Ferill 1142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2214  —  1142. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um Menntasjóð námsmanna.


     1.      Í ljósi upplýsinga frá Menntasjóði námsmanna sem fram koma á þskj. 1118 á yfirstandandi þingi þess efnis að greiðslur frá ábyrgðarmönnum á árinu nemi einungis 16.802.330 kr. og að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá 105 ábyrgðarmönnum á árinu 2021, telur ráðherra tilefni til þess að fella niður þær eftirhreytur ábyrgðarmannakerfisins sem enn eru við lýði?
    Þær forsendur sem vísað er til í spurningunni gefa ekki fulla mynd af þeim hagsmunum sem eru í húfi og afleiðingum þess að afnema ábyrgðarmannakerfið fyrir þann hluta lánasafns Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem er þegar í skilum. Þótt ábyrgðarmannakerfið hafi verið afnumið með breytingalögum nr. 78/2009 var því viðhaldið í þágu lánþega sem ekki uppfylltu lánshæfisskilyrði, t.d. vegna viðskiptasögu hjá fjármálafyrirtækjum. Þeim bauðst að leggja fram yfirlýsingu ábyrgðarmanns, bankatryggingu eða veðtryggingu í fasteign. Lagabreytingin var framvirk, þ.e. ábyrgðarloforð sem veitt voru fyrir gildistöku laga nr. 78/2009 stóðu áfram óhögguð með þeim rökum að niðurfelling þeirra kynni að draga úr innheimtuhlutfalli lánasafnsins. Á móti var réttarvernd ábyrgðarmanna aukin með lögum um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, með afturvirkum hætti. Í því fólst aukin tilkynningarskylda sjóðsins til ábyrgðarmanna, ekki var lengur heimilt að krefjast nauðungarsölu á heimili ábyrgðarmanns og ábyrgðarskuldbindingin gat ekki orðið grundvöllur gjaldþrotaskiptakröfu á hendur ábyrgðarmanni. Í lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, var skilyrt heimild til niðurfellingar ábyrgðaryfirlýsinga fyrir þau lán sem voru í skilum við gildistöku laganna 1. júlí 2020. Eftirstæðar og virkar ábyrgðir eru því aðeins vegna námslána sem voru í vanskilum 1. júlí 2020. Í nýju lögunum var viðhaldið fyrri reglu um að lánþegar sem teljast tryggir lántakar leggja ekki fram greiðslutryggingu. Fyrir lánþega sem ekki njóta lánstrausts býðst sem fyrr að leggja fram tryggingu sem Menntasjóður metur viðunandi.
    Allar ábyrgðir sem enn eru í gildi hjá Menntasjóði eiga það sammerkt að tengjast lánum
þar sem metin er aukin áhætta á vanskilum lántaka. Verði vanskil á námslánum sem tryggð eru með sjálfskuldarábyrgðum er nánast í öllum tilvikum brugðist þannig við að láninu er komið í skil með því að vanskilagjalddagar eru greiddir og eftirstöðvum lánsins er aftur komið í lögmælt greiðsluferli. Fjárhæðir sem nefndar hafa verið um greiðslur ábyrgðarmanna ber að skoða í þessu ljósi. Verðmæti ábyrgðanna fyrir Menntasjóð felast í tilvist þeirra fyrir þann hluta lánasafns sjóðsins sem metinn er áhættumeiri. Þegar útgefin gildandi ábyrgðarloforð tengjast einkum lánum þar sem aukin áhætta er á vanskilum. Við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna verður lagt mat á þá kostnaðaráhættu sem felst í því að fella niður gildandi ábyrgðir námslána.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir lækkun á vaxtaþaki lána hjá Menntasjóði námsmanna með tilliti til þeirrar óhagstæðu vaxtaþróunar sem átt hefur sér stað að undanförnu?
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, skulu lögin endurskoðuð innan þriggja ára frá því að þau komu til framkvæmda. Á haustþingi 2023 verður lögð fram skýrsla á Alþingi um endurskoðun laganna. Sú skýrsla er mikilvægt framlag fyrir opna umræðu um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Þegar um er að ræða svo stórt og viðamikið kerfi sem námslánakerfið er, þá er afar mikilvægt að vandað sé til verka við endurskoðun laganna. Óráðlegt er að breyta lögum um lánasjóðinn í hvert sinn sem aðstæður breytast í þjóðfélaginu. Gildir þetta jafnframt um hugsanlegar breytingar á endurgreiðslufyrirkomulagi námslána sem og vexti.