 var tekið í notkun fjármögnunarlíkan sem reiknar fjármagn til heilsugæslustöðva á landsbyggðinni á staðlaðan og samræmdan hátt. Fjármögnun heilsugæslustöðvarinnar mun fara í gegnum fjármögnunarlíkanið sem byggist á höfðatöluforskrift og áætluðu þjónustumagni á hvern einstakling út frá aldri, kyni og sjúkdómsbyrði.
    Í samningnum kemur fram að stöðin er áætluð um sex lækna stöð. Hámarksfjöldi sjúklinga sem skráðir eru á hvern lækni tekur mið af kyni, aldri og sjúkdómsbyrði skjólstæðingahópsins og er breytilegur milli svæða og tímabila. Staðlaður fjöldi er að hámarki 2.500 einstaklingar á hvert stöðugildi læknis. Samkvæmt samningi verða einstaklingar ekki færðir sjálfkrafa á heilsugæsluna af Sjúkratryggingum við opnun hennar.
    Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað hlutfallslega meira á undanförnum árum en íbúum á landinu í heild sinni og eru íbúar um 31 þúsund samkvæmt Hagstofunni og ljóst er að þörf er á aukinni heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa svæðisins. Aukið aðgengi íbúa á Suðurnesjum að heilsugæsluþjónustu ætti ekki að draga úr hæfni HSS til að veita þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt heldur þvert á móti að létta undir með stofnuninni við að þjónusta íbúa svæðisins.

     6.      Hvað tekur við þegar samningur við rekstraraðila rennur út? Eru ákvæði um framlengingu samningsins?
    Ákvæði er í samningnum um að heimilt er að framlengja hann um 12 mánuði í senn þegar hann rennur út.

     7.      Ef ekki tekst að semja við rekstraraðila um annað samningstímabil er þá möguleiki á eða gert ráð fyrir að rekstraraðilinn starfi áfram en sjúklingar verði rukkaðir um gjöld utan greiðsluþátttökukerfisins líkt og nú er gert þegar sjúklingar leita til sérgreinalækna?
    Ef sú staða kemur upp að rekstraraðili tekur ekki að sér annað samningstímabil þá mun hann ekki halda áfram óbreyttum rekstri í húsnæðinu án samnings við ríkið, sem leggur til húsnæðið til tiltekinnar notkunar.

1    Sjá kröfulýsingu nánar:
assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/NO3CCAsutXnCo8eo9u9Gc/6446d017515cf4914aab530976d46 0d3/Kr__ful__sing_vegna_rekstrar_heilsug__slu__j__nustu_2.0.pdf